Grunnskóli

96. fundur
Fimmtudaginn 16. febrúar 1995, kl. 16:41:01 (4407)


[16:41]
     Frsm. 3. minni hluta menntmn. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það þýðir bersýnilega ekkert að karpa við hv. formann nefndarinnar um þetta því að formaður nefndarinnar vill ekki skilja það sem verið er að segja. ( SAÞ: Hún skilur það ágætlega.) Veruleikinn er sá að meiri hlutinn er að spilla fyrir sátt um grunnskólalög á Íslandi. Meiri hlutinn er að efna til stríðs á Alþingi í fyrsta lagi. Í öðru lagi er meiri hlutinn að efna til átaka við kennarana í landinu sem starfa í skólunum og það er sem kunnugt er ekki hægt að reka skóla nema þar vinni kennarar. Og í þriðja lagi er meiri hlutinn að efna til átaka við sveitarfélögin í landinu.
    Það hefur aldrei gerst áður á seinni árum að meiri hluti Alþingis og ríkisstjórn hafi hagað sér með þessum hætti gagnvart kennarasamtökum eða öðrum rekstraraðilum skólanna á Íslandi og ég fullyrði að það hefur aldrei verið reynt að knýja grunnskólafrv. fram á síðustu áratugum jafnilla undirbúið og jafnilla unnið og jafnlítið rætt og það frv. sem hér liggur fyrir.