Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 15:17:08 (4272)


[15:17]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það hefur komið fram nokkuð í umræðunum hvernig farið var með þetta mál eða hvernig unnið var að því í umhvn. sem var á þann hátt að það voru fengnir til viðræðu þeir aðilar sem talið var að þetta frv. snerti mest og þeir komu á fund nefndarinnar, bæði fyrir jól og eins þeir sem ekki hafði unnist tími til að fá til viðræðu fyrir jólin komu á fyrsta fund eftir áramót. Að því loknu var í nefndinni hlaupið yfir einstakar greinar og þær bornar saman við skriflegar athugasemdir sem komið höfðu við frv., reyndar langflestar frá því á síðasta þingi þegar annað frv. var til meðferðar, því það frv. sem við erum nú að fjalla um er töluvert breytt frá því sem það var á síðasta þingi eins og þegar hefur komið fram. Þetta olli því að þessi yfirferð nýttist verr í nefndinni þar sem það þurfti að gæta þess hvort þær athugasemdir sem þar voru settar fram ættu lengur við það frv. sem við vorum að fjalla um núna eða ekki.
    Það bætti svo heldur ekki eða auðveldaði nefndarmönnum starfið að það voru má segja á hverjum fundi að koma nýjar breytingartillögur frá umhvrn., í ýmsum tilvikum sjálfsagt til þess að koma til móts við athugasemdir sem komið höfðu fram við frv. og sjálfsagt sumar hverjar og kannski allar til bóta, en það gerði athugun nefndarinnar heldur erfiðari. En svo gerist það þegar á hraðferð er lokið þessari yfirferð, að þá er ákveðið af meiri hlutanum að taka frv. út úr nefndinni án þess að það gæfist kostur á því að ræða frekar um stefnu frv. og þær alvarlegu ábendingar sem munnlega komu fram við það. Og við fengum ekki heldur fulltrúa frá umhvrn. á fund okkar. Það vannst ekki tími til þess þó að það hefði komið fram í yfirferð að æskilegt væri að fá skýringar frá umhvrn. á sumum þeim breytingum sem frá því voru að koma. Þessi tímaskortur var þó alls ekki vegna þess að formaður héldi ekki fundi. Það var fundað stíft, bæði fyrir jól og nú eftir að þing kom saman, svo stíft að stundum voru boðaðir fundir þó að ég a.m.k. ætti að mæta á öðrum nefndarfundum og gat því ekki alltaf hlýtt á mál gesta sem vissulega var mjög athyglisvert að heyra.
    Það er kannski rétt að taka það fram til að fyrirbyggja misskilning að í þessari yfirferð okkar síðast gátum við í minni hlutanum eins og aðrir nefndarmenn skotið inn athugasemdum og fyrirspurnum og sumt af því var tekið til greina, virðist mér vera, í brtt. meiri hlutans þegar ég fer að lesa þær nú eftir að þeim hefur verið dreift hér í þinginu. Mér dettur t.d. í hug að benda á f-lið 1. gr. frv. Ég sagði að þetta væri svo mikil endileysa að það væri ekki nokkur leið að botna í þessari grein og með leyfi hæstv. forseta les ég hluta af henni eins og hún er orðuð í frv.:
    ,,Í hverjum þjóðgarði starfar þjóðgarðsvörður sem umhvrh. skipar til 5 ára í senn að fenginni tillögu stjórnar Landvörslu ríkisins. Þjóðgarðsverðir starfa í umboði Landvörslu ríkisins og annast stjórn og daglegan rekstur þjóðgarða. Þeir ráða landverði og annað starfsfólk þjóðgarðanna. Umhvrh. getur, samkvæmt tillögum Landvörslu ríkisins, falið þjóðgarðsvörðum víðtækara eftirlits- og stjórnunarhlutverk á svæðum í umsjá stofnunarinnar í viðkomandi landshluta.``
    Þarna er reyndar tekið fram að þjóðgarðsverðir starfi í umboði Landvörslu ríkisins þó þeir séu skipaðir af umhvrh. en þetta kemur fram í brtt. meiri hlutans að þeir hafa samt talið óþarflega flókna atburðarás og því var breytt. En það var þó sérstaklega þetta orð, ,,víðtækara`` sem ég vakti athygli á, hvernig á að fela þjóðgarðsvörðum víðtækara hlutverk en felst í því að annast stjórn og daglegan rekstur þjóðgarða? Á því gat ég enga skýringu fengið. Eins og ég sagði gafst okkur ekki kostur á að fá hina snjöllu höfunda þessa frv. frá umhvrn. til að gefa þessar skýringar, en meiri hluti nefndarinnar hefur ekki heldur getað skýrt það og í brtt. leggur meiri hlutinn til að þetta orð ,,víðtækara`` falli brott og þar með er einnig hægt að fara að skilja hvað er átt við í greininni.
    Ég nefni þetta hér aðeins til þess að benda á að út af fyrir sig ef tími hefði gefist til að rökræða málið og benda á atriði í frv., þá fannst mér a.m.k. ekki vera sá veggur hjá meiri hlutanum þegar við vorum að fara yfir málið, --- hann myndaðist ekki fyrr en við ákvörðun um afgreiðslu, að það hefði verið hægt að nálgast a.m.k. meira hvern annan. En vegna þessara vinnubragða var það meiri hlutinn sem valdi þá leið að hætta umfjöllun um málið í umhvn. og þá m.a. um meginatriði þess, þ.e. hvert er verið að stefna með þessum breytingum, og hvort sú stefnubreyting sé til bóta. Umræðan hlýtur því að færast nú inn í þingið og þess vegna vil ég við þetta tækifæri víkja að nokkrum grundvallaratriðum sem eru mér ofarlega í huga í sambandi við þetta frv.
