Grunnskóli

96. fundur
Fimmtudaginn 16. febrúar 1995, kl. 18:19:05 (4417)


[18:19]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil vegna ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur aðeins nefna að það kemur oft upp sá misskilningur hjá hv. þingmönnum að ástæða sé til að vantreysta fremur litlu sveitarfélögunum til þess að taka við grunnskólanum en þeim stóru. Ég held að þarna sé mikill misskilningur á ferðinni, m.a. varðandi það að mjög víða hjá minni sveitarfélögum er t.d. fullkomin aðstaða til einsetins skóla og í mjög mörgum litlum sveitarfélögum er einsetinn skóli. Hvers vegna skyldi þetta nú vera? Það eru ýmsar ástæður sem hafa leitt til þess að sveitarfélögin úti um land hafa lagt mjög mikla og ríka áherslu á uppbyggingu fræðslustarfseminnar og ekki síst grunnskólans. Ég þekki það úr mínu sveitarfélagi í Stykkishólmi. Þar er rekinn einsetinn skóli. Þar verður ekki rekið upp neitt ramakvein þó að þess sé krafist að grunnskólin sé einsetinn á sama hátt og Samband ísl. sveitarfélaga rekur nú upp fyrir höfuðborgina þar sem ekki eru tök á því að hafa einsetinn skóla.
    Ég held þess vegna að hv. þm. ættu að láta af því að vantreysta litlu sveitarfélögunum því að þau hafa í mörgum tilvikum staðið miklu betur að uppbyggingu grunnskólans en þau hin stærri.