Skýrsla um stöðu EES-samningsins

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 13:48:07 (4328)


[13:48]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég tek ekki til mín yfirlýsingar um áhugaleysi á umræðu um utanríkismál þar sem ég var ein af fáum sem gerði grein fyrir skýrslu minnar nefndar, þ.e. EFTA-nefndarinnar hér undir kvöld þegar hlaupið hafði verið yfir án umræðu einar fimm aðrar slíkar þannig að ég tek það ekki til mín.
    Frú forseti. Ég er satt að segja hneyksluð á svari hæstv. utanrrh. Hann talar um að eftir atkvæðagreiðsluna í Noregi geti Noregur ekki vænst sömu áhrifa og áður. Hvað hefur gerst? Hefur eitthvað breyst um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið? ( Utanrrh.: Ekki sömu áhrif og hin aðildarríkin.) Hæstv. utanrrh. veit það jafn vel og ég að allt samstarf EFTA og Evrópsambandsins er á forsendum Evrópusambandsins. Það vissum við allan tímann. Þess vegna vorum við mörg á móti þessum samningi og það er ekkert nýtt fyrir okkur að áhrifin séu lítil. En við sjáum ekki ástæðu til þess að þau minnki þó að þeim þjóðum fækki sem eru aðilar að EFTA-hliðinni.
    Mér er alveg ljóst að sjálfsagt verður samningnum ekki sagt upp, en það hlýtur að vera umhugsunarefni þegar hann er kallaður skrímsli af virðulegum hv. þingmönnum Evrópuþingsins og ég geri kröfu til þess, frú forseti, að utanrrh. kanni stöðu þessara mála, hitti að máli kollega sína á vegum EFTA-landanna og við förum ekki heim af þessu þingi án þess að vita hvar við stöndum varðandi samninginn.