    Það er nokkuð áberandi í umsögnum sem okkur bárust að það er kvartað yfir því að stefnumörkun vanti einmitt og undir það er vissulega hægt að taka, sérstaklega með tilliti til þess hvernig staða þessara mála er nú. Það fer held ég ekki fram hjá neinum hversu gífurlegar viðhorfsbreytingar eru að verða í öllum umhverfismálum og því eðlilegt að það sé vegið og metið hvernig þau lög eiga að líta út sem leggja einn af hornsteinum meðferðar þessa málaflokks hjá ríkisvaldinu. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það atriði en e.t.v. mun ég víkja eitthvað að því í sambandi við athugasemdir og ábendingar sem ég ætla að koma hér fram með.
    Í núgildandi lögum er fyrst fjallað um hlutverk náttúruverndar, en síðan kemur stjórn umhverfisverndarmála. Þar er 2. gr. aðeins ein örstutt setning, þ.e. í núgildandi lögum segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Umhverfisráðuneytið fer með yfirstjórn náttúruverndarmála.``
    En eftir þessa sjálfsögðu grein sem yfirleitt er í öllum lögum um það undir hvaða ráðherra viðkomandi lög heyra, þá kemur svo 3. gr. í núgildandi lögum og hún fjallar um náttúruverndarnefndir, þ.e. í hverri sýslu, kaupstað og bæ skuli starfa þriggja til sjö manna náttúruverndarnefnd. Þannig eru náttúruverndarnefndirnar gerðar að undirstöðu stjórnkerfis náttúruverndarmála og þar sem þessi lög eru nú orðin 24 ára, þá finnst mér satt að segja aðdáunarverð sú framsýni sem var við setningu þessara laga að byggja á þessari undirstöðu sem nú í dag er talinn algjör hornsteinn að náttúruvernd og að tökum verði náð á umhverfismálum, þ.e. það séu þeir sem á vettvangi eru, vörslumenn landsins, bændur og

aðrir sem eru þar í nágrenni, að þeirra sé ábyrgðin og þeir verði að gera sér ljósa þá ábyrgð sem á þeim hvílir að annast um þessi mál. Ég segi það að ég dáist að þessari framsýni vegna þess að ég hygg að þetta sjónarmið hafi alls ekki verið jafnviðurkennt þá eins og þetta er orðið í dag.
    Ég held ég hafi áður látið það koma fram í umræðu hér á Alþingi að ég hef kynnst þessu nokkuð á vettvangi alþjóðabændasamtaka að þau létu þessi mál mjög lítið til sín taka, umhverfismálin, lengi vel og forustumenn þeirra samtaka nú segja að það hafi verið fyrst með ráðstefnu sem haldin var hér í Reykjavík haustið 1991 sem þau fóru að hefja afskipti af þeim. Það var að vísu skömmu fyrir Ríó-ráðstefnuna en samt nægði það til þess að þau samtök höfðu þar nokkur áhrif, en fyrst og fremst varð þó til að vekja þessi samtök til meðvitundar um það að þetta er brýnt hagsmunamál og lífsspursmál að sjálfsögðu fyrir bændastéttina í heiminum, en líka fyrir þessi umhverfismál öll að þau verði tekin föstum tökum af bændum og eins og kom fram nýlega í umræðum á Alþingi, þá var þeim það ljóst en að vísu ekki fyrr en of seint hversu dapurlegt það er að þessi þáttur gleymdist við GATT-samningaumræðurnar sem kenndar eru við Úrúgvæ og við vorum nú að staðfesta fyrir skömmu hér á Alþingi.
    En í staðinn fyrir 3. gr. gildandi laga um náttúruverndarnefndirnar sem á að vera undirstaða að skipulagi náttúruverndarþings sem kýs svo náttúruverndarráð, að þær komi þarna í upphafi, þá eru þær gerðar hornreka, settar miklu aftar í lögin því að það er annar aðili sem nú skal taka við og það er ný stofnun, Landvarsla ríkisins. Ég vil áður en ég fjalla meira um þennan þátt taka það fram að það kemur fram í ýmsum umsögnum að það geti verið eðlilegt að aðgreina hreinan framkvæmdaþátt frá eftirlitsstörfum, þ.e. framkvæmdaþátt eins og rekstur þjóðgarða. En því er ekki að heilsa að þannig sé á málum haldið við þessa breytingu að það sé verið að aðgreina verkefnin á þennan hátt heldur þvert á móti. Á eftirlitshlutverki Landvörslu ríkisins er hert eins og ég mun víkja betur að síðar. En það kom fram í máli hv. frsm. minni hlutans að um það eru ábendingar frá ýmsum að það sé hægt að fela þetta rekstrarhlutverk einhverjum öðrum aðila. Samband ísl. sveitarfélaga kemur þar með tillögu og leggst alfarið á móti þessari stofnun og skógræktarstjóri ríkisins kom fram með tilboð um það að Skógrækt ríkisins tæki að sér rekstur þessara svæða eins og hinna mörgu svæða sem Skógræktin ber ábyrgð á og hefur umsjón með. Þar vitnaði hann til fordæmis Norðmanna sem töldu sig hafa ekki efni á því að fara að byggja upp nýja stofnun. Jafnvel í olíulandinu Noregi töldu þeir að þeir hefðu ekki fjármagn til þess að fara að fjölga stofnunum heldur ákváðu að fela norsku skógræktinni umsjón með þjóðgörðum. Um þetta atriði fóru í sjálfu sér engar umræður fram frekar en um annað í nefndinni og ekki gafst kostur á að spyrja fulltrúa frá umhvrn. á það hvernig þeim litist á þessa hugmynd og hvað stæði þar í veginum.
