Náttúruvernd

96. fundur
Fimmtudaginn 16. febrúar 1995, kl. 10:39:35 (4390)

[10:39]
     Frsm. minni hluta umhvn. (Kristín Einarsdóttir) :
    Frú forseti. Ég átti satt að segja ekki von á því að þurfa að taka til máls nú í þessu máli. Ég hélt að það væri ekki á dagskrá fyrr en síðar á fundinum þannig að ég hafði ekki reiknað með því að ég kæmi strax á dagskrá auk þess sem ég vissi að aðrir voru á mælendaskrá á undan mér, en það breytir ekki því að ég skal gjarnan koma þeim atriðum á framfæri sem ég hafði ætlað mér.
    Í fyrstu ræðu minni í þessu máli mælti ég aðallega fyrir nál. minni hluta umhvn. og skýrði hvers vegna við teldum að ekki væri ástæða til þess að afgreiða þetta frv. nú, en eins og þingmenn muna, þá voru höfð í frammi ákaflega einkennileg vinnubrögð að því er varðaði afgreiðslu þessa máls og nefndin fékk í

raun ekki tækifæri til að skoða málið með þeim hætti sem viðunandi verður að teljast. Og eins og ég sagði, þá var það svolítið erfitt fyrir okkur fjögur sem ekki stöndum að áliti meiri hlutans að gera okkur grein fyrir hvaða þætti frv. við værum þó sátt við og hvað ekki og eins brtt. sem lagðar voru fram á fundi nefndarinnar um leið og tillaga var lögð fram um það að taka málið út úr nefnd. Ég get því ekki talað nema fyrir eigin munn um það hvaða breytingar og hvaða áherslur rétt væri að leggja í þessum málum þar sem við fjögur, sem stöndum að þessu nál. sem ég mælti fyrir fyrr í þessari umræðu, höfum ekki endilega sömu skoðanir á því hvernig þessum málum sé best fyrir komið.
    Nú gerði hv. 2. þm. Suðurl., Jón Helgason, grein fyrir máli sínu fyrr í umræðunni og skýrði sín sjónarmið og eins hefur hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, gert grein fyrir sínu og ég ætla þá aðeins að fara yfir nokkur atriði að því er varðar sjálfa mig.
    Það vakti athygli mína og reyndar fleiri að hv. 11. þm. Reykn., Petrína Baldursdóttir, skýrði ákaflega lítið og gerði ákaflega litla grein fyrir þeim brtt. sem meiri hlutinn lagði til og skýrði á engan hátt hvers vegna svo mikið hefði legið við á fundi nefndarinnar að þurft hefði að beita þeim vinnubrögðum sem þar var gert og verð ég að segja að ég hef enga skýringu á því hvers vegna meiri hlutinn taldi að nauðsynlegt væri að viðhafa svo óvönduð vinnubrögð sem þar voru höfð í frammi. Ekki er hægt að kenna því um að vilji hafi ekki verið til að halda fund í nefndinni því að aukafundir voru boðaðir á ólíklegustu tímum til þess að reyna að flýta afgreiðslu málsins.
    Í 1. gr. frv. er tekið á því að umhvrn. fari með yfirstjórn þessara mála og það held ég að enginn ágreiningur sé um og það eru vonandi flestir sem telja nú orðið að það hafi verið til farsældar að umhvrn. skyldi hafa verið stofnað þó vissulega hafi verið deilur um það mál í þinginu á sínum tíma. Ég hef að vísu heyrt það að ýmsir séu ekki alls kostar ánægðir með framgöngu umhvrn. í mörgum málum og margir líffræðingar sem ég þekki og fólk innan þeirra stofnana sem undir ráðuneytið falla eru á margan hátt mjög ónægðir með framgöngu ráðuneytisins að því er varðar afskipti af innri málum stofnana. Þetta vildi ég segja til þess að taka fram að það eru svo sem ekki allir alveg 100% ánægðir með það hvernig ráðuneytið hefur hagað sér, þó að flestir ef ekki allir sem ég þekki til í þeim geira séu ánægðir með að umhvrn. hafi verið stofnað, en það verður auðvitað að taka á málum af myndugleik, en ekki að vera að skipta sér stöðugt af daglegum rekstri og innri málum. Það er allt annað mál, þannig að þó að þarna sé ekki um neina efnisbreytingu að ræða þá eru allir nokkuð ánægðir með þetta.
    Varðandi þá aðila sem taldir eru upp í a-lið 1. gr., þá er það mjög til bóta að það skuli eiga að hafa samráð við Náttúruverndarráð, bændur og aðra landnotendur, sveitarstjórnir og samtök áhugamanna um náttúruvernd. Ég vil taka það fram að í nefndinni komu fram ýmsar athugasemdir varðandi samráðsaðila, þ.e. að þeir þyrftu að vera fleiri. M.a. kom fram frá Ferðamálaráði athugasemd um að það væri mjög nauðsynlegt að fulltrúar ferðamálageirans væru þarna inni vegna þess að frv. miðar að mörgu leyti við að það sé verið að taka á aðstæðum á ferðamannastöðum og þess vegna var eðlilegt að það kæmu fram athugasemdir um það að fulltrúar Ferðamálaráðs eða aðrir fulltrúar ferðamálageirans væru í nefndinni. Nefndin ræddi þetta svo sem ekki frekar en margt annað vegna þess að við höfðum ekki tækifæri til að ræða um það hvort ástæða væri til þess að taka tillit til þessa sjónarmiðs.
    Ég verð að segja það, frú forseti, að ég er ekki viss um að það sé endilega rétt að bæta þarna við og að fulltrúi Ferðamálaráðs eigi að vera þarna inni svo að ég segi mína skoðun á því. Ég held að þeir samráðsaðilar sem þarna er, t.d. bændur og aðrir landnotendur, sveitarstjórnir og samtök áhugamanna um náttúruvernd, dekki mjög vel það sem þarna er um að ræða og ég kem aðeins að því síðar að ég tel raunar að það sé óþarfi í náttúruverndarlögum alltaf að vera að tala sérstaklega og mikið um ferðamenn fram yfir aðra eins og gert er því þeir eiga ekki að vera neitt sérgreindir eins og mér finnst stundum vera tilhneiging til, en ég kem aðeins að því síðar, þannig að að því leyti til er ég nokkuð ánægð með þessa grein frv.
    En það er þegar kemur að b-lið 1. gr. sem verður 3. gr., þegar á að koma á fót nýrri stofnun, Landvörslu ríkisins, sem efasemdir mínar fara að koma fram. Ég hefði miklu fremur talið að það væri eðlilegt að Náttúruverndarráð héldi áfram starfsemi, það yrði áfram eins og frv. reyndar gerir ráð fyrir, en það mætti svo sem heita eitthvað annað, ég er ekki að finna að því, heldur að Náttúruverndarráði yrði skipt upp, það yrði deildaskipt þannig að það væri annars vegar reksturinn, rekstur t.d. þjóðgarða og friðlýstra svæða, og hins vegar væri þá eftirlitið þannig að það væru ekki sömu aðilar sem væru með framkvæmdir og rekstur og þeir sem væru með eftirlit. Það er akkúrat eitt af því sem hefur verið talað um að væri mjög óheppilegt, t.d. varðandi Náttúruverndarráð að þar sé raunverulega öllu grautað saman. Náttúruverndarráð er með framkvæmdir, þeir eru með eftirlit, þeir eru með fræðslu og þeir eru með friðlýsingarnar og náttúruminjaskrána og þeir eru með allt og sitja raunverulega beggja vegna borðs. Ég held að það hafi verið varaformaður Náttúruverndarráðs á náttúruverndarþingi, ég man ekki alveg hvaða þing það var, sem vitnað var til fyrr í umræðunni, sem sagði að Náttúruverndarráð væri orðið einhvers konar bastarður ef ég man rétt og vitnaði hæstv. umhvrh. til þeirra orða hér. Það út af fyrir sig getur verið alveg rétt að þegar komin er ein stofnun með margs konar hlutverk, þá getur það verið mjög óheppilegt og sérstaklega þegar maður hugsar um að fólk verður að hafa áfrýjunarrétt og það er erfitt að það sé sami aðilinn sem sé með alla þessa þætti. Og varðandi b-liðinn, þar sem aðallega er tekið á um Landvörsluna, að hún skuli stofnuð, þá hef ég efasemdir um að það sé rétt að stofna nýja stofnun við hliðina á annarri, þ.e. Náttúruverndarráði. En það

er kannski út af fyrir sig í lagi ef fólk vill endilega nýjar stofnanir sem hafi gott hlutverk, þá er það í lagi.
    En ef skoðaður er síðan c-liðurinn, og skoðað er hlutverk Landvörslunnar, þá fer nú aðeins að vandast málið því að samkvæmt honum á Landvarsla ríkisins að hafa umsjón með þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Hún á líka að gæta að umferð ferðamanna, sem er auðvitað eðlilegt því að það er þá aðallega á friðlýstum svæðum og í þjóðgörðum, en síðan á Landvarslan, auk þess að vera með eftirlit, að vera með fræðslu, hún á að vera með umsjón þannig að þegar skoðað er grannt, og ég bið hv. þm. að athuga það sérstaklega, að Landvarsla ríkisins er einmitt orðin sú stofnun sem Náttúruverndarráð hefur fengið sem mesta gagnrýni fyrir að vera, þ.e. þar inn er kominn allur sá grautur, ef ég get notað svo ómerklegt orð, sem er inni á skrifstofu Náttúruverndarráðs, það er bara komið inn á borð til Landvörslu ríkisins. Og hver er þá tilgangurinn með þessu öllu saman?
    Ég átta mig alls ekki á því hvers vegna það hefur verið valið að taka öll verkefni Náttúruverndarráðs og setja þau yfir á nýja stofnun. Af hverju var ekki reynt að huga að þeim tillögum sem fram hafa komið um að það væri ein stofnun sem væri þá tvískipt, eins og Náttúruverndarráð hefur komið með tillögur um, sem gæti heitið Landvarslan eða svo sem hvað annað því að menn hafa reyndar gagnrýnt þetta nafn, Landvörsluna, sem væri þá með þá tvenns konar hlutverk? Það getur vel verið að það séu einhverjir gallar á því fyrirkomulagi, en það virðist greinilega ekkert hafa verið athugað þannig að þegar þetta frv. er skoðað og hlutverk Landvörslunnar, þá óttast ég mjög og er raunar sannfærð um það að við fáum nákvæmlega sömu óvissuna og sömu óánægjuna með þessa stofnun eins og margir hverjir eru að tala um Náttúruverndarráð. Ég er ekki ein af þeim sem hafa gagnrýnt Náttúruverndarráð eins hart eins og margir aðrir en hins vegar hef ég viljað breyta mjög starfsemi þess og talið að það þyrfti að endurskoða það og laga. Aðalvandamál Náttúruverndarráðs hingað til hefur verið fjárskortur og það hefur ekki verið hægt að taka á þessum málum þannig að varðandi 3. gr. vil ég lýsa því að ég tel að það gangi ekki upp að gera þetta með þessum hætti, að setja á stofn stofnun sem hefur þessu hlutverki að gegna sem þarna er gert ráð fyrir.
