Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1993

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 18:42:26 (4384)


[18:42]
     Pálmi Jónsson :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir hönd forsætisnefndar fyrir starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1993. Samkvæmt 12. gr. laga nr. 12/1986, um Ríkisendurskoðun, ber stofnuninni árlega að semja heildarskýrslu um störf sín á liðnu almanaksári og leggja fyrir Alþingi. Í samræmi við lagaskyldu þessa tók Ríkisendurskoðun saman skýrslu um starfsemi sína á árinu 1993 og birti í maímánuði sl. Hér á eftir mun ég gera grein fyrir þessari skýrslu í stórum dráttum.
    Með starfsskýrslu þeirri sem hér er til umræðu er fyrst og fremst verið að lýsa störfum stofnunarinnar og verkefnum á árinu 1993, svo og starfsmannahaldi og reikningsskilum ársins. Í skýrslunni eru einstök verkefni sem stofnunin tók að sér ekki tekin fyrir eða brotin sérstaklega til mergjar. Slíkt er gert í sérstökum skýrslum stofnunarinnar um hin einstöku verkefni og nægir að vísa til þeirra vilji menn kynna sér þær nánar. Niðurstöður þessara skýrslna og umræður um þær eiga því eðli málsins samkvæmt tæpast heima undir þessum dagskrárlið.
    Starfsemi Ríkisendurskoðunar er í meginatriðum skipt í þrjá þætti, þ.e. fjárhagsendurskoðun, stjórnsýsluendurskoðun og loks þjónustu við Alþingi og yfirskoðunarmenn ríkisreikninga. Á árinu 1993 var starfsemin með nokkuð hefðbundnu sniði. Almenn fjárhagsendurskoðun er sem fyrr meginviðfangsefni stofnunarinnar. Fjárhagsendurskoðun felst einkum í því að fylgjast með rekstri og fjárvörslu ríkisstofnana, svo og hvort fjárheimildir séu virtar og hagkvæmni og hagsýni gætt í rekstri þeirra. Kannað er í þessu sambandi hvernig færslu bókhalds og gerð ársreiknings er háttað hjá ríkisstofnunum. Athugasemdum sem gerðar eru í tengslum við endurskoðunina er komið á framfæri við viðkomandi stofnun og það ráðuneyti sem hún heyrir undir. Helstu niðurstöður fjárhagsendurskoðunarinnar birtast síðan í endurskoðunarskýrslu er fylgir ríkisreikningi hlutaðeigandi ára og vísast til þeirra í þessu sambandi.
    Á árinu 1993 komu út tvær skýrslur um endurskoðun ríkisreikninga, önnur fyrir árið 1991 og hin fyrir 1992. Endurskoðunarskýrslur eru sem fyrr unnar í nánu samstarfi við yfirskoðunarmenn ríkisreiknings sem Alþingi kýs samkvæmt 43. gr. stjórnskipunarlaga. Vert er að geta þess að endurskoðunarskýrsla vegna ársins 1992 er fyrsta skýrslan þeirrar tegundar um áratuga skeið sem tekist hefur að birta vegna ríkisreiknings á næsta ári eftir að viðkomandi reikningsári er lokið. Það er vissulega von mín að framhald verði á því að hægt verði að standa skil á skýrslum á eðlilegum tíma svo sem þarna tókst og er ljóst mikilvægi þess að ekki líði of langur tími frá því að ríkisreikningi er lokað og þar til formlegri endurskoun hans lýkur.
    Við fjárhagsendurskoðun vakna iðulega spurningar um hvort nægjanlegrar hagsýni sé gætt í rekstri, svo og hvort skipulag eða starfshættir þeirrar stofnunar eða fyrirtækja sem verið er að endurskoða hverju sinni þjóni best þeim markmiðum sem að er stefnt með starfsemi þeirra. Kerfisbundin athugun á þeim málum heyrir á hinn bóginn fremur undir hina svokölluðu stjórnsýsluendurskoðun, sem er að verða sífellt viðameiri þáttur í störfum stofnunarinnar.