    Ef ég held svo áfram að ræða um þessa nýju stofnun, Landvörslu ríkisins, þá er henni hagað þannig eins og kom fram í máli hv. minni hluta umhvn. að þetta er raunverulega deild í umhvrn. Hún er algjörlega á vegum umhvrh. og til að undirstrika það er þessi þriggja manna stjórn sem er skipuð af honum einum án allra tilnefninga, (Gripið fram í.) stjórn Landvörslunnar, er það ekki í brtt.? Ég verð að viðurkenna að ég hef kannski ekki lesið nógu vel þessar síðustu breytingartillögur. Jú. Í e-lið (6. gr.) brtt. sem verður c-liður (4. gr.) segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Umhvrh. skipar Landvörslu ríkisins þriggja manna stjórn, þar af formann sérstaklega og jafnmarga til vara og ákveður stjórnarlaun. Skipunartími skal fylgja skipunartíma ráðherra.`` Þetta undirstrikar því enn að þetta er aðeins verkfæri ráðherra á hverjum tíma um leið og breyting verður á ráðherrastóli, þá skal skipa nýja stjórn.
    Þetta er það atriði sem ég held að sé mest gagnrýnt í þeim umsögnum sem okkur bárust við frv. og ég ætla að grípa niður í nokkrum þeirra. Í umsögn frá stjórn Ferðafélags Íslands segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Frumvarpið gerir ráð fyrir því að stjórnunarsvið umhverfisráðuneytis verði mun víðtækara en verið hefur til þessa sem mun m.a. leiða til stóraukinna daglegra afskipta ráðuneytisins af ýmiss konar ágreiningsefnum sem ætíð hljóta að rísa í samskiptum manna við

stjórnvöld á þessu sviði, en um leið skapast hætta á því að gagnsemi ráðuneytisins sem áfrýjunarstjórnvalds skerðist frá því sem nú er (og almennt hefur verið um Stjórnarráð Íslands).``
    Hér er reyndar vikið að öðru atriði sem gagnrýnt var mjög af formanni stjórnar Ferðafélags Íslands, þ.e. skipting valds í þessu frv. sem hann telur að standist ekki stjórnskipunarlög. Ég mun kannski víkja aðeins að því síðar en halda mig við þessi atriði sem sérstaklega fjalla um þá nýju miðstýringu sem umsagnaraðilar telja að þessi breyting hafi í för með sér.
    Frá Félagi ísl. landslagsarkitekta kemur stutt athugasemd. Ég ætla að lesa upp nokkrar setningar frá þeim, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Félagið vill leggja sérstaka áherslu á nauðsyn þess að skapa betri tengsl á milli opinberra aðila sem fjalla um náttúruvernd og þeirra sem búa í hinum dreifðu byggðum landsins. Uppstokkun og ákveðnari verkaskipting milli ráðherra, ráðuneytis og stofnana þess á höfuðborgarsvæðinu eins og frv. gerir ráð fyrir er góðra gjalda verð, en er marklaus ef ekki kemur samtímis til valddreifingar út á landsbyggðina. Eðlilegast er að frumkvæði og ábyrgð í umhverfismálum færðist í sem ríkustum mæli yfir á sveitarstjórnarstigið í þeim tilvikum þar sem sveitarfélögin eru nægilega stór til þess að takast á við þessi mál.``
    Í umsögn frá stjórn Jarðfræðifélags Íslands segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í fyrsta lagi gerum við athugasemd við þá meginstefnu frv. að færa umsjón náttúruverndarmála að miklu leyti undir pólitíska stjórn. Við teljum á engan hátt óhjákvæmilegt að umhvrn. taki á svo afgerandi hátt við því hlutverki sem Náttúruverndarráð hefur haft. Þetta álit byggir ekki á ókunnugleika á stjórnsýslu ríkisins. Þvert á móti vitum við að ráðuneytið getur falið öðrum aðilum stjórn ýmissa mála eins og raunar kemur fram í þessu frv.``
    Síðar fjalla þeir um fjárhag þessarar stofnunar, en ég mun víkja að því síðar.
    Í umsögn frá áhugamannahópi um umhverfisvernd og náttúruverndarnefnd í Vestur-Skaftafellssýslu kemur allítarleg umsögn. Efni hennar kom m.a. fram í erindi sem haldið var á ráðstefnu um náttúruvernd 19. febr. á sl. ári, en þar eru þessi atriði dregin saman á þennan hátt, með leyfi hæstv. forseta:
  ,,1. Frv. stefnir að aukinni miðstýringu og ríkisafskiptum í umhverfismálum á sama tíma og augu manna eru að opnast fyrir nauðsyn valddreifingar ef tryggja á árangur á því sviði.