    Ég minntist aðeins á nafnið, Landvarsla ríkisins. Þessa hugmynd að nafni sá ég fyrst á náttúruverndarþingi sem haldið var í október árið 1993 þar sem Náttúruverndarráð kom með hugmynd um að sett yrði á stofn sérstök deild innan Náttúruverndarráðs sem héti Landvarsla, sem væri þó undir yfirstjórn Náttúruverndarráðs, og hún ætti að annast eftirlit, rekstur og viðhald þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða. Ég hafði svo sem engar skoðanir á því eða tilfinningu fyrir því að það væri neikvætt orð eða óæskilegt, en hins vegar hafa mjög margir orðið til þess að benda á að það væri neikvætt að tala um Landvörslu ríkisins. Þetta gæti virkað eins og svona lögregla eða eitthvað þess háttar. Aðrir hafa orðið til að benda á að þetta hljómaði mjög líkt Landgræðslu ríkisins og Landgræðsla ríkisins benti á það í sinni umsögn að þetta gæti valdið ruglingi og misskilningi og fulltrúar þeirrar stofnunar sem komu á fund nefndarinnar bentu á að á fundi sem hafði verið haldinn nýlega, mig minnir á Akureyri, þá hafi fólk á þeim fundi sífellt verið að rugla saman Landvörslu ríkisins og Landgræðslu ríkisins og vildi meina að þarna gæti orðið um rugling að ræða. Ég vil lýsa því að ég er alveg sammála þessum ábendingum, en við ræddum aðeins um það í nefndinni hvort það væri hægt að finna eitthvert annað nafn á stofnunina og báðum reyndar fulltrúa Landgræðslu ríkisins að koma með einhverjar hugmyndir en þeir gátu ekki bent okkur á það og við komum ekki auga á neitt gott nafn í staðinn fyrir þetta, en það hafa komið upp ýmis nöfn eins og Þjóðgarðar ríkisins, en þá yrði nú, held ég, að breyta örlítið hlutverkinu. Umhverfisstofnun ríkisins var ein tillagan og það hafa komið upp ýmsar hugmyndir. En ég hef ekki verið ánægð með þær uppástungur heldur. T.d. finnst mér að Þjóðgarðar ríkisins væri of takmarkað vegna þess að þessari stofnun er ætlað miklu, miklu meira og víðtækara hlutverk þannig að það væri mjög óeðlilegt að mínu mati að kalla hana því nafni. Varðandi Umhverfisstofnun ríkisins eins og hefur verið talað um að kalla hana líka, þá hefði mér fundist slæmt að þurfa að nota það orð á þessa stofnun sem hefur þetta hlutverk þar sem ég tel og hef reyndar haft þá skoðun að það væri ekkert óeðlilegt að athuga þann möguleika að setja á stofn einmitt Umhverfisstofnun ríkisins sem hefði með að gera miklu, miklu fleiri hlutverk heldur en þessari stofnun er falið. Ég vil í því sambandi einmitt leggja áherslu á það að endurskoðað verði hlutverk ýmissa stofnana sem undir umhvrn. falla og e.t.v. að fella þar einhverjar stofnanir saman og hugsanlega að búa til eina nýja stofnun úr fleirum en einni af þeim stofnunum sem þar eru þannig að það yrði skilvirkara sem undir umhvrn. félli varðandi umhverfismál. Þess vegna er ég t.d. ekki hrifin af því að nota nafnið Umhverfisstofnun yfir þessa stofnun. Þannig að þó að ég sé á vissan hátt óhress með og geti fallist á þau rök sem eru gegn þessu nafni, þá hef ég ekki tillögu hér og nú um neitt annað betra svo að það verður að notast við þetta landvörslunafn eins og gert er ráð fyrir í frv. En ég kem þessu hér á framfæri vegna þess að þeir voru nokkuð margir sem bentu nefndinni á þetta atriði sem við því miður gátum ekki orðið við sökum þess sem ég hef nú sagt frá.
    Ég vil gera einnig að umtalsefni það sem hér kemur fram í þessari grein, þ.e. c-lið þessarar greinar, varðandi gjald fyrir fræðsluefni og veitta þjónustu af því að hér hefur það aðeins verið rætt og gagnrýnt af sumum. Ég tel mjög eðlilegt að það sé tekið gjald fyrir fræðsluefni og veitta þjónustu, t.d. í gestastofum og reyndar annars staðar þar sem um fræðsluefni er að ræða þó að ég telji að það sé mjög mikilvægt að það sé hóflegt gjald, að það sé bara fyrir kostnaði en ekki sé raunverulega neinn gróðavegur. Það er mjög mikilvægt að mínu mati að í bæklingum sem fólk fær t.d. þegar það kemur inn í þjóðgarða eða

á önnur friðlýst svæði séu einhverjar leiðbeiningar um hvernig fólk eigi að haga sér, hvað má gera og hvað má ekki gera og ýmislegt sem getur komið í veg fyrir náttúruspjöll. Og þess vegna finnst mér að ekki megi selja ákveðið fræðsluefni eða ákveðna bæklinga, sem eru upplýsingabæklingar, það megi ekki selja slíkt og er ég þá t.d. að vitna til þess sem dæmi að þegar maður kemur í þjóðgarðinn í Skaftafelli og fer inn á tjaldstæði, þá er manni afhentur bæklingur sem gefur ýmsar upplýsingar um þjóðgarðinn og ég tel það mjög mikilvægt. Þannig að þegar verið er að tala um þetta og gjald fyrir veitta þjónustu og fræðsluefni o.fl., þá vil ég leggja áherslu á það í fyrsta lagi að þarna sé um mjög hóflegt gjald að ræða, enda held ég að það hafi alltaf verið meiningin en hefði talið eðlilegra að það hefði verið reynt að setja inn, en ég vil líta svo á og ég geri ráð fyrir því að ráðuneytið og þeir sem þarna um fjalla ætli sér ekki að gera þetta þannig að það sé óviðráðanlegt fyrir fólk raunverulega að ná í það fræðsluefni sem þar verður á boðstólum.
    Hins vegar vil ég vara við ákvæðum um aðgangseyri. Ég veit að það eru mjög skiptar skoðanir á því hvort það eigi að taka aðgangseyri inn á svæði og eins inn í gestastofur eða eitthvað samsvarandi. Ég hef mjög miklar efasemdir og vil lýsa því fyrir mína hönd að ég leggst gegn því að það sé tekið upp. Ég veit hins vegar að það eru mjög margir sem vilja það og það er eitt af því sem kom mjög fram í umsögnum þeirra sem komu til nefndarinnar. Það voru mjög margir þeirrar skoðunar að það yrði að vera ákvæði um að það mætti taka gjald inn á svæði.
    Eitt af því sem hefur verið bent á og sem ég vil taka sem dæmi er t.d. svæðið við Dyrhólaey sem hefur verið talað um að væri eðlilegt að mætti taka gjald inn á. Ég skil alveg sjónarmið þeirra sem þar um fjalla að þeir eru í miklum vandræðum. Ábúendur þar hafa sett upp girðingar, þeir hafa sett upp stíga og þeir eru í hálfgerðum vandræðum með það að geta sinnt þessu svæði eins og þeir vilja. Þeir höfðu gert sér vonir um það að með því að friðlýsa þetta svæði mundi ríkisvaldið koma til móts við þá aðila sem þar eru en því miður hefur það ekki orðið. Auðvitað hefur ríkisvaldið skyldum að gegna gagnvart svona svæðum og það er ekki nóg að friðlýsa. Það verður að sinna svæðunum. Þetta gildir ekki bara um þetta svæði, heldur auðvitað um mörg önnur svæði. Ég held að menn hafi ekki reiknað dæmið alveg til enda þegar verið er að tala um það að hafa aðgang að svona svæðum og ég átta mig ekki alltaf á því hvernig fólk hefur hugsað sér að framkvæma þetta.
    Það er líka geysilega dýrt að setja upp hlið og innheimtusvæði og ráða fólk til að innheimta. Það þarf væntanlega að hafa einhvern skúr eða eitthvert hús þar sem fólk gæti verið til innheimtu og þetta getur orðið nokkuð flókið. Hins vegar ef um er að ræða einhvers konar þjónustu eins og t.d. er víða, við getum tekið sem dæmi að víða á hálendinu er veitt ákveðin þjónusta. Við getum tekið salerni sem byggð hafa verið, ég held að það séu bæði Náttúruverndarráð og Ferðafélag Íslands sem stundum hafa haft samvinnu um það að byggja salerni með ærnum tikostnaði og síðan hefur verið tekið gjald af því fólki sem kemur vegna þess að það notar þá aðstöðu sem fyrir er og það þykir mér alveg koma til greina og þykir mér meira að segja mjög sérkennilegt að fólk skuli vera að fetta fingur út í það að það þurfi að taka gjald t.d. til þess að nota slík salerni vegna þess að það er mjög dýrt að koma þeim upp og það er dýrt að reka þau. Ég vil því vara mjög eindregið við því að það verði settar inn heimildir til að setja aðgöngugjald að svæðum og vil jafnframt benda á að það er í flestöllum ef ekki öllum tilvikum nánast útilokað að framkvæma það. Ef við horfum á Ísland, þá er það þannig að það er ekkert svæði það afmarkað held ég að það sé ekki hægt að komast að því frá fleiri en einum stað þannig að þetta væri erfitt ef menn ættu síðan að fara að elta uppi einhverja sem hafa slæðst inn á eitthvert svæði og fara að rukka þá um hundrað kall fyrir að vera þar. Ég held að þetta verði menn að kanna nokkuð vel og athuga hvort þetta sé alveg það rétta.