    Á árinu 1993 var lokið við tvær athuganir af því tagi. Sú fyrri fjallaði um Landgræðslu ríkisins og þau verkefni sem sú stofnun sinnir á sviði gróðurverndar og jarðvegsverndar. Hin síðari fjallaði um Framleiðnisjóð landbúnaðarins og var tilefni hennar að gerðar höfðu verið athugasemdir við tiltekin atriði í rekstri sjóðsins í skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1991. Einnig töldu yfirskoðunarmenn í skýrslu sinni um ríkisreikning 1991 æskilegt að freista þess að meta reglulega árangur af lögheimiluðum fjárframlögum ríkisstofnana og opinberra sjóða til ákveðinna verkefna og nefndu sem dæmi Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Af þessu tilefni var ráðist í umrætt verkefni og var tilgangur þess að meta hvort styrkir sjóðsins

hefðu skilað þeim árangri sem til var ætlast með hliðsjón af lögbundnum markmiðum með starfsemi hans. M.a. var kannað hvort styrkir til búháttabreytinga hefðu leitt til betri afkomu bænda á lögbýlum, svo og hvort framlög til atvinnusköpunar hefðu leitt til þess að sú atvinna sem sjóðurinn hafði reynt að viðhalda ellegar koma á fót í dreifbýli yrði til frambúðar.
    Ég hef valið að nefna efni og eðli þessa verkefnis einungis í þeim tilgangi að taka það sem dæmi og sýna fram á að oft kann að vera náið samband á milli almennrar fjárhagsendurskoðunar og stjórnsýsluendurskoðunar og reyndar oft margt skylt í þeim athugunum þó auðvitað sé slíkt ekki algilt.
    Eitt af lögbundnum verkefnum Ríkisendurskoðunar er að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Á árinu 1993 voru þrjár skýrslur gefnar út um framkvæmd fjárlaga. Samkvæmt lögum nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, annast Ríkisendurskoðun ákveðið eftirlit sem felst í því að halda skrá yfir tekjur, gjöld, eignir og skuldir allra skráðra sjóða og stofnana sem staðfestingu njóta samkvæmt þeim lögum. Jafnframt ber henni að gera athugasemdir við reikninga þessara aðila ef ástæða þykir til. Í samræmi við 6. gr. laganna hefur í samvinnu við dómsmrn. verið unnið markvisst að því að leggja niður sjóði sem eiga óverulegar eignir, þ.e. 50 þús. kr. eða minna.
    Á árinu 1993 voru 137 sjóðir lagðir niður en 15 nýir bættust á skrá. Í árslok voru skráðir 634 sjóðir og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Á sama hátt og árið áður var endurskoðun ársreiknings skrifstofu EFTA fyrir árið 1992 í höndum Íslands og Finnlands og sá Ríkisendurskoðun um þátt Íslands í því starfi. Loks er þess að geta að á árinu 1993 fékk stofnunin fjölmörg erindi til umfjöllunar, svo og beiðnir um úttektir og upplýsingar frá ýmsum nefndum Alþingis, svo og frá ráðuneytum.
    Á árinu 1993 tók Ríkisendurskoðun í notkun tölvutengt verkbókhald um vinnuframlag við endurskoðun. Með þessu upplýsingakerfi gefst kostur á að sjá raunverulegan kostnað stofnunarinnar við framkvæmd verkefna. Með þessu er lagður mun betri grunnur að áætlanagerð og vinnuskipulagi en áður hafði tíðkast. Enn fremur verður auðveldara að bera saman eigin endurskoðunarkostnað við aðkeypta endurskoðunarþjónustu og meta hagkvæmni aðkeyptrar endurskoðunarþjónustu hverju sinni. Rétt er þó að undirstrika að endurskoðunarstörf hjá hinu opinbera eru á ýmsan hátt frábrugðin þeim sem tíðkast á hinum almenna markaði og þar af leiðandi er samanburður við einkaaðila á sviði endurskoðunar ekki alltaf einhlítur. Sé rýnt í helstu niðurstöður umrædds verkbókhaldskerfis kemur í ljós að starfsmenn Ríkisendurskoðunar skiluðu samtals 55.511 vinnustundum við endurskoðun, athugun á bókhaldi og fjárreiðum og skyld verkefni á árinu 1993. Að auki keypti stofnunin þjónustu af löggiltum endurskoðendum á sama ári sem svaraði til 5.482 vinnustunda.
