Skýrsla umboðsmanns Alþingis

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 18:28:27 (4378)


[18:28]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég verð í upphafi máls míns að segja að mér þykir ánægjulegt að hæstv. utanrrh. hefur reynt að bæta fyrir þau brot sem umboðsmaður taldi að hann hefði gerst sekur um varðandi tollvarðaveitingarnar og beðið B velvirðingar og reynt að rétta hans hlut. Hins vegar finnst mér ekki ástæða til þess hjá hæstv. utanrrh. að telja þessa umræðu vera einhvern sérstakan lið í kosningabaráttunni. Það var ekki stutt til kosninga þegar þessi mál voru til umræðu fyrir rúmu ári síðan og þar af leiðandi engin ástæða til þess að gera hv. alþm. upp annan tilgang í ár heldur en var fyrir ári síðan, að vekja athygli á því sem misfarist hafði og ánægjulegt að hann hefur tekið tillit til þeirrar umræðu sem þá átti sér stað.
    Hæstv. utanrrh. hefur hins vegar ekki svarað þeim spurningum sem ég bar fram hér áðan vegna ummæla hans í umræðunni fyrir rúmu ári síðan, hvort ástæðan fyrir þeim ummælum voru eftiráskýringar hans eða hvort ástæðan fyrir því að þau ummæli voru ekki í takt við það sem utanrrn. hafði áður sagt væri einhvers konar handvömm í ráðuneytinu eða einhver önnur skýring. Hann hefur ekki komið fram með neinar skýringar á þessu atriði í sinni ræðu.
    Hvað varðar hins vegar stefnuna í verktökunni þá er hún okkur vel kunnug og alveg ljóst hvað varðar sorpförgunina að þá var ekki farið eftir anda þeirrar stefnu.