Náttúruvernd

94. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 00:10:27 (4291)


[00:10]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég get ekki hafið ræðu mína án þess að gera aftur athugasemd við það að við skulum vera að ræða þetta mjög svo umdeilda mál að næturlagi. Slíkt hefur reyndar gerst áður á kjörtímabilinu. (Gripið fram í.) Hér er forsetinn að ganga hart að hæstv. umhvrh. með því að halda því til streitu að vera með næturfundi og veit enginn hvaða afleiðingar það mun hafa á næstu dögum. Við vitum að hann hefur nóg að gera heima fyrir í barnauppeldi sínu og því finnst mér forseti vera harður í horn að taka við hæstv. umhvrh.
    En að öllu gamni slepptu er afar athyglisvert að skoða þau vinnubrögð sem beitt er þessa dagana á hinu háa Alþingi og einkennir þetta mál sem er til umræðu eins og fleiri sem við erum að upplifa þessa dagana. Við þingmenn hljótum að velta því fyrir okkur hvað er á ferðinni og hversu eðlilegt og hversu gott það sé að meiri hlutinn sé sífellt að beita valdi sínu og rífa mál út úr nefndum sem eru alls ekki fullunnin. Það kemur mjög greinilega fram hér í nál. minni hlutans að þetta mál er ekki fullunnið og skýringar vantar við ýmis atriði. Hið sama hefur verið að gerast í öðrum málum. Í dag var grunnskólafrv. rifið út úr menntmn. gegn atkvæðum stjórnarandstöðunnar og var bent á það í umræðunni að það að taka málið út úr nefndinni á svo viðkvæmu stigi kynni að hafa alvarlegar afleiðingar úti í þjóðfélaginu þar sem kennarar standa í kjarasamningum.

    Fyrir nokkrum dögum gerðist það í allshn. að mál komst varla þar á dagskrá, tillaga sem lá fyrir nefndinni var tekin fyrir á einum fundi og þegar allsherjarnefndarmenn mættu á fund nefndarinnar var þar tilbúið nál. og málið afgreitt á nokkrum mínútum án þess að það fengi nokkra umfjöllun.
    Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að svona vinnubrögð valda mér áhyggjum. Mér finnst að við berum mikla ábyrgð. Við eigum að veita framkvæmdarvaldinu aðhald, við förum með löggjafarvaldið og fjárveitingavaldið og okkur ber að vanda okkur í öllum okkar vinnubrögðum. Þess vegna er alltaf leiðinlegt upp á það að horfa að ráðherrar séu að beita sér og meiri hlutinn sé að beita sér með þessum hætti í mjög alvarlegum og umdeildum málum. Í rauninni finnst mér gilda það sama bæði um grunnskólafrv. og þetta frv. sem hér er til umræðu að þarna eru á ferðinni mál sem mjög góð sátt þarf að ríkja um í samfélaginu. Við rekum ekki grunnskólana í ósátt við kennarasamtökin og ég óttast að verði þetta frv. að lögum miðað við allar þær athugasemdir sem við það eru gerðar þá verði að setja lög um náttúruvernd í óþökk flestra þeirra sem starfa að þeim málum. Ég held að þetta sé ekki skynsamlegt. Stundum kemur það fyrir og þau mál eru til að menn verða að taka af skarið. Við getum t.d. deilt um tekjuöflunarleiðir og skattafrv. og fleira sem eru hápólitísk mál. En önnur málefni eru þess eðlis að um þau verður að ríkja sátt. Ég lít þannig á að málið sé með þeim hætti. Ég ætla aðeins að rökstyðja það, hæstv. forseti.
