Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 23:13:51 (4277)


[23:13]
     Frsm. minni hluta umhvn. (Kristín Einarsdóttir) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. spurði hvort ekki hefði verið reynt í hv. umhvn. að fá um það einhverja samstöðu eða hugmyndir um dreifingu valds og vald heim í hérað. Eins og ég rakti í ræðu minni hér áðan var ákaflega lítill tími til að ræða nokkrar hugmyndir eða tillögur vegna þess að áður en nefndin gat raunverulega rætt þær tillögur og hugmyndir sem höfðu komið var borin fram tillaga um að taka málið út úr nefnd eða ljúka yfirferð málsins og eins og hv. þm. er vel kunnugt er formanni skylt að bera þá tillögu upp strax sem formaður gerði og þar af leiðandi var ekki hægt að fjalla um þær hugmyndir sem vissulega höfðu komið fram. Ég vil benda á að á bls. 2 í nál. minni hlutans segir m.a., með leyfi forseta: ,,Mikill veikleiki í frumvarpinu og tillögum meiri hlutans felst í tilhögun við skipan náttúruverndarnefnda og því mjög svo takmarkaða hlutverki sem þeim er ætlað að sinna. Skynsamlegt hefði verið að deila landinu upp í svæði, kjördæmi eða minni einingar og gera ráð fyrir að þau yrðu umdæmi sérstaklega kjörinna náttúruverndarnefnda heimaaðila sem fengju hlutverk og styddust m.a. við væntanlegar náttúrustofur í starfi sínu.``
    Þetta var hugmynd sem við mörg reyndum að koma fram inn í nefndina og töldum að þarna væri kannski einhver vettvangur til þess að færa meira vald heim í hérað. Ég vildi bara benda á að þessar hugmyndir komu vissulega fram en það var ákaflega lítið rætt því að ekki virtist vera neinn vilji til að reyna að koma til móts við mismunandi sjónarmið. Við í minni hlutanum, ef ég get talað fyrir okkur öll, vorum auðvitað oft að reyna að finna hvernig við gætum komið til móts við þessa gagnrýni á mikla miðstýringu í frv.