Hrefnuveiðar

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 15:40:53 (4363)


[15:40]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég átti sæti í þeirri nefnd sem hæstv. sjútvrh. stóð fyrir og skilaði áliti 2. maí sl. Það varð samhljóða niðurstaða í nefndinni. Ég tel að það hafi verið mikilvægt og lagði mig fram um það að svo gæti orðið. Þar greinir frá því svo að ég vitni í niðurstöður nefndarálits:
    ,,Eðlilegt er að Íslendingar hefji á ný hvalveiðar í atvinnuskyni, þó þannig að farið sé að öllu með gát. Gætt sé heildarhagsmuna Íslands með tilliti til stöðu landsins á alþjóðavettvangi, markaðar fyrir hvalaafurðir og áhrifa hvalveiða á aðra útflutningsmarkaði landsmanna.
    Ástand sumra hvalastofna við Ísland er með þeim hætti að ekkert mælir vistfræðilega gegn hóflegri nýtingu þeirra. Nefndin telur þó skynsamlegt að leyfa aðeins í fyrstu takmarkaðar veiðar á hrefnu og miða í upphafi við sölu afurðanna innan lands, jafnframt því sem möguleikar á sölu hrefnuafurða erlendis séu kannaðir.``
    Síðar segir: ,,Ekki er rétt að Ísland leiti eftir inngöngu í Alþjóðahvalveiðiráðið á meðan það stendur í vegi fyrir sjálfbærri nýtingu hvalastofna andstætt því sem vísindanefnd ráðsins mælir með.``
    Þetta tel ég að séu meginatriðin sem þurfi að vera til skoðunar nú eins og staðan er. Ég hef verið þeirrar skoðunar að menn þurfi að fara varlega í þessi efni, horfa til margra átta og hagsmuna okkar á heildina litið en að þarna sé opnað fyrir það af hálfu nefndarinnar samhljóða að það verði farið í veiðar á hrefnu í takmörkuðum mæli. Þannig er málið búið í hendur hæstv. sjútvrh. og það er síðan að sjálfsögðu ríkisstjórnarinnar að fara með þetta og leggja málið fyrir Alþingi ef hún kýs að gera það.
    Ég vara við því að menn séu að reikna sig fram til þess hvað ein hrefna étur eða eitt stórhveli étur í hafinu. Það eru hlutir sem ekki liggja neinir möguleikar til að meta miðað við okkar þekkingu og þetta er tekið fram á bls. 17--18 í áliti okkar. Við erum auðvitað langt frá því að geta farið að taka út úr einstökum stofnum út frá stjórnun á vistkerfi hafsins og þurfum að efla rannsóknir. Takmarkaðar veiðar geta verið liður í því að treysta okkar þekkingu.