    Það komu ábendingar um það á fundi nefndarinnar og reyndar hjá nefndarmönnum að þessi grein væri allt of löng og ítarleg og þyrfti að skipta henni upp og það er ein af þeim brtt. sem hér eru og þykir mér það mjög til bóta að að skuli vera gert í brtt. á þskj. 641 frá meiri hluta umhvn. Í þeim brtt. sem eru raunar alveg samhljóða því sem kemur fram í frv. í þessum c-lið, þ.e. í b-lið brtt. á þskj. 641, í lok þeirrar brtt. og lok ákvæðisins þá segir, með leyfi forseta, og vil ég þá bara helst segja að ég vitni til frv.: ,,Stofnunin skal hafa samvinnu við sveitarstjórnir, yfirvöld ferðamála og skóla um kynningu á friðlýstum svæðum og náttúruminjum, m.a. þar sem ástæða þykir til að hvetja til heimsókna ferðamanna.``
    Einmitt að þessu atriði vildi ég koma þar sem ég talaði um ferðamannaáherslu í frv. Ég tel mjög mikilvægt að varðandi ferðamenn sé þess gætt að reyna að beina fólki inn á aðra staði heldur en þessa helstu ferðamannastaði sem flestallir vilja heimsækja. En mér finnst orðalagið ,,þar sem ástæða þykir til að hvetja til heimsókna ferðamanna`` mjög sérkennilegt í þessum lagatexta. Ég tel að það eigi ekkert sérstaklega að vera að hvetja fólk til þess að heimsækja friðlýst svæði og náttúruminjar umfram önnur svæði og ég held að það væri ástæða til þess fyrir okkur að athuga það að ferðamenn sem ferðast um Ísland, bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn, koma ekki bara til að skoða náttúruminjar og friðlýst svæði heldur ýmislegt annað. Það eru sögustaðir og það er ýmislegt annað sem fólk vill skoða sem við getum miklu frekar reynt að hvetja fólk til að heimsækja og ég gerði athugasemd við þetta orðalag. Mér fannst miklu eðlilegra, ef ástæða væri á annað borð til þess að vera að hafa ferðamenn þarna inn í, að reyna frekar að segja eitthvað á þá leið að það ætti að gæta þess að það yrði ekki of mikið um átroðning og þá ekki endilega ferðamanna heldur bara fólks á friðlýstum svæðum og náttúruminjum. Það er þetta sem mér finnst svolítið sérkennilegt að þessi áhersla skuli alltaf lögð á ferðamenn. Auðvitað kemur fleira þarna til en þetta eru áhersluatriði sem ég vildi vekja athygli á og fannst eðlilegt að við mundum líta aðeins betur á hvort ekki

væri rétt að orða einhvern veginn öðruvísi.
    Að því er varðar fræðsluefni fyrir skóla sem nú er búið að taka út úr frv. eða réttara sagt að brtt. meiri hlutans ganga út á það að hlutverk Landvörslu ríkisins að gefa út fræðsluefni fyrir skóla sé tekið út og ég vil lýsa því að ég er algerlega sammála því sem þar kemur fram. Ég tel að að sé miklu eðlilegra að það sé menntmrn. og Námsgagnastofnun sem gera það, en auðvitað verður það að vera í samvinnu við þá aðila sem þarna eru sérfræðingar á sviði umhverfismála og hefði mér fundist eðlilegt að þarna kæmi umhvrn. til sögunnar að því er þetta atriði varðar, þ.e. námsefni fyrir skóla. Ég býst við því að það sé gert, en ef um það væri að ræða og mér finnst ekkert endilega að það eigi við í þessum lögum að kveða nákvæmlega á um það, en mér finnst mjög mikilvægt að umhvrn. komi að námsgagnagerð eins og ég held að það geri nú. Það þyrfti að koma því í einhvern skipulagðan farveg.
    Þá erum við komin að því sem ég gerði athugasemd við áðan, þ.e. ég ætla að ítreka það aðeins nánar. Í d-lið 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að Landvarsla ríkisins fylgist með því að náttúrunni sé ekki spillt með athöfnum eða framkvæmdum og það vil ég sérstakega gera að umtalsefni að þarna á Landvarsla ríkisins að taka yfir það hlutverk sem Náttúruverndarráð hefur haft með höndum, þ.e. framkvæmdum. Ég held að þetta sé mjög óheppilegt fyrirkomulag. Ég tel að það sé óheppilegt að sama stofnunin sem á að vera þessi jákvæða stofnun, sem á að reka friðlýst svæði og þjóðgarða og hafa þessa jákvæðu ímynd gagnvart almenningi, sé líka með framkvæmdir og eftirlit með framkvæmdum. Mér þykir þetta mjög óheppilegt og finnst ástæða til að spyrja: Af hverju var þessi leið valin? Í frv. sem við höfðum til umfjöllunar á 117. löggjafarþingi var ekki gert ráð fyrir að Landvarslan hefði þetta hlutverk heldur var gert ráð fyrir að Náttúruverndarráð héldi því hlutverki sem það hefur nú og kom mér þetta nokkuð á óvart. Ég átta mig ekki á því hvers vegna þessi tillaga kom fram. Þó að auðvitað sé það skýrt að það sé óeðlilegt að þetta svokallaða óháða og ósjálfstæða Náttúruverndarráð væri með slík verkefni, þá finnst mér mjög óheppilegt að Landvarsla ríkisins sé með þau, eins og hún var að því er ég hélt hugsuð. En það er kannski búið að breyta algjörlega hugsunarganginum í þessu, og ég vil reyndar fullyrða að svo sé, og það sé bara hugsunin að Landvarsla ríkisins taki yfir öll verkefni Náttúruverndarráðs, þ.e. flestöll og síðan umhvrn. þá restina. Ég tel að þetta sé mjög óheppilegt fyrirkomulag og hefði þurft að breyta þessu. Þó svo að hægt hefði verið að fallast á að stofna Landvörsluna þá finnst mér mjög óheppilegt að hún skuli hafa þetta hlutverk þannig að mér finnst í raun að Landvarslan sitji bara alls staðar kringum borðið eins og margir hafa gagnrýnt Náttúruverndarráð fyrir að gera.
    Þá er ég komin að e-liðnum sem ég er algjörlega ósammála og það er um það hvernig stjórnin er skipuð. Ég átta mig ekki á því hvers vegna ráðuneytið gafst upp við það að hafa stjórnarfyrirkomulag þar sem gert var ráð fyrir tilnefningum. Á síðasta ári var gert ráð fyrir því í frv. sem við höfðum þá til umfjöllunar að ákveðnir aðilar tilnefndu í stjórn Landvörslu ríkisins. Vissulega komu fram margar athugasemdir um það hversu margir ættu að vera þar og hvernig hún ætti að vera skipuð. Ég er þeirrar skoðunar að þriggja manna stjórn sé kannski í það minnsta, hefði verið eðlilegra að hafa fimm manna stjórn en ætla svo sem ekki að gera það að miklu ágreiningsefni en fimm manna stjórn hefði mér þótt vera miklu eðlilegri. Mér þykir mjög eðlilegt að umhvrh. á hverjum tíma skipi formann stjórnar slíkrar stofnunar þar sem hann þarf auðvitað að hafa náin tengsl við slíka stofnun, undirstofnun umhvrn., en mér þykir ákaflega óeðlilegt að stjórnin skuli skipuð af umhvrn. án tilnefningar. Þetta getur ekki verið eðlileg stjórnsýsla. Ef um er að ræða stofnun sem á að hafa eitthvert vægi og eitthvert sjálfstæði, þá getur það ekki verið eðlilegt að hún sé raunverulega eins og deild í umhvrn. Mér finnst þá miklu eðlilegra að það sé þá bara gengið það skref. En ég er ósammála því að það eigi að gera það. Ég tel að það sé mikilvægt að umhvrn. hafi þarna fulltrúa en að það sé sjálfstæð stofnun sem taki ákvarðanir en sem að sjálfsögðu eigi að vera undir yfirstjórn umhvrn. eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Það er tekið fram að hún eigi að starfa í nánum tengslum við Náttúruverndarráð, Ferðamálaráð, sveitarstjórnir o.fl. Það er auðvitað gott og blessað en ég hefði talið miklu eðlilegra að þarna hefði nefndin, og þá væntanlega hefði verið best að umhvrn. hefði komið með tillögu, en að nefndin hefði ráðist í það verk að gera tillögur um að þarna væri fimm manna stjórn með ákveðnum aðilum sem mundu tilnefna.
    Mér hefði einnig fundist alveg koma til greina að í slíkri stjórn mundi Alþingi kjósa einhverja ákveðna aðila. Mér hefði alveg fundist það koma til greina, en best hefði verið að þarna hefðu verið ákveðnir tilnefningaraðilar. Ég vil vekja athygli á því að það komu mjög margar athugasemdir einmitt við þetta atriði, þ.e. varðandi stjórnarskipunina og ég er algjörlega sammála þeim athugasemdum sem þar komu fram. Mér finnst alveg út í bláinn að þarna sé ráðherra með alla stjórnarmenn, ekki síst með tilliti til þess að í frv. er gert ráð fyrir því að umhvrn. fari með ákaflega marga þætti þessara mála sem ég tel að vísu vera mjög óeðlilegt og kem ég að því síðar, en að hann skuli skipa alla stjórnarmenn tel ég algerlega út í bláinn og mjög óheppilega stjórnsýslu.
    Í f-liðnum er rætt um þjóðgarðsverði. Eins og frv. er sett upp, þá er gert ráð fyrir að þjóðgarðsvörður starfi og að umhvrh. skipi þjóðgarðsverði en brtt. gerir ráð fyrir að Landvarsla ríkisins skipi þjóðgarðsverði og er ég sammála þeirri brtt. Ég tel að það sé eðlilegra að það sé Landvarsla ríkisins sem skipi þjóðgarðsverði fremur en að þeir séu skipaðir beint af umhvrh. Mér þykir þetta eðlilegra fyrirkomulag og tel að þetta sé brtt. sem ég get verið sammála að sé til bóta.
    Einnig eru aðrar brtt. í f-lið þessarar brtt. meiri hlutans sem ég tel að séu mjög til bóta, enda bentum við í nefndinni á að það stæðist engan veginn að hafa þetta frv. sem þarna var lagt fram með þeim hætti sem þar var gert ráð fyrir þar sem orðalagið var þannig að það var hægt að láta sér detta í hug að þjóðgarðsvörður ætti að annast stjórnina á þjóðgörðunum en ekki raunverulega Landvarslan eins og annars staðar er gert ráð fyrir í frv. þannig að það hefði valdið miklum ruglingi ef frv. hefði verið samþykkt óbreytt þannig að þessa brtt. tel ég vera mikið til bóta.
