Hrefnuveiðar

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 16:01:19 (4372)


[16:01]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Fyrst að því er varðar spurningu um hvernig staðið hefur verið að kynningu þessa máls er rétt að taka það fram að málið hefur af hálfu stjórnvalda verið ítarlega rætt við þau ríki sem helst eiga hlut að máli og í viðkomandi alþjóðastofnunum. Af hálfu ráðuneytisins hefur verið staðið að mjög skipulögðum bréfaskriftum og upplýsingamiðlun víðs vegar um heim.
    Hv. málshefjandi talaði um framtaksleysi og má að sjálfsögðu gera það. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög almennur villji til þess að taka upp hvalveiðar að nýju. Það er og hefur verið stefna núv. ríkisstjórnar. Það er á hinn bóginn ekki mjög einfalt mál eins og mjög skýrt kemur fram í skýrslu nefndar sem hér hefur verið vitnað til og skipuð var fulltrúum allra þingflokka. Ég hef lagt á það ríka áherslu að reyna að viðhalda samstöðu í þessu efni. Þó að við séum flest sammála um hvert eigi að stefna þá geta verið skiptar skoðanir um það með hvaða hætti eigi að vinna að framgangi málsins og það er fullkomlega eðlilegt. En við eigum hér í mjög erfiðu máli. Það er ekki hægt að hafa neitt alvöruleysi á bak við mál þar sem fyrir liggur að eitt öflugasta ríki veraldar er stöðugt uppi með hótanir um viðskiptaþvinganir og fámenn þjóð eins og við, þó við höfum öll rök með okkur, verður því að fara varlega. Og við munum ekki ná árangri nema við stöndum saman og víkjum pólitískum ágreiningi til hliðar.
    Ég hef reynt að haga störfum mínum þannig að reyna að viðhalda þessari samstöðu og nefnd með fulltrúum allra þingflokka lagði mikið af mörkum til þess og á þeim grunni hefur verið unnið síðan. Ég vona að okkur takist að halda samstöðu í þessu efni út á við vegna þess að öðruvísi er vonlítið um árangur. Það hefði vissulega verið æskilegra að þingið hefði getað fengið þessa tillögu til umfjöllunar fyrr. En ef um þetta mál er samstaða þá eigum við að geta stigið það skref sem hér er lagt til. Það er enginn lokaáfangi í þessu máli en getur verið mikilvægt skref fram á við.
[Fundarhlé. --- 16:03]