Grunnskóli

96. fundur
Fimmtudaginn 16. febrúar 1995, kl. 16:03:42 (4404)

[16:03]
     Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um grunnskóla á þskj. 666 og brtt. á þskj. 667 frá meiri hluta menntmn.
    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem kveður á um flutning á rekstri grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga. Flestar breytingar frumvarpsins frá gildandi lögum um grunnskóla, nr. 49/1991, byggjast á flutningi grunnskólans. Gert er ráð fyrir að öll ábyrgð á framkvæmd skólahalds á grunnskólastigi færist til sveitarfélaga, að undanskilinni útgáfu námsgagna. Sveitarfélög munu því taka við ráðningu starfsmanna og launagreiðslum til skólastjórnenda, kennara og annarra sérfræðinga sem starfa í grunnskólum og eru nú ráðnir hjá ríkinu. Aðrar breytingar, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, lúta að umbótum í skólastarfi. Í því sambandi ber sérstaklega að nefna að gert er ráð fyrir fjölgun kennslustunda og kennsludaga samfara einsetningu grunnskólans og aukin áhersla er lögð á námsmat og eftirlit með skólastarfi, upplýsingamiðlun til almennings og stjórnvalda um skólastarf og árangur þess og áhrif foreldra.
    Frv. það sem hér er til umræðu hefur fengið mjög ítarlega og vandlega meðferð og umfjöllun í hv. menntmn. Nefndin hefur fengið fjölmarga aðila á sinn fund til að veita upplýsingar og ræða þetta mikilvæga mál. Nefndinni bárust mjög margar umsagnir um frv. þar sem fram komu gagnlegar athugasemdir og ábendingar og það er greinilegt að mikil vinna liggur að baki umsagnanna. Það tel ég að endurspegli mikilvægi málsins og áhuga þeirra sem um hafa fjallað að það fái sem farsælastan framgang. Fyrir þetta vil ég þakka sérstaklega og einnig þeim aðilum sem hafa komið til funda nefndarinnar fyrir mjög málefnalegar og góðar viðræður.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali. Helstar þeirra eru:
    1. Lagt er til að við 9. gr. bætist nýmæli sem gerir ráð fyrir að menntamálaráðherra geri Alþingi grein fyrir framkvæmd skólastarfs í grunnskóla á þriggja ára fresti. Mikilvægt er talið að Alþingi fylgist með reglubundnum hætti með framkvæmd skólastarfs í grunnskólum. Forsenda fyrir slíkri umfjöllun er að fyrir liggi ítarlegar upplýsingar um framkvæmd skólastarfs og árangur af því. Gert er ráð fyrir að það verði hluti af eftirlitsskyldu menntamálaráðuneytis að afla reglulega upplýsinga úr skólum og standa fyrir því að gerðar verði rannsóknir og úttektir á tilteknum þáttum skólastarfs. Í því sambandi má nefna 9., 10., 46., 49., 51. og 53. gr. frumvarpsins.
    2. Lagt er til að í 11. gr. verði kveðið á um að sveitarstjórnum sé heimilt að skipta sveitarfélagi niður í skólahverfi. Talið er nauðsynlegt að lögfesta slíka heimild fyrir stærri sveitarfélög og má í því sambandi nefna Reykjavíkurborg og önnur fjölmenn sveitarfélög. Meiri hlutinn telur eðlilegt að sveitarfélögum sé falinn sjálfsákvörðunarréttur varðandi skipan þessara mála. Það er sjálfsagt og í anda frv.