    Ég gleymdi að vísu að geta þess áðan varðandi stjórnina, sem er þriggja manna stjórn, að í fyrri ræðu minni minntist ég örlítið á þessa stjórn og reyndar varð það til þess að ég greip líka fram í fyrir einum þingmanni sem hér talaði, hv. þm. Jóni Helgasyni, þar sem hann var að tala um stjórnina. Ég hélt því fram að einn stjórnarmanna væri tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga. Þetta voru mistök af minni hálfu vegna þess að ég var nýbúin að lesa annað frv. sem hv. umhvn. er að vinna með, þ.e. breytingar á frv. til laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Þar var gert ráð fyrir breytingum á stjórn og í því frv. er talað um Samband ísl. sveitarfélaga og hafði ég verið með það í huga þegar ég kom hér og fór að ræða þessi mál þannig að ég verð eiginlega, frú forseti, að biðjast afsökunar á því að ég skyldi halda þessu fram og eins að grípa fram í og trufla ræðumann hér vegna þess að ég hélt að þetta væri þannig en það virðist vera ákveðin tilhneiging hjá umhvrn. að taka stjórnir og minnka þær niður í kannski þrjá og fá alla stjórnarmenn helst sjálf, að það sé allt án tilnefningar, það sé beint undir ráðuneytinu. Þetta truflaði mig aðeins og fannst mér þó allt til bóta að það væri einhver tilnefningaraðili en í þessu tilviki, þ.e. þessari stjórn er enginn tilnefningaraðili. Þetta ætlaði ég að leiðrétta hjá sjálfri mér vegna þess að þetta voru smámistök af minni hálfu þar sem ég var að vinna í öðru máli samhliða.
    Ég set ákveðið spurningarmerki við þessa grein, þ.e. f-lið sem er 7. gr. varðandi þjóðgarðsverði. Ef frv. verður að lögum, þá er gert ráð fyrir því að Landvarsla ríkisins taki við rekstri þjóðgarða og verði yfirstofnun og að hún ráði þjóðgarðsverði. Nú eru þjóðgarðsverðir ráðnir af Náttúruverndarráði og eru þeirra starfsmenn þannig að ef við skoðun fjárlög, þá er gert ráð fyrir því að Náttúruverndarráð sé með ákveðinn póst á fjárlögum. Ég velti því fyrir mér hvort ekki þurfi að breyta fjárlögum þegar fyrst er ákveðin stofnun og ákveðið lið og síðan er allt í einu ákveðið að stofna nýja stofnun, Landvörslu ríkisins, sem ekki hefur neinn fjárlagalið, er þá hægt að taka peninga sem eru ætlaðir Náttúruverndarráði og setja þá bara yfir á nýja stofnun? Þessu velti ég fyrir mér. Því hefur verið haldið fram í mín eyru að það sé allt í lagi að taka þá án þess að heimild sé til þess þannig að ég velti því fyrir mér hvort ekki sé nauðsynlegt að setja einhvers staðar heimild, hvort sem það er gert með þetta eða með eitthvað annað, að það séu bara teknir af Náttúruverndarráði peningar sem því eru þó ætlaðir samkvæmt fjárlögum og settir yfir á algjörlega nýja stofnun þegar viðkomandi stofnun heldur áfram, hún er ekki lögð niður. Þetta finnst mér vera athugunarefni en eins og annað fengum við ekki að fara ofan í þetta mál en ég hélt að það væri nauðsynlegt og hefði talið nauðsynlegt að það þyrfti að kveða á um það en það getur vel verið að þetta sé misskilningur hjá mér. En þetta er einn af þeim þáttum sem ég tel að þurfi að athuga sérstaklega því að ekki viljum við að þjóðgarðarnir standi uppi með það að ekki sé hægt að reka þá eða þá friðlýstu svæðin og þá er ég að hugsa um það fé sem þarna verður óhjákvæmilega að flytjast á milli. Ég hef heldur ekki séð nokkrar áætlanir um það hvernig þetta megi vera vegna þess að það er talað um að Náttúruverndarráð starfi áfram með skrifstofu og með framkvæmdastjóra alla vega. Það er áskilið í lögunum. Síðan er verið að tala um nýja stofnun sem er þá Landvarslan sem þarf væntanlega að hafa eitthvert aðsetur og væntanlega einhverja starfsmenn. Þetta hlýtur að kosta ákveðna peninga þó ekki sé nema bara stofnkostnaðurinn þannig að ég átta mig ekki á því hvernig í ósköpunum það er hægt að halda því fram eins og fjárlagaskrifstofa fjmrn. segir að þetta muni ekki valda neinum kostnaðarauka. Mér finnst það alveg ótrúlegt og ég skil ekki hvernig þeir geta komist að þeirri niðurstöðu hjá fjmrn. að þarna muni ekki verða um neinn kostnaðarauka að ræða. Mér er það algjörlega hulin ráðgáta. En ef hægt er að gera miklu meira fyrir miklu minni peninga, þá er það auðvitað vel, en það krefst þá skýringa hvernig í ósköpunum það er hægt. Hvernig er hægt að setja á laggirnar heila stofnun og það eru engir peningar sem á að verja til þess? Þarna held ég að verði að gæta að og ef þetta verður að lögum að þarna verði ekki nein óvissa að því er það varðar hvernig má flytja fé þarna á milli. Og svo gagnrýni ég harðlega að það skuli ekki vera gert ráð fyrir auknu fjármagni í þennan málaflokk því það er eitt af því sem ég tel að sé nauðsynlegt. Mér finnst að miðað við þau verkefni sem Náttúruverndarráð hefur núna, þá hefði ekkert veitt af því fé sem þar er til þess að halda því við. Það er liðið langt á árið og það er óhjákvæmilegt að það kostar peninga að setja þetta á stofn. Og ef þetta frv. verður ekki til þess að auka neitt á vægi þessa málaflokks og það eigi bara að setja á stofn nýtt apparat, eins og einhver hefur orðað það, án þess að það sé neitt skilvirkara eða neitt betra, og það hafa allir viðurkennt það að Náttúruverndarráð hefur fengið allt of lítið fjármagn í gegnum tíðina, og síðan á núna að segja: Það á ekkert að taka þarna á, heldur verður bara í raun að mínu mati minna fjármagn til raunverulegra athafna þar sem við erum nú komin með tvær yfirstjórnir í staðinn fyrir eina áður. Þetta finnst mér vera spor aftur á bak og í raun mjög alvarlegt ef þarna á ekki að vera tekið neitt á.
    Í brtt. meiri hluta umhvn. er líka gert ráð fyrir því að flytja greinina um stjórnina fram fyrir áður en talað er um hlutverk hennar og er ég sammála þeirri brtt. líka. Ég tel að það sé miklu eðlilegra að þetta sé í þeirri röð sem þar er gert ráð fyrir.
    Þá kem ég að g-lið greinarinnar sem er gert ráð fyrir að verði 8. gr. Þar er fjallað um að Landvarsla ríkisins geti falið öðrum umsjón náttúruminja og friðlýstra svæða, að þjóðgörðum undanskildum. Þetta

finnst mér alveg geta komið til greina, en það verður að fara mjög varlega í þessum efnum. Það er mjög mikilvægt að ef Landvarslan gerir þetta í einhverjum mæli, þá sé það gert með þeim hætti að reglurnar séu ákaflega skýrar hvernig með á að fara, þ.e. að Landvarsla ríkisins setji reglurnar um svæðin og að það sé ekki hætta á því að þeir sem þarna eru taldir upp, sveitarfélög, áhugasamtök um náttúruvernd og fleiri, hafi raunverulega frjálsar hendur um hvernig með svæðið skuli fara. Þannig að þó að þetta geti í vissum tilvikum átt við þá mundi ég vilja að það yrði farið mjög varlega með þetta ákvæði og ábyrgðinni yrði ekki varpað yfir á aðra aðila. Vil ég í því sambandi benda á t.d. það sem ég tel hafa frekar óhönduglega tekist til og það er það sem ég nefndi áðan, sem er bara eitt dæmi og það er varðandi Dyrhólaey. Eins og ég kom að áður hafa þeir aðilar sem reka það svæði ekki fengið neina aðstoð og auðvitað undir yfirstjórn Náttúruverndarráðs, en vegna fjárskorts hefur ekki verið hægt að sinna því svæði sem skyldi og það er gert af miklum vanmætti, en raunverulega þrátt fyrir allt af miklum stórhug og dugnaði hvernig tekið hefur verið á því máli.
    Í þessari grein er einnig ákvæði varðandi gjaldtökuna sem ég ætla að koma aðeins að síðar, en það hafa einmitt margir bent á það að mikilvægt sé að það sé ljóst hver þarna á að halda á málum. Í 1. mgr., þessari sérgrein stendur, með leyfi forseta:
    ,,Stofnuninni er heimilt með samþykki ráðherra að semja um að taka að sér umsjón . . .  `` Ég held að það sé brtt. sem segir svo, með leyfi forseta: ,,Umhvrh. getur falið Landvörslu ríkisins umsjón`` o.s.frv. Af því að minnst er á þetta í nál. minni hlutans, þá ræddum við um athugasemdir Páls Sigurðssonar varðandi þetta frv. og það var einmitt þetta atriði sem hann benti sérstaklega á að þyrfti að breyta og þess vegna reikna ég með að þessi breyting hafi komið fram án þess að mér sé það kunnugt. Hann taldi að það væri mjög óeðlilegt að hafa í greininni eins og hún er í frv. að stofnuninni sé heimilt ,,með samþykki ráðherra að semja um að taka að sér umsjón``, þá stendur hérna: ,,Umhvrh. getur falið Landvörslu ríkisins umsjón með öðrum svæðum.`` Ég er ekki alveg viss um að þetta sé eðlilegt því að þarna var Páll Sigurðsson að benda á að með því að orða þetta svona, að stofnunni sé heimilt með samþykki ráðherra --- hann benti sérstaklega á ýmis atriði að því er varðaði áfrýjunarrétt og hann taldi að það gæti verið óeðlileg stjórnsýsla ef umhvrn. kæmi þarna beint inn. Og ég er ekki alveg viss um að þetta orðalag sem þarna er gerð tillaga um breytingar, þ.e. að umhvrh. geti falið Landvörslu ríkisins umsjón, sé eðlilegt miðað við þær ábendingar sem Páll Sigurðsson, prófessor í lögum frá Háskóla Íslands, minntist á því að það voru einmitt svona atriði sem hann kom til nefndarinnar um að væri óeðlileg stjórnsýsla eins og hann orðaði það.
