Hrefnuveiðar

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 15:54:04 (4369)


[15:54]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Mönnum er auðvitað ljóst að hér er vandasamt mál á ferð en það réttlætir ekki þann

mikla drátt og þann feluleik sem hefur tíðkast í þessu málli hjá hæstv. ríkisstjórn og satt best að segja verkar það eins og lélegur brandari að þessa dagana, á síðustu sólarhringum þinghalds á þessu kjörtímabili, eigi að fara að kynna einhver drög að þál. í þingflokkum stjórnarliðsins. Ja, til hvers? spyr ég nú bara. Ég held að það hafi verið almenn trú manna á sl. vori að sú samstaða sem náðst hafði eftir mikið starf í sérstakri nefnd þýddi að menn væru að komast að samkomulagi um það hvernig þessum málum yrði aftur komið á hreyfingu eftir langa kyrrstöðu. Ég er þeirrar skoðunar að það beri að stefna að því að hefja nýtingu á hrefnu á nýjan leik og reyndar tel ég og hef lengi gert að það hafi verið mistök í málafylgjunni af hálfu okkar Íslendinga að viðhalda ekki allan tímann einhverri takmarkaðri nýtingu á smáhval og láta þá frekar rannsóknir eða nýtingu á stórhval mæta afgangi. Hrefnuveiðin sem strandveiði hér stunduð á minni bátum frá fjölmörgum byggðarlögum fellur miklu betur að þeim reglum sem sambærilegar veiðar gera og helst hafa þó fengist viðurkenndar á undanförnum árum.
    Að lokum, hæstv. forseti, er einn angi þessa máls sem er óþolandi að ekki skuli vera tekið á og það er staða hrefnusjómanna. Það er staða þeirra útgerðarmanna sem hafa í 6--8 ár beðið árangurslaust eftir því að fá að hefja hrefnuveiðar. Nú eru mörg þau fyrirtæki að komast í þrot. Þessir menn stunduðu hrefnuveiðar á þeim árum þegar viðmiðun fyrir aflamarki í bolfiski var fengin og hafa af eðlilegum ástæðum lélegri kvóta sem því nemur að þeir stunduðu hrefnuveiðar á þessum tíma og það er algert óréttlæti að þeir skyldu ekki hafa fengið það á nokkurn hátt bætt þegar stjórnvöld hafa ákveðið að banna þeim ár eftir ár að nýta þá stofna sem voru stór hluti eða uppistaða í tekjum þeirra útgerða á löngu árabili. Það verður að taka á því máli og ef hæstv. sjútvrh. tæki nú á sig rögg þó ekki væri nema í því litla atriði og kippti því í liðinn þá væri það þó í áttina.