Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 14:29:56 (4271)


[14:29]
     Frsm. minni hluta umhvn. (Kristín Einarsdóttir) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti minni hluta umhvn. sem er á þskj. 656 um frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd. Vegna þess sem hér var til umræðu áðan, þá vil ég einnig lýsa undrun minni á því hversu illa var gerð grein fyrir þeim brtt. sem hér liggja frammi á þskj. 641. Það er ekki reynt að gera tilraun til að skýra út af hverju ýmislegt þar er lagt til og ég get bara tekið eitt dæmi. Það segir m.a. í lið nr. 22 í nál 640:
    ,,Lagt er til að orðalagið í g-lið 5. gr. verði breytt þar sem orðalagið ,,í umboði ráðherra`` er talið óheppilegt.`` Af hverju er það talið óheppilegt? Það kemur hvergi fram. Þetta er bara eitt dæmi sem ég get bent á.
    Sem formanni nefndarinnar finnst mér hálfslæmt að ekki skuli reynt að gera betur grein fyrir þessum brtt. en hér var gert eða ég vil segja alls ekki. Ég stýrði fundum nefndarinnar í vetur að meiri hluta til þegar verið var að fara yfir þessi mál og mér er kunnugt um ýmsar þær brtt. sem voru gerðar við frv. og vil ég í upphafi taka fram að mjög margar eru til bóta þó að ekki sé með þeim tekið á grundvallaratriðum frv. Gæti ég alveg tekið að mér að skýra þessar brtt. þó að það hafi alls ekki sama vægi og þegar frsm. meiri hluta nefndarinnar skýrir ákvæðin af því að ég fjallaði ekki um þessar brtt. sérstaklega. Ég hafði heldur ekki gert ráð fyrir því að ég þyrfti að gera það og hafði þess vegna ekki undirbúið mig fyrir það en ég sé að líklega er best fyrir mig að reyna að gera það síðar í dag vegna þess að mér þykir nauðsynlegt að þingmenn fái að vita af hverju margar þessar brtt. eru lagðar fram en um það er mér vel kunnugt. Eins og ég segi tel ég margar þessara brtt. til bóta á því frv. sem hér er lagt fram þó að ekki sé tekið á þeim grundvallaratriðum sem ég hefði talið þurfa að gera og þess vegna varð ég mjög undrandi á ræðu hv. frsm. meiri hluta nefndarinnar en ekki vegna þess að ég telji endilega að það hafi þurft að lesa nál. nákvæmlega vegna þess að það skýrist ekki allt í því að mínu mati. Þess vegna var ég mjög undrandi á framsögunni.
    Það breytir ekki því að ég ætla að mæla fyrir nál. minni hluta umhvn. sem er, eins og ég sagði áðan, á þskj. 656.
    Á síðasta löggjafarþingi var þetta frv. lagt fram og það var reyndar nokkuð undir lok þingsins sem hægt var að mæla fyrir því. Nefndin sendi það til umsagnar til fjölmargra aðila og eru þeir aðilar allir taldir upp í nál. meiri hluta nefndarinnar á þskj. 640 og vísa ég til þess. Eins og þar kemur fram fengu fjölmargir aðilar þetta frv. þá sent til umsagnar. Á síðasta þingi var frv. lagt fram frekar seint og nefndin hafði mjög mikið að gera á síðasta þingi, afgreiddi m.a. tvenn grundvallarlög frá Alþingi, lög um dýravernd og um vernd og veiðar á villtum dýrum eins menn muna vel frá síðasta þingi. Þessi tvö frv. tóku meiri hluta tíma nefndarinnar á síðasta ári og þar af leiðandi var af eðlilegum ástæðum ekki tími til að vinna frekar í þessu máli og var nánast ekki fjallað neitt um það á síðasta löggjafarþingi. Frv. var síðan lagt fram aftur í nóvember, held ég að það hafi verið, alla vega kom það til nefndarinnar í nóvember og þá ákvað nefndin að senda málið ekki aftur til umsagnar þrátt fyrir að um verulegar breytingar á frv. væri að ræða.
