Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 22:54:00 (4276)


[22:54]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Það er ekki auðvelt að koma í pontu að lokinni ræðu hv. 4. þm. Austurl. því það verður ekki annað sagt en hann hefur yfirburðaþekkingu á náttúruverndarmálum. Þó að ekki sé þar með sagt að ég sé sammála honum í öllum atriðum þá er þekkingin til staðar. Á því er enginn vafi.
    Ég ætla að hafa nokkur orð um þetta frv. sem er komið til 2. umr. Ég tók lítillega þátt í 1. umr. um málið, benti þar á nokkur atriði sem mér fannst vera mikilvæg og vildi færa til betri vegar. Hæstv. umhvrh. hlýddi á mál mitt og taldi meira að segja í andsvari að að hægt væri að taka tillit til þeirra ábendinga sem ég hafði þá uppi, en það er ekki að sjá í þeim brtt. sem lagðar eru til af meiri hluta hv. umhvn. að þar hafi hugur fylgt máli. Þá á ég sérstaklega við það að ég hafði orð á því að það væri óeðlilegt að hæstv. umhvrh. skipaði stjórn Landgræðslu ríkisins án tilnefningar. Ég kem kannski betur að því síðar.
    Áður en lengra er haldið, hæstv. forseti, þá held ég að ástæða sé til þess, vegna þess að hér er greinilega um ágreiningsmál að ræða, að vitna til orða hæstv. forsrh. sem hann viðhafði nýlega í viðtali við blað sem ber nafnið ,,Viðskiptablaðið`` vikuna 8.--10. febr. 1995. Þar er svo vitnað til hæstv. forsrh., með leyfi forseta:
    ,,Davíð bendir á að fáir dagar séu eftir af þinghaldi og ef ekki sé sæmileg sátt um afgreiðslu einstakra mála þá verði þau ekki afgreidd. Hann vill fremur að þingið verði í anda málfundar en lagasetningarvettvangs því að það sé hluti af verkefni þingsins að vera

málstofa og þó honum finnist kjaftagangurinn oft of mikill þá sé ágætt skömmu fyrir kosningar að þingið einkennist af skoðanaskiptum. Ég hef alltaf haft þá skoðun að afgreiða eigi færri frumvörp en fleiri``, er síðan vitnað orðrétt í hæstv. forsrh.
    Þess vegna spyr maður sig nú á þessari stundu þegar klukkan er 11 að kvöldi og við erum að fjalla um mál sem greinilega er mikið ágreiningsmál, til hvers þar sem það er greinilega ekki meiningin að afgreiða þetta mál? Er þetta bara ekki eintóm tímasóun, hæstv. forseti? Engu að síður fyrst hér er haldið áfram fundi ætla ég að segja það að í mínum huga erum við að fjalla um mjög mikilvægan málaflokk sem eru náttúruverndarmál og umhverfismál. Mér finnst mikilvægt að þetta frv. verði ekki afgreitt í flaustri en ég skal hins vegar viðurkenna það að þegar mælt var fyrir því á hv. Alþingi gerði ég mér von um að það yrði hægt að afgreiða það sem lög á þessu þingi og um það gæti náðst sátt í hv. umhvn. Því það getur ekki verið þannig að skoðanir hv. þingmanna á umhverfismálum fari svo nákvæmlega eftir flokkspólitík, sem er að sjá á umræðunni og er að sjá á því hvernig hv. umhvn. afgreiddi málið. Það eru miklu meiri líkur á því að ástæða þess að þarna náðist ekki samstaða sé sú að vinnubrögðin hafa ekki verið sem skyldi.
    Reyndar er það ekki einsdæmi því að það er þannig á síðustu dögum þingsins að við erum að upplifa álíka vinnubrögð í öðrum þingnefndum. Það er ekki reynt að nálgast stjórnarandstöðuna heldur vita stjórnarsinnar í nefndinni að þeir hafa meiri hluta og eru ekkert að reyna að leggja sig fram um það að nefndin geti staðið saman að afgreiðslu mála. Þetta tel ég vera alvarlegt mál og í algerri andstöðu við það sem við ætluðum okkur með breytingum sem gerðar voru á þingsköpum. Þar var lögð áhersla á að auka nefndastarfið og reyna að koma því þannig fyrir að umræða gæti farið fram miklu meira í nefndum en hér fyrir opnum tjöldum á hv. Alþingi. En þetta virðist ekki hafa tekist hverju sem þar er um að kenna. Hvort hluti af því máli er það að nýliðar eru að stjórna nefndum sem ekki hafa þingreynslu og kannski átta sig ekki á þessu mikilvæga hlutverki löggjafans. En ekki meira um það.