    3. Breytingin, sem lagt er til að gerð verði á 12. gr., er talin nauðsynleg samhliða þeirri breytingu sem lögð er til á 11. gr. Sú breyting hljóðar svo: ,,Í sveitarfélögum þar sem skólahverfi eru fleiri en eitt skal áætlun um starfstíma nemenda jafnframt staðfest af viðkomandi sveitarstjórn.`` Meiri hlutinn telur eðlilegt að sveitarstjórnir geti haft íhlutunarrétt þegar teknar eru ákvarðanir um skólatíma í einstökum skólum ef talið er rétt að skólatími innan sama sveitarfélags sé samræmdur enda þótt skólanefndum sé að öðru leyti veitt svigrúm til að móta skólastarf innan þess ramma sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
    4. Lagt er til að 20. gr. verði breytt á þann veg að sveitarstjórn ákveði sjálf nafn skóla án umsagnar menntamálaráðuneytis og örnefnanefndar. Það fyrirkomulag, sem frumvarpið gerir ráð fyrir er í samræmi við þá framkvæmd sem verið hefur um árabil en við flutning grunnskóla til sveitarfélaga er talið eðlilegt að sveitarfélög hafi sjálfdæmi um þetta atriði.
    5. Lagt er til að í 33. gr. verði með óyggjandi hætti kveðið á um það að Námsgagnastofnun sinni hlutverki sínu áfram og ríkið kosti náms- og kennslubækur og námsgögn fyrir nemendur í skyldunámi. Stofnunin hefur gegnt veigamiklu hlutverki í skólastarfi og telur meiri hlutinn mikilvægt að áfram verði tryggt nægilegt framboð af námsbókum og námsgögnum sem standast kröfur gildandi laga og aðalnámskrár. Gert er ráð fyrir að menntamálaráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um endurgjaldslausa úthlutun námsgagna. Þá er gert ráð fyrir að menntamálaráðherra kveði á um ýmis önnur atriði í reglugerð á grundvelli heimildar í 6. mgr., m.a. það hvaða námsgögn skuli afhent nemendum til eignar.
    Að síðustu vil ég taka þá breytingu að lagðar eru til verulegar breytingar á gildistökuákvæði laganna í 57. gr.
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að lögin í heild komi fyrst til framkvæmda 1. jan. 1996 og þá að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að þá liggi fyrir samþykki Alþingis á breytingum á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og á ákvæðum laga um tekju- og eignarskatt, um skiptingu skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga. Þetta eru helstu brtt. sem meiri hluti menntmn. leggur til að gerðar verði á frv.
    Í tengslum við umfjöllun um grunnskólafrumvarpið hafa verið ræddar hugmyndir um að enska taki við af dönsku sem fyrsta erlenda tungumálið í grunnskóla. Um þær hugmyndir eru skoðanir skiptar. Meiri hlutinn leggur áherslu á að ef fyrirhugaðar eru breytingar af þessu tagi fái menntamálanefnd tækifæri til þess að segja álit sitt á þeim.
     Við umfjöllun um frumvarpið lögðu fulltrúar Heyrnleysingjaskólans, Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra og kennsluráðgjafar Menntaskólans við Hamrahlíð áherslu á að táknmál heyrnarlausra yrði viðurkennt sem þeirra móðurmál og að heyrnarlausum yrði í samræmi við það tryggð kennsla á táknmáli. Meiri hlutinn telur að þetta atriði eigi heima í aðalnámskrá sem hefur ígildi reglugerðar. Meiri hlutinn vill í því sambandi sérstaklega benda á að í 2. mgr. 29. gr., sem fjallar um námskrárgerð, segir að við setningu aðalnámskrár, skipulagningu náms og kennslu og við gerð og val námsgagna skuli þess sérstaklega gætt að allir nemendur fái sem jöfnust tækifæri til náms. Þá segir einnig í 3. mgr. 29. gr. að markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skuli vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun, m.a. vegna fötlunar. Meiri hlutinn telur ástæðu til að við næstu endurskoðun aðalnámskrár verði sérstaklega hugað að því hvort viðurkenna beri táknmál heyrnarlausra sem móðurmál þeirra.