    Vinna sem fer fram við endurskoðun einstakra ráðuneyta fer í aðalatriðum eftir fjárhagslegu umfangi. Þannig var um 22% af þessum tíma varið til endurskoðunar á heilbr.- og trn. en um 16% vegna stofnana á vegum fjmrn., þar með talið stofnana í B-hluta ríkisreiknings. Um 11% var vegna menntmrn. og um 10% vegna dómsmrn. Um 12% af vinnumagninu var ráðstafað til ýmissa óskiptra verkefna, m.a. endurskoðunar ríkisreiknings, athugana á framkvæmd fjárlaga og verkefna fyrir fjárln.
    Á árinu 1993 urðu litlar breytingar á starfsmannahaldi stofnunarinnar. Í árslok 1993 voru fastráðnir starfsmenn alls 40 eða jafnmargir og stöðuheimildir hennar segja til um. Eins og fyrri ár kaupir Ríkisendurskoðun þjónustu af löggiltum endurskoðendum vegna reikningsskila ýmissa ríkisfyrirtækja og stofnana í eigu ríkisins, enda beinlínis reiknað með því í lögum um stofnunina að henni sé þetta heimilt. Þetta helgast af því að stofnunin býr hvorki yfir starfskrafti né aðstöðu til þess að sinna að fullu lögbundnum verkefnum á sviði fjárhagsendurskoðunar. Í árslok 1993 voru í gildi samningar við 27 löggilta endurskoðendur eða endurskoðunarskrifstofur um endurskoðun 82 ríkisfyrirtækja og stofnana. Samningum hafði fjölgað um tvo og fyrirtækjum um fjögur á milli ára. Einkum er hér um að ræða sjúkrastofnanir svo og fyrirtæki og sjóði í B-hluta ríkisreiknings.
    Útgjöld Ríkisendurskoðunar á árinu 1993 námu 157,7 millj. kr. Laun vega þar þyngst eða um 2 / 3 . Sértekjur stofnunarinnar námu 6,2 millj. kr., en þar er um að ræða útselda endurskoðunarvinnu. Útgjöld að sértekjum frádregnum námu 151,6 millj. Í fjárlögum fyrir árið 1993 var ráð fyrir því gert að veittar yrðu 154,7 millj. kr. úr ríkissjóði til reksturs stofnunarinnar. Greiðsluheimildir voru síðan hækkaðar um 8,8 millj. vegna rekstrarafgangs frá árinu 1992. Nam fjárheimild ársins þannig samanlagt 163,5 millj. kr. og útgjöld urðu því 11,9 millj. undir því sem heimildir sögðu til um.
    Í samræmi við 5. gr. laga um stofnunina skipar forseti Alþingis sérstakan endurkoðanda reikninga hennar og hefur Guðmundur Skaftason, löggiltur endurskoðandi haft það embætti með höndum.
    Sem fyrr er að vikið er Ríkisendurskoðun ætlað að gegna eftirlitshlutverki innan opinberrar stjórnsýslu og að miðla upplýsingum til Alþingis og ríkisstofnana um fjárhagsleg málefni. Stofnunin hefur á hinn bóginn ekki framkvæmdarvald. Því er mikilvægt að athugasemdir og ábendingar sem fram koma í skýrslum hennar fái umfjöllun hjá Alþingi og að Alþingi hlutist til um breytt vinnubrögð ráðherra og embættismanna ef það telur ástæðu vera til.
