Staðan í kennaradeilunni með hliðsjón af afgreiðslu grunnskólafrumvarpsins

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 14:14:48 (4345)


[14:14]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Alltaf þykir mér það nú fara hv. þm. Svavari Gestssyni jafnilla þegar hann er að skrúfa sig þetta í ræðustól eins og hann er mikið ljúfmenni svona í persónulegum samtölum, líka þegar við erum að ræða um skólamál, en hann verður að hafa þann hátt á sem hann vill.
    Hv. þm. ræddi fyrst um afgreiðslu grunnskólafrv. á vorþinginu 1991 og var að bera það saman við það sem nú er að gerast og ræddi um að það hefði skapast um það góð sátt, m.a. milli hans sem menntmrh. og mín sem þáv. formanns þingflokks sjálfstæðismanna. Það er rétt. Það varð sátt og samkomulag um afgreiðslu málsins en það var ekki fyrr en á lokastigum þess og þegar komið var að lokaafgreiðslu. Sáttin varð vegna þess að það var tekið tillit til fjölmargra ábendinga sem við sjálfstæðismenn komum fram með við meðferð málsins en það hafði verið mikið deilumál í þinginu alveg eins og grunnskólafrv. nú hefur verið nokkurt deilumál. Grundvöllurinn að samkomulaginu var sá að það var tekið tillit til fjölmargra atriða sem við lögðum áherslu á.
    Ég verð bara að treysta því að það sé ekki fullreynt enn þá. Það eru nokkrir dagar sem lifa til þinglausna og ég vona að við getum talað saman um þetta mál og kannað til þrautar hvort ekki náist samstaða.
    Hv. þm. fór enn með þetta gamla vers sitt um átján manna nefndina sem öll átti að hafa verið kunningjar mínir og flokksfélagar. Síðast fór hann með þennan pistil á fundi sem við vorum saman á, á fundi Alþb. á Selfossi sl. fimmtudagskvöld. Ég veit ekki hvað hann er búinn að fara oft með þessa ræðu í þinginu og ég nenni ekki satt að segja að vera að fara yfir þessa nefndarskipun einu sinni enn. Hún er öll til í þingskjölum og ég veit að allir þingmenn hafa heyrt þetta áður.
    Það sem hv. þm. sagði hins vegar ranglega var að ég hefði bannað nefndinni að hafa samráð við foreldra, við kennara, við sveitarfélögin og yfirleitt við alla sem ættu að búa við þessa löggjöf. Þetta er beinlínis rangt. Ég fullyrði það að engin nefnd sem hefur unnið að undirbúningi frumvarpsgerðar hefur haft eins víðtækt samráð við þá fjölmörgu aðila sem við löggjöfina eiga að búa eins og átján manna nefndin gerði. Ég fullyrði að það hafi aldrei áður verið eins víðtækur undirbúningur og samráð við hina fjölmörgu aðila og átti sér stað hjá átján manna nefndinni.
    Hv. þm. hefur beint til mín nokkrum spurningum sem ég skal reyna að svara. Í fyrsta lagi hvernig ég hyggist stuðla að því að samningar náist þannig að skólastarf geti haldið áfram með eðlilegum hætti. Ég þarf ekki að rekja það í þennan hóp að samningar eru ekki á minni hendi. Þeir eru í hendi fjmrh. og samninganefndar ríkisins. Ég hef hins vegar að sjálfsögðu átt fundi með samninganefnd ríkisins og veitt þar umbeðnar upplýsingar um skoðanir menntmrn. á ýmsum atriðum sem vissulega koma mjög ákveðið inn í þessa samningsgerð alla. Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að gera svo áfram bæði eftir því sem eftir er leitað og eins að mínu eigin frumkvæði. Ég hef átt frumkvæði að slíkum fundum við samninganefndina og við fjmrh.
    Frumvarpsdrögin sem ég gat um að hefðu verið gerð á sl. sumri varðandi réttindamál kennara eru í mjög svo eðlilegum farvegi. Þau eru í fjmrn. Við höfum átt fundi, fulltrúar menntmrn. og fjmrn., um þessi mál. Nefndaráliti nefndar sem ég skipaði, skipuð fulltrúum frá kennarasamtökunum, félmrn., fjmrn., sveitarfélögunum og menntmrn. var skilað á sl. vori og á grundvelli þess álits var frv. samið, á vegum menntmrn. Umfjöllun fjmrn. er einfaldlega ekki lokið og ég sé ekki að nokkur ástæða sé til að gera þetta mál eitthvað sérstaklega tortryggilegt vegna þessa. Fjmrn. þarf að líta til fleiri þátta en eingöngu réttindamála kennara þegar um svona flókið og viðkvæmt mál er að ræða því að vissulega er það svo.
    Þá spyr hv. þm. hvort ég telji koma til greina að hefja þríhliða viðræður ríkisvalds, sveitarfélaga og kennara um hugsanlegan flutning grunnskólans til sveitarfélaga. Um það vil ég segja að ég tel að þær viðræður séu í raun og veru í gangi. Ég skipaði sérstaka nefnd með fulltrúum menntmrn., fjmrn., kennarasamtakanna, félmrh. og Sambands ísl. sveitarfélaga til þess að fylgjast með allri þróun þessa máls og flutningi grunnskólans þar til hann í raun mun eiga sér stað eftir því hvert ákvæðið verður um gildistökuna á flutningnum sjálfum í löggjöfinni eins og hún kemur til með að verða. Þær viðræður eru í raun og