    Þetta vildi ég bara benda á. En þarna kom einmitt atriði sem ég ætlaði að gera athugasemdir við fyrir utan þetta sem ég er ekkert viss um. Ég skal alveg viðurkenna það að þetta voru ábendingar Páls sem ég er ekki alveg búin að fara nákvæmlega yfir og gat ekki tekið raunverulega afstöðu til upp á nýtt eða skoðað, og það var þetta um að umhvrh. geti falið Landvörslu ríkisins umsjón, og í hinu tilvikinu að stofnuninni sé heimilt með samþykki ráðherra, ég er ekki alveg viss um að þetta sé eðlilegt orðalag og hefði talið að þarna þyrfti að fara betur yfir og skoða hvort þetta er rétt miðað við þær athugasemdir sem komu til nefndarinnar, þ.e. ef menn vilja fara eftir þeim athugasemdum og skoða þær sérstaklega.
    Ákvæði um að Landvarsla ríkisins geti haft umsjón með öðrum svæðum sem sérstök þykja sakir landslags, gróðurfars og dýralífs er ég ekki viss um að sé heppilegt fyrirkomulag. Ég hefði talið að það væri eðlilegt að athuga þetta örlítið nánar og vil geta þess að það komu nokkrar athugasemdir fram á fundi nefndarinnar einmitt varðandi þetta atriði, þ.e. hvort eðlilegt væri að gera þetta svona. Það kom meira að segja fram hjá nefndarmönnum að það þyrfti að skoða þetta sérstaklega með tilliti til þess hvort ekki væri rétt að fella þetta ákvæði algerlega út úr frv. En við gátum ekki tekið afstöðu til þess sem heild og ég sé að meiri hluti nefndarinnar hefur ekki tekið það atriði til skoðunar þó svo að sú athugasemd sem kom fram kæmi frá einum sem skrifaði undir nál. meiri hlutans. Það hefur greinilega ekki verið talin ástæða til að breyta þarna.
    Þá erum við komin að h-liðnum sem fjallar um náttúruverndarnefndir. Ég verð að segja að ég varð miklu ánægðari með ákvæði frv. sem lagt var fram á 117. löggjafarþingi en þar var gert ráð fyrir að náttúruverndarnefndir væru í hverju kjördæmi sem mundu sjá meira um svæðin í heild. Það voru mjög margir sem gerðu athugasemdir við þetta atriði og í þessu frv. hefur umhvrn. ákveðið að taka tillit til þeirra athugasemda en auðvitað voru ekki allar athugasemdir samhljóða. Ég tek fram að mér finnst að kjördæmin þurfi ekkert endilega að vera umdæmi náttúruverndarnefndanna heldur geti það alveg eins verið minni svæði eða hugsanlega stærri ef einhverjir hefðu viljað það en ég hefði haldið að það væri frekar örlítið minni svæði, nái yfir fleiri sveitarfélög eða þvert á sveitarfélagamörkin til þess að ná utan um náttúruvernd á því svæði. Með því er ég ekki að segja að það eigi að breyta fyrirkomulaginu varðandi sveitarstjórnirnar vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að hver sveitarstjórn hafi umhverfis- eða náttúruverndarnefnd sem hún hefur algerlega óháð þessum lögum. Þó ekkert ákvæði væri í þessum lögum um að sveitarstjórnir hefðu náttúruverndarnefndir þá gætu þær gert það alveg óháð því vegna þess að samkvæmt sveitarstjórnalögum hafa sveitarstjórnir heimildir til að gera það og það hefur verið gert, held ég nú orðið sem betur fer, í mjög mörgum sveitarfélögum. Í Reykjavík heitir það umhverfismálaráð og víða heitir það náttúruverndarnefnd eða eitthvað annað, það heitir ekki alls staðar það sama. Sveitarstjórnirnar hafa, sem betur fer held ég, flest allar upp á síðkastið reynt að koma sér upp slíkum nefndum því að sveitarstjórnir eru flestar sammála mörgum okkar hér og kannski flestum að umhverfismál séu ein mikilvægustu mál hvers

samfélags og reyndar heimsins í heild.
    Ég hefði talið miklu eðlilegra að það væru náttúruverndarnefndir sem hefðu ákveðin hlutverk og þær bæru ábyrgð á málum innan héraðs og hefðu þá bakhjarl, t.d. í náttúrustofum sem vonandi komast á stofn. Auðvitað hefðum við orðið að þróa þetta vegna þess að við erum ekki komin með slíkt fyrirkomulag alls staðar en þó er það að koma upp á fleiri og fleiri stöðum. Mér finnst því ástæða til að staldra við og hugsa: Hvaða hlutverki hafa þessar náttúruverndarnefndir að gegna?
    Í ákvæðinu á þskj. 641 um hlutverk náttúruverndarnefnda kemur fram að þær eiga að stuðla að náttúruvernd hver á sínu svæði með ábendingum og tillögugerð til sveitarstjórna og umhvrn., Landvörslu ríkisins og Náttúruverndarráðs. Þetta er að vísu allt gott og blessað en ég tel mjög mikilvægt að það sé ákveðið og víðtækt vald og ákveðið hlutverk sem náttúruverndarnefndum er ætlað á svæðinu til þess að þær geti verið, ef maður getur sagt, eins konar stjórnsýslustig í náttúruvernd milli ráðuneytis og sveitarstjórna. Það má vel vera að rétt sé hjá þeim þingmönnum sem hér hafa komið fram að þarna hefði þurft þriðja stjórnsýslustigið til að koma skikk á þessi mál. Ég ætla ekki að fara að taka afstöðu til þess hér og nú hvort það hefði verið heppilegt ég skil alveg þeirra röksemdafærslu. Ef það hefði verið til þá hefði þetta kannski verið einfaldara. En þar sem það er ekki til þá þýðir ekki að vera að hugsa um það heldur reyna að finna upp eitthvert það kerfi sem gerir það að verkum að ábyrgð og vald heimamanna á málaflokknum sé aukið því um leið og það er gert þá finna einstaklingarnir meira fyrir mikilvægi málaflokksins og telja sig betur þurfa að sinna þeim verkum sem þarf að sinna á sviði umhverfismála á þeirra svæði.
    Náttúruverndarnefndirnar eins og gert er ráð fyrir þeim í frv. og brtt. meiri hluta nefndarinnar tel ég ekki vera heppilegar, því miður. Nefndunum er ætlað allt of lítið hlutverk og ég óttast að það verði eins og er núna að þessar nefndir starfa víðast hvar ekki eða starfa illa og finni sig raunverulega ekki í því að hafa mikla starfsemi þar sem þeirra hlutverk er svo óskilgreint. Þetta gildir auðvitað ekki um allar náttúruverndarnefndir en þær eru víðast hvar mjög óvirkar og hafa þeir aðilar sem eru í forsvari fyrir þeim kvartað yfir því að þarna vanti alveg hlutverk.
    Það má vel vera að ef sveitarfélögin stækka í framtíðinni, sem ég held að flestir voni, þá verði auðveldara að ráða við þetta en ég tel mjög óheppilegt þar sem við erum að breyta lögunum um stjórnskipulegan þátt þessara mála þá skuli ekki vera tekið á þessu. Þetta ásamt stjórn Landvörslunnar þykir mér vera eitt óheppilegasta atriði frv., þ.e. með þessu eykst miðstýring ráðuneytisins verulega og allt vald í þessum málum verður samþjappað hér á Reykjavíkursvæðinu, í ráðuneytinu og ég tel það alls ekki heppilegt fyrir málaflokkinn. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þarna komi margir að og að menn finni til þess að það skipti máli að tekið sé á málum og þá sérstaklega úti á landi.
    Ég ætla að lesa hér fimm línur úr nál. til þess að leggja áherslu á það að þeir nefndarmenn sem skrifa undir nál. minni hluta umhvn. eru sammála í þessu efni. Með leyfi forseta stendur þar: ,,Mikill veikleiki í frv. og tillögum meiri hlutans felst í tilhögun við skipan náttúruverndarnefnda og því mjög svo takmarkaða hlutverki sem þeim er ætlað að sinna. Skynsamlegt hefði verið að deila landinu upp í svæði, kjördæmi eða minni einingar og gera ráð fyrir að þau yrðu umdæmi sérstaklega kjörinna náttúruverndarnefndar heimaaðila sem fengju hlutverk og styddust m.a. við væntanlegar náttúrustofur í starfi sínu.``
    Síðan er lögð áhersla á það í nál. að eftir sem áður hefðu náttúruverndar- og umhverfisnefndir sveitarfélaga ákveðnu hlutverki að gegna fyrir sveitarfélagið. Það hefði ekki breyst og engin ástæða til þess.
    Þá er ég komin að náttúruverndarþingi og vil lýsa skoðun minni á því. Ég tel náttúruverndarþing ákaflega mikilvægan vettvang fyrir umræðu um náttúruverndarmál. En það verður að gæta þess að einhverju máli skipti það sem þar er gert og þar kemur fram, þ.e. að þeir sem á náttúruverndarþing koma finni að það skiptir máli að þeir mæti þar og það sé hlustað á það sem þar er sagt og að ályktanir náttúruverndarþings séu teknar til greina. Á náttúruverndarþingi eins og það er nú eru flestir kosnir í Náttúruverndarráð en ráðherra skipar formann eins og gert er ráð fyrir núna. Þetta fyrirkomulag hefur gert það að verkum að þegar náttúruverndarþing ályktar í einhverju máli hefur Náttúruverndarráð talið sér skylt að taka tillit til þeirra ályktana. Núna eru engin slík tengsl milli náttúruverndarþings og Náttúruverndarráðs, þ.e. yfirstjórn málaflokksins, af því að ég ruglast stundum á Náttúruverndarráði og Landvörslu ríkisins því ég tel að þarna sé raunverulega bara verið að skipta um nafn á fyrirbæri og skipa stjórn. Náttúruverndarþing hefur því frekar litlu hlutverki að gegna. Það á núna að kjósa Náttúruverndarráð en eins og fram kemur í frv. og áréttað var af hæstv. ráðherra við 1. umr. málsins er tilgangur frv. sá að svipta Náttúruverndarráð valdi, eins og það er orðað þar. Eins og áréttað er er það beinlínis tilgangurinn að svipta Náttúruverndarráð valdi og þess vegna hljóta þeir sem mæta til náttúruverndarþings að finna til þess að þeirra hlutverk sé ákaflega lítið.
    Ég þeirrar skoðunar að það hefði verið eðlilegt að náttúruverndarþing kysi áfram einhvern hluta af Náttúruverndarráð eða samsvarandi stofnun og því yrði falið víðtækara hlutverk og reynt yrði að halda því skemmtilega fyrirkomulagi, sem mér finnst vera til valddreifingar, að frjáls félagasamtök kjósi til slíkrar stjórnar. Ég hefði alveg getað látið mér detta í hug að náttúruverndarþing kysi kannski færri í Náttúruverndarráð eða samsvarandi stofnun, og ég er þá að tala um Náttúruverndarráð sem hefði víðtækara hlutverk en frv. gerir ráð fyrir, síðan mundi ráðherra hugsanlega skipa formann án tilnefningar eins og gert er ráð fyrir í núgildandi lögum en síðan yrðu hugsanlega einhverjir aðilar tilnefndir eða það gert á einhvern annan hátt. Ég er opin fyrir öllu mögulegu fyrirkomulagi en ég er mjög ósátt við það fyrirkomulag sem

frv. gerir ráð fyrir, þ.e. þriggja manna stjórn sem skipuð er af ráðherra án tilnefningar, ég er ákaflega ósátt við það fyrirkomulag.
