Náttúruvernd

94. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 01:16:58 (4301)


[01:16]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég beindi því til forseta fyrir um tveim tímum eða svo að hæstv. forseti íhugaði hvort ekki væri skynsamlegt að reyna að ná einhverju samkomulagi um fundarhaldið hér í kvöld og ljúka því ekki langt frá miðnættinu þar sem ekki hefði verið talað um næturfund í dag og þingmenn ekki almennt búið sig undir næturfundi. Þvert á móti eru fundir í flestum nefndum strax kl. 8 eða 8.15 í fyrramálið og því ekki mjög heppilegt að halda mönnum á fundi hér langt fram á nótt og raunar ekki í samræmi við venju þar sem venjan er að vara menn við og láta boð út ganga ef menn hafa ástæðu til að ætla að það stefni í næturfund. Það mun hafa verið rætt á fundi formanna þingflokka að komi gæti til þess að kvöldfundir yrðu tvö kvöld í þessari viku, í kvöld og á fimmtudagskvöld en annað ekki. Þá er það nú þingvenja að miða slíkt við miðnætti, að það sé verið að tala um að fundir standi ekki a.m.k. öllu lengur en fram að miðnætti.
    Í öðru lagi verð ég að segja, hæstv. forseti, að mér finnst hæstv. forseta ekki mjög lagið að fá þingmenn til samstarfs við sig um fundarhaldið á þessu kvöldi. Ég verð að láta þá skoðun mína í ljós. Það er afar óheppilegt, hæstv. forseti, að svara eðlilegum fyrirspurnum um tilhögun fundahaldsins með tilvitnun í 57. gr. og taka þannig til orða að það standi ekki til að sinni
    ( Forseti: (GunnS) : Ekki að sinni.)
    að beita ákvæðum um að takmarka málfrelsi sem ekki hefur verið gert í tæp 46 ár í þinginu. Er hæstv. forseti virkilega að gefa það í skyn að það sé að styttast í andrúmsloft af því tagi í samskiptum manna hér sem varð tilefni þeirrar valdbeitingar og þeirrar hörmungar og nauðungar sem þá gekk yfir þing og þjóð? Ég trúi ekki öðru en þetta hafi verið vanhugsuð orð af hálfu hæstv. forseta og hann ætti að hugleiða að draga þau til baka, hverfa frá að vera að blanda þessari nefndu grein í umræðurnar um venjulega fundarstjórn á þessu kvöldi um mál sem ég held að engum þingmanni fyrr en hæstv. forseta hafi svo mikið sem dottið í hug að gæti orðið tilefni til vangaveltna af þessu tagi að farið yrði út í að takmarka málfrelsi manna hér.
    Ég ítreka það, hæstv. forseti, að ég held að það fari að verða kominn sá tími sem skynsamlegt sé í öllu falli að fara að hugsa sinn gang og reyna að leita eftir samkomulagi um tilhögunina. Ég tek undir að það færi vel á því ef hæstv. umhvrh. vildi svara á þessu stigi umræðunnar því sem hann hefur verið spurður að í umræðunni í dag og menn létu svo staðar numið og tækju upp þráðinn aftur á morgun og hefðu þá nægan tíma. Þegar verið er að biðja um eðlilegt fundarhald er ekki verið að biðja um að menn hafi ekki tíma til að tjá hug sinn heldur þvert á móti að þær umræður geti farið fram á eðlilegum tímum sólarhringsins.