Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 13:42:06 (4248)


[13:42]
     Hjörleifur Guttormsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Hér var á síðari fundi í gær á dagskrá eitt mál, till. til þál. um embættisfærslu umhvrh. Þegar fundur hafði verið settur, þá var þetta mál tekið umsvifalaust út af dagskrá af forseta, kl. 19 í gærkvöldi, og nú er þetta sama mál sett upp nr. 3 á dagskrá. Hér er um að ræða mál sem nokkur umræða varð um í síðustu viku. Vegna málsmeðferðar meiri hluta ríkisstjórnarinnar sem varð reyndar minni hluti þegar kom að því að vísa málinu milli umræðna og málið var á einum fundi til meðferðar í allshn. þingsins. Þá lá svo mikið á af hálfu meiri hluta í allshn. að því var hafnað að það fengi eðlilega, þinglega meðferð í nefndinni og var tekið út og vísað til síðari umr. og minni hluti allshn. hefur hefur einnig skilað áliti um málið sem lá fyrir á þingfundi í gær.
    Mér finnst það mjög sérkennilegt, virðulegur forseti, að þetta mál skuli ekki tekið sem 1. mál á dagskrá þessa fundar, tekið nú til umræðu svo mikið kapp sem á það var lagt að taka málið út úr allshn. þingsins og fara að taka hér sem 2. mál á dagskrá frv. um náttúruvernd, stjfrv. sem afgreitt var í ágreiningi frá umhvn. þingsins í síðustu viku og ljóst er að talsverð umræða hlýtur að verða um.
    Ég óska eftir því við virðulegan forseta að það verði breytt til varðandi röð á dagskránni og 3. málið tekið nú til umræðu og skil ekki í öðru en það hljóti að vera einnig ósk hæstv. umhvrh. sem hefur lagt slíkt ofurkapp á það að koma þessu máli áfram í þinginu með einum eða öðrum hætti og allshn. þingsins fékk ekki að fjalla um það með þinglegum hætti, heldur var því vísað til síðari umr. Ég átta mig ekki á því hvers vegna þetta mál er ekki tekið fyrir af því að það var eina málið á dagskrá síðari fundar í gær. Þetta er mín eindregin ósk til hæstv. forseta að 3. málið verði tekið nú til umræðu.