    2. Frv. spyrðir um of saman pólitísk verkefni, eftirlit og framkvæmd innan sömu stofnana í stað þess að greina skýrt á milli þeirra sem setja reglurnar, þeirra sem hafa eftirlit með framkvæmd þeirra og þeirra sem sjá um rekstrarhliðina, en slíkt eykur hættu á hagsmunaárekstrum og tvöföldu siðgæði.
    3. Frv. skortir samræmingu við stefnumótun núverandi ríkisstjórnar í umhverfismálum. (Sjá ritið ,,Á leið til sjálfbærrar þróunar`` þar sem höfuðáhersla er lögð á sjálfbæra nýtingu auðlinda og valddreifingu.)``
    Ég hef ekki athugað þetta atriði sem þarna er bent síðast á að frv. stangist á við þessa frægu stefnu ríkisstjórnarinna ,,Á leið til sjálfbærrar þróunar`` en það hefur ekki verið mikið vitnað síðustu vikur og mánuði í stefnuyfirlýsingar núverandi hæstv. ríkisstjórnar ( Gripið fram í: Við viljum nú gleyma þeim flestum.) sem kom fram í pésum frá henni á árdögum hennar.
    Það er svo stuttorð umsögn frá umhverfisnefnd Njarðvíkur sem tengist þessu og ég ætla að lesa í beinu framhaldi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Til umhverfisnefndar Alþingis.
    Á fundi umhverfisnefndar Njarðvíkur 24. mars 1994 var tekið heils hugar undir þá skoðun sem fram kom í erindi Einars H. Ólafssonar sem flutt var á ráðstefnu um náttúruvernd 19. febr. 1994``. --- En það var það erindi sem ég var að nefna áðan og var í samræmi við umsögnina sem ég las síðast. En áfram segir umhverfisnefnd Njarðvíkur: ,,Við teljum að í stað þess að auka miðstýringu í umhverfismálum beri að dreifa valdi og ábyrgð til fólksins í heimabyggð.``
    Þá kemur hér umsögn frá stjórn Arkitektafélags Íslands og þar segir m.a., með leyfi

hæstv. forseta:
    ,,Arkitektar, landslagsarkitektar og aðrir sem vinna að skipulags-, náttúruverndar- og umhverfismálum gera sér grein fyrir nauðsyn þess að lög og reglur um þau efni séu skýr. Þau séu ótvíræð og ábyrgð og framkvæmd þeirra sé ljós. Þetta gildir ekki síst um samskipti ríkis og sveitarfélaga, samskipti við félög og áhugamannasamtök og einstaka landeigendur og umráðamenn lands. Árangri við framkvæmd laga um skipulags-, náttúruverndar- og umhverfismál verður að okkar dómi best náð með því að færa framkvæmd laganna sem næst fólkinu í landinu og því stjórnsýslustigi sem stendur því næst, sveitarstjórnarstiginu.``
    Í þessari umsögn er reyndar athyglisverð frásögn af undirbúningi þessarar ályktunar sem ég ætla að lesa líka, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Að þessari upplýsingasöfnun undangenginni fundaði starfshópur og var sammála um að þau frumvarpsdrög sem fengist höfðu til aflestrar væru um margt óskýr og illa unnin. Einkum þótti sem óskýrt væri það nauðsynlega samræmingarhlutverk Skipulags ríkisins sem menn töldu nauðsynlegt og vænlegast til árangurs. Einnig virtist sem Náttúruverndarráð yrði eftir lagabreytinguna tilgangs- og valdalaust friðþægingarbákn fyrir lífsleiða nöldurseggi og því e.t.v. best að farga því alveg.
    Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri það amstursins vert að reyna að umskrifa einstakar greinar frv. eða endurbæta stílbrögð. Ákveðið var að skrifa stutta, almenna ábendingu til lagahöfunda um að þeir vönduðu betur starf sitt og legðu aukna rækt við skipulagsþáttinn og samræmingu hinna ýmsu laga og reglugerðarbálka. Ályktun starfshópsins fylgir hér með sem fylgiskjal.`` --- Og það var úr því sem ég var að lesa þess stuttu tilvitnun.