    Ég er hins vegar algjörlega sammála því og þykir óheppilegt eins og sagt er í grg. með frv. og kemur fram í frv. sjálfu að vera að telja upp alla þá aðila sem eiga sæti á náttúruverndarþingi. Ég var mjög sátt við þá breytingu þó ég telji að frv. sé algerlega út í bláinn eins og það er að Náttúruverndarráð ákveði sjálft hverjir mæta á náttúruverndarþing. Þess vegna tel ég rétt að tekið sé á því eins og er gert í brtt. meiri hluta nefndarinnar að sett sé inn svona leiðbeinandi hverjir eiga að mæta. Ég tel eðlilegt að t.d. fulltrúar þingflokka eigi þarna ekki aðeins áheyrnarfulltrúa með tillögurétt heldur yrði vægið meira þannig að þeir hefðu sama rétt og aðrir vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að pólitískt kjörnir fulltrúar hafi hlutverk í þessum málum. Þess vegna hefði mér alveg fundist koma til greina að Alþingi kysi stjórn slíkra stofnana eins og Landgræðsluna eða Náttúruverndarráð með breyttu hlutverki ef ég fengi einhverju um ráðið.
    Þetta vildi ég minnast á einmitt varðandi náttúruverndarþing. Ég vil taka það fram svo það valdi ekki neinum misskilningi að ég tala fyrir mig sjálfa, ekki fyrir hönd þingflokksins því við höfum ekki rætt sérstaklega um einmitt þennan þátt. En innan Kvennalistans hefur verið starfandi hópur um náttúruvernd, sérstaklega í tengslum við það að Kvennalistinn átti fulltrúa í nefnd sem skipuð var af fyrrv. umhvrh. Í þeirri nefnd var Sigrún Helgadóttir fulltrúi Kvennalistans. Þegar við fjölluðum um hennar starf í þeirri nefnd höfðum við hóp í kringum það og þá komu fram ýmsar hugmyndir varðandi einmitt skipan Náttúruverndarráðs en við vorum ekki komnar niður á neina einstaka tillögu heldur vorum við með ýmislegt í huga og vil ég bara halda því til haga að það eru ýmsar hugmyndir uppi um það hvernig þessu skuli skipað. Ein af þeim hugmyndum sem við vorum að kanna er hugmynd sem ég held að sé að vissu leyti ættuð frá Náttúruverndarráði en hún er að Náttúruverndarráð skiptist í ákveðnar deildir og síðan sitji forstöðumenn þeirra deilda eða fulltrúar þeirra í stjórn ráðsins.
    Þetta eru hugmyndir sem voru kynntar m.a. á náttúruverndarþingi árið 1993. Ég skal upplýsa það hér að ég er ekkert mjög hrifin af þeirri hugmynd og tel að ekki sé heppilegt að stjórn stofnunar sé skipuð því fólki sem starfar innan stofnunarinnar. Þó að það geti alveg átt þar áheyrnaraðild þá finnst mér ekki rétt að það skipi stjórnina sjálft. Þess vegna verð ég að segja það að mér finnst það fyrirkomulag ekki heppilegt og vil í því sambandi geta þess að á fund umhvn. komu fulltrúar Landverndar og kynntu svipaðar hugmyndir en ég er ekki í hópi þeirra sem fallast á að slíkt sé heppilegt stjórnarfyrirkomulag.
    Þetta vildi ég að kæmi fram en halda til haga að þegar ég er að tala er ég ekki að tala fyrir hönd Kvennalistans því við erum ekki búnar að fjalla sérstaklega um þetta atriði. Nú er ég að tala um mína persónulega skoðun á þessu. Að sjálfsögðu er ég ekki heldur að tala fyrir hönd neinna annarra en mín varðandi nál. til þess að það sé alveg á hreinu að þar erum við sjálfsagt með fjórar mismunandi skoðanir einmitt á þessu atriði þó við gagnrýnum stjórnarfyrirkomulagið eins og frv. gerir ráð fyrir.
    Þessu vildi ég koma á framfæri til þess að skýra af hverju ég er sérstaklega óhress með þetta þó ég sé ekki þar með tilbúin til þess að koma með brtt. um þetta atriði hér og nú. Það er m.a. ein af ástæðunum fyrir því að ég tel rétt að þetta mál sé skoðað miklu nánar.
    Eins og ég segi þá er hlutverk Náttúruverndarráðs nánast að engu orðið og vil ég vekja athygli þingmanna á því að í fskj. með nál. á þskj. 656 er birt umsögn Náttúruverndarráðs. Þar kemur mjög greinilega fram og vil ég vekja athygli hv. þm. á því og biðja þá um að skoða sérstaklega þar sem farið er yfir hlutverk Náttúruverndarráðs eins og það er samkvæmt núgildandi lögum. Síðan er farið yfir það hvað Náttúruverndarráði var ætlað samkvæmt frv. sem lagt var fram á 117. löggjafarþingi og síðan er farið yfir það hvaða hlutverki því er ætlað samkvæmt þessu frv. Það kemur í ljós eins og menn sjá að þarna er raunverulega tekið það litla af Náttúruverndarráði sem eftir var í frv. frá því í fyrra og skýrir kannski hvers vegna Náttúruverndarráð lagðist ekki gegn frv. í fyrra en leggst mjög eindregið gegn því núna. Auk þess bendir Náttúruverndarráð á að ákveðin atriði í hlutverkum sem ráðið hefur með höndum núna falla út.
    Ég ætla ekki að telja þetta upp, ég vil bara vekja athygli á þessu til þess að menn geti séð að þarna er raunverulega verið að framfylgja því sem er stefna frv., að svipta Náttúruverndarráð valdi. Hef ég tekið eftir því í umræðunum að það eru nokkrir sem telja það vera af hinu góða en ég er ekki viss um að þeir hinir sömu séu endilega sammála því að þar með sé búin til ný stofnun sem taki við öllu því sem Náttúruverndarráð gerir í dag, ef ég hef skilið umræðurnar rétt.
    Þá ætla ég að gera að umtalsefni það ákvæði k-liðar frv. sem mér þykir ákaflega sérkennilegt um að það eigi að leita álits Náttúruverndarráðs á öllum stjfrv. á sviði náttúruverndar áður en þau eru lögð fyrir Alþingi. Mér finnst mjög sérkennilegt að lögbinda slíkt ákvæði, ég viðurkenni það. Ekki það að ég sé á móti því að leitað sé álits Náttúruverndarráðs á öllum stjfrv. áður en þau eru lögð fram, mér finnst bara ákaflega sérkennilegt að lögbinda slíkt ákvæði. Ég tek eftir því að margir umsagnaraðilar, Náttúruverndarráð og fleiri, telja að þetta sé mjög gott og jákvætt. Ég get ekki verið sammála því. Ég átta mig ekki á því af hverju ríkisstjórn og umhvrn. geti ekki lagt fram frv. á sviði náttúruverndar áður en þau eru borin undir Náttúruverndarráð.
    Ég vil einnig benda á óvissuþátt í þessum málum ef þetta verður að lögum. Hvað er á sviði náttúruverndar? Ég vil benda á að þetta getur átt við mjög mörg atriði og þykir mér þess vegna óheppilegt að það skuli vera gert þannig að binda hendur ríkisstjórnar með þeim hætti sem þarna er gert ráð fyrir. Það er kannski ákaflega sérkennilegt að ég skuli vera að finna að þessu atriði, svo mikið sem ég vil hafa samráð við fólk, en það er fyrst og fremst það að mér finnst asnalegt að lögbinda eina stofnun, að hún verði að fá að segja álit sitt á stjfrv. áður en þau eru lögð fram. Ég vil bara vekja athygli á þessu. Ég hef reyndar komið að þessu áður en ég hef fengið frekar litlar undirtektir við þetta sjónarmið mitt en ég vil koma þessu á framfæri eftir sem áður. Mér þótti það enn þá verra eins og ákvæðið var á síðasta þingi. Þá var gert ráð fyrir að leita skyldi álits Náttúruverndar á öllum lagafrv. sem lögð yrðu fram. Það fannst mér enn þá verra að menn mættu ekki leggja fram frv. nema leita álits og þetta þykir mér frekar óheppilegt. Þá tek ég það enn og aftur fram að ég er alls ekki á móti því að leitað sé álits Náttúruverndarráðs eða annarra heldur að þetta ákvæði skuli vera lögbundið.
    Þá kem ég að næstu grein, l-lið. Það er gert ráð fyrir að Náttúruverndarráð annist vörslu friðlýsingarsjóðs. Ég get út af fyrir sig alveg fallist á þetta og finnst þetta ákvæði ágætt en vil hins vegar benda á að það eru mjög margir sem gera athugasemd við þetta og segja að það sé óeðlilegt ef Náttúruverndarráð á að fara algjörlega út úr allri stjórnsýslu og vera algjörlega valdalaust að ráðið sé yfirleitt með friðlýsingarsjóð. Ég er ekki sammála þeim athugasemdum og þess vegna styð ég það að þetta sé eins og gert er ráð fyrir í frv.
    Ég vil hins vegar benda á að í ákvæðinu stendur, með leyfi forseta:
    ,,Tilgangur sjóðsins er að fjármagna einstök verkefni í þágu náttúruverndar, sbr. skipulagsskrá þjóðhátíðarsjóðs.``
    Þetta orðalag gerðum við athugasemd við og töldum óheppilegt að vísa í lögum í að það skuli vera samanber skipulagsskrá þjóðhátíðarsjóðs. En það hefur ekki verið tekið tillit til þeirra athugasemda og átta ég mig ekki á af hverju það hefur ekki verið gert. Það getur vel verið að það sé allt í lagi að hafa þetta með þessum hætti en í nefndinni komu fram þær athugasemdir að miklu eðlilegra væri annaðhvort að sleppa þessu eða tilvísunin væri skýrari þannig að ekki færi á milli mála hvað við væri átt ef ætlunin er að vitna í þjóðhátíðarsjóð. Ég geri athugasemd við þetta og tel að það þurfi að skoða nánar hvort þetta geti staðist.
