Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 23:44:12 (4288)


[23:44]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :

    Hæstv. forseti. Ég vissi ekki betur en hér hefði samkvæmt þeirri starfsáætlun ef svo svo má kalla sem fyrir liggur verið gert ráð fyrir einungis kvöldfundi þannig að ég vil nú fyrir það fyrsta einungis taka það fram að þá er ekki venjan að halda fundi a.m.k. mjög langt fram yfir miðnætti þegar svo stendur á. Venjan er að boða hv. þm. ef til stendur að hafa næturfundi en það var ekki minnst á neitt slíkt svo að ég yrði var við í dag þegar þingflokksformenn voru að ræða saman eða a.m.k. okkar þingflokksformaður var hér í húsinu.
    Í öðru lagi er ég einn af þeim sem eru aftarlega á þessari mælendaskrá og ég vil alveg fullvissa forseta um það að ég geri síður en svo kröfu um það að flytja mína ræðu einhvern tíma um miðja nótt. Ég vil frekar ræða þetta í björtu og þvert á móti væri mér frekar þægð í því að henni væri frestað til morguns. Það er ekki vegna neinnar sjálfsvorkunnsemi eða hlífðar við mig út af fyrir sig en það hafði ekki verið gert ráð fyrir næturfundi og ég hafði ekki reiknað með honum.
    Sömuleiðis eru nefndir boðaðar til fundar í fyrramálið og ég held að eðlilegast sé að hafa venjulegt verklag á þessu. Ég beini þeim tilmælum til hæstv. forseta að hann hugleiði hvort ekki sé vænlegt að fresta annaðhvort þessari umræðu nú enda rétt að verða komið miðnætti eða þá að gera samkomulag um að taka 1--2 raðir í viðbót og fresta þessu kannski á milli kl. 12 og 1 eða undir 1. Ég býst við að þingmenn mundu una því að vera eins og eina stund fram yfir miðnætti þó að það hefði einungis átt að vera kvöldfundur. Þetta sýnir sig að vera mál sem kallar á miklar umræður og enn er ekki séð fyrir endann á því hvort margir bætast á mælendaskrána eða hve mikil þessi umræða verður. Hún getur kviknað upp aftur ekkert síður um miðjar nætur en á öðrum tímum sólarhringsins eins og kunnugt er. Ég beini því til forseta sem er íhugull maður að hann velti því fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegt að hafa góðan anda í þessu undir þinglokin og gera samkomulag um að við frestum umræðum annaðhvort nú eða a.m.k. fljótlega og tökum svo bara upp þráðinn á morgun. Ég veit ekki til að það liggi svo mikið fyrir á dagskrá að það sé ekki vel hægt, langur dagur er fram undan á morgun.