Hrefnuveiðar

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 15:58:50 (4371)




[15:58]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir hans svör en ég gagnrýni hann harðlega fyrir framtaksleysi í þessu máli. Það er ekki nema um tvennt að ræða: Það er annaðhvort framtaksleysi af hálfu hæstv. sjútvrh. eða ósamstaða í hæstv. ríkisstjórn og mér finnst að hæstv. sjútvrh. ætti að upplýsa það hér hvort er um að ræða í þessu sambandi. Það er náttúrlega alveg með endemum að ætla núna þegar vika er eftir af þinginu að leggja fyrir stjórnarflokkana tillögu þess efnis að veiðar verði hafnar árið 1996. En ég vil þó að segja að ég er þakklát sjálfri mér fyrir að hafa tekið þetta mál hér upp á hv. Alþingi því að ég held að það hljóti bara að vera eitthvert samhengi þar á milli að þetta skuli einmitt vera að gerast núna þessa dagana og mér þykir verst að ég skuli ekki hafa tekið málið upp fyrir mörgum mánuðum.
    Ég vil einnig þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls og það sýnir sig og hefur sýnt sig nú eins og svo oft áður að það er vilji fyrir því að hrefnuveiðar geti hafist að nýju. Og ég er

sannfærð um að það verður ekki erfitt að koma því máli í gegnum hv. Alþingi ef það hefði bara á annað borð verið reynt.
    Það hefur verið minnst á kynningarstarf og ég tek undir að það er mikilvægt að það fari fram. Ég veit að það eru erfiðleikar í þessu máli. Mér dettur ekki í hug að neita því og það eru öfgahópar sem gera sér ekki nokkra grein fyrir út á hvað þetta mál gengur en hugsa fyrst og fremst sem svo: Ef þjóð veiðir hval þá er hún ekki umhverfissinnuð. Þetta eru náttúrlega öfgar sem er erfitt að fást við, ég veit það, en það þarf að vinna í þeim málum og því hlýtur hæstv. sjútvrh. að svara því í sinni ræðu hvað hefur verið gert til þess að kynna málið erlendis.