Skýrsla um stöðu EES-samningsins

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 13:52:36 (4331)


[13:52]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir miður að hv. þm. skuli sjá ástæðu til þess nú að bæta í öfugmælasafn stjórnarandstæðinga sumra um EES-samninginn. Það er ekkert tilefni til þess. Að sjálfsögðu er það fjarri öllum sanni að segja að EES-samningurinn sé ekki neitt. Hvað á hv. þm. við? Tekur hún ekki þátt í þingmannasamstarfi á fullu ásamt öðrum hv. fulltrúum Alþingis? Veit hún ekki betur en þetta? Og að eigna mér þá skoðun að EES-samningurinn sé lítils virði er auðvitað fjarri öllu lagi. EES-samningurinn er Íslendingum afar mikils virði og ég tek undir með t.d. hæstv. forsrh. sem hefur sagt: Ef við ekki hefðum þennan EES-samning, þá væri staðan sennilega sú að okkur væri nauðugur einn kostur til þess að tryggja okkar efnahags- og viðskiptahagsmuni að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Samningurinn er mjög mikils virði. Hann hefur fært okkur margvíslegar hagsbætur. Hann hefur gerbreytt markaðsstöðu íslensks sjávarútvegs. Hann er einn af þeim þáttum sem knýja núna efnahagsbata í íslensku þjóðfélagi og þetta tal er algjörlega út í hött og vekur furðu að þingmaður sem tekur þátt í þingmannasamstarfi EFTA skuli fara með slíka staðlausa stafi.