    Það er einu sinni svo að staða náttúruverndarmála og þau miklu vandamál sem heimurinn á við að glíma á þeim sviðum eru svo alvarleg og eru þess eðlis að samstaða verður að ríkja um hvernig eigi að taka á þeim. Mikil ráðstefna var haldin í Rio de Janeiro sumarið 1993 og komst hún að mjög viðamiklum niðurstöðum um hvernig staðið skyldi að umhverfis- og náttúruvernd í heiminum. Einmitt sú ráðstefna og niðurstöður hennar sýna okkur og sanna hversu nauðsynlegt er að ríki heims komist að samkomulagi. Í smærri mynd gildir auðvitað hið sama um okkur Íslendinga. Við verðum t.d. að standa saman um að snúa þróuninni við hvað varðar uppblástur. Við eigum öll sameiginlegra hagsmuna að gæta hvað varðar verndun fiskimiðanna í kringum landið. Við eigum öll sameiginlegra hagsmuna að gæta varðandi það að ganga vel um íslenska náttúru og ekki aðeins það sem snýr að okkur sjálfum heldur ekki síst það að við erum að reyna að markaðssetja land okkar sem óspillt og ómengað land sem býður upp á stórfenglega náttúru og við spillum auðvitað þeirri ímynd með ýmsum aðgerðum okkar og með því að snúa ekki vörn í sókn á þeim sviðum þar sem verulega reynir á. Þar er ekki síst að nefna umgengni okkar, sem hér búum, um náttúruna með allri eyðslu okkar og neyslu sem m.a. leiðir af sér mikið sorp og ýmis konar mengunarvandamál í frárennsli og öðru slíku. Við þurfum að standa saman til að taka á þessum vandamálum.
    Mér finnst rétt að geta þess í þessu samhengi, virðulegur forseti, að svo vill til að einmitt þessa daga sem við erum að ræða þetta frv. um breytingar á lögum um náttúruvernd er rétt nýhafið náttúruverndarár Evrópuráðsins. Það færi vel saman að hér væri mikil og góð samstaða um að setja ný náttúruverndarlög en því miður er aðeins verið að taka á ákveðnum þáttum þeirra laga og margir þeirra sem sendu umsagnir til umhvn. þingsins benda einmitt á nauðsyn þess að hér fari fram heildarendurskoðun á lögum um náttúruvernd í landinu. Náttúruverndarár Evrópu var haldið í fyrsta sinn árið 1970 fyrir 25 árum og þótti gefast það vel að ástæða væri til að endurtaka það og nú er verið að halda það í annað sinn. Í bréfi, sem mér barst frá umhvrn., er skýrt frá þessu átaki, náttúruverndarári Evrópu 1995 og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Á ráðherrafundi Evrópuráðsins í Lucern í Sviss 28.--30. apríl 1993 var ákveðið að Evrópuráðið og aðildarlönd þess helgi árið 1995 náttúruvernd og gangist fyrir kynningarátaki undir nafninu Náttúruverndarár Evrópu 1995. Umhvrn. hefur ákveðið að taka þátt í þessu átaki og gangast fyrir kynningu á umhverfis- og náttúruvernd hér á landi. Evrópuráðið stóð fyrir sambærilegri upplýsingarherferð um náttúruvernd í Evrópu árið 1970 þar sem m.a. var lögð áhersla á að fræða fólk um náttúruna og þær ógnir sem að henni steðjuðu. Á þeim árum voru augu fólks að opnast fyrir vaxandi mengun og þeim áhrifum sem

maðurinn gat með athöfnum sínum haft á náttúruna. Þá var almennt álitið að stofnun þjóðgarða, friðlanda og friðlýsing lands væri besta leiðin til að varðveita náttúruna og náttúrulegan fjölbreytileika lífríkisins. Því var lögð áhersla á að fjölga friðuðum svæðum í Evrópu. Í kjölfarið fylgdi svo gerð margra evrópskra náttúruverndarsamninga sem miðuðu að því að vernda tegundir dýra og plantna og búsvæði þeirra. Meðal þeirra má nefna Ramsar-samninginn og Bernar-samninginn. Á síðustu árum hefur fólk áttað sig á því að það er ekki nóg að hafa þjóðgarða og friðlýst svæði til þess að viðhalda náttúrunni og náttúrulegum fjölbreytileika ef ekki er að sama skapi hlúð að náttúrunni utan þessara svæða. Í auknum mæli er farið að hvetja til almennrar náttúruverndar utan friðlýstra svæða, sérstaklega í nágrenni við þéttbýli enda hefur komið í ljós að þéttbýlisbúar sækja í auknum mæli í fjölbreytta náttúru til útivistar.