    Náttúruverndarráð gagnrýndi nefndina fyrir það að hafa ekki sent það til umsagnar og kemur það fram í áliti Náttúruverndarráðs sem er birt sem fskj. við nál. Um athugasemd Náttúruverndarráðs segir, með leyfi forseta:
    ,,Náttúruverndarráð gagnrýndi nefndina fyrir þessa ákvörðun í umsögn sinni og bendir á að þar sem gerðar hafi verið grundvallarbreytingar á frumvarpinu hafi verið full ástæða til að senda frumvarpið til sérstakrar umsagnar.``
    Án þess að ég ætli að gagnrýna það sérstaklega þá verð ég að viðurkenna að ég tek á vissan hátt undir þessa gagnrýni Náttúruverndarráðs en ég var ekki formaður nefndarinnar þegar þetta var ákveðið. Það var hins vegar einróma samþykkt á fundi nefndarinnar og það verður auðvitað að standa eins og það var gert. Hins vegar óskaði nefndin eftir því að nokkuð margir aðilar kæmu til viðtals til þess að fara yfir málið og var þeim aðilum sent frv. Þeir komu á fund nefndarinnar á nokkuð mörgum fundum og komu margir með skriflegar brtt. Ítarlegustu breytingarnar komu frá Náttúruverndarráði en flestir voru ekki með eins ítarlegar tillögur og komu fram á 117. löggjafarþingi. Þegar farið var yfir frv. í nefndinni reyndum við að styðjast eins og hægt var við þær athugasemdir sem komu fram á 117. löggjafarþinginu að svo miklu leyti sem það átti við. Að sumu leyti var búið að taka tillit til einhvers af því sem þar kom fram og stundum var svolítið flókið fyrir okkur að fara nákvæmlega eftir því þar sem búið var að gera nokkuð margar breytingar á frv. og, eins og ég sagði áðan, nokkrar grundvallarbreytingar sem viðkomandi aðilar gátu þá ekki tekið afstöðu til.
    Þegar við vorum síðan að fara yfir málið í desember sl. og kölluðum fyrir alla þá fjölmörgu aðila sem höfðu verið boðaðir til fundar við nefndina, bæði á reglulegum fundum nefndarinnar sem og aukafundum, þá upplýsti fulltrúi Alþfl. í nefndinni, hv. þm. Petrína Baldursdóttir sem er frsm. meiri hluta nefndarinnar, því yfir að meiri hlutinn ætlaði að afgreiða frv. frá nefndinni fyrir jólahlé þingsins. Þá upplýsti ég það sem formaður nefndarinnar að ég treysti mér ekki til þess að vinna að frv. með þeim hætti og taldi óraunhæft að fara yfir frv. á þeim stutta tíma sem var fram að jólahléi og lagði ég því til að hv. þm. Petrína Baldursdóttir yrði kjörinn frsm. nefndarinnar í þessu máli skv. 27. gr. þingskapa sem þingmenn þekkja. Það gerði ég vegna þess að ég treysti mér ekki til að reyna að ná samstöðu um málið á þeim tíma sem þá var til stefnu en ég hef lagt mig fram um það í umhvn. og tel mjög mikilvægt að nefndin geti komist að sameiginlegri niðurstöðu í stórum málum sérstaklega sem varða náttúruvernd fyrirleitt og það ætti ekki að koma mönnunum á óvart að það taldi ég vera mjög mikið atriði. Ég lagði mig mjög fram um það á síðasta þingi, bæði að því er varðaði dýraverndarfrv. og eins frv. um vernd og veiðar á villtum dýrum, að reyna að komast að samkomulagi sem tókst að lokum. Held ég að það hafi verið vel og málunum báðum til framdráttar og það hafi skapast nokkur sátt um þau lög eftir að þau tóku gildi. Það er mjög hæpið að það skapist sátt um frv. sem miklar deilur eru um á Alþingi og vil ég sérstaklega leggja áherslu á að það gildir í málum eins og náttúruverndarmálum og umhverfisverndarmálum.
    Það fór svo að stjórnarliðarnir hættu við að afgreiða málið óunnið frá nefndinni fyrir jólahlé þar sem ljóst var að við höfðum ekki einu sinni tíma til að kalla alla aðila á fund nefndarinnar. Þó að það hefði kannski hafist með einum aukafundi í viðbót var ljóst að við hefðum ekki á neinn hátt getað farið yfir frv. ef það hefði átt að afgreiða það fyrir jólahlé og sem betur fer var það ekki gert. Við byrjuðum aftur yfirferð yfir frv. í janúarlok þegar þing kom saman aftur og tókst okkur á nefndarfundum að komast yfir allt frv. og gera ýmsar athugasemdir. Ég sé að sumar hafa ratað inn í brtt. meiri hluta nefndarinnar sem betur fer því að ég held að ef frv. hefði verið lagt fram eins og það var þá hefði það verið mjög gallað og þá er ég ekki að tala um efnislega heldur tæknilega séð.
    Eins og ég segi komu fram mjög margar athugasemdir og það komu gestir á fundinn og þeir gerðu líka mjög margar athugasemdir við frv. Á fundinum 9. febr. sl. sem stóð

alveg til hálfellefu þá gerðist það 2--3 mínútum fyrir hálfellefu að frsm. meiri hluta, hv. þm. Petrína Baldursdóttir, leggur fram brtt. og nál. og leggur jafnframt til að málið verði afgreitt frá nefndinni. Við öll fjögur lýstum því yfir að við teldum að málið væri ekki tilbúið til þess en ég þarf ekki að orðlengja það, þetta var samþykkt af meiri hluta nefndarinnar, þ.e. fimm aðilar sem mynda meiri hlutann samþykktu frv. en við sem stöndum að þessu nál. mótmæltum þessum vinnubrögðum og þessari sérkennilegu málsmeðferð.
