Skýrsla umboðsmanns Alþingis

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 15:21:10 (4359)


[15:21]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Hér ræðum við enn skýrslu umboðsmanns Alþingis. Það er orðinn árviss viðburður og ég tel að umræðan hafi verið í nokkuð góðu formi, einkum eftir að það var aflagt að mestu að fjalla um einstök málefni sem því miður gætti aðeins í upphafi.
    Því miður var ég ekki viðstödd er fulltrúi umboðsmanns Alþingis kom á fund nefndarinnar vegna ófyrirsjáanlegra orsaka þegar sjútvn. varð veðurteppt á Snæfellsnesi og þykir mér það mjög miður því þetta hafa verið mjög fróðlegir fundir.
    Það eru sömu atriði að nokkru leyti og hv. fyrri ræðumenn hafa komið hér inn á sem mér finnst einkum sitja eftir núna að þessu sinni. Það er annars vegar sú bragarbót sem verið er að reyna að gera á viðbrögðum kerfisins í heild gagnvart athugasemdum umboðsmanns því þar var pottur brotinn. Ég held að þó ekki væri nema út af því þá sé alveg nauðsynlegt að hafa umræðuvettvang á Alþingi um skýrslu umboðsmanns. Þetta er baktrygging eða bakland sem umboðsmaður hefur og hann hefur tækifæri til að koma ábendingum sínum á framfæri. Síðan er hægt að beita framkvæmdarvaldið ákveðnum þrýstingi, alla vega siðferðilega til þess að gera betur en fortíðin gæti sýnt okkur.
    Það bar aðeins á því í upphafi að ábendingum, sem komu frá umboðsmanni, væri tekið með of miklu fálæti og jafnvel hunsaðar en ég held að það sé að færast í betra horf og ekki síst fyrir þá umræðu sem hér hefur verið.
    Annað sem mér þótti áhugavert varðandi þá skýrslu, sem hér er til grundvallar, er sá vaxandi fjöldi mála sem er að koma og einkum þá bættu stöðu sem einstaklingar standa í frammi fyrir stjórnsýslunni með nýjum stjórnsýslulögum og mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur einnig verið lögtekinn hér.
    Þetta eru atriði sem hafa komið fram með einum eða öðrum hætti í tengslum við og alla vega að hluta til vegna þess að við bárum gæfu til þess að setja á laggirnar starf umboðsmanns Alþingis.
    Ég hef einnig heyrt frá kærendum sérstaka ánægju með viðtökur og með starfsemi embættis umboðsmanns Alþingis og það er mjög ánægjulegt og þau samskipti hafa oft leitt til þess að náðst hefur sátt eða leiðréttur misskilningur en í sumum tilvikum hefur þurft að fara lengra með málin og ég hef heyrt frá fleiri en einum aðila að það hafi verið sérstaklega ábyrg afstaða og góðar viðtökur, skýr og markviss vinnubrögð sem hafi mætt þessum aðilum þegar þeir hafa þurft að sækja til umboðsmanns Alþingis. Það þykir mér mjög ánægjulegt að heyra.

    Í þessari skýrslu er vissulega margt sem er forvitnilegt að skoða. Það kemur kannski ekki á óvart að það er dómsmrn. og fjmrn. sem eru með mesta málafjölda þeirra erinda sem berast og það skýrist a.m.k. að miklu leyti af því að þar er einfaldlega um mjög viðkvæm mál að ræða, annars vegar í dómsmrn., oft mjög viðkvæm mál í einkarétti sem ber að ráðuneytinu með einum eða öðrum hætti og í fjmrn. eru að sjálfsögðu ýmis atriði sem varða bæði gjaldtöku og skattamál til umfjöllunar.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég tel að þessi farvegur á Alþingi sé það sem við þurfum. Við þurfum kannski á einhverjum öðrum tímum að hafa lengri og ítarlegri umræður en að þessu sinni sýnist mér að hægt sé að láta þessi orð duga.