Skýrsla umboðsmanns Alþingis

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 18:40:23 (4383)


[18:40]

     Sólveig Pétursdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins koma með stuttar athugasemdir. Það hefur m.a. verið minnst hér í umræðu á þá fjölgun mála sem orðið hefur hjá umboðsmanni. Þannig segir t.d. í formála þessarar skýrslu um málfjöldann, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Á árinu 1993 voru skráð 238 ný mál og á árinu tók ég [þ.e. umboðsmaður] þrjú mál upp að eigin frumkvæði. Skráð mál á grundvelli kvartana sem bornar voru fram voru 235. Tekið skal fram að mál eru því aðeins skráð að skriflegt erindi hafi borist, oftast í formi skriflegrar kvörtunar eða að umboðsmaður taki mál upp að eigin frumkvæði. En einnig er algengt að menn hringi eða komi á skrifstofu umboðsmanns og beri upp mál sín og leiti upplýsinga. Er þá oftast greitt úr máli með skýringum eða með því að koma þeim í réttan farveg innan stjórnsýslunnar án þess að til skráningar komi.``
    Fleiri athyglisvert atriði koma fram í þessari skýrslu, m.a. um skiptingu kvartana eftir málaflokkum, aldri og ýmislegt annað sem ég ætla ekki að tíunda hér frekar. Ég vil aðeins segja að lokum að það er að sjálfsögðu rétt að taka undir orð hv. alþingismanna um prýðilegt starf umboðsmanns Alþingis og þakkir fyrir þessa vel unnu skýrslu.