Skýrsla umboðsmanns Alþingis

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 18:34:21 (4382)


[18:34]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fjalla um einstök mál í þessari skýrslu umboðsmanns Alþingis þó að vissulega sé þar skýrt frá mörgum athyglisverðum málum sem gæti gefið ástæðu til að fjalla um, fleiri heldur en því sem verið var að ljúka við skoðanaskiptum um. Ég vildi fyrst og fremst nota þetta tækifæri til að þakka fyrir þessa skýrslu og jafnframt þakka umboðsmanni og hans starfsliði fyrir þau ágætu störf sem þar voru unnin á árinu 1993 sem þessi skýrsla fjallar um og í annan tíma.
    Það eru áreiðanlega fáir sem mundu nú vilja missa þetta embætti svo mikla þýðingu hefur það haft í okkar þjóðfélagi og jákvæð áhrif. Það hefur gert mörgum einstaklingum kleift að leita þangað, bæði til að fá leiðréttingu mála sinna og þó þeir hafi ekki haft rök fyrir leiðréttingu þá hafa þeir fengið upplýsingar um stöðu sína. Og fáir vefengja að sú niðurstaða sem þar er gefin sé á traustum rökum byggð.
    Það fer heldur ekki fram hjá neinum að umboðsmaður og ábendingar hans hafa haft áhrif í stjórnsýslunni. Þaðan hefur stjórnsýslan fengið mörg góð ráð og leiðbeiningar og ég hygg að það sé undantekningalítið orðið svo að reynt sé að taka tillit til þeirra og þá að láta ekki henda aftur það sem kvartað hefur verið yfir.
    Þrátt fyrir það er vissulega athyglisvert að þeim málum sem umboðsmaður fær til meðferðar fækkar ekki og sýnir að þörfin er rík fyrir þetta starf áfram, enda alltaf að sjálfsögðu að koma upp ný álitamál í okkar þjóðfélagi. Það er einnig gott fyrir okkur alþingismenn að hafa það í huga að það skiptir ekki aðeins miklu máli hvernig stjórnsýslan framkvæmir lög og veitir aðra þjónustu heldur ber okkur að hafa í huga að setning laga er mjög mikið vandaverk. Þingmenn þurfa að reyna að leitast við að lög séu sem skýrust og ótvíræð til þess að sem fæst álitaefni komi upp við framkvæmd þeirra. Það er áminning til okkar að vega og meta má segja hvert orð sem í þeim stendur þar sem það getur haft mikil áhrif hvaða orð eru þar notuð. Þetta kemur sérstaklega í hugann nú vegna þess að yfir því hefur verið kvartað á síðustu dögum að ekki hafi gefist nægur tími til að vega og meta allar ábendingar sem fram hafa komið við nefndastörf, en ég vildi nota þetta tækifæri til að undirstrika það hversu mikilvægt löggjafarstarfið er og mikil ábyrgð hvílir á alþingismönnum að vanda þar vel til verka sinna, eins vel og nokkur kostur er.
    Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þessa skýrslu umboðsmanns, en láta í ljós þá von að það starf sem þar verður unnið verði jafnfarsælt í framtíðinni eins og þann tíma sem hefur liðið frá því að umboðsmaður Alþingis tók til starfa.