Grunnskóli

96. fundur
Fimmtudaginn 16. febrúar 1995, kl. 18:22:34 (4419)


[18:22]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég ætlaði ekki að æsa hv. þm. upp gagnvart því að hv. þm. vantreysti sínu eigin sveitarfélagi, öðru nær. Ég veit að hv. þm. gerir miklar kröfur til þess sveitarfélags og fær góða þjónustu eins og fleiri. En ég vildi vekja athygli á þessu vegna þess sem ég gat hér um að það kom einmitt fram hjá hv. þm. fyrr í umræðum um þetta mál í þinginu að það væri almenn samstaða meðal þjóðarinnar um að flytja grunnskólann til sveitarfélaganna. Þess vegna kemur mér mjög mikið á óvart og er í algeru ósamræmi við allan málflutning þessa ágæta fólks og þessara ágætu hv. þm. ekki, síst hv. 9. þm. Reykv. sem var áður menntmrh., að ætla að fella þetta mál í þinginu, flytja frávísunartillögu til að koma í veg fyrir allar þær úrbætur og umbætur sem grunnskólafrv. gerir ráð fyrir. Þetta er fullkomið ábyrgðarleysi af hv. stjórnarandstöðuþingmönnum að standa með þeim hætti að málum, ekki síst þegar þeir eru síðan að lýsa því sérstaklega yfir að engir, ekkert stjórnkerfi, ekkert í stjórnkerfinu tryggi betur framgang grunnskólamála en einmitt það að sveitarfélögin taki við þessum málum. ( SvG: Það eru engar umbætur í þessu frv., ekki króna.)
    Ég hef heyrt marga hv. þm. tala um það einmitt að í þessu felist miklar úrbætur og m.a. hv. stjórnarandstöðuþingmenn Ég varð ekki var við að hv. 9. þm. Reykv. sem var menntmrh. stæði fyrir miklum fjáraustri í grunnskólann. Hann barði í gegn á síðustu dögum síns ferils breytingar á grunnskólalögunum með dyggri og í raun mikilli hjálp og stuðningi þáv. borgarstjóra, núv. hæstv. forsrh. Ég er alveg sannfærður um það að þær breytingar hefðu aldrei farið í gegn ef ekki hefði komið til atfylgi þáv. borgarstjóra.