Skýrsla umboðsmanns Alþingis

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 15:16:42 (4358)


[15:16]
     Björn Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Í inngangi að þessari skýrslu umboðsmanns fyrir árið 1993 segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Skiptar skoðanir eru á því hvort þjóðþing sé heppilegur vettvangur fyrir umræður um álit umboðsmanna í einstökum málum. Að sjálfsögðu er það Alþingis að ákveða hvaða hátt skuli hafa þar á. Ég legg hins vegar í því sambandi áherslu á nauðsyn þess að ráðuneyti og aðrar stjórnsýslustofnanir fari að lögum um umboðsmann Alþingis og gefi Alþingi fullnægjandi upplýsingar um einstök mál ef umræða um þau er tekin upp.``
    Síðan bætir umboðsmaður við: ,,Þar skorti verulega á í viðbrögðum utanrrn. við áliti mínu í nefndum tveimur málum`` sem hann hefur áður greint frá og koma fram í bréfi hans frá 21. ágúst 1994 en bréfið er rakið í skýrslunni.
    Síðan greinir umboðsmaður frá því að honum hafi borist svar frá utanrrn. og greinargerð varðandi það mál sem hann gerir þarna að umtalsefni.
    Hæstv. forseti. Ég taldi eðlilegt að vekja athygli á þessu. Það er að vissu leyti eins og umboðsmaður segir að það kunna að vera skiptar skoðanir um það hvort skýrslur sem þessar skuli ræddar á Alþingi. Ég tel fulla ástæðu til þess að við alþingismenn ræðum þessar skýrslur á Alþingi og tökum afstöðu til einstakra mála sem í þeim eru reifuð og veltum því fyrir okkur hvað er til umbóta.
    Eins og fram kom í máli hv. formanns allshn. þá hefur sú venja skapast í starfi nefndarinnar á þessu kjörtímabili að hún kallar til viðræðna við sig umboðsmann eða fulltrúa hans og fær skýringar á einstökum atriðum sem beðið er um. Einnig sendir forsætisnefnd Alþingis til nefndarinnar álit sem varða og snerta meinbugi í lögum.
    Ég tel ákaflega mikilvægt fyrir Alþingi að leggja rækt við þetta starf og fylgja þessu eftir því í umræðum í þjóðfélaginu um bætta stjórnarhætti er nauðsynlegt að þau tæki séu notuð til hins ýtrasta sem Alþingi hefur lagt mönnum til með ákvörðunum sínum. Þar eru m.a. lögin um umboðsmann Alþingis og stjórnsýslulögin og einnig leyfi ég mér að nefna lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu en sú lögfesting á ekki síst rætur að rekja til ábendinga frá umboðsmanni. Á undanförnum missirum og þessu kjörtímabili hafa bæði verið teknir upp nýir starfshættir varðandi meðferð á skýrslu umboðsmanns og einnig hafa verið lögð til í þjóðfélaginu ný tæki af hálfu Alþingis til þess að gera starf hans skilvirkara og réttindi borgaranna skýrari.
    Í þeirri skýrslu, sem liggur nú fyrir, kemur fram að einmitt umræður á Alþingi um síðustu skýrslu umboðsmanns hafa leitt til þess að mál eru betur upplýst en þá var og komið hefur fram að full ástæða var til þess í þeim umræðum að ræða það mál sem helst bar þá á góma. Mér þótti ástæða til þess hér, hæstv. forseti, án þess að ég ætli að fara út í einstök efnisatriði í skýrslunni frekar nema tilefni gefist til, að vekja athygli á þessu og leggja áherslu á það að Alþingi leggi jafnvel enn meiri rækt við að sinna starfi sínu sem felst í þessum umræðum og grundvallast á prýðilegu starfi umboðsmanns Alþingis.