    Eins og lýst hefur verið fyrr í dag og ég get tekið undir hefði það a.m.k. verið lágmark að fólki hefði verið gefið tækifæri til að skoða brtt. og taka afstöðu til þess hvort það vildi styðja brtt. eða ekki. Það var sagt að það væri svo mikill grundvallarágreiningur í nefndinni að það þýddi ekki að reyna að ná samstöðu og getur vel verið að það hafi verið ljóst. Þó vil ég ekki meina að svo hafi ekki verið. Mér var ekki ljóst að það hafi komið fram á nefndarfundum að þeir fjórir nefndarmenn sem standa að þessu nál. væru í grundvallaratriðum á móti frv. en það getur vel verið að það hafi verið hægt að túlka það þannig. Ég vil a.m.k. meina að það hafi ekki verið reynt að ná samstöðu. Mér fannst aldrei reyna á að það hafi verið gerð nokkur tilraun til þess að breyta þessu frv. í þá veru að a.m.k. fleiri nefndarmenn gætu fallist á það.
    Ég vil minna á það að á síðasta þingi vorum við með tvö frv. þar sem var grundvallarágreiningur um ýmis ákvæði þeirra en við gátum komist að samkomulagi eftir þó nokkuð mikla vinnu af því að við gátum farið fram hjá ýmsum ákvæðum sem mjög margir sögðu um: Þetta er grundvallaratriði. Ég get aldrei sætt mig við þetta. En með því að vinna að málinu gátum við komist að sameiginlegri niðurstöðu og ég held að það sé mjög farsælt. Ég tel að það hafi verið til bóta að vinna þannig. Þess vegna þykir mér slæmt að það skyldi ekki einu sinni hafa fengist tækifæri til lágmarksyfirferðar. Ég hefði talið að það hefði þurft meiri tíma, t.d. einn dag eða tvo. En það hefði þó hjálpað. Ég hefði t.d. getað sagt: Ég get samþykkt þessa tillögu og þessa sem er komin fram en ég fékk aldrei tækifæri til þess, ekki einu sinni það.
    Þess vegna lýsi ég vonbrigðum mínum með það að við skyldum ekki einu sinni fá lágmarkstíma til að lesa nál. og a.m.k. geta sagt skoðun okkar á því, við fjögur, og hvort við vildum styðja þessar brtt. Og það getur vel verið að það hafi einhver verið. Ég veit um mig að ég get ekki stutt þær allar en ég get ekki talað fyrir hönd annarra.
    Þetta var um vinnubrögðin, frú forseti. Ég verð að lýsa miklum vonbrigðum með þessi vinnubrögð og ég verð að viðurkenna það þó að það eigi kannski ekki að vera að viðurkenna einhverja viðkvæmni hér í stólnum, en mér var nokkuð misboðið vegna þessara vinnubragða. Ég skal alveg viðurkenna það. Mér fannst mjög slæmt að þetta skyldi þurfa að fara eins og fór á þessum fundi. Ég var meira að segja búin að undirbúa mig fyrir það að leggja til að við héldum aukafund jafnvel strax daginn eftir þó að ég hafi ekki getað rætt það við aðra nefndarmenn en ég hefði verið tilbúin að beita mér fyrir því og var að hugsa það þegar ég sá að tími nefndarinnar var búinn að það hefði verið eðlilegt að reyna a.m.k. að lesa yfir brtt. og skoða þær. En það gekk ekki. Ég tel að þetta séu mjög slæm vinnubrögð og alls ekki til eftirbreytni. Þessi vinnubrögð eru gagnrýni verð.
    Í frv. sjálfu er valin sú leið að endurskoða einn afmarkaðan þátt laganna. Það er að vísu farið aðeins yfir í aðra þætti en það er talað um að eingöngu sé verið með þessu frv. að endurskoða stjórnunarþátt umhverfismála. Fjölmargir aðilar hafa bent á að þetta væri ekki rétt leið og miklu eðlilegra að taka allan lagabálkinn í heild því að það sé ekki hægt að skilja þetta að, þetta sé allt saman í raun það sama, bæði það að taka stjórnunarþáttinn og aðra þætti í þeim lögum sem við erum hér að ræða. Í nál. meiri hluta nefndarinnar er tekið fram að þetta sé aðeins fyrsti hluti endurskoðunarinnar og fyrsta skrefið en reyndar sé byrjað á undirbúningi að endurskoðun heildarlaganna. Ég hefði talið miklu eðlilegra að þetta hefði gerst í einu lagi og við í minni hlutanum tökum undir þessar ábendingar og í nál. okkar er tökum við undir ábendingar Náttúruverndarráðs eins og kemur fram á bls. 2 í nál. Ég tek það fram að það var ekki bara Náttúruverndarráð sem benti á þetta heldur fjölmargir aðrir aðilar sem ég gæti tínt til hverjir voru en það er aukaatriði í sjálfu sér því að það var meiri hlutinn af þeim sem komu með ábendingar.

