Hrefnuveiðar

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 15:29:04 (4360)

[15:29]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Nú eru aðeins örfáir dagar eftir af þessu þingi. Síðasta þingi á þessu kjörtímabili. Það er því eitt og annað sem hæstv. ríkisstjórn verður að standa skil á gagnvart þingi og þjóð og eitt er víst að margt er ógert af því sem ríkisstjórnin hafði uppi áform um að koma til framkvæmda á árdögum kjörtímabilsins.
    Eitt af því sem hæstv. sjútvrh. skuldar þjóðinni svör við er hver sé stefna hæstv. ríkisstjórnar í hvalveiðimálum og hvenær hefja beri hrefnuveiðar.
    Þann 14. október 1993 skipaði hæstv. sjútvrh. nefnd til að gera tillögur um stefnu Íslendinga í hvalamálum og hvort hvalveiðar skuli hafnar að nýju og þá með hvaða hætti. Í skipunarbréfi nefndarinnar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Er eðlilegt að ákvörðun um þetta efni sé í höndum Alþingis og er því við það miðað að tillögur nefndarinnar verði lagðar fyrir Alþingi er það kemur saman eftir jólaleyfi.`` --- Þ.e. eftir jólaleyfi í upphafi árs 1994. Nefndin skilaði af sér seinna en óskað var, eða í byrjun maí 1994. Það hefur samt sem áður verið nægur tími til að leggja fram á Alþingi tillögur nefndarinnar og ef vilji hefði verið fyrir hendi. Meginniðurstaða nefndarinnar er þessi:
    Eðlilegt er að Íslendingar hefji á ný hvalveiðar í atvinnuskyni þó þannig að farið sé að öllu með gát, gætt sé heildarhagsmuna Íslendinga með tilliti til stöðu landsins á alþjóðavettvangi, markaða fyrir hvalaafurðir og áhrifa hvalveiða á aðra útflutningsmarkaði landsmanna.
    Í dag er 15. febr. 1995. Enn heyrist ekkert frá hæstv. sjútvrh. um aðgerðir og er ríkisstjórnin hætt störfum. Það leikur enginn vafi á því að hæstv. sjútvrh. hefur það vald að geta tekið ákvörðun um að hrefnuveiðar skuli hefjast og því hlýt ég að spyrja: Verða þær hafnar á þessu sumri?
    Ég geri mér grein fyrir því að hér erum við að fjalla um viðkvæm mál og það þarf að ganga fram af varfærni. En fyrr má nú vera varfærnin af hálfu hæstv. sjútvrh. að gera ekki neitt, eða er eitthvað verið að vinna í þessum málum? Hefur t.d. verið reynt að efna til viðræðna þjóðanna við Norður-Atlantshaf um nýtingu sjávarfangs og þar á meðal hvala?
    Það er ekki hægt að ræða hvalveiðar án þess að nefna vistkerfið. Auðvitað þarf að nýta auðlindir hafsins með skynsamlegum hætti og það verður ekki gert nema tekið verði úr öllum stofnum. Sjómenn tala um ógrynni af hval á miðunum. Hrefnur eru um 30 þúsund við landið og talið er að hver þeirra éti um 20 tonn af fiski á ári sem er nokkurn veginn á við meðalveiði eins smábáts. Hrefnum fjölgar mikið og er talað um að þeim fjölgi um 1.000--1.500 á ári. Hvers vegna er ástandið svona í hafinu? Loðnan finnst ekki í því magni sem gert var ráð fyrir og fleira má nefna. Hafa hvalirnir afgerandi áhrif á viðgang fiskstofna og eru þau e.t.v. meiri en talið hefur verið? Ég krefst þess að fá skýr svör frá hæstv. sjútvrh. hvers vegna hann hefur ekki lagt þáltill. fyrir þingið um að hefja hrefnuveiðar.
    Þann 31. október sl. svarar hæstv. sjútvrh. fyrirspurn á hv. Alþingi um hvalveiðar. Þar segir hæstv. sjútvrh. orðrétt:
    ,,Í samræmi við niðurstöður þessarar skýrslu hef ég lagt drög að þáltill. fyrir ríkisstjórnina sem felur í sér að hrefnuveiðar verði hafnar að nýju með þeim hætti sem nefndin leggur hér til og að eðlilegar viðræður verði hafnar við aðrar þjóðir til þess að kynna þann málstað og leita sem víðtækastra sátta um ákvarðanir okkar í þessum efnum.
    Þessi drög að þáltill. eru til umfjöllunar í ríkisstjórninni og ég vænti þess að hún muni taka ákvarðanir þar um mjög skjótt.``
    Þetta segir hæstv. sjútvrh. þann 31. október sl. Og ég spyr því að lokum: Þýðir aðgerðarleysi hæstv. sjútvrh. að búið er að afskrifa málið?