Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til lausnar kjaradeilum

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 13:38:23 (4323)


[13:38]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að samningaviðræður standa yfir og flestir vona að sjálfsögðu að af kjarasamningum geti orðið sem allra fyrst, bæði á hinum almenna vinnumarkaði og eins á milli opinberra starfsmanna annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar. Það er mín skoðun og ég hygg hv. þm. og flestra annarra að það sé yfirleitt ekki góð regla að ríkisvaldið hafi of mikil afskipti af kjarasamningum yfir höfuð. Það kann að þurfa að gerast þegar illa stendur á í þjóðarbúinu eins og hefur verið á undanförnum árum, en almenna reglan hlýtur að vera sú að þeir sem semja, atvinnurekendur og launþegar, semji um kjör sín á milli en sendi ekki reikninginn á skattborgarana. Komi hins vegar til þess, þá þarf það að gerast í tengslum við víðtæka kjarasamninga. Það liggur í augum uppi og það þurfa að koma sameiginlegar tillögur fram af hálfu þeirra sem eru að semja hverju sinni.
    Fyrir liggja kröfur eða tillögur Alþýðusambandsins annars vegar og svokallaðs Flóabandalags hins vegar. Þær hafa verið birtar opinberlega. Í fjmrn. hefur verið litið á þessar kröfur og lauslega slegið á að annars vegar kosti þær í heild sinni fyrir utan greiðsluseinkun í húsnæðiskerfinu 4--5 milljarða eða þá 8--9 eftir því hvor tillagan er tekin. Engar sameiginlegar viðræður aðila vinnumarkaðarins annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar hafa farið fram, en að sjálfsögðu verður tekið á móti þeim aðilum ef slíkar viðræður kunna að verða til þess að geta leyst kjarasamninga. Þess vegna er ekki hægt að svara fyrirspurn hv. þm. með neinum beinum hætti því að sameiginlegar tillögur um víðtækt samkomulag liggja ekki fyrir á þessari stundu.