    Forsn. Alþingis ákvað á síðasta ári að skýrslum Ríkisendurskoðunar skuli vísað til einstakra fagnefnda Alþingis og þær teknar þar til umfjöllunar og um þær væri ályktað ef tilefni þætti til. Með þessu móti gefst hlutaðeigendum innan opinbera stjórnkerfisins einnig tækifæri til að skýra sjónarmið sín til þeirra athugasemda sem stofnunin hefur gert. Ég tel þessa breytingu mikilvæga og vona að hún leiði til enn meiri árangurs af starfi Ríkisendurskoðunar hér eftir. Hlutverk Alþingis er þýðingarmikið í þessu sambandi.

    Ég tel að ástæða sé til að leggja á það áherslu að sú breyting, sem gerð var með lögunum 1986 þegar stöðu Ríkisendurskoðunar var breytt í stjórnkerfinu þannig að hún heyrði undir Alþingi en ekki lengur undir fjmrn. eins og áður hafði tíðkast, hefur reynst vel. Ekki einungis það heldur hafi sú breyting verið bæði tímabær og nauðsynleg. Með þeirri breytingu varð stofnunin óháð framkvæmdarvaldinu. Hún hefur einnig aukið starfsemi sína og sinnt margþættari verkefnum en áður tíðkaðist og aflað sér virðingar með starfi sínu. Ég legg mikla áherslu á að aldrei má skerða sjálfstæði Ríkisendurskoðunar. Þess þarf að gæta að hún verði ekki að nýju færð undir væng framkvæmdarvaldsins. Enn fremur legg ég áherslu á að Ríkisendurskoðun má ekki fá yfir sig pólitíska stjórn. Hún þarf að vera óháð og sjálfstæð þó svo hún heyri undir Alþingi. Ég tel að þau samskipti sem orðið hafa á milli Ríkisendurskoðunar og hæstv. forseta Alþingis hafi verið góð. Hitt er svo aftur annað mál að ég tel að enn þurfi að bæta meðferð skýrslna sem frá stofnuninni berast til Alþingis og gera athugun á þeim markvissari og virkari. Þeirri hugmynd hefur verið hreyft sem er í samræmi við það sem gildir í sumum öðrum löndum að sett verði á laggir sérstök þingnefnd sem fái skýrslur Ríkisendurskoðunar til meðferðar, taki þær til athugunar, kalli fyrir forstöðumenn stofnana og ráðuneyta, sem ástæða þykir til, svo að þeir aðilar geti gefið skýringar á því sem þykir aðfinnsluvert í skýrslum Ríkisendurskoðunar og leggi síðan fyrir Alþingi ályktun í framhaldi af athugun á skýrslunum eftir því sem tilefni þykir gefa til. Þessi hugmynd er að mínum dómi athyglisverð en ég tel að eftir að forsn. ákvað að senda allar skýrslur stofnunarinnar til fastanefnda þingsins hafi þó verið verulegt skref í rétta átt. E.t.v. má segja að það kerfi geti gengið áfram en þó finnst mér að fastanefndir þingsins þurfi í ýmsum tilvikum að rækta það endurskoðunarstarf og athugunarstarf sem þeim er ætlað þegar þær fá slíkar skýrslur í hendur með þeirri vinnutilhögun sem ég hef lýst hér áðan um að gefa þá framkvæmdarvaldinu kost á að bera fram skýringar sínar og leggja síðan fyrir Alþingi niðurstöður úr athugun nefndarinnar.
    Þessi mál tel ég ástæðu til að taka til athugunar í þeim tilgangi að það mikla og mikilvæga starf sem unnið er af hálfu Ríkisendurskoðunar skili meiri og virkari árangri en e.t.v. hefur gerst til þessa þó að það hafi vissulega mátt sjá árangur á mörgum sviðum.
    Ég tel ekki ástæðu til að lengja mál mitt þótt margt megi segja um starfsemi þessarar stofnunar. Ég vil aðeins, hæstv. forseti, eftir að hafa rakið það helsta úr starfi Ríkisendurskoðunar á árinu 1993 flytja fyrir hönd forsn. og væntanlega allra hv. alþm. Ríkisendurskoðun og starfsmönnum hennar þakkir fyrir vel unnin störf á því ári sem hér hefur verið fjallað um.