    Á náttúruverndarári Evrópu 1995 verður megináhersla lögð á náttúruvernd utan friðlýstra svæða. Tilgangurinn með árinu er að opna augu almennigs, landeigenda, skipulagsyfirvalda, bæjar- og sveitarstjórna fyrir því að ekki sé nóg að vernda náttúruna með því að friðlýsa ákveðin svæði svo sem þjóðgarða, friðlönd eða náttúruvætti þar sem náttúran geti þróast eftir sínum eigin lögmálum. Eigi náttúruvernd að vera virk og árangursrík er einnig nauðsynlegt að hlúa að náttúrunni utan friðlýstra svæða. Einkunnarorð ársins eru: Hyggjum að framtíðinni, hlúum að náttúrunni. Umhvrn. ákvað árið 1993 að taka þátt í náttúruverndarári Evrópu 1995 og var sérstök undirbúningsnefnd undir forustu Baldvins Jónssonar skipuð til að skipuleggja, undirbúa og sjá um framkvæmd ársins hér á landi í samráði við umhvrn. Nefndin er skipuð tíu fulltrúum áhugamannasamtaka, félagasamtaka og stofnana. Undirbúningsnefndin og umhvrn. hyggjast m.a. beita sér fyrir aðgerðum sem stuðlað geti að aukinni þátttöku almennings í náttúruvernd, almennri vitundarvakningu, ekki síst meðal barna um mikilvægi náttúru- og umhverfisverndar. Aukinni náttúruvernd og útivist í nágrenni þéttbýlis, aukinni áherslu skipulagsyfirvalda og bæjar- og sveitarstjórna á verndun náttúrulegra svæða í og við þéttbýlissvæði.
    Í aðildarlöndum Evrópuráðsins sem eru nú 33 talsins er mikill áhugi fyrir náttúruverndarárinu. Áherslur landanna eru að vonum mismunandi en mörg lönd munu leggja áherslu á náttúruna í nágrenni borga og bæja, líffræðilegan fjölbreytileika, landnýtingu og almannarétt. Auk þess mun Evrópuráðið standa fyrir ýmsum uppákomum, m.a. málþingum í samvinnu við aðildarlöndin og ljósmyndasamkeppni. Umhvrn. vonast til þess að sem víðtækust þátttaka verði í náttúruverndarárinu hér á landi. Sveitarstjórnum, stofnunum, fyrirtækjum, áhugamannasamtökum, félögum og öðrum sem vilja taka þátt í aðgerðum náttúruverndarársins er bent á að hafa samband við umhvrn. eða undirbúningsnefnd náttúruverndarársins.``
    Virðulegur forseti. Þar með lýkur tilvitnun í þetta bréf sem ég hef nú lesið og í því er að finna ákveðna stefnumörkun fyrir þetta umhverfisár og ég fæ ekki betur séð en að það frumvarp sem hér er til umræðu gangi nokkuð þvert á stefnumörkun Evrópuráðsins í náttúruverndarmálum. Hér er að því vikið hversu nauðsynlegt er að vera í góðu samstarfi við alla aðila og komið er inn á ýmis þau atriði sem fjallað er um í þessu frv. en sem umhvrh. og umhvrn. er að taka allt í sínar hendur og mun ég koma betur að því hér á eftir. Maður spyr sig: Hvernig á að vera hægt að halda upp á þetta ár hér á landi þegar hæstv. umhvrh. er kominn í hálfgerða styrjöld við alla þá sem vinna að náttúruvernd hér á landi? Ég spyr nú: Er þetta skynsamlegt? Hefði ekki þurft að vinna þetta mál betur?