    Einnig var gerð athugasemd við það af nokkrum aðilum að í stjórn sjóðsins sæti formaður Náttúruverndarráðs og fulltrúi Landvörslunnar. Ég ætla ekki að gera það að neinu ágreiningsefni og tel að það sé út af fyrir sig allt í lagi þó svo að það geti verið eðlilegra að það stæði að í stjórn sjóðsins sæti fulltrúi Náttúruverndarráðs í staðinn fyrir að það sé ákveðið að það sé formaður. Þetta er bara til athugunar en mér finnst þetta ekki vera stórvægilegt atriði.
    Síðan kem ég að m-lið sem hefur verið mikið gagnrýndur og ég get tekið undir þá gagnrýni. Þar segir:
    ,,Umhvrn. skal ásamt Landgræðslu ríkisins vinna að gróðurvernd`` --- þ.e. umhvrn. vinnur að gróðurvernd ásamt Landgræðslu ríkisins. Landgræðsla ríkisins tilheyrir jú landbrn. eins og fyrirkomulagið er nú. Ég get byrjað á því að segja að ég hefði talið miklu eðlilegra að Landgræðsla ríkisins félli undir umhvrn. og þá hefði verið hægt að segja að Landgræðsla ríkisins vinnur að gróðurvernd og þyrfti þá ekkert að vera að segja að umhvrn. gerði það.
    Mér þykir mjög einkennilegt að taka svona til orða í lagasetningu og hefði fundist miklu eðlilegra að einhver undirstofnun umhvrn. ynni að gróðurverndarmálum ef það þarf að taka það sérstaklega fram því ég sé ekki fyrir mér að umhvrn. geti gert þetta beinlínis. Þess vegna hefði mér fundist eðlilegra að það hefði þurft að áskilja þarna landbrn. ef það er talið heppilegt að hafa þetta orðalag á annað borð, þar sem þarna er umhvrn. falið ákveðið hlutverk ásamt stofnun sem tilheyrir öðru ráðuneyti. Þetta benda nokkuð margir aðilar á og innan nefndarinnar var einnig fjallað um að það væri ákaflega óeðlilegt að setja málin svona upp.
    Það sama gildir einnig um 2. mgr. þar sem talað er um umhvrn. ásamt Skógrækt ríkisins.
    Þessu vil ég vekja athygli á sérstaklega vegna þess að það voru svo margir sem minntust á þetta en það hefur greinilega ekki verið talin ástæða til að tekið væri á þessu og athugað hvort þetta væri í lagi.
    Ég tek það fram að landbrn. gerði ekki athugasemdir við frv. en við höfðum ekki tækifæri til að kalla þá til fundar við okkur til að spyrja nánar út í þetta eftir að athugasemdir um það komu fram innan nefndarinnar.
    Þetta er það sem ég vil segja um 1. gr. Við hana er brtt., l-liður, þar sem talað er um stjórn sjóðsins. Ég tel það orðalag brtt. á þskj. 641 miklu betra en frv. gerir ráð fyrir þannig að ég styð það orðalag og finnst það miklu betra en ákvæði frv. hljóða þó efnislega sé ekki breyting á því, þ.e. að skipa í stjórn sjóðsins að loknu náttúruverndarþingi.
    Þá er ég komin að 2. gr. og fer nú að styttast í þessari yfirferð en fyrst er þar brtt. í b-liðnum. Þetta var ein af þeim athugasemdum sem prófessor Páll Sigurðsson gerði við frv., þ.e. að umhvrh. sé heimilt að fengnum tillögum Landvörslu ríkisins. Hann benti einmitt á að það væri miklu eðlilegra að ákveðin stofnun tæki þarna á málum og það er tekið tillit til þess eins og sést á þessari brtt., þar stendur: ,,Landvörslu ríkisins er heimilt að ákveða gjald`` o.s.frv. og þá er auðvitað hægt að skjóta þeirri ákvörðun til umhvrh. Það er þetta sem hann var að gera athugasemdir við.
    Ég vek hins vegar athygli á því að það er ekki tekið tillit til þeirra athugasemda sem hann gerir þó við önnur atriði. Það kemur fram víðar í þessari grein að umhvrh. sé heimilt að ákveða tímabundið gjald fyrir aðgang að náttúruverndarsvæðum. Það er þetta umdeilda atriði. Þetta telur hann einnig að sé aðfinnsluvert eða það þurfi a.m.k. að athuga mjög gaumgæfilega hvort sé rétt að hafa með þessum hætti því það verði að vera ótvírætt þegar talað er um að umhvrh. sé heimilt að gera eitthvað og umhvrh. geti veitt, þá þurfi það að vera mjög ljóst að það sé ekki verið að ganga á rétt einstaklinganna til áfrýjunar til æðra stjórnvalds. Það var einmitt í svona atriðum sem hann var sérstaklega að tala um og það er víðar sem ekki er tekið tillit til þeirra athugasemda sem hann hefur en þó er á nokkrum stöðum tekið tillit til þess að því er mér sýnist. Ég vil taka fram að nefndin gat ekki farið yfir frv. sérstaklega með tilliti til þessa og fengið þá aðra sérfræðinga á sinn fund til þess að kanna þetta nánar. En mér þykir mjög mikilvægt að ekki sé vafi á því að ekki sé gengið á rétt einstaklinga að því er varðar slík atriði.
    Ég gagnrýndi áðan að í frv. væri þetta gjald, þ.e. aðgangseyrir, og sagði reyndar að það væri mjög vafasamt að taka það upp og tel ég raunar að það gangi ekki upp en ég vil taka það fram að það voru nokkrir aðilar, m.a. þjóðgarðsvörðurinn í Skaftafelli sem taldi að það væri rétt að það yrðu ótvíræðar heimildir til að taka aðgangseyri og fannst ákvæðið meira að segja of veikt í frv. --- svona til þess að taka það fram að það eru auðvitað ekkert allir alveg sammála þessu atriði.
    Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að í 3. mgr. segir og það er ekki brtt. um það: ,,Umhvrh. er þó heimilt að veita undanþágu frá þessari reglu``. Svo ég taki það einmitt til þá var það þetta atriði sem Páll t.d. tiltók sérstaklega að væri óeðlilegt en ég skal alveg viðurkenna það að ég fór ekki nákvæmlega út í það hvernig væri betra að breyta þessu ákvæði til þess að það yrði í samræmi við það sem hann teldi eðlilegt og það er heldur ekkert endilega víst að allir séu honum sammála. Við höfðum ekkert tækifæri til að fara yfir það. Ég er ekki að segja það að hans athugasemdir séu endilega þær einu réttu og að ekki megi horfa á þetta með öðrum augum. Þetta er bara ábending vegna þessa atriðis.
    Ef við snúum okkur þá að 3. gr., ég er búin með 2. gr. Þær brtt. sem hún gerir ráð fyrir eru þá fyrst og fremst að það er verið að flytja hlutverk Náttúruverndarráðs yfir til umhvrh. Mér finnst það ansi langt gengið í öllu frv. og ætla ég ekki að hafa nein sérstök orð um það hér því almennt tel ég að þarna þurfi að athuga miklu betur hvernig á málum er haldið. En það er þó eitt atriði við 3. gr. sem ég vil sérstaklega gera að umtalsefni og það er b-liðurinn þar sem kemur ný grein sem hljóðar þannig, og þá les ég brtt., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Umhvrh. skal setja reglugerð um akstur utan vega, umferð hesta, umgengni í óbyggðum, merkingu bílslóða og vega og leyfilegan öxlulþunga vélknúinna ökutækja sem fara um óbyggð svæði. Þar sem hætta er á náttúruspjöllum er akstur utan vega og merktra slóða óheimill.``
    Þetta tel ég mjög vafasamt. Í fyrsta lagi finnst mér ákaflega hæpið að setja inn í lög að gert sé ráð fyrir akstri utan vega. Mér finnst að það verði að vera alveg ljóst í lögum að það sé algjör undantekning ef leyfður er akstur utan vega. Og eins og segir að umhvrh. skuli setja reglugerð um akstur utan vega --- mér finnst þetta mjög slæmt. Mér finnst það verða að vera heimild fyrir því að setja reglur um akstur í óbyggðum, mér finnst það allt í lagi eins og gert er ráð fyrir í núgildandi lögum, en mér finnst það þurfi að nálgast þetta með hinu hugarfarinu. Ég t.d. verð að viðurkenna það að þegar ég sé þessar myndir sem stundum birtast í sjónvarpinu um akstur þvers og kruss um hálendið, t.d. um jöklana og annað, með hálfgerðri auglýsingamennsku, að ég er mjög óhress með það hvernig á þeim málum er haldið og ég hef verulegar áhyggjur af því að þarna sé verið að ganga inn á ákveðna slóð sem er mjög hættuleg. Þess vegna get ég ekki fellt mig við þetta orðalag og vonast ég til þess að menn geti nú sameinast um eitthvað annað. Ég verð að viðurkenna að þetta er það atriði sem ég vildi helst reyna að gera einhverja brtt. við, þó ég vilji helst að ríkisstjórnin taki frv. aftur og vinni það betur og setji heildstæð lög en mér finnst þetta hættulegt ákvæði.
    Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að þarna sé sett reglugerð eða reglur eins og það heitir af Náttúruverndarráði í óbyggðum og þetta ákvæði hefur verið nánast haldlaust, því miður. Það hefur ekki verið hægt að taka raunverulega á þessum málum. Ákvæðið er orðað svo núna, með leyfi forseta:
    ,,Náttúruverndarráð skal setja sérstakar reglur um akstur ökutækja og umgengni ferðamanna í óbyggðum, þar á meðal um merkingu bílslóða. Er ráðinu skylt að banna allan óþarfa akstur utan vega og merktra slóða þar sem náttúruspjöll geta hlotist af.`` Nálgunin er betri í þessu heldur en það sem núna er lagt til. Þetta þykir mér vera til hins verra. Þess vegna legg ég áherslu á það að þarna verði reynt að bæta úr og laga þennan texta.
    Ég get líka tekið undir þær ábendingar sem komið hafa fram bæði úr þessum ræðustól og komu raunar fram á fundi nefndarinnar einnig að það er ákaflega sérkennilegt að gera ráð fyrir því að umhvrh. setji reglur um akstur utan vega og umferð hesta --- út af fyrir sig getur verið að sé allt í lagi --- og umgengni í óbyggðum. En umhvrh. á að setja reglur um merkingu bílslóða og vega og leyfilegan öxulþunga vélknúinna ökutækja sem fara um óbyggð svæði. Ég vek athygli á því að þetta fellur undir dómsmrn. Þeir sjá um merkingu bílslóða og ég hélt hingað til að þeir sæju ásamt Vegagerðinni líka um að það væru aðrir sem sæju um leyfilegan öxulþunga. Ég held að þetta ákvæði, eins og það hljómar þarna, sé þannig að það mætti skilja það að umhvrn. ætti að setja reglugerð um nánast allan akstur sem ekki væri í byggð. Ég vildi reyndar ekki skilja þetta ákvæði þannig þegar ég las það en eftir ábendingar annarra þá sé ég að það er vel hægt að gera það og mér finnst það ákaflega slæmt og tel rétt að þetta ákvæði verði skoðað sérstaklega með tilliti til þess.
