Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 14:17:58 (4266)


[14:17]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að taka afstöðu til vinnubragða í umhvn. eða hvernig þar hefur verið staðið að afgreiðslu mála en ég ætla samt að nefna af því að mér finnst eiginlega tilefni til þess vegna ummæla hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar einn þátt sem mér hefur oft og tíðum þótt svolítið sérstakur í vinnubrögðum Alþingis. Það er það að annars vegar sé gefið út nefndarálit eftir atvikum allrar nefndar eða meiri hluta og minni hluta þar sem einstakar tillögur og annað slíkt er skýrt út og síðan komi frsm. eða formaður viðkomandi nefndar og lesi nefndarálitið aftur og útskýringarnar að því er mér finnst til þess að tryggja það að þetta komi tvisvar sinnum fyrir í þingtíðindum sem ég hef aldrei skilið almennilega tilganginn með. Ég hef oft velt þessu fyrir mér og rætt þetta reyndar einstöku sinnum við starfsfólk þingsins sem margt telur þetta óþarfa og væri miklu nær að þetta kæmi fram í viðkomandi nefndaráliti.
    Virðulegur forseti. Ég velti þessu mikið fyrir mér og ef þetta væri tilfellið og á þessum forsendum, þá finnst mér í sjálfu sér óþarfi að nefndarformaður í hverju tilfelli sé að lesa nefndarálitið upp aftur með öllu því sem er þá þegar prentað í þingtíðindi og hef reyndar reynt að tileinka mér þetta í þeim tilfellum þegar ég hef mælt fyrir málum frá nefnd í þeirri nefnd sem ég veiti forstöðu núna.
    Hitt er annað mál að í stórum málum er æskilegt að formenn túlki á einhvern hátt efnislega afstöðu þeirrar nefndar eða þess meiri hluta sem stendur á bak við viðkomandi mál. En ég get hins vegar ekki tekið undir það eins og í þessu tilfelli að útskýringar á viðkomandi brtt. hafa ekki komið fram því að eftir því sem ég hef reynt að kynna mér þá eru þær í grófum dráttum í viðkomandi nefndaráliti.