    Í nál. minni hluta umhvn. kemur fram að það liggur fyrir mikil gagnrýni á þetta frv. og að minni hlutinn umhvn. hefði óskað þess að fá að skoða ýmsa þætti frv. betur. Þess hefði verið óskað að leitað hefði verið eftir samkomulagi en því miður var rétt einu sinni ákveðið að beita meirihlutavaldinu og keyra frv. út. Ég er því miður hrædd um að afgreiðsla málsins sé nú nokkuð lýsandi fyrir afstöðuna til náttúruverndar. Að vísu skal tekið tillit til þess að umhvrn. er auðvitað að reyna að styrkja stöðu sína í stjórnkerfinu og ég get tekið undir að mikil þörf er á að styrkja umhvrn. En ég held því miður að þessi aðferð sé ekki líkleg til að skila miklum árangri. Við hljótum að verða að líta á það að stjórn umhvrn. á málaflokkum sínum verður að vera í samræmi við aðrar stjórnsýsluhefðir og ég

hlýt í því sambandi, hæstv. forseti, að benda á umsögn Ferðafélags Íslands sem Páll Sigurðsson skrifaði, sem er lögfræðingur, ég held hann sé prófssor við Háskóla Íslands, reyndar er önnur umsögn frá honum, þar sem bent er á að ráðuneytið sé komið í tvöfalt hlutverk, sem framkvæmdaraðili og sem eftirlitsaðili. Þetta er einmitt atriði sem við höfum verið að taka í gegn í stjórnkerfi okkar, að koma í veg fyrir að stofnanir ríkisins séu í þessu tvöfalda hlutverki. Ég vil spyrja hæstv. umhvrh., sem nú gengur í salinn, hvað hann segi um þessa athugasemd Páls Sigurðssonar. Ég fæ ekki betur séð en þetta standist hjá honum að komist sú skipan á sem frv. gerir ráð fyrir er umhvrn. beinn aðili að öllu eftirliti með náttúruvernd í landinu í gegnum Landvörslu ríkisins sem ráðherra einn skipar stjórn í, þetta er beint undir ráðherra og Landvarsla ríkisins gegnir gríðarlega breiðu hlutverki, hún hefur mjög víðtækt hlutverk. Þeir sem ákvarðanir eða framkvæmdir Landvörslunnar bitna hugsanlega á eða ef menn eru ósáttir við þær og vilja leita til ráðuneytisins þá situr ráðuneytið beggja vegna borðsins. Finnst hæstv. umhvrn. þetta skynsamlegt? Ég spyr.
    Ég hlýt að gera að umtalsefni áður en ég kem að einstökum atriðum það sem hefur aðeins komið hér við sögu í umræðunni og ég kom inn á við 1. umr. um þetta mál. Það er það sem snýr að samvinnu við sveitastjórnir eða það sem við getum kallað heimamenn. Að mínum dómi er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af þeim málum. Ég get aftur rifjað það upp að þar er ég bæði að hugsa um samskipti ráðuneytisins við Mývetninga og eins við félagasamtökin á Húsavík, sem ætluðu sér að græða upp Hólasand, og þó ég telji að þar hafi verið kannski staðið heldur óhönduglega að hlýtur það að vera áhyggjuefni þegar heimamenn bera bæði náttúruverndaryfirvöldum, þ.e. Náttúruverndarráði og umhvrn., söguna illa og kvarta yfir því að ákvarðanir séu teknar yfir hausamótunum á þeim og ekki sé hlustað á heimamenn. Ég er alveg sannfærð um að við náum ekki árangri í náttúruvernd og uppgræðslu hér á landi svo þau dæmi séu bara tekin, við gætum tekið verndun fiskstofnanna líka, öðruvísi en samkomulag sé um það. Það sé skilningur, þekking og vilji til að taka á málunum. Mér er það áhyggjuefni að heyra úti á landsbyggðinni, ég hugsa sérstaklega um þessa tvo staði og kannski eru Mývetningar nokkuð sér á parti hvað þetta varðar. En þegar ég kom þangað í heimsókn ásamt fleiri kvennalistakonum vakti það okkur vissulega áhyggjur að heyra hvernig þeir töluðu um yfirvöld í þessu samhengi. Mér finnst því miður að í frv., og mér finnst það vera mikill galli á því frv., þá er ætlast til þess að áhugamannasamtök og félagssamtök og sveitarfélögin séu einhvers konar áhugaaðilar um þessi mál. Þau mega koma með ráðleggingar og ábendingar og tillögur en þau hafa ekki bein áhrif á þróun mála eða á ákvarðanir. Þar er það ráðuneytið sem ræður öllu. Þó að ég sé á þeirri skoðun að í umhverfisverndarmálum þurfi ráðuneytið að hafa rétt til íhlutunar og þurfi að hafa nokkurn styrk í því að taka stundum óvinsælar ákvarðanir þá finnst mér of langt gengið hér. Mér finnst þetta nokkuð sérkennilegt að sveitarfélögin í landinu eigi að setja upp náttúruverndarnefndir sem eiga fyrst og fremst að gegna því hlutverki að koma með tillögur og ábendingar en ekki að stjórna neinu eða halda utan um mál í sínu sveitarfélagi. Ég held að það þurfi að skoða þetta mál betur.