    Ég tók þátt í 1. umr. um þetta mál eins og ég sagði áðan og reyndi að vera frekar jákvæð. Þess vegna hélt ég kannski að það yrði gert eitthvað með mínar ábendingar. En það sem ég held að sé það alvarlegasta við frv. eins og það lítur út nú eins og það kemur frá nefnd og með þeim brtt. sem meiri hluti nefndarinnar leggur til er að verið er að auka miðstýringu en það sem þjóðin vill eða það fólk sem ég þekki vill er meiri valddreifing. Frv. gengur þvert á þær skoðanir.
    Hv. 2. þm. Suðurl., Jón Helgason, lét koma fram í ræðu sinni í dag að hann telur að hægt hefði verið að ná betur saman ef málið hefði verið unnið betur í hv. umhvn. og hann hafði einmitt þær skoðanir að með frv. væri verið að auka mjög á miðstýringu. Við framsóknarmenn erum þeirrar skoðunar og erum hlynnt því að landið sé nytjað en að það sé ekki skemmt og við viljum færa aukið vald heim í hérað. Ég veit það og geri mér vel grein fyrir því að það er ekki alveg einfalt en oft er hægt að finna lausnir á málum ef að því er unnið. Af því að hv. 4. þm. Austurl., síðasti ræðumaður, talaði um þriðja stjórnsýslustigið sem hefði kannski getað komið að notum nú er ég þeirrar skoðunar líka að ef við hefðum haft millistig í stjórnsýslunni, þ.e. það sem einu sinni var kallað þriðja stjórnsýslustigið, hefðum við átt auðveldara með að færa aukið vald heim í hérað. En það er ekki þar með sagt að það sé útilokað þó svo að við eigum ekki þetta stjórnsýslustig. Ég er óskaplega hrædd um og vildi gjarnan fá frekari upplýsingar um það frá hv. nefndarmönnum þar sem ég sit ekki í umhvn. hvort reynt var í nefndinni að móta slíkar tillögur sem færðu aukið vald heim í hérað. Það hefði mér þótt forvininlegt að heyra frekar um.
    Þær nefndir sem kveðið er á um í frv. og eru breyttar frá núgildandi lögum og mega annaðhvort vera á vettvangi sveitarstjórnar eða héraðsnefnda eru svo sem skárri en ekki neitt en þar sem þær eru þetta illa skilgreindar koma þær á engan hátt í staðinn fyrir það sem ég er að tala um þegar ég tala um aukið vald heim í hérað. Og að hafa það opið í lögunum hvort nefndirnar eru í sveitarfélögum hverju fyrir sig eða ná yfir heilu héraðsnefndasvæðin tel ég mjög vafasamt. Enda kom það fram áður í umræðunni að kosning til náttúruverndarþings er mjög gölluð. En það er kannski eins og fleira sem hér hefur komið fram í dag að málið er ekki nógu vel unnið. En undir ráðuneytið eru dregin ýmis mál sem með réttu ættu að vera heima í héraði.
    Svo er það með aðgang almennings að landinu sem er kannski ekki svo mjög kveðið á um í þessum lögum þar sem ekki er um heildarendurskoðun á löggjöfinni að ræða. En það er eitt af þeim málum sem eru mjög mikilvæg og við framsóknarmenn erum ekki þeirrar skoðunar að það eigi að loka landið af, það þarf að vera opið fyrir almenning til að geta notið þess og það þarf að leggja vegi. Það er mikilvægt að það séu þó það sæmilega góðir vegir í óbyggðum að bílar fari um þá en ekki utan þeirra. Það var mjög athyglisvert að sjá brtt. frá meiri hluta hv. umhvn. þar sem kveðið er á um akstur utan vega en umhvrh. skal setja reglugerð um akstur utan vega og umhvrh. skal líka hafa undir sínum höndum merkingu bílslóða og vega og er þar með kominn inn á verkefni Vegagerðarinnar eftir því sem við þekkjum til. Þannig að þarna held ég að sé vandamál sem þarf að skoða frekar.