    Þá er hér hluti úr umsögn frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Umhverfisnefnd Félags íslenskra náttúrufræðinga telur að við stækkun náttúruminjaskrár sé afar nauðsynlegt að hafa gott samráð við landeigendur og því ætti fremur að efla starf náttúruverndarnefnda sveitarfélaga en hitt. Athugandi væri að færa rekstur og eftirlit með náttúruverndarsvæðum til sveitarfélaganna og mætti samræma þá vinnu við aðra starfsemi sveitarfélaganna sem tengist umhverfinu.``
    Þá er hér örstuttur kafli úr umsögn frá nefndarmönnum í náttúruverndarnefnd Eyjafjarðarsýslu, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við teljum frumskilyrði að auka valddreifingu í náttúruvernd svo sem í öðrum þjóðfélagsmálum. Því erum við algjörlega mótfallnir þeim mikla tilflutningi á völdum sem felst í því að víða kemur orðið ,,umhverfisráðherra`` í stað ,,Náttúruverndarráðs``. Í stað þess að auka völd ráðuneytisins á að auka virkni og völd þeirra sem eru næst vettvangi.``
    Það væri hægt að halda þessum lestri lengi áfram því svo víða kvað við þennan tón en ég ætla að láta hér staðar numið í sambandi við þetta atriði. En ég vil aðeins benda á það sem hv. frsm. minni hlutans las upp áðan frá Sambandi ísl. sveitarfélaga þar sem síðasta setningin er stutt og skýr, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Samband ísl. sveitarfélaga leggur til að frv. verði gjörbreytt og tekið tillit til framangreindra sjónarmiða.``
    Það er þó rétt að taka fram að ákvæðum um náttúruverndarnefndir hefur verið breytt en ég mun víkja að því aðeins síðar. En ég vildi aðeins ræða frekar þessa nýju stofnun, þessa framlengingu á valdi umhvrh., eins og ég orðaði það í umhvn. Ég vil ekki trúa að hv. fulltrúar Sjálfstfl. í umhvn. hafi raunverulega gert sér grein fyrir því hvers konar kúvending hér er á málum gerð með þessu frv. og að þeir raunverulega vilji hafa þann hátt á sem gert er ráð fyrir í frv. Hér er að vísu aðeins einn hv. fulltrúi Sjálfstfl. í umhvn., hv. 3. þm. Reykn., Árni M. Mathiesen. Því miður virðist ekki vera áhugi hjá fleirum að fylgjast með þessu. En ég vildi samt spyrja hv. 3. þm. Reykn. að því hvort hann geri sér grein fyrir hvað felst í þessari fyrstu setningu í d-lið 1. gr. frv., en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Landvarsla ríkisins skal fylgjast með því að náttúru landsins sé ekki spillt með athöfnum eða framkvæmdum sem brjóta í bága við lög þessi.``
    Ég trúi því ekki að það sé raunverulega ætlun hv. þm. Árna M. Mathiesens og hinna nefndarmanna, hv. þm. Árna R. Árnasonar, hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur og hv. þm. Tómasar Inga Olrichs að setja hér upp svona eftirlitskerfi. Landvarsla ríkisins á að vaka yfir því um allt land að náttúru landsins sé ekki spillt.
    Af því að hér situr næst mér hv. 1. þm. Vestf. þá held ég að það geti ekki verið að hann sé samþykkur því að fara að setja upp nýtt bákn, eftirlitskerfi úr Reykjavík, deild í umhverfisráðuneytinu á að vera vakandi auga yfir athöfnum hvers einasta aðila sem hætt er við að spilli náttúrunni.
    Hér er um svo víðtæka ábyrgð að ræða sem verið er að fela þessu nýja ríkisfyrirtæki, Landvörslu ríkisins, að í fyrsta lagi sé ég ekki að hún geti nokkurn tímann orðið í stakk búin til að standa undir þessu. En ef hún ekki gerir það þá er þessi nýja stofnun og þar með þá hæstv. umhvrh. að brjóta lög. Hann gegnir þá ekki þeirri skyldu sem honum er falin. Þetta apparat eða batterí, sem eins og sagt er í einni umsögninni að menn óttist að þessi nýja stofnun verði --- og vissulega er ástæða til að óttast það að með þessu víðtæka hlutverki þá verði því ekki sinnt með fámennum mannskap.
    Mér finnst það dapurleg breyting að hverfa frá því lýðræðislega kerfi sem er í uppbyggingu núgildandi laga um náttúruvernd þar sem það eru heimamenn á hverjum stað sem eru grundvöllurinn og eiga fyrst og fremst að bera ábyrgð á þessum málaflokki. Og það er eins og ég sagði áður einmitt í samræmi við þá þróun sem hefur orðið á síðustu árum um viðhorf til þessara mála.
    Ég tel að Framsfl. standi það kannski nær að reyna að standa vörð um þetta lýðræðislega kerfi heldur en ýmsum öðrum og koma í hug orð hæstv. umhvrh. sem hann viðhafði við opnun sýningar og umhverfisárs fyrir rúmri viku þar sem hann benti á forustu Eysteins Jónssonar, fyrrv. formanns Framsfl., að setningu þessara laga og mótun þeirra sem formaður Náttúruverndarráðs fyrstu árin.
    Nú er ég ekki að segja það með þessu að allt sem gert hefur verið í skjóli þessara laga sé hafið yfir gagnrýni og ekki þurfi að endurskoða framkvæmdina að einhverju leyti og kannski þá einhver lagaákvæði. En ég vil vara eindregið við því að hverfa frá þessu grundvallaratriði í uppbyggingu þessa mikilvæga málaflokks.
    Þá vil ég aðeins víkja að náttúruverndarnefndunum. Eins og ég sagði áður er búið að færa þær langt aftur í frv. og gera þær þar að hornrekum. Í frv. er fjallað um þær í h-lið 1. gr., sem verður i-liður eftir brtt. meiri hluta umhvn., og í þeirri brtt. segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á vegum hvers sveitarfélags eða héraðsnefndar skal starfa þriggja til sjö manna náttúruverndarnefnd. Sveitarstjórnir og héraðsnefndir ákveða fjölda nefndarmanna og kjósa þá til fjögurra ára í senn og ákveða formann.``
    Hér er um að ræða veigamikla breytingu frá því sem er í núgildandi lögum þar sem kveðið er á um að í hverri sýslu, kaupstað og bæ skuli starfa þriggja til sjö manna náttúruverndarnefnd.