    Það að setja á stofn nýja ríkisstofnun, Landvörslu ríkisins eins og gert er ráð fyrir í frv. hafa margir bent á að sé raunverulega mjög stórt atriði ekki bara stjórnunarlega heldur muni það grípa í ýmsa aðra þætti og sé mjög slæmt að setja á laggirnar þessa stofnun án þess að horft sé á málið í heild. Það falla fjölmargar stofnanir undir umhvrn. sem þessi mál varða og hefur verið bent á það að miklu eðlilegra sé að líta á málið heildstætt, að skoða allar stofnanir umhvrn., þeirra hlutverk og stöðu í stjórnkerfinu og athuga hvort ekki sé ástæða til að líta til þess að þarna hafi hæstv. umhvrh. ekki hitt naglann á höfuðið í lausn þessara mála.
    Samkvæmt tillögum frv., og það er ekki gerð brtt. um það, þá er gert ráð fyrir að þarna sé einungis þriggja manna stjórn og skipuð af ráðherra án tilnefningar, þ.e. stjórn Landvörslu ríkisins. Um þetta segjum við í nál. okkar að með þessu verði stjórnin aðeins framlengdur armur ráðherrans, eins og það var reyndar orðað af einum nefndarmanni í umhverfisnefnd, hv. þm. sem hefur reynslu af Stjórnarráðinu og ég er viss um að hann mun ræða þetta atriði hér á eftir og ætla ég ekki að gera það frekar að umtalsefni, nema að það er ákvæði í frv. sem gerir ráð fyrir að ráðherrann ekki aðeins skipi þessa nefndarmenn --- hann skipar reyndar einn eftir tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga en tvo án tilnefningar --- heldur á ráðherrann að kveða nánar á í reglugerð um hlutverk og starfsskyldur framkvæmdastjórnar og stjórnar Landvörslunnar, þannig að hann ætlar að hafa þar tögl og hagldir. Er nokkuð augljóst að í þessu felst veruleg miðstýring sem er mjög óheppilegt með tilliti til eðlilegrar stjórnsýslu.
    Í frv. sem lagt var fram á 117. löggjafarþingi var lagt til varðandi stjórn Landvörslunnar að það væru ákveðnir tilnefningaraðilar og það hafa fjölmargir aðilar bent á að það væri miklu eðlilegra að þarna væri um að ræða fimm manna stjórn en það reyndi aldrei á það innan nefndarinnar hvort að það gæti hugsanlega náðst samkomulag um að það yrði kannski stærri stjórn og það yrðu ákveðnir tilnefningaraðilar, hvort stjórnin yrði kosin á Alþingi eða náttúruverndarþingi eða með einhverjum öðrum hætti. Við ræddum þetta aldrei, við komumst aldrei svo langt heldur gátum við aðeins komið á framfæri okkar athugasemdum. En hvaða tillögur hugsanlega væri hægt að ná samstöðu um var ekkert fjallað í nefndinni.
    Við bendum á það að á undanförnum árum hefur komið fram sú gagnrýni á störf Náttúruverndarráðs að það hafi bæði með höndum framkvæmda- og eftirlitshlutverk. Ég hef verið ein af þeim sem hafa tekið undir þetta og viljum við benda á þetta atriði. Hefur þetta verið af mörgum talið óheppilegt og hefur m.a. ráðið sjálft komið með hugmyndir um breytingar á þessu og bent á að þetta gæti verið óheppilegt. En frv. gerir ráð fyrir að Landvarsla ríkisins og umhvrn. taki við hlutverki Náttúruverndarráðs og með þeim hætti verður Landvarslan bæði framkvæmda- og eftirlitsaðili, eins og svo mikið var gagnrýnt varðandi Náttúruverndarráð. Að því leyti þá er eins og bara sé skipt um nafn en hlutverkin séu þau sömu, að vísu hefur ráðherrann beintengingu inn í stjórnina og ætlar að stýra þessu frá ráðuneyti sínu beint.
    Það er gert ráð fyrir því að Náttúruverndarráð verði áfram við lýði en það er nánast bara nafnið samkvæmt frv. og mjög lítið er eftir af því hlutverki sem ráðið á að hafa. Það má vera umsagnaraðili og tillöguaðili en engin formleg völd eiga að vera fólgin í þeirra hlutverki. Fjárveitingar til ráðsins eru mikilli óvissu háðar og í umsögn fjmrn., sem er fskj. með sjálfu frv. sem liggur hér frammi og þingmenn hafa með höndum, er sérstaklega tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir öðru en að þessar breytingar samkvæmt frv. rúmist innan ramma núverandi fjárveitinga.