    Nokkur umræða hefur spunnist um að í frumvarpinu er hvergi minnst á sérkennslu. Meiri hlutinn vill í því sambandi benda á að hugtakið sérkennsla virðist hafa óljósa merkingu og í skýrslu nefndar um mótun menntastefnu er m.a. vitnað í niðurstöður rannsóknar Sigríðar Þ. Valgeirsdóttur (1992) sem benda

til að framkvæmd og skipulagi sérkennslu í skólakerfinu sé í ýmsu ábótavant. Meiri hlutinn leggur áherslu á að nám sé skipulagt með það fyrir augum að mæta þörfum hvers og eins og að markmið kennslunnar eigi að vera hin sömu fyrir alla. Meiri hlutinn vill í þessu sambandi einnig benda á að í frumvarpinu er gengið út frá því að fatlaðir nemendur stundi nám í heimaskóla. Þá er jafnframt lagt til að starfandi séu sérskólar og sérdeildir til að veita nemendum, sem ekki geta notið kennslu við hæfi í almennum bekkjardeildum grunnskóla, sérhæft námsumhverfi í lengri eða skemmri tíma. Einnig er kveðið á um þjónustu- og ráðgjafarhlutverk sérskóla og sérdeilda við almenna grunnskóla.
    Að lokum vill meiri hlutinn benda á að þegar unnið var að frumvarpi þessu var lögð rík áhersla tvennt, annars vegar að samkomulag næðist um réttinda- og lífeyrismál kennara, samfara flutningi grunnskólans , og hins vegar að sveitarfélögum yrðu tryggðar tekjur til að standa undir hinum aukna kostnaði. Jafnframt var lögð áhersla á að réttindi kennara skertust í engu við flutninginn og að um það næðist gott samstarf við kennarasamtökin. Meiri hlutinn tekur undir framangreind atriði og telur að hraða þurfi þeirri vinnu sem ólokið er þannig að viðunandi lausn náist sem fyrst. Meiri hlutinn leggur áherslu á að sem fyrst verði náð samkomulagi við sveitarfélög um mat á þeim kostnaði sem af gildistöku frumvarpsins leiðir og í framhaldi af því gerðar breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og skiptingu skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga svo að frumvarpið geti að fullu komið til framkvæmda um næstu áramót eins og kveðið er á um í 57. gr. Bent skal á að 12. des. sl. skipaði menntamálaráðherra nefnd sem ætlað er að vinna að framkvæmd flutnings grunnskólans. Henni er m.a. ætlað að skilgreina kostnaðarauka sveitarfélaga samfara gildistöku nýrra laga um grunnskóla og skila tillögum um aukna tekjustofna til sveitarfélaga til að standa undir þeim kostnaði er yfirtökunni fylgir. Meiri hlutinn leggur ríka áherslu á að nefndin ljúki störfum fyrir haustið.
    Í þeirri umræðu sem þegar hefur farið fram um þetta mál, bæði í fjölmiðlum og hér í þinginu, hefur mikið verið talað um ágreining og andstöðu bæði Sambands íslenskra sveitarfélaga og kennarasamtakanna. Með leyfi forseta, vil ég vitna í ályktun 15. landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga sem var haldið 31. ágúst til 2. sept. sl.:
    ,,15. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga minnir á að sveitarfélögin hafa gegnt þýðingarmiklu hlutverki í uppbyggingu grunnskólanna í landinu. Sveitarfélögin hafa einnig víða um land gengist fyrir því langt umfram lagalegar skyldur sínar að tryggja skólastarf með margs konar hætti auk þess sem mörg þeirra hafa beitt sér fyrir nýmælum og framþróun í skólastarfi. Samstarfsverkefnum ríkis- og sveitarfélaga hefur fækkað á undanförnum árum. Yfirfærsla á öllum grunnskólakostnaði frá ríki til sveitarfélaga er rökrétt framhald á þeirri viðleitni jafnframt því sem hún eflir sveitarstjórnarstigið og eykur ábyrgð þess. Meginmarkmið með tilfærslunni er að bæta menntun íslenskra grunnskólabarna. 15. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga telur því rétt að fela sveitarfélögunum að fullu rekstur grunnskóla. Landsþingið hefur þó skýra fyrirvara á þessari afstöðu.
    1. Fullt samkomulag náist milli ríkis og sveitarfélaga varðandi flutning verkefna og tekjustofna til sveitarfélaganna til að standa undir öllum þeim aukna kostnaði er yfirtökunni fylgir, þannig að grunnskólanám allra barna í landinu verði tryggt.