    Grundvallarbreytingin, sem hér er lögð til, er náttúrlega eins og allir sjá stofnun Landvörslu ríkisins sem samkvæmt frv. á að hafa gífurlega mikil völd og í augum landsbyggðarmanna er þarna mikið Reykjavíkurvald. Þess vegna rifjast upp fyrir mér þær skoðanir sem komu upp og þær hugmyndir sem komu upp í nefnd, sem skipuð var af fyrrv. hæstv. umhvrh., og átti að móta tillögur um breytingar á lögum um náttúruvernd og þar kom m.a. fram sú hugmynd að skipta nánast Náttúruverndarráði upp og hafa náttúruverndarráð landshlutanna sem hefði hugsanlega mátt verða kjördæmanna. Þessi hugmynd var eiginlega strax slegin út af borðinu án þess að hún væri útfærð frekar en þetta finnst mér vera hugmynd sem hefði verið upplagt fyrir hv. umhvn. að velta betur fyrir sér. Eins og kom fram í andsvari síðasta ræðumanns er verið að svipta Náttúruverndarráð valdi eða draga úr því allar tennur. Ég hef svo sem ekki haft neina sérstaka ást á Náttúruverndarráði þannig að það er ekki aðalgagnrýni mín á frv. en mér finnst oft að Náttúruverndarráð hafi verið með heldur neikvæðan tón og þar af leiðandi má gjarnan gera breytingar á hvað það snertir að mínu áliti. En það er spurning hvað á að koma í staðinn. Miðað við að samkvæmt áliti fjmrn. á þetta nýja fyrirkomulag ekki að kosta ríkissjóð meiri fjármuni en það fyrirkomulag sem nú gildir tel ég alveg víst að höfð verði uppi slík sveltistefna hvað snertir fjárveitingar að þetta verði hvorki fugl né fiskur því auðvitað kostar þetta peninga. Og að reka þetta batterí, Landvörslu ríkisins, mun kosta mikla fjármuni ef eitthvert vit á að verða í því. En það sem mér finnst vera mikilvægt og þar kem ég aftur að skipun umhvrh. í stjórn þessarar stofnunar, þar hefði verið ástæða að mínu mati til að nýta áhuga almennings á náttúruverndarmálum því að það er ekki lengur þannig að það séu bara fáir útvaldir sem hafa áhuga og beita sér í náttúruverndarmálum. Þorri landsmanna gerir það og hefur áhuga en hann þarf að fá verkefni og það er einmitt það sem þetta frv. gengur ekki út á að hann fái. Ég er sannfærð um að það er einn af stóru göllunum á frv. að ekki er reynt að nýta þann mikla áhuga sem hefur komið í ljós hjá almenningi á náttúruverndarmálum. Fólk vill virkilega fá að taka þátt og fá einhverja ábyrgð.
    Það hefur líka verið nefnt og um það var haldin ráðstefna í kjördæmi mínu á síðasta ári hvort sveitarfélögin eins og þau eru í dag geti ekki tekið að sér þetta hlutverk, þ.e. landvörslu ríkisins. Ég skal viðurkenna að það finnst mér vera of langt gengið og þar held ég að við finnum ekki lausnina vegna þess hve sveitarfélögin eru mörg og fámenn. Þar yrðu of miklir hagsmunaárekstrar og ekki kraftur til að taka við þessu hlutverki. En þá kem ég aftur að því sem ég sagði áðan að okkur vantar kannski stjórnsýslustig en þó tel ég með lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur hefði getað opnast möguleiki til að nýta í þessu tilfelli. Nú veit ég að þau lög eru ekki komin að fullu til framkvæmda en það er meiningin að opnaðar verði náttúruverndarstofur í öllum kjördæmum og á þann hátt gætum við fundið vettvang sem hefði eftirlitshlutverk hvað snertir náttúruvernd.
    Það er annað sem kemur mér líka á óvart. Náttúruverndarráð var gagnrýnt sérstaklega fyrir að hafa með höndum bæði framkvæmd og eftirlit og þetta þótti afskaplega slæmt. Nú er það svo með Landvörslu ríkisins að hún hefur hvort tveggja með höndum þannig að þarna er ekki verið að gera þær breytingar sem sætta þá sem hafa haldið fram þeim

skoðunum að þetta geti ekki farið saman og er ég reyndar þeirrar skoðunar líka að það hefði verið betra ef þetta hefði geta verið á annan hátt.
    En, hæstv. forseti, ég ætla ekki í fyrri ræðu minni að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég vil bara endurtaka það sem ég sagði áðan að mér finnst slæmt að ekki skyldi nást samstaða í hv. umhvn. um þetta mikilvæga mál vegna þess að ég geri mér grein fyrir því að með tilkomu umhvrn. þurfti að taka á þessu hvað snertir stjórnsýsluna og ég er alveg sannfærð um að hægt hefði verið að nálgast skoðanir okkar framsóknarmanna ef í það hefði verið lögð vinna, ég treysti mér ekki til að svara fyrir aðra flokka en það virðist ekki hafa verið vilji fyrir því í nefndinni.