    Ég vil geta þess hér að við óskuðum eftir því að það yrði haft samráð við dómsmrn. vegna þessa

ákvæðis og ráðuneytisstjóri dómsmrn. taldi að þetta mundi, eins og ég held að skilaboðin hafi verið, ekki valda vandræðum. Við óskuðum hins vegar eftir því að hann kæmi með skriflega umsögn um það hvernig þessu yrði fyrir komið en þá umsögn fengum við ekki af mér ókunnum ástæðum. Mér skilst að alla vega til að byrja með, fyrstu dagana hafi hann ekki verið við, hann hafi verið erlendis að vinna en ég veit ekki hvers vegna við höfum ekki fengið um þetta nánari upplýsingar. En þarna finnst mér mjög mikilvægt að ekki leiki neinn vafi á því hver það er sem fer með vald á þessu sviði. Það má ekki vera þannig að einhverjir geti ímyndað sér að það sé umhvrn. sem eigi að merkja bílslóða og vegi og svo dómsmrn. líka. Þetta verður að vera mjög skýrt og mér finnst að þetta geti valdið misskilningi. Ég held að það væri miklu eðlilegra að við reyndum að finna eitthvert orðalag sem væri ótvírætt að akstur utan vega væri algjör undantekning. Þessu vil ég koma á framfæri því ég tel að þetta geti verið mjög af hinu verra að hafa þetta ákvæði eins og það þarna er.
    Ekki vildi ég gera athugasemdir við fleiri ákvæði þessarar greinar en þetta þykir mér það alvarlegasta. Orðalagið er hægt að sjá í nál. minni hlutans, tillögu sem er einmitt um þetta atriði frá Náttúruverndarráði. Ég er ekki alveg viss um að þar hafi Náttúruverndarráð hitt naglann á höfuðið heldur og að þeirra tillaga sé skotheld en það þyrfti auðvitað að athuga. En þetta atriði tel ég að geti valdið miklum ruglingi og geti orðið til þess að þarna skapist óvissa.
    Í 4. gr. frv. er talað um friðlýsingar og til þess að átta sig á því hvernig því á fyrir að koma þá vil ég vísa í nál. meiri hluta umhvn. en aftast í því nál. er birt fskj. þar sem sýnt er hvernig lögin litu út ef þetta frv. væri orðið að lögum. Þetta tel ég til mikillar fyrirmyndar og ætti að vera miklu betra fyrir þingmenn að átta sig á hvernig þessum málum er fyrir komið og vil ég skora á þingmenn að kynna sér þá grein en það er 28. gr. og aftur úr og vil ég hrósa þeim sem hafa látið sér detta það í huga að gera þetta svona því ég held að það sé mjög gott þegar verið er að breyta frv. eins og hér er gert ráð fyrir því þá getur verið mjög erfitt fyrir þingmenn að átta sig á hlutunum. En þar verð ég að lýsa því að mér finnst mjög óeðlilegt hvernig hlutur umhvrh. er í því máli svo að ég taki það í einu lagi. Ég tel miklu eðlilegra að frumkvæði að friðlýsingu sé hjá ákveðinni stofnun sem sjái um það, þ.e. að fara í gegnum það mál, en umhvrh. hafi tillögurétt þar eins og aðrir. Það á að vera alveg ljóst að það sé umhvrh. sem hafi frumkvæði að því að nánast að framkvæma vegna þess að það er mjög mikilvægt að fólk hafi eins og áður einhvern áfrýjunarrétt, það sé ekki alltaf á hæsta stjórnsýslustigi sem allar ákvarðanir eru teknar. Þetta þykir mér ákaflega mikilvægt. Ég vil í því sambandi minna á að Páll Sigurðsson bendir einmitt á þetta atriði í athugasemdum sínum að óeðlilegt sé að allar ákvarðanir séu alltaf teknar á efsta stjórnsýslustigi og reyndar hafa fleiri bent á þetta og það gildir t.d. á nokkuð mörgum þáttum innan þessarar greinar. Þessu þykir mér rétt að koma á framfæri.
    Ég vil líka koma á framfæri þeim athugasemdum sem ég hef reyndar gert í umhvn. og það er að mér þykir mjög óeðlilegt að fræðilegt bakland varðandi friðlýsingar sé eingöngu í höndum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Það eru til fleiri stofnanir á sviði náttúrufræða. Mér þykir mjög eðlilegt ef um er að ræða friðlýsingar eins og gert er ráð fyrir geti fleiri stofnanir verið faglegt bakland en það sé ekki bara bundið við eina stofnun. Þessar athugasemdir hafa ekki verið teknar til greina af hálfu meiri hluta. Þetta finnst mér vera mjög mikilvægt því að þó að Náttúrufræðistofnun Íslands sé auðvitað grunnrannsóknarstofnun á sviði íslenskrar náttúru eru til mjög margar aðrar stofnanir. Ég get t.d. nefnt Líffræðistofnun Háskóla Íslands, jarðfræðistofnun og miklu fleiri stofnanir. Þær sjá um mjög mörg önnur svið og mér finnst ekki rétt að takmarka það við eina stofnun. Ég hefði viljað hafa aðrar rannsóknarstofnanir með. En allt í lagi, þessi athugasemd mín hefur ekki hlotið náð. Í þessari grein finnst mér miklu betra orðalag sem meiri hluti nefndarinnar leggur til bæði varðandi líffræði og vernd örvera og fleira þess háttar sem hér er lagt til og finnst mér að þar hafi verið tekið tillit til þeirra orðalagsábendinga sem hafa komið fram á fundi nefndarinnar og séu mjög jákvæðar og til bóta þannig að ég get tekið undir það.
    Ég held að ég sé nokkurn veginn búin að skýra athugasemdir mínar. Að vísu vil ég taka það fram, herra forseti, að ég hefði getað farið miklu betur ofan í þennan kafla um friðlýsingar því að ég tel að hann sé alls ekki með þeim hætti sem hægt sé að sætta sig við. Allt of mikið sé gert ráð fyrir því að umhvrn. verði þar með puttana í. Ég ætla ekki að rekja nákvæmlega hvaða þættir það eru sem hér eru á móti. Ég held að það verði að byggja greinina algerlega upp á nýtt þannig að gert sé ráð fyrir því að ákveðin stofnun sjái um allar þessar framkvæmdir en síðan taki auðvitað umhvrn. ákvörðun eins og gert er ráð fyrir núna. Auðvitað á engin stofnun að geta tekið slíkar ákvarðanir. Það verður að vera umhvrn. sem það gerir.
    Ég vil reyndar taka fram að mér finnst orðið verndaráætlun miklu betra en vörsluáætlun sem kemur fram í brtt. við 4. gr. Þar er talað um verndaráætlun í staðinn fyrir vörsluáætlun, ég er alveg sammála því. Ég er sammála flestum þeim brtt. sem þarna koma. Bæði finnst mér orðalagið miklu betra auk þess sem við fljóta yfirferð get ég samþykkt flestar breytingartillögurnar sem eru við 4. gr. Enda þótt ég sé á móti grunnhugmyndinni í greininni þá finnst mér samt orðalagið betra eins og þarna er lagt til. Þess vegna er stundum dálítið erfitt þegar maður vill vera sammála þeim breytingum, sem gerðar eru til að lagfæra löggjöfina svo að hún bara standist, gangi upp og sé eðlileg, og það að vera með í grunnatriðum á móti því hvernig greinin er byggð upp. Þetta eru vandamál þeirra sem stundum eru að reyna að gera sitt besta í því að löggjöfin sé sæmilega orðuð þó að maður sé á móti ákveðnum ákvæðum.

    Ég tel ekki rétt að ráðuneytið sjái um náttúruminjaskrá. Ég held að miklu eðlilegra sé að fela ákveðnum aðilum að sjá um hana sem umhvrn. hefur auðvitað hönd í bagga með og allt það eins og eðlilegt er. Ég hefði því talið eðlilegra að Náttúruverndarráð sæi um náttúruminjaskrána svo að ég haldi því til haga hvaða athugasemd ég hef varðandi það atriði.
    Herra forseti. Í 6. lið stendur við ákvæði til bráðabirgða: ,,Síðari málsliður falli brott.`` Ég held að það hljóti að vera prentvilla. Þetta eru þrír málsliðir eins og þetta er núna og eins og frv. er prentað upp í fskj. á bls. 19 í nefndaráliti meiri hlutans í þskj. 640 hefur þetta verið prentað þannig upp að þrátt fyrir ákvæði 7. gr. situr núverandi Náttúruverndarráð uns náttúruverndarþing hefur verið haldið. Síðan held ég að það hafi fallið brott þar sem segir í frv., með leyfi forseta:
    ,,Umhvrh. boðar til 9. náttúruverndarþings eigi síðar en í árslok 1995.`` Ég hugsa að það hafi ekki verið meiningin að fella þetta brott. En eins og þetta er orðað er það óvíst. Þetta þarf að laga og ég býst við að það eigi að standa: Brtt., ákvæði til bráðabirgða, síðasti málsliðurin falli brott. Þetta finnst mér rétt að athuga þar sem málsliðirnir eru þrír. Annaðhvort verður að segja tveir eða tveir síðustu málsliðir falli brott. Það þarf að minnsta kosti að gæta þess að orðalagið sé nákvæmt og ég held að einungis hafi verið ætlunin að fella síðasta málsliðinn brott. Þetta er ábending sem mér finnst við eigum að gæta að svo að þetta sé ekki óvissu háð hvenær boða eigi næsta náttúruverndarþing því að þetta er eitt af því sem kom athugasemd fram í ræðu fyrr í umræðunni. Ég skal alveg viðurkenna að ég ákvað að það væri varla mitt að skýra það sem ég hélt að lægi að baki brtt. En af því að hv. frsm. nefndarinnar var ekki staddur í þingsalnum láðist mér að benda henni á það til þess að hún gæti þá leiðrétt þennan misskilning sem ég hélt að hlyti að vera en það er þá hægt að gera það hér eftir. En ég læt lokið máli mínu, virðulegi forseti, að svo komnu máli.