Náttúruvernd

94. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 02:50:50 (4318)


[02:50]
     Frsm. minni hluta umhvn. (Kristín Einarsdóttir) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég ætlaði ekki að fara yfir öll svör hæstv. umhvrh., mér gefst betra tækifæri til þess síðar. En það var ýmislegt sem ég hef við hans svör að athuga og eins og hann kom sjálfur að þá vantaði heilmikið enda ekki von í svona stuttri ræðu að hægt væri að koma nema inn á á örfá atriði sem menn hafa nefnt í umræðunni.
    Það má kannski orða það svo að það sé ónákvæmni í orðalagi þegar hann sagði að nefndin hafi haft frv. í allan vetur til umfjöllunar. Ég vil benda á að þetta mál kom til nefndar þann 18. nóv. sl. og umfjöllun nefndarinnar hófst fljótlega eftir það. En þá er ekki nema mánuður til jólahlés þingmanna og síðan hefur verið mánuður núna eftir. Mér fannst hæstv. ráðherra eins og gefa það í skyn að nefndin hefði heldur slegið slöku við vinnu að þessu máli. Ég vil mótmæla þessu vegna þess að það er búið að halda fjölmarga fundi og hef ég gengið nokkuð hart eftir að boða fundi á ólíklegustu tímum. Ég hef nýtt tímann í hádeginu og kl. átta morgnana og stundum gengið nokkuð á rétt þingmanna eins og einn þingmaður kvartaði við mig um og minntist á hér að ég hefði stundum gengið á rétt þingmanna þegar þeir höfðu verið boðaðir á aðra fundi sem voru þó reglulegir fundir og áttu kannski nokkuð meiri rétt en aukafundir í umhvn.
    Það var fyrst og fremst þetta sem ég vildi gera athugasemd við í tilefni af orðum ráðherrans.