    2. Vanda sveitarfélaga sem yfirtaka hlutfallslega háan grunnskólakostnað miðað við tekjur verði mætt með jöfnunaraðgerðum.
    3. Fullt samkomulag náist milli ríkis og sveitarfélaga og stéttarfélaga kennara um kjara- og réttindamál kennara, þar með talið meðferð lífeyrisréttinda. Niðurstaða þarf að hafa náðst í þessum málum fyrir áramót, þ.e. 1994--1995, svo yfirtaka sveitarfélaga geti átt sér stað á næsta ári. Þingið leggur þunga áherslu á mikilvægi þess að góð samstaða ríkis, sveitarfélaga og kennara náist um þessa þýðingarmiklu verkefnatilfærslu. Þingið beinir því til sveitarfélaga í hverjum landshluta fyrir sig að koma sér saman um yfirtöku þeirra verkefna er fræðsluskrifstofurnar eiga að sinna samkvæmt lögum. Landsþingið leggur til að af hálfu sveitarfélaganna verði kjarasamningagerð við kennara öll á einni hendi. Samband íslenskra sveitarfélaga verði eflt fjárhagslega til að sinna því verkefni ásamt faglegri ráðgjöf til sveitarfélaganna varðandi málefni grunnskólans.``
    Þann 14. febr. sl. ítrekaði Samband íslenskra sveitarfélaga alla þessa fyrirvara sína. Fyrirvarar kennarasamtakanna ganga í sömu átt. Það er fullljóst að það er enginn ágreiningur um að þessi mál þarf að leysa. Meiri hluti menntmn. hefur komið verulega til móts við fyrirvara Samband íslenskra sveitarfélaga og kennarasamtakanna með því að skilyrða framkvæmd laganna samþykkt tekjustofnafrv. sem ljóst er að hlýtur að verða lokahnykkurinn í þessari vinnu. Slíkt frv. getur ekki komið fram fyrr en réttinda- og lífeyrismál kennara hafa verið leyst og samkomulagi náð um það hvaða tekjur sveitarfélögin þurfa að fá til að standa undir kostnaði af tilflutningnum.
    Meginmarkmið skólastarfsins er að grunnskólarnir búi öllum nemendum ákjósanleg skilyrði til náms og þroska. En samtímis er brýnt að bæta árangur skólastarfsins. Það ber að stefna að aukinni valddreifingu í skólakerfinu bæði á grunn- og framhaldsskólastigi. Ákvarðanataka verði færð sem næst vettvangi og ábyrgðarskylda sveitarfélaga og skóla aukin. Samtímis er lögð áhersla á námskrá með skýrum markmiðum og samræmt mat á námsárangri nemenda á vissum stigum námsferilsins svo fræðsluyfirvöld, skólafólk og almenningur fái stöðugt vitneskju um það hvort framkvæmd skólastarfsins sé í samræmi við gildandi skólastefnu. Loks er lögð áhersla á reglubundið eftirlit með skólastarfi, einkum sjálfsmat stofnana og gæðastjórnun og aukna upplýsingamiðlun til almennings um árangur skólastarfs.
    Meginbreytingar samkvæmt frv. eru tvíþættar. Annars vegar er tilfærsla grunnskólans til sveitarfélaga og skipulagsbreytingar sem af henni leiða og lúta m.a. að stoðþjónustu grunnskólans, starfsmannahaldi og ýmsu fleiru. Hins vegar eru umbætur í skólastarfi þar sem höfuðáhersla er lögð á að efla skólastarfið og ná betri árangri í námi og kennslu. Helstar þeirra eru: Það er hert á einsetningu skólanna, skólatíminn er lengdur á þann hátt að kennsludögum er fjölgað úr 144--145 í 172 og daglegur skólatími er lengdur. Samræmt námsmat er aukið, hver skóli skal gefa út skólanámskrá og taka upp aðferðir til að meta sitt innra starf. Skilgreindar verða kjarnagreinar í aðalnámskrá grunnskóla, áhrif foreldra eru aukin með tilkomu foreldraráða við hvern skóla.
