Umræður um dagskrármál

96. fundur
Fimmtudaginn 16. febrúar 1995, kl. 13:08:47 (4400)


[13:08]
     Kristín Einarsdóttir :
    Herra forseti. Ég get út af fyrir sig tekið undir það með hæstv. umhvrh. að það sé óeðlilegt að vera að bíða eftir fólki úti í bæ sem ekki getur mætt til fundarins þegar um er að ræða umræður í þinginu. Hins vegar vil ég benda á það að aðrir hv. þm. sem hér eru á mælendaskrá, alla vega gildir það um einn hv. þm. Kvennalistans, varð að velja um það að mæta hér á fund og að mæta á nefndarfund. Til þess að hægt sé að halda nefndarfund á fundartíma, sem er óvanalegt og þarf sérstakt leyfi forseta til, þarf að taka tillit til þess varðandi stjórn fundarins. Og þess vegna þykir mér eðlilegt að forseti taki hér annað mál og það var kannski að minni ábendingu vegna þess að ég er tilbúin til að mæla fyrir litlu máli til að flýta fyrir svo við notuðum tímann frekar en að við frestuðum þessum fundi þangað til eftir hádegishlé.