Staðan í kennaradeilunni með hliðsjón af afgreiðslu grunnskólafrumvarpsins

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 14:33:04 (4348)


[14:33]
     Sigríður A. Þórðardóttir :
    Virðulegi forseti. Vinnubrögð meiri hluta menntmn. hafa verið gagnrýnd af hv. þingmönnum sem hafa talað af hálfu stjórnarandstöðunnar í þessu máli sem er til umræðu. Ég vil upplýsa það hér að það eru fá mál sem hafa fengið jafnlanga og ítarlega umfjöllun í þingnefnd og grunnskólafrv. Við höfum tekið það fyrir á 15 fundum og fjallað hefur verið um það í yfir 20 klukkutíma svo að málið stendur einfaldlega þannig að það var komið að því að afgreiða það. Það er ekki hægt að þæfa mál endalaust inni í nefnd og það hefur líka legið fyrir að það var ætlunin að afgreiða þetta mál á þessu þingi þannig að það ætti ekki að koma neinum á óvart.
    Fyrirvarar Sambands ísl. sveitarfélaga hafa verið gerðir að sérstöku umtalsefni og það er alveg ljóst að það þarf að leysa réttinda- og lífeyrismál kennara og ákvarða sveitarfélögunum tekjustofna til að standa undir grunnskólanum. Það er enginn ágreiningur um þessi atriði. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir að þessi mál þyrfti að leysa.
    Meiri hluti menntmn. hefur komið verulega til móts við fyrirvara Sambands ísl. sveitarfélaga með því að breyta gildistökuákvæði frv. á þann veg að skilyrða framkvæmd laganna því að Alþingi hafi 1. jan. 1996 samþykkt breytingar á ákvæðum laga um tekjustofna sveitarfélaga og einnig hafi skiptingu skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga verið breytt með tilliti til þeirra auknu verkefna sem sveitarfélög taka að sér samkvæmt frv. Þetta þýðir einfaldlega það að hafi Alþingi ekki samþykkt slíkar breytingar fyrir 1. jan. 1996 koma grunnskólalögin ekki til framkvæmda.
    Undirbúningur nýrrar löggjafar um grunnskólann hefur tekið langan tíma og það hefur verið vandað til hennar í hvívetna. Hér er mikið framfaramál á ferðinni og það er lagt til að lögfestar verði ýmsar brýnar umbætur í grunnskólanum, svo sem lengri daglegur skólatími, fleiri skóladagar samfara einsetningu. Það er aukin áhersla á námsmat og eftirlit með skólastarfi, upplýsingamiðlun til almennings og stjórnvalda um skólastarf og árangur þess, áhrif foreldra og svo mætti lengi telja.
    Það er ljóst að ágreiningur um efni sjálfs frv. er óverulegur og til marks um það hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar ekki komið fram með neinar breytingar í hv. menntmn. ( KÁ: Málið er bara ekki komið á það stig.) Þetta er slæmt og það veldur vonbrigðum að menn skuli kjósa að gera afgreiðslu málsins í menntmn. að bitbeini í viðkvæmri kjaradeilu ríkis og kennara og koma hugsanlega með því í veg fyrir að frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Samþykkt frv. nú gerir áframhaldandi vinnu við þau mál sem ólokið er og tengjast því eins og réttinda- og lífeyrissjóðsmál kennara og tekjustofnafrv. að ýmsu leyti auðveldari því að með lögfestingu frv. er kominn fastur grunnur til að byggja framhaldið á. Ég tel að í þessu máli eigi menn að spara stóru orðin og sigla þessum framfaramálum farsællega í höfn í þinginu. Það er fráleitt að túlka afgreiðslu menntmn. á grunnskólafrv. sem hefur verið til umfjöllunar í þinginu frá því í október sem eitthvert sérstakt innlegg í kjaradeilu kennara við viðsemjanda sinn. Það hefur verið lögð áhersla á að afgreiða grunnskólafrv. fyrir vorið og með tilliti til þess var ekki seinna vænna að afgreiða málið úr hv. menntmn.