    Ég er ekki að segja að þessi breyting geti ekki átt rétt á sér en ég held að þó að svona ákvæði væri ekki í lögum þá sé viðhorfið orðið svo breytt að á vegum hvers einasta sveitarfélags í landinu yrði kosin einhver nefnd sem mundi fjalla um þennan mikilvæga málaflokk. Gjarnan munu þær þá vera eitthvað í tengslum við skipulagsmál líka sem tengjast þessum málum mjög mikið. En eftir þessa breytingu er sem sagt ekki neitt ákvæði um að það skuli vera nein samtök þessara náttúruverndarnefnda út fyrir sveitarfélagið. Það er ekki lengur sagt að það skuli vera innan hverrar sýslu. Mér finnst í því sambandi athyglisvert að líta á bréf sem kom frá umhverfisráði Mosfellsbæjar. Það skýrir kannski aðeins þessa stöðu og ég ætla að lesa það, með leyfi hæstv. forseta, það er umsögn um náttúruverndarlög:
    ,,Nýlega barst undirrituðum í hendur bréf Kristínar Einarsdóttur, formanns umhverfisnefndar Alþingis, stílað á náttúruverndarnefnd Kjósarsýslu þar sem óskað var eftir ofangreindri umsögn.

    Samkvæmt upplýsingum Ingunnar Finnbogadóttur, formanns nefndarinnar, hætti nefndin í raun störfum er Mosfellshreppur varð Mosfellsbær árið 1987. Á vegum bæjarfélagsins starfar umhverfisráð sem hefur á sinni hendi þau málefni er áður tilheyrðu náttúruverndarnefnd. Þess er vinsamlegast farið á leit að framvegis verði erindum af ofangreindu tagi beint til umhverfisráðs Mosfellsbæjar.``
    Þetta segir þá sögu sem ég hygg að muni verða reyndin á víða þegar einstök sveitarfélög innan byggðarlags, kannski þau stærstu, fara að draga sig út úr samstarfi náttúruverndarnefnda og telja sig ekki þurfa á því að halda, þá muni slíkt samstarf falla að meira og minna leyti niður. Þannig að eftir standa náttúruverndarnefndir sveitarfélaganna sem vissulega eru næstar vettvangi og eiga því auðveldast með að fylgjast með. En ég bendi sérstaklega á þetta vegna þess að enn þá er eftir þessu frv. gert ráð fyrir að náttúruverndarnefndirnar eigi aðild að náttúruverndarþingi. En þar kemur einn kapítuli einn í frv. sem er ákaflega furðulegur og það er sá lagarammi sem settur er um Náttúruverndarráð og náttúruverndarþing því í brtt. frá meiri hluta umhvn. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hlutverk náttúruverndarþings er að fjalla um náttúruvernd armál og kjósa fulltrúa í Náttúruverndarráð. Náttúruverndarþing er vettvangur þeirra sem fjalla um náttúruverndarmál. Þar skulu eiga sæti, auk Náttúruverndarráðs, fulltrúar náttúruverndarnefnda, fulltrúar frjálsra félagasamtaka og stofnana sem vinna að náttúruvernd og aðrir sem ráðið telur rétt að eigi seturétt hverju sinni. Jafnframt skulu fulltrúar ráðuneyta og þingflokka á Alþingi og þjóðgarðsverðir eiga rétt til setu á náttúruverndarþingi sem áheyrnarfulltrúar með tillögurétt.``
    En hvernig á að skilgreina þetta? Þarna eru fulltrúar náttúruverndarnefnda. Er það þá einn fulltrúi frá hverri nefnd? Það er skýrt tekið fram í núgildandi lögum að það skuli vera einn fulltrúi frá náttúruverndarnefnd sem nái yfir sýslufélög eða bæjarfélög. ( HG: Framsögumaður hlýtur að skýra það.) Já, eða á eftir að gera það. Ég vonast til þess að það komi fram á eftir. Á sem sagt að vera einn fulltrúi frá hverri náttúruverndarnefnd hversu stórt sveitarfélag sem býr að baki nefndinni? Eða eiga stærri sveitarfélögin að eiga fleiri fulltrúa? Þarna er ljóst ef sú þróun gerist sem mér sýnist mjög líkleg eftir þessa breytingu og ég tel að geti út af fyrir sig haft sína kosti að það verði náttúruverndarnefndir hvers sveitarfélags en þar með fjölgar auðvitað geysimikið fulltrúunum ef hver nefnd á að hafa leyfi til að senda einn fulltrúa. Eða á að vera hægt að svipta sumar nefndirnar þeim rétti að eiga fulltrúa á náttúruverndarþingi?
