Hrefnuveiðar

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 15:47:19 (4366)


[15:47]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu. Það er ekki langt síðan það var haft eftir Greenpeace-mönnum að það að stöðva hvalveiðar væri ekki lokaatriði í þeirri baráttu að friða nánast allt lífríki sjávar. Næst þegar búið væri að stöðva hvalveiðar þá yrðu netaveiðar teknar fyrir og þorskveiðarnar þá væntanlega bannaðar.
    Það liggur ljóst fyrir, virðulegi forseti, að á fiskmörkuðum í Japan er hægt að fá keypt hvalkjöt. Ég get sagt öllum þeim hér á landi sem eru svo mjög í vafa um að rétt sé að byrja að veiða hvalveiðar frá viðskiptalegu sjónarmiði að það er rangt. Ekki veit ég til þess að Bandaríkjamenn hafi lagt stein í götu eðlilegra viðskipta við Japan.

    Með tilliti til þess að nú hefur hvaltegundum fjölgað allverulega á miðum hér við land og menn hafa meira að segja haft orð á því að svo mikið sé af hvalnum að loðnuveiðimenn hafa mjög kvartað og jafnframt skulum við vera minnug þess og í ljósi þess að alvarlegt ástand er að skapast varðandi markaðsmál á hvalafurðum ef ekki verður gripið til einhverra ráða og þá þeirra ráða, þ.e. að hefja hvalveiðar og þá helst á vordögum.
    Það er annað líka sem rétt er að benda á að vísindamenn okkar hafa verið með allnokkuð yfirgripsmikla talningu á miðunum og þeir telja að það sé nú komið svo með sumar tegundir hvala hér við Ísland að fjöldi þeirra sé á við það sem var fyrir 100 árum þegar hvalveiðar hófust. Ég beini því til sjútvrh. og vænti þess að það verði gengið til þess að hefja hvalveiðar að nýju svo fljótt sem verða má.