Náttúruvernd

96. fundur
Fimmtudaginn 16. febrúar 1995, kl. 13:13:03 (4403)

[13:13]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég hlustaði seint í gærkvöldi á hæstv. umhvrh. í sjónvarpsviðtali. Þar flutti hann sem rök fyrir verkum sínum í ráðherraembætti að hann hefði faglega þekkingu og faglegan metnað. Þess vegna ætti að dæma verk hans og ummæli með tilliti til þess. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu vísindalegan metnað, hæstv. ráðherra, því það er sá metnaður sem átt er við á þessu sviði hvort sem fræðigreinin er líffræði, umhverfisverkfræði, lögfræði eða aðrar fræðigreinar.
    Ég nefndi það hér fyrir nokkru síðan að þegar ég tók sæti í umhvn. í upphafi þessa kjörtímabils þá gerði ég það gagngert til þess að leggja mitt af mörkum svo hægt væri að þróa þann skilning í þinginu og með þjóðinni að umbætur í umhverfismálum ættu ekki að mótast af átökum stjórnar og stjórnarandstöðu á hverjum tíma. Það ætti að kappkosta að halda þannig á þessum málaflokki að hann gæti orðið sameign þjóðarinnar. Hann yrði ekki fórnarlamb átaka eða flokkshagsmuna, valdabaráttu einstaklinga milli flokka eða innan flokka eða hér í þinginu.

    Ég vona að hægt sé að segja það um verk mín í umhvn. á þessu kjörtímabili að ég hafi fylgt þessu fyrirheiti. Ég hef hvað eftir annað stutt hæstv. umhvrh. í verkum hans þegar ég hef talið að efnisrök lægju þar að baki. Ég hef haft á ýmsum málum aðra skoðun heldur en sá ágæti meðnefndarmaður minn sem situr í sama stjórnmálaflokki og ég og tekið afstöðu hverju sinni eftir því sem væri að mínum dómi heillavænlegast fyrir umhverfisvernd á Íslandi og framþróun þeirra mála. Mér finnst þess vegna afar leitt að það skuli vera að gerast hér á síðustu vikum þessa kjörtímabils að hæstv. umhvrh. kappkostar að spilla eins og hann getur þeirri breiðu samstöðu sem alla jafna á að hafa í þessum málaflokki. Umhverfismál eru ekki bitbein Alþfl. eða Alþb., Sjálfstfl. eða Framsfl., stjórnar eða stjórnarandstöðu.
    Sá ráðherra sem sest í stól umhvrh. þarf að gera sér grein fyrir því að honum hefur ekki aðeins verið falið nýtt ráðuneyti heldur hefur honum einnig verið falin hagsmunagæsla þess sem þjóðin á sameiginlega og telur með því dýrmætasta sem hún á. Hæstv. umhvrh. er fulltrúi flokks sem hefur líkt og minn flokkur lagt á það kapp að auðlindir hafsins séu sameign þjóðarinnar. En auðlindir náttúrunnar og umhverfisins á landi eru einnig að verulegu leyti sameign þjóðarinnar og það er afar illt þegar svo er haldið á málum að að ónauðsynjalausu eru þau sett í algjöran hnút. Og ég skal segja það hér strax að það er mér algjörlega óskiljanlegt hvers vegna hæstv. umhvrh. kýs að vinna svo ófaglega, óþinglega og óskynsamlega að þessum málum á síðustu vikum þingsins.
    Ég tók þátt í því með fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna í umhvn. á fyrri hluta þessa vetrar að greiða fyrir því að þetta mál gæti fengið þannig afgreiðslu í nefndinni að ekki þyrfti að senda það út á nýjan leik til allra umsagnaraðila og reyndar þyrfti ekki að senda það út til umsagnar heldur að eingöngu væri leitað eftir því að takmarkaður fjöldi --- og ég legg áherslu á orðið takmarkaður --- kæmi til nefndarinnar og gerði grein fyrir skoðun sinni. Í sjálfu sér var ekkert sem mælti með því að ég sem þingmaður stjórnarandstöðu væri að ganga í verk af þessu tagi. Ég taldi það hins vegar eðlilegt í samræmi við þau vinnuhorf sem ég hefði viljað fylgja í þessum málaflokki að stuðla að því.
