Grunnskóli

96. fundur
Fimmtudaginn 16. febrúar 1995, kl. 16:37:42 (4405)


[16:37]
     Frsm. 3. minni hluta menntmn. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom mjög glöggt fram í ræðu hv. frsm. menntmn. að meiri hluti menntmn. gerir sér ekki grein fyrir því um hvað þetta mál snýst í dag. Vinnubrögð meiri hluta menntmn. hafa orðið til þess að hafa áhrif og spilla fyrir þeirri kjaradeilu sem nú stendur yfir, sem er eitt út af fyrir sig mjög alvarlegur hlutur, auk þess sem meiri hluti menntmn. hefur kosið að standa þannig að málum að formaður nefndarinnar hefur neitað að taka fyrir í nefndinni tillögur til eðlilegrar afgreiðslu. Fyrir liggur að réttindamál kennara eru öll í uppnámi í kringum þetta mál. Og það liggur líka fyrir að sveitarfélögin hafa ekki

hugmynd um hvernig þau eiga að taka á þessu máli. Fjármunir eru ekki til. Þess vegna er það algjörlega fráleitt að afgreiða frv. með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir og ég vil láta það koma fram af minni hálfu að jafnvel þó að meiri hlutanum takist núna að knýja málið til afgreiðslu á þeim skamma tíma sem eftir lifir af þessu þingi, þá minni ég á að það eru aðeins örfáar vikur til kosninga og þannig kann að fara í þeim kosningum að þeir sem nú ráða meiri hluta á Alþingi ráði honum ekki mikið lengur. Þess vegna vil ég láta það koma fram, hæstv. forseti, sem mína skoðun og lýsa því yfir að ég tel algjörlega óhjákvæmilegt að knýi meiri hlutinn fram niðurstöðu með þessum hætti á þessu þingi, þá verður að taka málið aftur til afgreiðslu og meðferðar á vorþinginu þegar það verður kallað saman. Það er augljóst mál að það er útilokað að láta staðar numið með þeim hætti sem ríkisstjórnin ætlar að gera á þessu þingi þar sem hún ætlar að beita meiri hluta til þess að knýja fram mál sem allir aðilar eru ósáttir við. Og það er slæmt að formaður nefndarinnar skuli ekki gera sér betri grein fyrir því hvaða þýðingu grunnskólalögin hafa fyrir uppeldisaðstæður barnanna í landinu en raun bar vitni í ræðu hennar hér áðan. Þess vegna læt ég það koma fram sérstaklega, hæstv. forseti, og lýsi því yfir: Þessi mál koma hér aftur til meðferðar á vorþinginu hvað svo sem meiri hlutanum þóknast að afgreiða á þessu þingi.