Hrefnuveiðar

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 15:49:24 (4367)


[15:49]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegi forseti. Það er ekki rétt sem hæstv. sjútvrh. sagði að þáverandi ríkisstjórn hafði kosið að leggja það fyrir Alþingi hvort hvalveiðibanni yrði mótmælt eða ekki. Það var hv. þm. Eiður Guðnason sem lagði fram þáltill. á Alþingi ef ég man rétt sem var þá til afgreiðslu og þá var sú þáltill. felld hér, ef ég man rétt, með eins atkvæðis mun. Sú þingsályktun kom ekki frá þáv. hæstv. ríkisstjórn.
    Hitt er svo annað mál að það er eðlilegt að ríkisstjórnin vilji styrkja sinn málstað með því að leita eftir vilja Alþingis í þessu máli þó hún þurfi ekki á því að halda. En það er náttúrlega ófært að málið sé rekið með þeim hætti að á hverju ári sé verið að láta í það skína að það eigi að leita eftir slíkri heimild. Það var gert í fyrra og það var sagt að það ætti að leggja fram slíka tillögu í upphafi þings. Hvar er sú tillaga? Það á að ræða hana í þingflokkum stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar í dag og þing endar eftir nokkra daga. Auðvitað vita allir að það verður ekkert tóm til þess að afgreiða slíka tillögu. Og hver er ástæðan? Er hún ekki hreinlega sú að það er ósamkomulag um málið í ríkisstjórninni? Ríkisstjórnin kýs að hafa þann hátt á að koma með málið fram þegar það er orðið nokkurn veginn vonlaust að hægt sé að afgreiða það. Það er þessi framgangsmáti sem er ekki hægt að sætta sig við og þurfa svo að hlusta á þessa umræðu sitt á hvað frá stuðningsmönnum stjórnarinnar ár eftir ár í þessu máli. Það er miklu betra að segja þá bara eins og er: Það stendur ekki til að hefja hrefnuveiðar á næsta sumri. Þá vita þeir sem við það eiga að búa hver er niðurstaðan en vera ekki með þessar blekkingar ár eftir ár.