    Ég átta mig alls ekki á hvernig það á að vera hægt, hvernig hægt er að láta sér detta í hug að til sé Náttúruverndarráð og Landvarsla ríkisins og það eigi að rúmast innan þeirra fjárveitinga sem núverandi Náttúruverndarráð hefur. Það er mér algjörlega hulin ráðgáta og þætti mér fróðlegt að fá svör við því.
    Mikill veikleiki í frv. og tillögum meiri hlutans felst í tillögum við skipan náttúruverndarnefnda og í því svo mjög takmarkaða hlutverki sem þeim er ætlað að sinna. Skynsamlegt hefði verið að deila landinu upp í svæði, kjördæmi eða minni einingar, og gera ráð

fyrir að þau yrðu umdæmi sérstaklega kjörinna náttúruverndarnefnda heimaaðila sem fengju hlutverk og styddu við m.a. væntanlega náttúrustofur í sínu starfi.
    Ég vek athygli á því að í frv. sem var lagt fram á 117. löggjafarþingi var gert ráð fyrir að það yrðu kjördæmi sem þessar náttúrustofur næðu yfir. Það kom fram gagnrýni á það fyrirkomulag frá nokkrum aðilum. Hins vegar finnst mér alveg koma til greina að þessu yrði deilt upp í aðrar einingar, en það gátum við ekki rætt frekar en annað innan nefndarinnar þar sem við bentum bara á að það væri mjög mikilvægt að þessar náttúruverndarnefndir hefðu eitthvert raunverulegt hlutverk, þ.e. að þær hefðu eitthvert vægi og eitthvert vald þannig að heimamenn hefðu í raun eitthvað að segja í þessum málum, að það sé ekki bara miðstýring frá ráðuneytinu og ekkert annað. Samband ísl. sveitarfélaga segir einmitt í umsögn sinni að það hefði verið miklu eðlilegra að víkja frá þessu og veita náttúruverndarnefndunum meira vald, og eins og segir í þeirra umsögn þá telja þeir að það sé eðlilegt að náttúruverndarnefndir taki þarna yfir en svo segja þeir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Stefna frumvarpsins gengur í þveröfuga átt. Miðstýring umhvrn. er aukin og náttúruverndarnefndir sveitarfélaga og héraðsnefnda hafa einungis það hlutverk að stuðla að náttúruvernd með ábendingum og tillögugerð.``
    Þetta finnst mér mjög alvarlegt og við tökum undir það í okkar nál. að þetta hefði þurft að vera í allt aðra átt.
    Ákvæði frv. varðandi friðlýsingar hefði þurft að athuga nánar, miklu nánar, með tilliti til ýmissa ábendinga og athugasemda. Hlutverk og bein afskipti umhvrn. af friðlýsingarmálum á undirbúningsstigi geta orkað mjög tvímælis og hefði þurft að kanna þann þátt miklu betur.
    Náttúruverndarráð gerir athugasemd við þetta og ætla ég bara að vísa til þess sem stendur í umsögn Náttúruverndarráðs en það er fskj. með nál. minni hlutans og er beint vitnað til þess í nál. Einnig hafa fleiri aðilar gert athugasemd við þetta atriði, t.d. Páll Sigurðsson, forseti Ferðafélags Íslands og prófessor í lögum við Háskóla Íslands. Hann benti á að fyrirkomulag frv. væri mjög óeðlilegt, þ.e. að hlut umhvrh. sjálfs væri mjög óeðlilega skipað innan þessa kerfis og hefði þurft að fara miklu betur ofan í þetta mál og kanna miklu betur hvernig þessu ætti að vera eðlilega fyrir komið. En eins og annað var ekki talin þörf á því af hálfu meiri hlutans að fara nánar ofan í þetta mál.
    Ég vil sérstaklega benda á að Páll Sigurðsson sendi minnisblað til umhvn. þar sem hann segir um frv. --- og ég vil vekja sérstaklega athygli á því og kemur það fram á bls. 4 í nál. minni hluta umhvn., með leyfi forseta vil ég vitna orðrétt, að ,,með óheppilegum og vafasömum hætti sé gert ráð fyrir ákvarðanatöku umhvrn. á frumstigi sem um leið skaðar í reynd möguleika á stjórnlegri kæru til ráðuneytisins.``
    Þetta þykir mér mjög alvarleg fullyrðing af hálfu lagaprófessorsins og finnst mér mjög óheppilegt og slæmt að við í umhvn. skyldum ekki geta farið sérstaklega yfir frv. með tilliti til þessara athugasemda. Við komum að því nokkrum sinnum þegar við vorum að fara yfir frv. en við gátum ekki farið kerfisbundið í gegnum þetta með tilliti til þess hvort að ástæða væri til að breyta þessum atriðum. Ég get rakið það betur síðar í umræðunni þar sem ég hélt satt best að segja að hv. frsm. meiri hluta nefndarinnar mundi gera grein fyrir þessum athugasemdum og skýra af hverju ekki væri tekið tillit til þeirra ábendinga, eða þá tekið tillit til þeirra að einhverju leyti, þar sem ábendingar Páls Sigurðssonar eru að mínu mati mjög alvarlegar. Þess vegna hefði ég talið miklu eðlilegra að við hefðum getað farið yfir þetta og tekið afstöðu til þess hvort við teldum þetta á rökum reist og þá e.t.v. að fá álit annarra á þessu atriði. Nú eru brtt. sem hér liggja fyrir sem ganga í þá átt að reyna að leiðrétta þetta en það er alls ekki að öllu leyti og þess vegna þykir mér þetta atriði nokkuð alvarlegt og vil vekja athygli á því.