    Ég vík nú nánar að tilfærslu grunnskólans til sveitarfélaga. Það var athyglisvert við umræðurnar hér í þinginu í gær að ýmsir stjórnarandstæðingar lýstu yfir stuðningi við efni frv. einkanlega það sem lýtur að yfirtöku sveitarfélaganna á grunnskólanum. Þannig að það kom mjög greinilega fram í þessum umræðum að efnislegur ágreiningur um þetta frv. er óverulegur. ( SvG: Þetta er rangt.) Ég vil gera að sérstöku umtalsefni hér hlutverk sveitarfélaganna varðandi grunnskólann. Það hefur verið þannig frá 1990 eftir nýju verkaskiptalögin að sveitarfélögin hafa greitt stofnkostnað og almennan rekstur grunnskólans. Ríkið hefur hins vegar greitt kennaralaun og laun við stjórnun og síðan stoðþjónustuna. Það er nú svo að samrekstur ríkis og sveitarfélaga hefur yfirleitt ekki gengið nógu vel. Á slíku fyrirkomulagi eru ýmsir gallar. T.d. þurfa skólastjórar að stýra bæði starfsmönnum sveitarfélaga og starfsmönnum ríkis og þá má líka ætla að fjármagn yrði betur nýtt þegar sveitarfélögin væru með þetta á sinni hendi ein heldur en að vera að skipta verkefninu með þeim hætti sem gert er í dag.
    Sveitarstjórnarmenn á hverjum stað þekkja best þarfirnar og þeir hafa líka að sama skapi mikinn metnað til að sinna þeim störfum sem þeim er trúað til. Ég tel að þeir hafi í raun og veru sýnt þennan metnað sinn í verki varðandi grunnskólann. Það er mjög athyglisvert eftir að sveitarfélögunum var falið að sjá alfarið um byggingar grunnskólanna þá hafa þau verið mjög dugleg við uppbyggingu og verið í raun og veru að búa sig undir það sem menn hafa verið að tala um mjög lengi að það væri eðlilegt að færa grunnskólann yfir til sveitarfélaganna. Það má líka nefna í þessu sambandi að sveitarfélögin hafa haft rekstur tónlistarskólanna með höndum frá síðustu verkaskiptingu og ég tel að reynslan af því fyrirkomulagi hafi í raun og veru sannað að rétt væri að stíga þetta skref líka varðandi grunnskólann.
    Það hefur nokkuð verið talað um stöðu lítilla skóla í tengslum við yfirfærsluna og ég vil að það komi fram af minni hálfu að ég tel að það eigi að vera tiltölulega auðvelt að leysa vandamál þeirra í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Það er hins vegar alveg ljóst að mörg þéttbýlustu sveitarfélögin standa frammi fyrir því að þurfa að leggja í stórframkvæmdir varðandi byggingar til þess að þau fái risið undir þeirri kröfu að einsetja skólana.
    Verkefni sveitarfélaganna eftir tilfærsluna verða þá allur kennslukostnaðurinn, laun kennara og stjórnenda og annarra starfsmanna grunnskólans og stoðþjónustan við grunnskólann, sérskólar og sérdeildir og fleira mætti nefna. Náms- og kennslugögn verða hins vegar kostuð af ríkinu á sama hátt og verið hefur til þessa.
    Samkvæmt frv. fer menntmrh. með yfirstjórn grunnskóla og fylgist með að fylgt sé þeirri stefnumörkun um nám og kennslu sem lög kveða á um. Menntmrh. ber ábyrgð á að sett sé aðalnámskrá fyrir grunnskóla og reglugerðir um skólahald á grundvelli gildandi laga. Hann ber einnig ábyrgð á eftirliti með skólastarfi, öflun og úrvinnslu upplýsinga um starf í grunnskólum, svo og upplýsingamiðlun til foreldra, almennings og stjórnvalda, þar með talið Alþingis, um skólastarf og árangur þess. Ráðuneytið leggur skólum til samræmd próf og ber ábyrgð á að fram fari mat á skólum og skólastarfi. Það er jafnframt úrskurðaraðili í einstökum atriðum er varðar skólahaldið, sbr. 6. gr., 33. gr., 41. gr. og síðan greinargerð með 46. gr.