    Reyndar segir svo áfram í frv., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Náttúruverndarráð skal semja reglur fyrir hvert náttúruverndarþing, þar sem kveðið er á um hverjir eiga rétt til setu á þinginu og kjörgengi og kosningarrétt þingfulltrúa. Reglurnar skal senda umhverfisráðuneytinu sem auglýsir þær í Stjórnartíðindum í síðasta lagi fjórum vikum áður en náttúruverndarþing hefst.``
    Þarna er tekinn upp sá háttur að Náttúruverndarráð sem kosið er af náttúruverndarþingi skal ákveða hverjir skuli eiga seturétt á þinginu og þar með að kjósa ráðið. Mér virðist að þetta sé sambærilegt við það að ríkisstjórn ákveði það á hverjum tíma, fyrir hverjar kosningar, hverjir skyldu eiga sæti á Alþingi til þess að velja næstu ríkisstjórn. Það er síðan einn varnagli, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Verði deilur um seturétt, kjörgengi og kosningarrétt á þinginu skal vísa slíkum málum til úrskurðar á þinginu sjálfu.`` --- En þar hljóta aðeins að eiga um að fjalla þeir fulltrúar sem hlotið hafa náð fyrir augum Náttúruverndarráðs að verða þarna löggiltir fulltrúar.
    Það getur verið að það þurfi kannski ekki að vera að hafa miklar áhyggjur af þessu ef það rætist spáin sem ég las upp áðan frá Arkitektafélaginu um örlög Náttúruverndarráðs, að það verði eins og þar sagði, með leyfi hæstv. forseta, eftir lagabreytinguna ,,tilgangs- og valdalaust friðþægingarbákn fyrir lífsleiða nöldurseggi``. Þá þarf kannski ekki að vera að hafa miklar áhyggjur af þessum málum. ( JGS: Vill hv. þm. lesa tilvitnunina aftur?) Ég skal gera það ef þess er sérstaklega óskað úr því að hv. þm. heyrði ekki það sem ég sagði hér áðan, með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Að þessari upplýsingasöfnun undangenginni fundaði starfshópurinn og var sammála um að þau frumvarpsdrög sem fengist höfðu til aflestrar væru um margt óskýr og illa unnin. Einkum þótti sem óskýrt væri það nauðsynlega samræmingarhlutverk Skipulags ríkisins sem menn töldu nauðsynlegt og vænlegast til árangurs. Einnig virtist sem Náttúruverndarráð yrði eftir lagabreytinguna tilgangs- og valdalaust friðþægingarbákn fyrir lífsleiða nöldurseggi og sé e.t.v. best að farga því alveg.``
    Hv. framsögumaður meiri hluta umhvn. sagði hér í sínum fáu orðum að þessar breytingar miðuðu að því að styrkja Náttúruverndarráð. Það eru lítil rök sem hún sækir a.m.k. í umsagnir sem við fengum með þessu frv. fyrir þessari fullyrðingu sinni. Það er líka mjög dregið í efa hjá mörgum að þessar stofnanir hafi burði til að gera mikið af því sem þeim er ætlað jafnvel þó menn hafi nú ekki í huga þetta alsjáandi auga eftirlits Landvörslu ríkisins um allar jarðir þar sem í umsögn frá fjmrn. með frv. er gert ráð fyrir því að þetta hafi ekki útgjaldaauka í för með sér. Í frv. eru ákvæði um greiðslu kostnaðar við framkvæmd laganna og í a-lið 2. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Kostnaður við framkvæmd laganna skal greiddur úr ríkissjóði, eftir því sem fé er veitt til þess á fjárlögum.``
    En þetta er nú ekki talið nóg þar sem í greininni um Náttúruverndarráð er einnig ákvæði um þetta í j-lið 1. gr. þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkissjóður greiðir laun framkvæmdastjóra og veitir framlag til reksturs skrifstofu eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Ríkissjóður greiðir ennig fasta þóknun til ráðsmanna fyrir setu í Náttúruverndarráði.``
    Þarna er þrátt fyrir hið almenna ákvæði um að greiða kostnað við framkvæmd laganna úr ríkissjóði talið nauðsynlegt að setja það inn í greinina um Náttúruverndarráð. Ég vakti athygli á hinni nýju túlkun núv. hæstv. ríkisstjórnar á þessu orðalagi, hvað raunverulega í því felst eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Þetta ákvæði var sett inn í jarðræktarlög árið 1992 og núv. hæstv. ríkisstjórn hefur skilið það þannig að þar með eigi ekki að veita krónu enda þá sagt: Það er ekki verið að brjóta nein lög úr því við getum vitnað í það þó engin króna sé veitt. Hvort það er áformað að hafa svipaðan hátt á við Náttúruverndarráð, það skal ég ekki segja um en fordæmið er þarna fyrir hendi.
    Í m-lið 1. gr. í frv., sem reyndar er orðinn að n-lið skv. brtt. frá meiri hluta umhvn., segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Umhverfisráðuneytið skal ásamt Landgræðslu ríkisins vinna að gróðurvernd . . .
``

    Hér er umhvrn. ætlað að fara að vinna beint með stofnun annars ráðuneytis. Þetta hygg ég að sé eitt þeirra atriða sem minnst var á að komið hefði fram í máli Páls Sigurðssonar lagaprófessors, formanns Ferðafélags Íslands, á fundi umhvn. Það voru vissulega athyglisverð ummæli. Ég skrifaði niður nokkrar setningar sem mér fundust athyglisverðar í máli hans og reyndar kemur margt af því fram í hinu skriflega áliti sem framsögumaður minni hluta umhvn. vitnaði í áðan.