    Ég vil einnig vekja athygli á því að að hans áliti hefur Náttúruverndarráð alls ekki staðið sig illa og raunar vel, eins og hann orðaði það ef ég man rétt, með tilliti til þess hversu knappar fjárveitingar hefðu verið til ráðsins. Þannig að það væri fyrst og fremst það sem hamlaði því að Náttúruverndarráð gæti sinnt lögboðnu hlutverki sínu en ekki það að

ráðið væri ekki í stakk búið til þess faglega að gera það.
    Eins og ég hef hér rakið á undan þá var að mínu mati og að mati minni hlutans nefndin alls ekki tilbúin til þess að afgreiða málið frá sér og vil ég taka fram að óskir komu fram um það að kalla fleiri aðila fyrir nefndina til frekari umfjöllunar. Ég skal taka það algjörlega á mig. Það var nokkuð langt um liðið frá því að ég hafði fengið þessa ósk, bæði á nefndarfundi og eins hafði ég fengið uppgefinn lista yfir nokkra aðila sem óskað hafði verið eftir kæmu á fund nefndarinnar. Ég taldi hins vegar miklu eðlilegra að við færum saman, nefndin í heild, yfir frv. áður en við færum að kalla fleiri aðila til fundar við nefndina og frestaði ég því þar af leiðandi að verða við þeim óskum. Ég hef hins vegar að reynt að gera það ef það hafa komið fram óskir um að kalla fyrir fólk á fundi nefndarinnar þá hef ég reynt að verða við því og man ég ekki til þess að ég hafi orðið að neita því. Ég tek það hins vegar fram að ég neitaði því ekki á þeim forsendum að ég ætlaði aldrei að uppfylla þessar óskir heldur vildi ég fresta þeirri ákvörðun til þess að hægt væri að meta þegar búið væri að fara yfir frv. hvort e.t.v. var ekki hægt að stytta þann lista sem mér hafði verið réttur. En ég gat auðvitað ekki farið neitt yfir það mál því að það var aldrei tekið fyrir formlega í nefndinni nema þá með þeim hætti að það var ákveðið að nú væri yfirferð lokið.
    Ég vil að lokum vekja sérstaklega athygli á því að það er alls ekki ljóst hvernig eigi að koma Landvörslu ríkisins á fót við gildistöku laganna. Það er gert ráð fyrir því að lögin öðlist gildi nú þegar og ég sé ekki hvernig hægt er að koma Landvörslunni á fót þá þegar ef frv. verður að lögum. Ég man ekki til þess að það hafi verið gert ráð fyrir því í fjárlögum, neinu fjármagni til Landvörslu ríkisins, og þess vegna hlýtur að vera nokkur óvissa um hvernig á málum eigi að halda ef frv. verður að lögum núna fyrir lok næstu viku sem ætlað er að þinginu ljúki.
    Ég bendi á að starfsmenn Náttúruverndarráðs eru auðvitað starfsmenn Náttúruverndarráðs og verða alls ekki sjálfkrafa starfsmenn Landvörslu ríkisins þó þetta frv. verði að lögum að óbreyttu. Ég t.d. vek athygli á því að þjóðgarðsverðir eru starfsmenn Náttúruverndarráðs en þetta frv. gerir ráð fyrir að Landvarsla ríkisins geri tillögu til umhvrh. að því er varðar þjóðgarðsverði sem verði þá skipaðir af umhvrh. Og það væri fróðlegt að vita hvort það sé búið að tala við starfandi þjóðgarðsverði sem eru tveir, ef ég veit rétt, þ.e. í Jökulsárgljúfrum og í Skaftafelli, hvort að þeir vilji starfa áfram, því að það er auðvitað ekkert augljóst í þeim efnum. En ég geri nú ráð fyrir því að þeir --- án þess að ég viti neitt um það, ég hef ekki haft tækifæri neitt til að ræða við þá enda kannski ekki í mínum verkahring á neinn hátt að tala við þá --- en ég velti því fyrir mér hvernig þetta muni eiga að gerast.