    Ég skal að vísu játa það hér að á fyrstu vikum þingsins eftir áramót var ég önnum kafinn við ýmis verk sem formenn flokka þurfa gjarnan að sinna í aðdraganda kosninga og hafði þess vegna ekki þann tíma sem ég hefði kosið til þess að sækja fundi í þessari ágætu nefnd. Ég kom hins vegar á fund í nefndinni í síðustu viku. Hvað gerðist á þessum fundi? Fulltrúi Alþfl. lagði fram brtt. á fundinum og krafðist þess jafnframt að fram færi atkvæðagreiðsla um það að málið yrði tekið út úr nefndinni. Ég benti á að ég hefði ekki haft neinn tíma til þess að skoða þessar brtt. sem væru hinar endanlegu tillögur fulltrúa ráðherrans í nefndinni um það hvernig frv. ætti að líta út og krafa um að taka málið þá umsvifalaust út úr nefndinni var formleg pólitísk tilkynning um það að skipta afstöðu til þessa frv. í stjórnarþingmenn annars vegar og stjórnarandstöðuþingmenn hins vegar. Það var pólitísk ákvörðun um að taka þetta mál út úr hugsanlegum samflokkslegum farvegi og stilla því í brennidepil átakalínunnar milli stjórnar og stjórnarandstöðu.
    Ég tel að hæstv. umhvrh. verði að skýra það hér í umræðunum hvers vegna hann hefur kosið, því ég tel að fulltrúi Alþfl. hafi ekki verið að taka þessa ákvörðun upp á eigin spýtur heldur hafi gert það sem fulltrúi ráðherra og ég gagnrýni það ekki, það er fullkomlega eðlilegt. Þess vegna er það ráðherrann sem verður að skýra það hér fyrir okkur sem allt þetta kjörtímabil höfum sýnt það í verki að við höfum ekki tekið afstöðu til mála eftir skiptilínunni stjórn og stjórnarandstaða þegar umhverfismál hafa átt í hlut, hvers vegna hæstv. ráðherra kaus að tilkynna okkur að frekara samstarfs væri ekki óskað. Sérstaklega í ljósi þess að ég tók þátt í því með þingmönnum stjórnarflokkanna í umhvn. og með hæstv. ráðherra hér á fyrri hluta þings að ýta þessu máli úr vör í þingnefndinni með allt öðrum hætti.
    Ég óskaði eftir því í nefndinni að það gæfist a.m.k. dagsfrestur til þess að skoða þessar brtt. og bæði ég og aðrir í nefndinni gætum átt kost á því að meta það hvaða tillögum við vildum fylgja, við hverjar við hefðum fyrirvara og hvort það væru einhverjar sem við teldum óhjákvæmilegt að vera á móti. Það var ekki gert. Þvert á móti var bara tilkynnt að allur pakkinn, eins og hann lagði sig, skyldi vera farangur stjórnarflokkanna hér inn í umræðuna og samvistum frv. við einhverja þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna skyldi slitið.
    Mér er líka kunnugt um það að formaður nefndarinnar hafði gert ráðstafanir til þess að halda nefndarfund næsta dag, föstudag, svo hægt væri þá að taka málið út úr nefndinni ef þess væri óskað. Það var þess vegna á engan hátt þannig að það væri verið að koma í veg fyrir það að málið væri tekið út úr nefndinni í tæka tíð fyrir vinnu þingsins í þessari viku. Engin slík ætlun var uppi í nefndinni. Það er mér fullkunnugt um, hæstv. ráðherra.
    Ég hef aldrei vanist því hér í þinginu, aldrei, ekki einu sinni í hörðum pólitískum deilumálum á sviði efnahagsmála, skattamála, kjaramála, milli stjórnar og stjórnarandstöðu, að brtt. séu lagðar fram ítarlegar og í mörgum liðum og á sömu stundu sé óskað eftir því að málið sé tekið út úr nefndinni. Ég hef aldrei vanist því. Það má vel vera að slíkir siðir hafi verið teknir upp í einhverjum öðrum nefndum hér á þessu kjörtímabili en allan þann tíma sem ég hef starfað í þinginu frá 1978 hef ég aldrei kynnst svona vinnubrögðum. Þegar ljóst er að málið átti ekki að koma fyrir á föstudeginum hér í þinginu þá var ekkert, hæstv. ráðherra, bókstaflega ekkert sem kallaði á það að taka það út úr nefndinni sl. fimmtudag og engin rök fyrir því að neita ósk um að bíða einn sólarhring svo að menn gætu skoðað í friði þær brtt. sem voru lagðar fram.
