Hrefnuveiðar

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 15:51:46 (4368)


[15:51]
     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Hvalveiðar hafa verið til umræðu á Alþingi af og til allt þetta kjörtímabil, bæði bæði vegna fyrirspurna og eins urðu verulegar umræður um till. til þál. um hvalveiðar sem ég flutti ásamt hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni á tveimur síðustu þingum þar sem ríkisstjórninni var falið að gera ráðstafanir til þess að hvalveiðar gætu hafist næsta sumar á grundvelli rannsókna Hafrannsóknastofnunar á stærðum og veiðiþoli hvalastofna. Sjútvn. Alþingis sendi þessa tillögu vítt og breitt til umsagnar og fékk hún mjög jákvæðar umsagnir, jafnt sjómannasamtaka, útvegsmanna, verkalýðssamtaka og sölusamtaka. Þessar umsagnir sýndu auðvitað mjög glöggt þann mikla og almenna vilja sem er til þess hér á landi að við nýtum þessa auðlind, hvalinn, innan skynsamlegra marka. Þessi vilji landsmanna hefur einnig verið ítrekað staðfestur í nokkrum skoðanakönnunum þar sem mikill meiri hluti aðspurðra hefur mælt með hvalveiðum.
    Ég er sammála því sem hæstv. sjútvrh. sagði að Alþingi á auðvitað að taka afstöðu til hvalveiðanna. Því miður hefur Alþingi veigrað sér við því síðan í febrúar 1983 ef ég man rétt að hér var samþykkt með eins atkvæðis mun, illu heilli, að mótmæla ekki hvalveiðibanni Alþjóðahvalveiðiráðsins. Tillaga okkar kom ekki til atkvæða á síðasta þingi vegna þess að hæstv. sjútvrh. skipaði þá nefnd sem hér var vitnað í áðan með fulltrúum allra þingflokka til að gera tillögu um stefnu Íslendinga í hvalamálum og hvort hvalveiðar skuli hafnar að nýju og þá með hvaða hætti. Við sem skipuðum þessa nefnd komumst að einróma niðurstöðu og sendum hana hæstv. sjútvrh. í maí 1994. Helstu niðurstöður nefndarinnar hafa verið raktar hér af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni en meginniðurstaða nefndarinnar var sú að leyfa takmarkaðar veiðar á hrefnu og miða í upphafi við sölu afurðanna innan lands jafnframt því sem möguleikar á sölu hrefnuafurða erlendis væru kannaðar.
    Hæstv. forseti. Það er mín skoðun að við eigum að hefja hvalveiðar að nýju og því lengur sem það dregst því meiri líkur eru á að úr því verði ekki. Þess vegna tel ég að við eigum að leyfa hrefnuveiðar strax í sumar og stefna eindregið að frekari hvalveiðum sem fyrst.