Hrefnuveiðar

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 15:43:31 (4364)


[15:43]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að engar vistfræðilegar ástæður koma í veg fyrir það að við veiðum hvali hér við land. Við höfum haldið til streitu okkar rétti til að nýta hvalastofninn og það skiptir miklu máli að við höldum þeim rétti til streitu áfram. Það er hins vegar alveg ljóst að það er nauðsynlegt að fara með gát í þessu máli vegna þess að það eru miklir hagsmunir tengdir því. Þeir hagsmunir tengjast okkar erlendu mörkuðum fyrir fiskafurðir og það er held ég öllum ljóst hér í þessum þingsal að málið er afar viðkvæmt og það ber að stíga hvert skref í því varlega.
    Ég vil taka það fram vegna orða síðasta ræðumanns að það er mjög brýnt að við reynum að afla okkur upplýsinga sem veita okkur stöðu til þess að taka á þessu máli líka á þann hátt að við séum að gæta jafnvægis í ástandi fiskstofna og hvalastofna hér í kringum landið með því að minnka þessa stofna. Það skiptir miklu máli að við komum okkur upp rökum til þess að taka á þessu máli frá þeim sjónarhóli séð, ekki einungis frá sjónarhóli nýtingarinnar. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að það væri mjög æskilegt að við gætum hafið veiðar á hrefnu, ekki síst eftir því fororði sem hér var nefnt áðan, þ.e. að afurðirnar séu nýttar á heimamarkaði, en ég tel einnig að það sé óhjákvæmilegt að líta á það hvaða skaði hefur orðið meðal þeirra sem höfðu lífsviðurværi sitt að hluta til af því að nýta hrefnur og vil ég beina þeirri áskorun til ríkisstjórnarinnar að það væri tekið á þessu máli sértaklega og skoðað hvort ekki væri hægt að bæta þeim sem höfðu lífsviðurværi af þessum veiðum upp tekjutap sitt.