    Í frv. er lögð áhersla á samstarf heimila og skóla. Í 16. gr. frv. er kveðið á um að við hvern skóla skuli starfa foreldraráð sem skipað er þremur fulltrúum foreldra barna í skólanum. Á þann átt opnast foreldrum nýir möguleikar til að fylgjast með og hafa áhrif á skólastarfið. Verksvið foreldraráðs verður að veita umsögn um skólanámskrá og aðrar starfsáætlanir skólans og fylgjast með að þeim sé framfylgt. Það er alveg ljóst að það er krafa af hálfu foreldra að fá að hafa aukin áhrif á skólastarfið. Við höfum orðið mjög vör við það á undanförnum missirum og árum og ekki hvað síst núna upp á síðkastið þannig að það er mjög svo nauðsynlegt að það verði sem best samstarf við heimilin og það er raunar forsenda þess að skólarnir geti sinnt hlutverki sínu sem skyldi.
    Það er hert á einsetningu skóla með samfelldum skóladegi um allt land til að öll börn geti hafið nám að morgni. Það felur í sér að allir grunnskólanemendur geti verið við nám á sama tíma og að vinnudagur þeirra sé skipulagður í samfellu frá því kl. 8 eða 9 að morgni og fram yfir hádegi. Með þessu fyrirkomulagi skapast meira samhengi í skólastarfinu og það eykst festa í lífi grunnskólabarna og fjölskyldna þeirra. Það hefur verið allsendis óviðunandi það fyrirkomulag sem hefur tíðkast fram til þessa að tvísetja skólana þannig að foreldrar eru í óvissu um skólatíma barna sinna á hverju hausti. Hér er verið að lögfesta það að öll börn séu í skólanum á sama tíma.
    Samkvæmt frv. er árlegur skólatími grunn- og framhaldsskóla lengdur og áhersla er lögð á að starfstími skóla verði betur nýttur í skólastarf með nemendum. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi fá grunnskólanemar í 9 mánaða skólum á bilinu 144--155 kennsludaga árlega. Frv. gerir ráð fyrir að kennsludagar verði 172 sem er mjög mikil breyting frá því sem er í dag.
    Í 30. gr. frv. sem fjallar um aðalnámskrá er ákvæði um að þar séu skilgreindar kjarnagreinar. Kjarnagreinar eru þær námsgreinar sem öðrum skyldunámsgreinum fremur eru taldar hafa afgerandi þýðingu fyrir framhaldsnám, atvinnu og almenna menntun. Í skýrslu nefndar um mótun menntastefnu er lagt til að kjarnagreinar verði íslenska, stærðfræði og enska. Þessi tillaga nefndar um mótun menntastefnu hefur valdið nokkrum umræðum úti í þjóðfélaginu og þá hafa þær að mestu gengið út á stöðu dönskunnar og að það væri óskynsamlegt að danska yrði ekki áfram fyrsta erlenda tungumálið. Í því sambandi er vísað til mikilvægis norrænnar samvinnu og menningarlegra tengsla okkar Íslendinga við Norðurlöndin. Þetta er auðvitað mál sem ég geri mér fulla grein fyrir að skiptar skoðanir eru um, en ég vil benda á í því sambandi að þessi tillaga tengist skilgreiningunni á hvað eigi að vera kjarnagreinar og nefnd um mótun menntastefnu lagði til að þær yrðu íslenska, stærðfræði og enska.
    Hins vegar er lögð mjög þung áhersla á það í skýrslu þeirrar nefndar að dönskukennsla verði efld, að sami tímafjöldi verði ætlaður til dönskukennslu hér eftir sem hingað til og að fagmenntaðir kennarar í dönsku sinni dönskukennslunni sem er mikill misbrestur á.
    Í 31. gr. frv. er kveðið á um að hver skóli skuli gefa út skólanámskrá. Hún er rökstudd áætlun um skólastarfið og unnin af starfsfólki skólans undir faglegri forustu skólastjóra. Skólanámskrá skal borin undir foreldraráð og skólanefnd.
