Skýrsla umboðsmanns Alþingis

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 18:25:22 (4376)


[18:25]
     Árni R. Árnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Í orðum hæstv. utanrrh. var ýmislegt að finna, sérstaklega í fyrri hlutanum þar sem hann beindi orðum sínum til okkar hinna sem höfum vakið máls á umræddu áliti umboðsmanns. Ég verð að vekja athygli hans á því að í orðum okkar hefur ekki komið fram að við álítum að vanhæfir hafi orðið fyrir valinu. Síður en svo. Við höfum hins vegar ítrekað bent á að það er niðurstaða umboðsmanns Alþingis að í fleiri en einu máli sem varðar hans ráðuneyti undir hans stjórn hafi verið viðhafðir jafnvel viðvarandi óvandaðir starfshættir. Það er það sem við bendum á og höfum í okkar orðum hvatt til þess að hann bæti úr þessum atriðum, viðhafi og komi á vönduðum starfsháttum.