    Sama gildir um Náttúruverndarráð. Það er einhvern veginn verið að stíga skrefið til hálfs. Það er sett á laggirnar ný stofnun sem á að hafa mjög mikil völd og mikla umsýslu og reyndar er mjög óljóst í mínum huga hvernig hún á að starfa, hvernig hún á að geta sinnt þessu öllu. Fyrst ég kem að því vil ég gjarnan beina þeirri spurningu til hæstv. umhvrh. hvernig hann sér þessa stofnun fyrir sér. Hvað erum við að tala um stóra stofnun? Hvað þarf þessi stofnun að vera stór til þess að hún geti sinnt hlutverki sínu almennilega og í samræmi við þessi lög? Hvað erum við að tala um stóra stofnun? Ég sé ekkert um það í þeim gögnum sem ég hef fengið í hendur og kemur hvergi fram í umsögnum eða í nál. meiri hlutans. Hvað eru menn að tala um?
    Ég var komin að atriðinu með samvinnuna við sveitarfélögin og félagasamtök og ég nefndi það að menn væru að stíga skrefið til hálfs. Það er sett á laggirnar ný stofnun og völd og áhrif tekin af Náttúruverndarráði en það á að vera til samt sem áður sem einhvers konar ráðgefandi umsagnaraðili. Hver á að vera hvatinn, hæstv. umhvrh.? Hvað er það sem á að hvetja fólk og félagasamtök til að taka þátt í þessu? Bara áhuginn? Hefur

hæstv. umhvrh. trú á því að Náttúruverndarráð muni virka áfram og hafa eitthvað að segja með þeim formerkjum að vera eingöngu ráðgefandi og vera að halda þing og hinir og þessir, m.a.s. þingmenn, mega mæta á þingið og ýmsir fulltrúar. Það er auðvitað góðra gjalda vert að ræða náttúruverndarmál á breiðum grundvelli en hvers vegna ætti fólk að vera að leggja þetta á sig ef það hefur engin áhrif?
    Ég verð að viðurkenna það að ég hef miklar efasemdir um það að þetta virki. Enda er á það bent í umsögnum um frv., eins og ég nefndi reyndar áðan, að það hefði verið miklu nær að skoða lög um náttúruvernd í heild. Þetta kemur m.a. fram í umsögn Náttúruverndarráðs og hjá Ferðafélagi Íslands og hjá fleiri aðilum sem sendu inn umsagnir. Það væri vert, þó að hæstv. umhvrh. eigi nú kannski ekki eftir langan tíma í sínu embætti þó maður viti svo sem aldrei, að beina spurningu til hæstv. umhvrh. hvort hann hafi í huga eða hvort það standi til að skoða lög um náttúruvernd í heild. Ég get vel ímyndað mér að það sé mikil þörf á því. Það er tekinn hér stjórnunarþátturinn en aðrir þættir skildir eftir. Það er margt að gerast í náttúruverndarmálum og hugmyndir og aðferðir að breytast.
    Síðan er það enn ein spurning t.d. hvernig Náttúrufræðistofnun Íslands og þær náttúruverndarstofur sem verið er að stofna úti á landi koma inn í þessa mynd. Hvernig verður tengingin þarna á milli? Ég verð að viðurkenna að ég á mjög erfitt með að sjá fyrir mér þetta kerfi. Ég hef verið að reyna að átta mig á þessu en mér finnst erfitt að sjá hvernig þetta kerfi virkar.
    Flestir ræðumenn sem hér hafa talað, ég er líklega sá áttundi í röðinni í dag, hafa gert athugasemd við það hvernig stjórn Landvörslunnar á að vera skipuð. Ég get tekið undir það að mér finnst hér um óeðlilega mikið vald ráðherra að ræða. Þar við bætist að skipunartími þessarar stjórnar á að fylgja setu ráðherrans. Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum? Er þetta svo hápólitísk nefnd að það sé nauðsynlegt að stjórnin víki um leið og ráðherrann? Það segir í brtt. með frv., með leyfi forseta: ,,Skipunartími skal fylgja skipunartíma ráðherra.`` Ég vil nú spyrja hæstv. umhvrh. hvort hann telji þetta nauðsynlegt eða hvort hann sé reiðubúinn til þess að breyta þessu. Hvers vegna í ósköpunum þarf að vera að gera náttúruvernd og stjórn sem á að annast um landvörslu og friðlýsingar og þjóðgarða --- á slík stjórn ekki að vera hafin yfir eitthvert pólitískt þras? Hvaða nauðsyn rekur til þess að slík stjórn þurfi að víkja um leið og hæstv. umhvrh.? Ég bara spyr.