    Ef ég gríp aðeins niður í nokkrar setningar sem þar komu fram þá má benda á að margt væri óskýrt og villandi í þessu frv. Ferðafélagið væri ósátt við meginstefnu frumvarpsins. Það væri ekki rétt að taka stjórnunarþáttinn svona út úr og vel framkvæmanlegt að taka allt til endurskoðunar. Og það væri röng stefna um stjórn þessara mála, þetta stóra atriði, að dregin væru undir ráðuneytið sjálft svo mörg mál sem leiddi til þess að það þyrfti að standa í þrasi og þjarki við fjölmarga aðila og gerði sig svo þá meira og minna vanhæft að gegna hinu mikilvæga úrskurðarhlutverki. Þess vegna væri þetta frv. í andstöðu við stjórnsýslulög og það bæri ekki með sér rétta stefnu. Þetta var nú tónninn í orðum margra sem komu á fund nefndarinnar. En eins og ég sagði þá var aldrei sest yfir það að fjalla um þessar munnlegu athugasemdir og ræða um þessa stefnumörkun.
    Það er eitt atriði sem ég vildi enn minnast á og getur að mínu mati fallið undir það sem Páll Sigurðsson var að vara við að væri óskýrt og vafasamt í þessu frv. en það er brtt. við 3. gr. frv. frá meiri hluta umhvn. Í henni segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Umhvrh. skal setja reglugerð um akstur utan vega, umferð hesta, umgengni í óbyggðum, merkingu bílslóða og vega og leyfilegan öxulþunga vélknúinna ökutækja sem fara um óbyggð svæði.``
    Ég vakti athygli í nefndinni á þessu atriði og spurði hvort ekki þyrfti þarna að vera eitthvað skýrar að orði kveðið því mér sýndist að þarna mundi þetta stangast á við umferðarlög. Hér er afdráttarlaust verið að fela umhvrh. að setja reglugerð um merkingu vega og ekkert þar undanskilið. Þýðir þetta að það er ekki lengur orðið hlutverk Vegagerðarinnar að merkja vegi? ( Gripið fram í: Í óbyggðum.) Það er ekkert tekið fram að þetta sé í óbyggðum. Þetta er sagt bara að setja reglugerð um akstur, talið upp akstur utan vega, umferð hesta, umgengni í óbyggðum, merkingu bílslóða og vega. Þetta eru að sjálfsögðu nýrri lög en umferðarlögin þannig það er spurning hvort þetta gengur þá lengra. Þetta gefur líka leyfi til að setja öxulþunga vélknúinna ökutækja sem fara um óbyggð svæði. Ég veit ekki hversu víðtæk þessi heimild er. Hvað eru óbyggð svæði? Nær þetta til aksturs dráttarvéla um tún? Felur þetta heimild til þess að umhvrh. má setja reglugerð um akstur allra tækja hjá bændum o.s.frv.? Þetta er aðeins eitt dæmi um þær mörgu spurningar sem vakna við það að lesa þetta yfir.
    Ég ætla ekki að fara að tíunda mikið meira. Ég gleymdi einu atriðinu þegar ég var áðan að fjalla um náttúruverndarnefndirnar. Það kom fram í umhvn. frá meiri hlutanum að þrátt fyrir ákvæði sem nú er orðið 16. gr. frv. eftir breytinguna, að kostnaður við framkvæmd laganna skuli greiddur úr ríkissjóði, þá sögðu fulltrúar meiri hlutans að náttúruverndarnefndirnar mundu ekki fá neitt greitt úr ríkissjóði fyrir sitt starf. Ég minnist þess ekki að framsögumaður meiri hlutans hafi vikið að þessu í máli sínu hér áðan. Það getur þó vel verið, ég þori ekki að fullyrða það. En það þykir sem sagt betra að greiða eftirlitsmönnum hinnar voldugu eftirlitsstofnunar, Landvörslu ríkisins, sem á að fylgjast með öllum framkvæmdum um allt land að greiða þeim fyrir sitt eftirlit frekar en heimamönnum, að þeir fái einhverja umbun fyrir sín verkefni.
    Ég ætla þá að fara að stytta mál mitt. En vildi kannski í lokin lesa hér upp niðurlagsorð frá nefndarmönnum í náttúruverndarnefnd Eyjafjarðarsýslu um þetta frv. þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Svo miklu þarf að breyta og svo mikið vantar inn í frumvarpsdrögin að við leggjum til að þeim verði ekki fylgt eftir heldur verði þau tekin til gaumgæfilegrar endurskoðunar.``
    Eins og fram kemur í því nefndaráliti sem ég hef skrifað undir er ég sammála þessu og legg því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég vil undirstrika að þessi málaflokkur er svo mikilvægur fyrir okkur öll að ekki má afgreiða þessi mál í flaustri og gera margvíslegar breytingar sem sumar hverjar virðast vera lítt hugsaðar og sem geta þá haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Ég vænti þess því að meiri hluti hv. umhvn., sem er svo ánægður með þetta afkvæmi sitt að hann hefur lagt áherslu á að þetta yrði afgreitt í flaustri, endurskoði afstöðu sína m.a. með tilliti til þeirra ábendinga sem ég hef komið fram með og málið fái eðlilega meðferð. Það verði hægt að sníða af því þá hnökra og annmarka, stóra og smáa sem ég tel vera á því til þess að viðunandi sé fyrir Alþingi að afgreiða það sem lög.