Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til lausnar kjaradeilum

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 13:36:00 (4322)


[13:36]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil beina máli mínu til hæstv. fjmrh. Það liggur í loftinu að gerðir verði kjarasamningar á næstunni og það virðist vera að ríkisstjórnin muni koma inn í þá kjarasamninga með einum eða öðrum hætti og það liggur fyrir að núv. hæstv. ríkisstjórn þurfi að leggja fram frumvörp hér á Alþingi til þess að greiða fyrir hugsanlegum kjarasamningum. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh.: Hvaða undirbúningur er í gangi af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessum málum? Hvaða aðgerðir eru líklegar að gripið verði til af hálfu hæstv. ríkisstjórnar? Og hvenær er líklegt að frumvörp um þetta efni verði lögð fram á Alþingi?
    Það virðist vera að ef kjarasamningar nást þurfi allmarga daga í að fjalla um þau mál á Alþingi og þess vegna er líklegt að þingið verði að taka að mestu leyti tíma sinn í þau mál í næstu viku. En svo virðist vera sem hæstv. ríkisstjórn hafi allt aðrar áherslur því að hér er verið að reyna að koma í gegnum þingið málum sem engar líkur eru á að geti klárast og enginn friður er um, enda hefur hæstv. forsrh. lýst því yfir að hann leggi ekki áherslu á að ljúka svo sem einu eða neinu hér og þessi yfirlýsing lá fyrir fyrir löngu. En á sama tíma eru ýmsir hæstv. ráðherrar að reyna að potast hér áfram með eitt og eitt mál og fara mikinn með hjálp nokkurra samþingmanna sinna. Auðvitað hlýtur það að verða meginverkefni þingsins að takast á við þessi mál þegar þau koma fram og þess vegna tel ég nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. upplýsi okkur um gang mála.