    Það hefur líka komið sterklega fram í umræðunni gagnrýni á þá miklu miðstýringu sem hangir saman við það mikla vald sem hér er fært til umhvrh. og einmitt velt upp þeirri spurningu, sem ég reyndar kom að hérna áðan, hvort það skipulag sem hér er verið að koma á sé í samræmi við þær stjórnsýsluhefðir og þá endurskoðun á stjórnsýslu sem hér hefur átt sér stað.
    Ég ætla ekki að fara hér ítarlega út í þessa stofnun meira en ég hef gert eða þau hlutverk sem hún á að hafa og það sem verið er að færa frá Náttúruverndarráði yfir til Landvörslu ríkisins. Í nál. minni hlutans er líka bent á það varðandi Landvörsluna, með leyfi forseta: ,,Sérstaka athygli vekur að ekki er gert ráð fyrir eftirliti með framkvæmdum af hálfu Náttúruverndarráðs en Landvörslunni ætlað að yfirtaka einnig það hlutverk.`` Þarna kemur enn að því sama að Landvarslan á að gefa umsagnir og leyfi en hún á jafnframt að hafa eftirlitið með framkvæmdunum. Það eru einmitt svona vinnubrögð sem menn hafa verið að reyna að uppræta í íslensku stjórnkerfi, að menn séu að fylgjast sjálfir með sínum eigin ákvörðunum.
    Í nál. minni hlutans er varpað fram þeirri spurningu hvort ekki hefði verið skynsamlegra að skipta landinu upp í náttúruverndarsvæði til þess að auðveldara væri að hafa eftirlit með þeim. Þetta tengir okkur þeirri spurningu hvernig í ósköpunum Landvarslan eigi að hafa eftirlit með þessu öllu saman. Á það að verða einhvers konar kerfi, landvarðakerfi, eða hvernig á þetta að vera? Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að enn einu sinni stöndum við frammi fyrir því á hinu háa Alþingi að það er verið að samþykkja lög og lagabálka án þess að það sé í rauninni gerð nægjanlega vel grein fyrir því hvernig framkvæmdin á síðan að vera, hvað þetta þýðir, hvers konar uppbygging, hvers konar kerfi það eru sem verið er að koma á fót. Það er einmitt ekki síst það sem sú sem hér stendur var

að gagnrýna í sambandi við grunnskólafrv., að menn vissu í rauninni ekkert hvað þeir væru að samþykkja, menn vita ekkert hvað er verið að færa yfir á sveitarfélögin. Hér gildir það sama og ég hlýt að spyrja að því: Hvernig á þessi nýja stofnun að komast yfir það að fylgjast með allri náttúruvernd og stöðu náttúruverndarmála í landinu?
    Ég hygg að það hafi verið komið að því atriði sem bent er á í nál. að ákveðnir þættir í verkefnum Landvörslunnar kunni að skarast við verkefni dómsmrn. og nefndin virðist ekki hafa kannað það mál til hlítar. Mig langar að spyrja hæstv. umhvrh. hvort það hafi verið eitthvað skoðað frekar um árekstra þarna á milli. Þá er fyrst og fremst verið að tala um akstur utan vega og eftirlit með hrossum og fleira slíkt sem eru svo sem engin stóratriði en þurfa þó að vera ljós. (Gripið fram í.) Já, þarf að vera ljóst hvernig á þessu á að halda. Sem ég rek augun í þennan punkt rifjast það upp fyrir mér að Náttúruverndarráð gerir reyndar athugasemdir við nafnið á þessari stofnun og finnst að þetta sé mjög neikvætt nafn. Og fyrst við erum rétt að byrja 2. umr. um málið er vert að velta því fyrir sér hvort ekki sé vilji til þess að breyta nafninu. Mig langar að spyrja hæstv. umhvrh. að því: Finnst honum koma til greina að gera nafn þessarar stofnunar jákvæðara? Að vera ekki með þetta vörsluhugtak heldur að skoða aðrar tillögur? Það er að finna tillögur um önnur nöfn í umsögn Náttúruverndarráðs .