    Ég veit heldur ekki hvernig hefur verið hugsað varðandi starfsmenn Náttúruverndarráðs. E.t.v. verða einhverjum boðin störf hjá Landvörslu ríkisins en öðrum ekki og þess vegna hlýtur það að vera ákaflega óheppilegt akkúrat núna að setja starfsmennina í þá stöðu að þeirra réttarstaða eða þeirra staða sé nánast í uppnámi --- ég held að réttarstaða þeirra sé kannski ekki í uppnámi heldur aðallega staða þeirra. Það hlýtur að vera mjög slæmt að vita ekki hvort að þeir starfi áfram. Ef til vill er gert ráð fyrir því að Náttúruverndarráð starfi áfram með óbreyttum starfsmannafjölda. Það vekur óneitanlega athygli að þarna er ekki neitt fjallað um það hvort Náttúruverndarráð hafi til bráðabirgða störf þau sem það hefur haft hingað til eða hvernig svo sem hægt er að taka á því, e.t.v. með því að fresta gildistöku laganna eða hvernig svo sem menn hafi hugsað sér þetta. Þetta er allt í uppnámi. Ég veit ekki hvort að það er einhver heimild í fjárlögum fyrir því að það sé hægt að það fé sem ætlað er Náttúruverndarráði samkvæmt fjárlögum, að það sé hægt að taka hluta af því og setja það yfir í Landvörsluna. Ég efast um að það sé heimild til þess í fjárlögum en þó getur það vel verið, ég hef ekki kannað það sérstaklega.
    En ég vil enn og aftur segja að lokum varðandi þetta nál. sem ég er hér að mæla fyrir að þetta mál er langt frá því að vera fullunnið og var alls ekki frambærilegt til afgreiðslu hér í þinginu þegar það var tekið út úr nefnd. Við teljum að það sé miklu eðlilegra að málið verði undirbúið betur og þess freistað að leggja fyrir næsta reglulegt þing

heildstætt frv. um náttúruvernd sem sæmileg sátt getur orðið um í þjóðfélaginu. Með vísan til þessa leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Undir nál. minni hluta umhvn. skrifa Kristín Einarsdóttir, Hjörleifur Guttormsson, Jón Helgason og Ólafur Ragnar Grímsson.
    Eins og ég gat um áðan þá eru fskj. með þessu nál., í fyrsta lagi umsögn Náttúruverndarráðs um frv. í heild, þ.e. þetta frv., sem lagt er fram á 118. löggjafarþingi. Síðan er líka sem fskj. með þessu umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga frá 17. des. 1994 og síðan fskj. III, það stendur reyndar Úr umsögn stjórnar Ferðafélags Íslands, frú forseti, en ég vil taka það fram að þetta er einungis örstutt brot af þeirri umsögn, og ég ítreka það, þar sem Ferðafélag Íslands sendi nefndinni mjög ítarlegt álit þar sem með fylgdu bæði athugasemdir við einstakar greinar þessa frv., eða reyndar frv. sem lagt var fram á 117. löggjafarþingi, sem og alveg heilt frv., heildarlög. Þannig að til þess að halda öllu til haga þá verður það að koma fram að Ferðafélag Íslands sendi mjög ítarlega umsögn til okkar í umhvn. en þetta er aðeins örstutt brot úr því.
    Áður en ég vík hér úr stólnum, virðulegur forseti, þá langar mig aðeins að bæta við nokkrum orðum og það er varðandi athugasemdir Náttúruverndarráðs. Það er sérstaklega það sem ég hef ástæðu til að benda á. Það kemur fram reyndar í þeirri umsögn sem birt er með okkar nál. En þeir benda sérstaklega á að það hafi fallið niður ákveðnir þættir ef þetta frv. verði að lögum og vil ég sérstaklega vekja athygli á því. Mig langar reyndar að spyrja hv. frsm. meiri hluta nefndarinnar hvort þetta sé af ásettu ráði gert. Þetta er í þeirra athugasemdum og eru númeruð atriði og er líklega á þriðju síðu eða svo hjá þeim. En það sem fellur niður, ef þetta verður að lögum, er í fyrsta lagi umsagnir vegna mats á umhverfisáhrifum, sem er í núgildandi lögum. Það fellur niður samráð við hönnun mannvirkja. Og svo fellur einnig niður samráðsvettvangur Náttúruverndarráðs við aðrar opinberar stofnanir. Þetta er sem sagt það sem er áskipað í núgildandi lögum. Þetta finnst mér mjög mikilvægt að komi fram. Er það af ásettu ráði að þetta fellur burtu? Það er ekki búið að ákveða að Landvarsla ríkisins taki þetta yfir heldur er þetta bara algjörlega dottið út úr lögunum. Er þetta meðvitað eða eru þetta mistök?
    Ég vil einnig taka það fram, frú forseti, að nánast allir sem hafa skrifað umhvn. umsagnir um þetta frv. lýsa því að þeir vilji ekki að frv. verði samþykkt. Það eru örfáir sem taka þann pólinn í hæðina að frv. verði samþykkt, heldur eru flestir sem mæla með því að málinu verði nú frestað og frv. verði ekki lögfest á þessu þingi.