    Ég óska eftir því, hæstv. ráðherra, að fá skýringar á því af hverju var þetta svona brýnt. Hvað lá

á? Er þetta bara orðið þannig að sálarástand ráðherrans ráði ferðinni í málinu? Eru það faglegu vinnubrögðin, er það yfirvegunin? Eru það hinir nýju hættir sem áttu að koma með yngri forustumönnum í Alþfl.?
    Hæstv. ráðherra kann að segja að þær athugasemdir sem fram hafi komið í nefndinni séu svo léttvægar og lítilfjörlegar að það hafi ekki verið ástæða til þess að huga neitt að þeim. Þá vil ég benda hæstv. ráðherra á það að Páll Sigurðsson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, er forseti Ferðafélags Íslands. Páll Sigurðsson, prófessor í lögum við Háskóla Íslands. Hann kom tvívegis á fund nefndarinnar og lét nefndinni jafnframt í té minnisblað. Þar segir, eins og fram kemur í nál., með leyfi hæstv. forseta, að í frv. sé ,, . . .  með óheppilegum og vafasömum hætti gert ráð fyrir ákvarðanatöku umhvrn. á frumstigi sem um leið skaðar í reynd möguleika á stjórnlegri kæru til ráðuneytisins.``
    Þessi ummæli Páls Sigurðssonar prófessors og reyndar ýmislegt annað sem fram kom í umfjöllun nefndarinnar gefur til kynna að út frá almennum stjórnsýslulegum vinnureglum í nútímastjórnsýslu og lögum sé frv. gallað. Umhvrn. hefur lögfræðing á sínum snærum. ( Gripið fram í: Þrjá.) Meira að segja þrjá lögfræðinga, það er gott að heyra það. Ég hélt að umhvrn. væri kappsmál að leggja fram eitthvert svar við þessari gagnrýni Páls Sigurðssonar, prófessors í lögum við Háskóla Íslands. En kannski hefur sá lögfræðingur umhvrn. sem átti að semja svarið verið svo önnum kafinn við að undirbúa framboð sitt fyrir Alþfl. í Suðurlandskjördæmi að hann sé búinn að leggja hin faglegu verk til hliðar. Og aðstoðarmaður umhvrh. var eins og kunnugt er önnum kafinn við að undirbúa ályktanir flokksþings Alþfl. sem haldið var fyrir skömmu.
    Er það virkilega þannig, hæstv. umhvrh., að þetta litla ráðuneyti sé orðin slík ,,station`` fyrir áróðursdeild Alþfl. í komandi þingkosningum að faglegri vinnu að máli af þessu tagi sé ýtt til hliðar og henni ekki sinnt? Eða er það virkilega þannig að hæstv. ráðherra, sem í sjónvarpinu í gær talaði um vísindaheiður sinn og faglegan metnað, sýni ekki prófessorum í lögum við Háskóla Íslands sams konar virðingu fyrir fræðilegum metnaði þeirra og vísindaheiðri þeirra? Eða á vísindaheiðurinn bara við líffræðina, hæstv. ráðherra? Auðvitað er það ekki þannig.
    ( Forseti (PJ) : Forseti vill greina frá því að ætlunin var að gera hlé á fundinum klukkan hálftvö til klukkan hálffjögur. Forseti vill því spyrjast fyrir um það hvort hv. ræðumaður er um það bil að ljúka máli sínu eða hvort hann kýs að gera hlé á ræðu sinni.)
    Virðulegi forseti. Ég kýs að trufla ekki þá ætlun forseta að gera nú fundarhlé. Mér skilst að Hæstiréttur Íslands eigi afmæli í dag og það sé m.a. af virðingu við lögin í landinu, dómarana og kannski líka prófessorana í lögum við Háskóla Íslands sem þjóðþingið ætlar að taka sér núna hlé. Ég legg til að hæstv. umhvrh. mæti á afmælishátíð Hæstaréttar og setjist hjá nokkrum lagaprófessoranna og hugleiði ummæli lagaprófessoranna um það frv. sem hér er til umræðu en er að öðru leyti reiðubúinn að hefja ræðu mína að nýju þegar forseti tekur ákvörðun um það og fresta nú ræðu minni.