    Mig langar líka að spyrja hæstv. umhvrh. um það hvað fyrirhugað er með starfsmenn Náttúruverndarráðs þegar eða ef þessi breyting verður. Hefur það eitthvað verið rætt? Ég vil biðja hæstv. umhvrh. að upplýsa mig um það hvort ríkið hefur einhverjar skyldur gagnvart þessum starfsmönnum. Nú er þetta í rauninni varla ríkisstofnun. Ég verð nú að viðurkenna fáfræði mína hvað þetta varðar, ég átta mig ekki á því hvernig staða þeirra er í þessu kerfi en það þarf auðvitað að vera ljóst þegar slíkar breytingar eru gerðar.
    Hæstv. forseti. Ég ætlaði aðeins að koma inn á einstakar brtt. í frv. ef ég hef ekki gert það áður. Mér þykir fyrir því ef ég er að endurtaka það sem aðrir þingmenn hafa spurt um í dag. En mig langar fá að vita hvernig fyrirhugað er að Þingvellir komi inn í þetta dæmi. Það kemur fram í brtt. og í frv. að þjóðgarðar landsins muni heyra undir Landvörsluna og mig langar að fá það upplýst hér hvort það hefur verið rætt og hvort það er fyrirhugað að gera breytingar á skipulagi Þingvalla, þ.e. undir hvern Þingvellir heyra. Eins og við vitum þá heyra Þingvellir undir sérstaka nefnd, Þingvallanefnd, sem kosin er af Alþingi og þar er sú sérstaða að þjóðgarðsvörðurinn er um leið prestur í Þingvallakirkju. En þarna er um svo umfangsmikinn rekstur að ræða og --- það er erfitt að leggja dóm á þjóðgarðana en á ég að segja að þetta sé kannski okkar dýrmætasti eða merkilegasti þjóðgarður frá sögulegu sjónarmiði og auðvitað hlýtur umhvrn. að koma að rekstri hans eins og annarra þjóðgarða.
    Í brtt. er líka komið inn á það að Landvörslu ríkisins sé heimilt að setja á stofn og reka gestastofur í þjóðgörðum og öðrum náttúruverndarsvæðum eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Þetta er hugsað sem eins konar fræðslumiðstöðvar og mér finnst þetta mjög góð hugmynd. En það hljóta þó að vera sett mjög ströng skilyrði fyrir því hvaða starfsemi má fara fram innan þjóðgarða því að tilgangurinn með þjóðgörðum er sá fyrst og fremst að vernda umhverfið og vernda sögulegar minjar. Nú er ég ekki að gera athugasemd í rauninni við þetta en ég átta mig ekki á því hversu viðamikil starfsemi þetta er og hvort þá er fyrirhugað, hæstv. umhvrh., að það eigi sér stað byggingarframkvæmdir, t.d. í þjóðgarðinum í Jökulgljúfrum eða hugsanlega á Þingvöllum. En ég verð að viðurkenna það að ég er því ákaflega mótfallin að verið sé að byggja í þjóðgarðinum á Þingvöllum meira en orðið er.
    Hæstv. forseti. Ég held að ég sé búin að koma flestum mínum spurningum á framfæri. Ég kann að hafa gleymt einhverju. En að lokum vil ég aðeins koma að því að við erum nú að endurskoða mannréttindakafla stjórnarskrárinnar hér á hinu háa Alþingi og reyndar eru það nokkur önnur atriði sem hafa verið tekin til umfjöllunar. Og ég verð eiginlega að segja það að mér þykir leitt að hafa ekki látið mér detta í hug, þegar ég var að vinna að undirbúningi þeirra breytinga ásamt þingflokksformönnum, að taka inn í brtt. ákvæði um náttúruvernd, um að náttúruvernd sé lögbundin í stjórnarskránni, þ.e. skylda

okkar til þess að vernda íslenska náttúru. Ég held að þetta sé atriði sem væri mjög vert að velta fyrir sér.