veru í gangi sem ég tel líka afskaplega mikilvægt.
    Þá spyr hv. þm. hvort ég sé tilbúinn að fresta meðferð grunnskólafrv. á Alþingi nú til þess að skapa sátt um málið við hlutaðeigandi aðila. Ég skil þessa spurningu svo að hann sé að spyrja hvort ég sé tilbúinn að draga frv. til baka nú þannig að það komi ekki til afgreiðslu á þessu þingi. Ég er að sjálfsögðu ekki tilbúinn til þess. Ég vil að það verði látið reyna á það hvort Alþingi er tilbúið til að samþykkja þessa löggjöf á þessu þingi. Ég vænti þess að það eigi ekki að koma neinum á óvart þó að ég sé ekki tilbúinn til að samþykkja slíka frestun þar sem þetta er síðasta þing kjörtímabilsins.
    Að öðru leyti er svo sem sitthvað um þetta mál að segja en tími minn er mjög svo takmarkaður. Það hefur verið vikið hér að bæði ályktun Sambands ísl. sveitarfélaga og þeirri kröfu sem á að hafa verið gerð í gærkvöldi af samninganefnd kennarasamtakanna um að samningaviðræðum yrði frestað þá vegna afgreiðslu menntmn. á grunnskólafrv. Mér er mætavel kunnugt um að það lá fyrir í gærkvöldi áður en þeir fengu þessa frétt, eins og það heitir, að menntmn. hefði afgreitt frv., að kjarasamningaviðræðum yrði frestað til dagsins í dag. Það lá bara fyrir þó að það þyki henta að gera þetta að einhverju stórmáli í fréttum útvarps og sjónvarps í gærkvöldi. Ég hef þetta beint frá formanni samninganefndar ríkisins. Ég ræddi við hann í gærkvöldi.
    Varðandi ályktun Sambands ísl. sveitarfélaga og það sem formaður sambandsins sagði í fréttum í gærkvöldi að það hafi komið honum eitthvað sérstaklega á óvart sá kúrs sem málið tók, eins og hann orðaði það. Hvað er það sem kemur formanninum á óvart? Vissi hann ekki af því að það stóð til að afgreiða þetta frv.? Menntmn. er að verða við ítekuðum kröfum sveitarfélaganna í landinu að þau fái grunnskólann að fullu til sinna umráða. Þarna er því ekkert sem átti að koma á óvart. Það er ekkert í ályktun Sambands ísl. sveitarfélaga sem ég get ekki séð að við getum náð sátt um utan eitt og það er skilyrðið með gildistökuna, að það verði að hafa orðið samkomulag á milli Sambands ísl. sveitarfélaga og ráðuneytisins. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hv. málshefjandi sé sammála slíkri kröfu eins og kemur fram hjá sambandinu að það verði að hafa orðið eitthvert samkomulag milli aðila um að tilteknir atburðir gerist, að slíkt sé hægt að setja í lög. Ég trúi því ekki.