    Í því sambandi vil ég benda á að t.d. Náttúruverndarráð tekur fram að það telji miklu eðlilegra að þetta verði tekið aftur til endurskoðunar og vil ég í því sambandi benda á að Náttúruverndarráð gerði grein fyrir því á 8. náttúruverndarþingi í október 1993 hvernig þeir teldu að skipan náttúruverndarmála ætti að vera. Ég ætla ekki að fara að lesa það upp, það er reyndar ekki nema ein síða, en ég vil benda á að þar koma fram hugmyndir um það hvernig þessum málum væri best fyrir komið. Mig langar til að lesa þar bara eitt atriði af því að það tengist á vissan hátt þessum atriðum. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Lagt er til að stofnuð verði sérstök deild, Landvarsla,`` --- þarna kemur væntanlega nafnið eins og það er í frv. --- ,,undir yfirstjórn Náttúruverndarráðs og annist hún eftirlit, rekstur og viðhald þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða.`` Og síðan útskýra þeir þetta betur síðar í þessu hefti og segir, með leyfi forseta, þar sem fjallað er um Landvörsluna, á bls. 29 ef einhver skyldi vilja kynna sér það:
    ,,Umsjón nokkurra fjölsóttra friðlýstra svæða er nú í höndum landvarða en í Skaftafelli er þjóðgarðsvörður. Sótt hefur verið um heimild til þess að ráða þjóðgarðsvörð við Jökulsárgljúfur`` --- og ég tek það fram að það er búið að gera það, þetta er sem sagt frá 1993. --- ,,Eftirlitsmenn með almennum framkvæmdum starfa í hlutastörfum í hverjum landshluta, starfsmenn ráðsins auk ráðsmanna taka auk þess þátt í almennum eftirlitsstörfum og umönnun svæða.``
    Og síðan eru þeirra tillögur: ,,Æskilegt er að afmarka landvörsluhlutverkið betur en nú er. Í þeim tilgangi er lagt til að stofna sérstaka deild, Landvörslu, í umsjón Náttúruverndarráðs.`` Síðan segja þeir: ,,Landvarslan yrði framkvæmdaraðili sem sæi um umönnun, þ.e. eftirlit, rekstur og viðhald þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða að frátöldum fólkvöngum nema öðruvísi semjist. Náttúruverndarráð færi með yfirstjórn deildarinnar. Landvarslan hefði samvinnu við náttúruverndarnefndir um umönnun svæða.`` --- Þarna taka þeir náttúruverndarnefndir inn og telja að þær eigi að hafa ákveðið hlutverk.
    Síðan segja þeir: ,,Hugsanlega yrði hægt að fela deildinni einnig umönnun og eftirlit á öðrum svæðum en þeim sem friðlýst eru samkvæmt náttúruverndarlögum. Má þar nefna ýmsa vinsæla ferðamannastaði, menningarminjar, skógræktarsvæði, veiðilendur o.fl. en þá er jafnframt æskilegt að samráð sé haft milli aðila t.d. í formi samráðsnefnda.``
    Ég vildi bara vekja athygli á þessu þar sem Náttúruverndarráð hefur lagt mikla áherslu á það að þetta frv. yrði ekki gert að lögum heldur yrði reynt að fara í málið heildstætt. Það hafa komið fram ýmsar hugmyndir frá Náttúruverndarráði um að breyta fyrirkomulaginu þannig að það eru til mjög margar hugmyndir í þá veru sem eru miklu betri heldur en þær hugmyndir sem koma fram í þessu frv.
    Ég held að ég láti þessu lokið í bili, frú forseti, en ég vil taka það fram að ég hef hugsað mér síðar í umræðunni að fara betur yfir breytingartillögur í ljósi þess að umhvn. fjallaði um þessi atriði öll á fundi og finnst mér eðlilegt að þingmenn fái nokkra skýringu á því hvaða athugasemdir komu fram í einstökum tilvikum. Ég get alls ekki skýrt fyrir hönd meiri hlutans af hverju tillit var tekið til sumra athugasemda og ekki annarra og af hverju ekki var fallist á að gera frekari breytingartillögur. Ekki var gerð nein tilraun til þess í ræðu hv. frsm. meiri hluta nefndarinnar að skýra hvers vegna lá svona gífurlega mikið á að koma þessu máli út úr nefnd og að ekki væri hægt að fjalla um það með eðlilegum hætti. Mér finnst að hv. frsm. skuldi okkur skýringar á þessu öllu. Það er auðvitað eingöngu hún sjálf sem getur ráðið því hversu mikið hún vill skýra en ég vil lýsa því að mér fannst langt frá því að það væri viðunandi til þess að þingið gæti tekið afstöðu til breytingartillagnanna.