    Það er nú einu sinni svo, hæstv. forseti, að það er nokkuð inngróið í hugsunarhátt Vesturlandabúa að við höfum rétt til þess að nýta náttúruna oft á tíðum meira en góðu hófi gegnir og við eigum mjög langt í land með að breyta hér hugarfari gagnvart náttúrunni. Við sjáum það kannski best í umræðum um okkar fiskveiðistjórnun og þegar verið er að úthluta afla og verið að tala um takmarkanir á veiðum hve málin verða viðkvæm þegar kemur að hagsmunum einstaklinganna og því að menn þurfi hugsanlega að skera eitthvað niður sjálfir eða að láta í einhverju af hagsmunum sínum. Þar komum við að því atriði að lýsa auðlindir okkar þjóðareign sem ég hef alltaf verið hlynnt og ég hef alltaf verið hrifin af þeirri tillögu Alþfl. að lýsa landið þjóðareign. Ég vildi reyndar ganga lengra og mér finnst að, nú ætla ég að vona að ég móðgi ekki mjög hv. þm. Jón Helgason, sem er nú einn helsti talsmaður bænda á Alþingi, en mér hefur í rauninni lengi þótt það óeðlilegt hvernig landeigendur geta nýtt og hafa í rauninni lagt eignarhald á auðlindir sem þeir eiga engan þátt í að skapa. Þar er ég t.d. að hugsa um heitt vatn í iðrum jarðar og jafnvel kalt vatn. Við minnumst þess fyrir nokkrum árum þegar erfingjar ákveðinna aðila í Reykjavík seldu land fyrir 60 milljónir vegna þess að Reykjavíkurborg var að afla sér vatnsréttinda og ætlaði reyndar að fara að nýta jarðhita. Í þessu samhengi mætti líka nefna laxveiðiár sem ættu að vera eign sveitarfélaga en ekki einstaklinga að mínum dómi.
    En rétt í lokin, hæstv. forseti, langar mig til að rifja upp nokkur orð um hugsunarhátt hins hvíta manns, sem við erum nú hluti af, og vitna til mjög frægrar ræðu sem haldin var árið 1854 af indíánahöfðingja vestur í Bandaríkjunum en indíánar áttu í deilum við hvíta menn sem voru að reyna að ná af þeim landinu. Þessi ræða þykir í dag ákaflega merkileg vegna þess að hún lýsir viðhorfi til náttúrunnar sem við Vesturlandabúar erum því miður komin ákaflega langt frá en er kannski einkenni hins upprunalega bændasamfélags og þeirra sem þurftu að lifa á landinu og vissu að ef gengið væri of nærri landinu og dýralífinu þá var manninum hætta búin. Hér lýsir þessi indíánahöfðingi, sem hét Seattle og ég hygg að borgin Seattle sé kennd við, þessum viðhorfum til náttúrunnar. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Hvernig getur nokkur selt eða keypt himininn, ylgjafa jarðar? Sú hugmynd er afar framandleg. Vér getum ekki slegið eign vorri á ferskleika loftsins né á blik vatnsins. Hvernig getið þér þá keypt þetta af oss? Hvert fótmál jarðar er voru fólki heilagt. Hver tindrandi barrnál, hvert sandkorn á ströndinni, hver daggarperla hinna myrku skóga, hvert rjóður og hvert skorkvikindi er heilagt í minningum og reynslu míns fólks. Hinn rammi safi er stígur upp boli trjánna geymir minningar hins rauða manns. Dauðir gleyma hvítu mennirnir því landi sem fæddi þá af sér, farnir á gönguferð milli stjarnanna. En vér erum partur jarðar og jörðin er partur af oss. Ilmberandi blómin eru systur vorar. Hjörturinn, hesturinn, hinn mikli örn, allir þessir eru bræður vorir. Gilklungrin, vessar jarðar í enginu, búkvarmi hestsins og maðurinn, allir heyra þeir sömu fjölskyldunni til.``
    Þetta er kjarni málsins, hæstv. forseti. Við erum hluti af náttúrunni og við höfum miklar skyldur gagnvart náttúrunni og verndun hennar. En því miður hygg ég að í þessu frv. hafi hæstv. umhvrh. lent á villigötum. Í stað þess að leita samráðs og samvinnu við landsmenn og félagasamtök, í stað þess að veita sveitarfélögunum hlutverk þannig að þau sinni sínu umhverfi og veiti raunverulegt aðhald og eftirlit er því miður verið að safna miklu valdi í hendur umhvrn., of miklu valdi þó að, eins og ég hef nefnt, það þurfi að hafa ákveðið vald, það þurfi að geta skorið úr. En hér er of langt gengið og það er svo greinilegt á viðbrögðum þeirra sem eiga að vinna við þessi mál að það ríkir ekki sátt um þetta mál og það þykir mér miður. Mér finnst að við ættum að taka þetta mál aftur til umhvn. og reyna að leita þar leiða til þess að við getum náð sátt um það. Ég hygg að það þurfi ekki mjög miklar breytingar til þess að slík sátt geti náðst.