Náttúruvernd

94. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 01:13:40 (4300)


[01:13]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi varðandi 57. gr. þingskapa sem hér hefur aðeins komið til umræðu þá tel ég að hv. 2. þm. Suðurl. geti upplýst það hvort það hafi verið það ákvæði sem hann hafði í huga þegar hann spurði hvernig forseti hygðist haga störfum sínum. Ég þykist þekkja hv. þm. það vel að það hafi ekki verið nákvæmlega það sem hann hafði í huga enda nefndi hann annað atriði sem var öllu nær lagi. En ég vil líka upplýsa það að ég var í þeirri nefnd sem sá um endurskoðun á þingsköpum og þar var sérstaklega tekið fram varðandi þessa grein að hér væri um algjöran neyðarrétt að ræða og þessu væri sérstaklega haldið inni í ljósi reynslunnar og trausts þess sem menn hefðu á því að slíkt væri ekki misnotað. Það þótti rétt að halda þessu inni en þetta er ekki það fyrsta sem ég taldi að hlyti að koma upp í huga forseta.
    Hins vegar var ástæðan fyrir því að ég bað um orðið um fundarstjórn forseta sú að mig langar til þess að biðja hæstv. forseta að upplýsa hvort hér séu margir fulltrúar Sjálfstfl. staddir í þinghúsinu. Ég hef beðið með óþreyju eftir því að heyra þeirra hlið á málinu þar sem ég hef rökstuddan grun um að þeim sé ekki svo mjög hugnanleg þessi mikla miðstýring sem frv. hefur í för með sér. Ég sá ekki annan kost vænni en að setja sjálfa mig á mælendaskrá til að knýja fram þessar upplýsingar þegar ég var orðin úrkula vonar um að nokkur málsvari Sjálfstfl. tæki til máls. Mér þykir það orðið mjög undarlegt

í umfjöllun þessa máls ef enginn treystir sér til að styðja hæstv. umhvrh. í hans mikla kappi í að koma þessu máli áfram með því svo mikið sem að segja orð um þetta mál. Ég hlýt að túlka það þar sem ég hef fyrir mér umræðu sem var fyrr í vetur, þann 15. nóv. sl. nánar til tekið, þar sem einn af fulltrúum Sjálfstfl. í umhvn. gagnrýndi sérstaklega miðstýringaráráttu umhvrn. Ég hef rökstuddan grun um að það sé ekki í þökk sjálfstæðismanna að öllu leyti, a.m.k. ekki þeir hlutar þessa frv. sem lúta að aukinni miðstýringu. Þar af leiðandi mun ég biðja um þegar að mér kemur, sem ég vona að verði ekki á þessari nóttu, ég tek undir beiðni um að hér verði ekki haldið áfram með næturfund, að hér verði sjálfstæðismenn til svara fyrir flokk sinn í þessu máli.