Náttúruvernd

94. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 01:22:29 (4303)

[01:22]
     Frsm. minni hluta umhvn. (Kristín Einarsdóttir) (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég hef ekki heyrt enn þá að nokkur þingmaður hafi kvartað yfir því að þessar umræður hafi tekið of langan tíma. Ég vil minna hæstv. forseta á að 1. umr. þessa máls tók tvo daga, þ.e. 10. nóv. og 17. nóv. Það var ekki gerð ein einasta athugasemd við það hvorki af forseta né öðrum að þær umræður væru slitnar í sundur og þær tækju yfir tvo daga. Það kom sér t.d. ekki sérlega vel fyrir mig vegna þess að ég þurfti að vera annars staðar síðari daginn en auðvitað gerði ég ekki athugasemd við það á þeim tíma. Ég man ekki til þess að forseti hafi þá farið að vitna til þess að það þyrfti að grípa til 57. gr. þingskapa. Það vildi þannig til að ég var hér og heyrði þegar hv. 2. þm. Suðurl. spurði um hvernig þessum fundi mundi fram haldið og var fyrst og fremst að vitna til þess að hann vildi gjarnan fá svör hæstv. umhvrh. Ég skil ekkert í af hverju hæstv. forseti vitnar ekki til 56. gr. frekar vegna þess að þar stendur, með leyfi forseta: ,,Forseti gefur þingmönnum venjulega færi á að taka til máls í þeirri röð er þeir beiðast þess þá er dagskrármálið er tekið fyrir. Þó getur hann vikið frá þeirri reglu við ráðherra, sem hlut á að máli . . .  `` Það er einmitt það sem hv. þingmaðurinn var að tala um. Hann var ekkert að tala um að hann væri að ætlast til að forseti færi að stytta umræður eða skerða málfrelsi. Ég leit svo á að að fara að vitna til 57. gr. í tilefni orða hv. þm. væri algerlega út úr kortinu. Mér þykir mjög alvarlegt þegar umræður hafa ekki tekið lengri tíma en þetta í stóru ágreiningsmáli þá skuli forseti vitna til 57. gr. þingskapa. Mér þykir þetta mjög alvarlegt.