Staðan í kennaradeilunni með hliðsjón af afgreiðslu grunnskólafrumvarpsins

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 15:01:48 (4355)


[15:01]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er einkar athyglisvert sem haldið var fram af hv. síðasta ræðumanni að kennarar séu ekki efni málsins. Ég hefði haldið að mjög erfitt væri að reka skóla án þess að vera með kennara og þeir hefðu kaup og þeir hefðu réttindi. Þetta umtal um kennara af hálfu meiri hluta nefndarinnar og hæstv. menntmrh. lýsir auðvitað svo botnlausu skilningsleysi á stöðu kennara og að ég segi ekki fyrirlitningu á stöðu þeirra í skólunum að það er engu lagi líkt. Þegar því er svo bætt við af hv. síðasta ræðumanni og hæstv. menntmrh. og hv. formanni nefndarinnar að sveitarfélögin og sá sem á að borga séu heldur ekki efni málsins heldur sé það einbert formsatriði sem engu máli skiptir. Þessi ummæli lýsa betur en nokkuð annað af hverju þessi mál eru komin í hnút og málið liggur auðvitað þannig að maður gæti haldið að þessir hv. þm. hefðu óvart stefnt málunum í hnút en eftir þessa umræðu er engu líkara en þeir hafi vísvitandi ætlað sér að setja öll þessi mál í harðan hnút.
    Staðreyndin er sú, hæstv. forseti, líka út af ummælum hér, að málið er illa unnið. Það hefur aldrei verið reynt að taka í gegn á Alþingi grunnskólafrv. sem er eins illa unnið og þetta. Beri menn saman grunnskólalögin 1974. Beri menn saman grunnskólalögin 1991. Þar er um að ræða vinnubrögð sem eru í grundvallaratriðum allt öðruvísi af því að það var í báðum tilfellum unnið opið gagnvart öllu þjóðfélaginu. Nú voru málin lokuð inni í þessari átján manna nefnd sem meiri hlutinn skammast sín nú orðið svo mikið fyrir að ekki má einu sinni nefna hana í þessari virðulegu stofnun.
    Staðreyndin er líka sú að ummæli hv. meiri hluta um að stjórnarandstaðan hafi engar breytingartillögur flutt eru auðvitað með ólíkindum. Vegna hvers? Vegna þess að aldrei var boðið upp á það að málin væru tekin fyrir á þeim forsendum sem stjórnarandstaðan kaus heldur var málið rifið út úr nefndinni í andstöðu við stjórnarandstöðuna, í andstöðu við sveitarfélögin og í andstöðu við kennarasamtökin í landinu. Vinnubrögð ykkar í hv. meiri hluta menntmn. í þessu máli eru auðvitað með endemum að öllu leyti.
    Af hverju kom þetta formanni Kennarasamtaka Íslands á óvart? Af hverju? Af því að hann hefur væntanlega búist við því að tekið yrði mark á kennarasamtökunum þó að ekki væri nema einn, tvo eða þrjá sólarhringa eða svo. Formaður kennarasamtakanna gerði grein fyrir því að það gæti haft slæm áhrif á kjaradeiluna að fara að taka málið út í ágreiningi úr nefndinni í gær Ég var ekki viðstaddur þá yfirlýsingu en mér var sagt af henni. Þrátt fyrir þessa viðvörun og ábendingu formanns Kennarasambands Íslands er ákveðið að rífa málið út. Formaður Kennarasambands Íslands leyfði sér að hafa þá skoðun og væntingu í hjarta sínu að menntamálanefndarmeirihlutinn á Alþingi tæki mark á sér en það var greinilega til of mikils ætlast af því að meiri hluti menntmn. Alþingis ætlaði aldrei að taka mark á kennarasamtökunum né heldur hæstv. menntmrh. í málinu.
    Það er rétt, hæstv. forseti, að óskastaðan í þessu máli er náttúrlega sú að menn semji um alla þessa hluti í einu, rekstraraðilana, tekjustofnana, kjör kennara og aðra þessa þætti og ríki, sveitarfélög og kennarar komi að málinu í heild og öll verði málin leyst í einum punkti. Það væri fráleitt af mönnum að neita sér um að skilja þá einföldu staðreynd að það er vonlaust fyrir kennarasamtökin að fallast á vinnubrögð af þessu tagi með öll kjör sín í uppnámi miðað við það sem á undan er gengið, ekki síst hinn botnlausa, endalausa og illa heppnaða feluleik í átján manna nefndinni.
    Þessar umræður hér hafa auðvitað afhjúpað algerlega eitt og það er að meiri hlutinn ætlar að knýja málið í gegn hvað sem tautar og raular. Hann um það, hann ræður.