Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

96. fundur
Fimmtudaginn 16. febrúar 1995, kl. 13:10:28 (4402)


[13:10]
     Frsm. iðnn. (Kristín Einarsdóttir) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. iðnn. um frv. til laga um breytingar á lögum nr. 78/1993, um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum.
    Þetta er frekar lítið mál eins og fram kemur á þskj. 493. Mönnum er væntanlega enn í fersku minni þegar iðnn. fjallaði um þetta mál í þinginu en að lokum tókst um það samkomulag hvernig þessum málum væri best fyrirkomið og lögðum við til á sínum tíma ákveðna meðferð þessara mála.
    Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að verndin nái aðeins til íslenskra ríkisborgara og lögaðila en eins og fram kemur í athugasemdum við lagafrv. eru þó ákveðnar undantekningar í 2. mgr.
    Þetta frv. gerir ráð fyrir því að vernd, samkvæmt lögunum um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum, nái til allra sem hanna svæðislýsingar smárása hvort sem um er að ræða íslenska ríkisborgara eða ekki. Hv. iðnn. telur að þetta séu eðlilegar breytingar á lögunum og mælir með samþykkt frv. einróma, þ.e. allir nefndarmenn sem mættir voru á fundinum, Svavar Gestsson, Kristín Einarsdóttir, Pálmi Jónsson, Guðjón Guðmundsson, Gísli S. Einarsson, Sigríður A. Þórðardóttir, Tómas Ingi Olrich og Sverrir Sveinsson. En Guðmundur Stefánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.