    Önnur nýjung sem einnig lýtur að því að styrkja fagmennsku í skólastarfi og efla innra starf skóla er í 49. gr. þar sem kveðið er á um að sérhver grunnskóli taki upp aðferðir til að meta skólastarfið, þar á meðal kennslu- og stjórnunarhætti, samskipti innan skólans og tengsl við aðila utan skólans.
    Samræmdum prófum í grunnskóla verði fjölgað, sbr. 46. gr. og prófað oftar en nú er til að kanna hvort nemandinn hafi náð þeim markmiðum sem tilgeind eru í aðalnámskrá grunnskóla fyrir tiltekið aldursstig. Með því að prófa oftar á námsferli nemenda verður hægt að grípa fyrr inn með viðeigandi stuðningsaðgerðum ef nauðsyn ber til. Í 4. bekk grunnskóla verður prófað í grunnþáttum í íslensku og stærðfræði og í 7. bekk verður prófað í tilteknum þáttum íslensku, stærðfræði og ensku.
    Við lok grunnskóla verða lögð fyrir a.m.k. fjögur samræmd próf með svipuðum hætti og verið hefur til þessa. Niðurstöður samræmdra lokaprófa úr grunnskóla gegna miklu hlutverki við inntöku nemenda í framhaldsskóla og þess vegna þurfa prófin að standast alþjóðlegar kröfur um réttmæti og áreiðanleika.
    Ég hef nú rakið helstu áhersluatriði grunnskólafrv. Frv. tryggir rétt allra nemenda til náms. Sú skylda er lögð á skólann að mæta hverjum og einum nemanda eftir eðli hans og þörfum. Það leggur faglegar skyldur á herðar skólastjóra og kennara að skipa skólastarfi með tilliti til alls nemendahópsins. Í frv. er eðlilega hvergi talað um sérkennsluráðgjöf, heldur um kennslufræðilega ráðgjöf. Slík ráðgjöf nær til alls nemendahópsins eðli málsins samkvæmt.
    Áhersla er og hefur verið á að skólar þrói starfshætti sína í þá veru að þeir séu betur færir um að mæta þörfum einstaklinganna og geti betur fengist við kennslu allra barna í sínu umhverfi. Mikið hefur áunnist á því sviði á undanförnum árum og því er tímabært að löggjöfin taki mið af því. Meginstefnan er að allir nemendur stundi nám í heimaskóla. Jafnframt þessu verða áfram starfandi sérskólar eða sérdeildir fyrir nemendur sem ekki geta notið kennslu við hæfi í almennum bekkjardeildum grunnskóla. Hlutverk þeirra samkvæmt frv. er tvíþætt: Annars vegar að veita nemendum sérhæft námsumhverfi í lengri eða skemmri tíma og hins vegar að veita starfsfólki almennra grunnskóla ráðgjöf og kennslufræðilegan stuðning.
    Að undanförnu hefur verið mikið fjallað um skólamál. Það eru að sjálfsögðu eðlilegar ástæður fyrir því. Bæði er það að menntunin skiptir okkur öll miklu máli, menntunin er undirstaða allra framfara, bæði í þessu landi og öðrum og síðan er auðvitað einmitt þessa dagana viðkvæm kjaradeilda uppi milli kennara og viðsemjenda þeirra.
    Sú sem hér talar hefur margsinnis lýst þeirri skoðun að skóla- og menntamál eigi að vera forgangsmál í íslensku þjóðfélagi. Við eigum að krefjast þess besta í þeim efnum okkur til handa. Með frv. því sem hér er til umfjöllunar er stigið stórt framfaraskref í skólamálum þjóðarinnar. Látum ekki karp og dægurþras líðandi stundar spilla umfjöllun um brýnar úrbætur í skólamálum.
    Ég hlakka til að taka þátt í þessum umræðum og veit að þegar um svo stórt og brýnt mál er að ræða, hljóta þær að verða bæði hreinskilnar en umfram allt málefnalegar.