Breytingar á reglum Þróunarsjóðs

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 14:02:20 (4340)

[14:02]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Mig langar að beina máli mínu til hæstv. sjútvrh. og spyrja hann að því hvort hann hyggist beita sér fyrir breytingum á reglum Þróunarsjóðs hvað varðar skilyrði fyrir greiðslu úreldingarbóta til fiskiskipa. Ástæðan fyrir þessari spurningu er sú að það er að verða menningarsögulegt slys vegna eyðileggingar á elstu eða nýjustu, það er nú kannski rétt að orða það þannig, skipunum, tréskipunum sem voru smíðuð hér, síðustu tréskipunum sem voru smíðuð á Íslandi til útgerðar. Fyrirmæli úreldingarsjóðsins eru að þessi skip skuli brotin í spón og eyðilögð eða flutt úr landi og það er að gerast í stórum stíl. Meira að segja þeir sem hafa í hyggju að kaupa slík skip til að nýta í ferðaþjónustu eða annað slíkt hér á landi standa frammi fyrir því að geta það ekki og þurfa að flagga þeim út. Það hefur gerst nú þegar að sumum af þessum skipum hefur verið flaggað út og eru komin undir erlent flagg. Það mun ekki verða eftirlit með þeim skipum framkvæmt af hálfu Siglingamálastofnunar ríkisins. Þau munu vera eftirlitslaus hvað varðar öryggismál á Íslandi. Þetta er hið versta óhappaverk sem þarna er að gerast. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann ætli að beita sér fyrir breytingum á þessum reglum og með hvaða hætti og hvenær megi þá búast við því að það gerist eitthvað í því máli því að það liggur fyrir að nú þegar eru kröfur á þeim sem hafa óskað eftir úreldingu um það að eyðileggja þessi skip áður en þeir fá greiðslur fyrir úreldinguna.