Náttúruvernd

94. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 01:37:07 (4310)


[01:37]
     Finnur Ingólfsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um að hæstv. forseti sé að greiða fyrir framgöngu þessa máls í þinginu með þeim vinnubrögðum sem nú eru viðhöfð við stjórn fundarins.
    Hér eru inni tíu hv. þm. stjórnarandstöðunnar, þrír hv. stjórnarþingmenn. ( Gripið fram í: Og allt kratar.) Og allt saman kratar. Það væri því fróðlegt að sjá hvernig hæstv. forseti ætlaði að tryggja tillögu sinni um skertan ræðutíma meirihlutafylgi í þinginu þegar þyrfti að bera það upp.
    Ég hélt að það skipti nokkru máli fyrir hæstv. umhvrh. að fá þetta mál í gegnum þingið en eins og hæstv. forseti hefur haldið hér á máli þá er ég alveg sannfærður um að hann hefur stórskemmt fyrir því að þetta mál geti fengið eðlilega umræðu og framgang í gegnum þingið.
    Ég hef beðið um að þessari umræðu yrði frestað og fundi slitið í nótt og málið tekið upp á öðrum fundi. Ég hef ekki fengið svör hjá hæstv. forseta við þeirri spurningu minni. Til vara ætla ég að óska eftir því að forseti geri hlé á fundi og formenn þingflokka, forseti þingsins og hæstv. umhvrh. gefi sér örlítinn tíma og ræði um hvernig hægt sé að ljúka þessu í nótt.