Grunnskóli

96. fundur
Fimmtudaginn 16. febrúar 1995, kl. 23:22:31 (4423)


[23:22]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Við 2. umr. um frv. til laga um grunnskóla hefur málflutningur manna farið nokkuð um víðan völl enda er það eðlilegt. Þetta mál snertir mjög mikilvægan þátt menntamálanna og mörg þeirra vandamála sem því frv. sem hér er verið að ræða er ætlað að leysa eiga sér líka langan aðdraganda.
    Þess var getið í ræðu eins hv. þm. að Sjálfstfl. hefði verið mjög áhrifalítill í menntamálum lengi og þetta er því miður rétt. Það má segja að Sjálfstfl. hafi verið sérlega áhrifalítill í menntamálum t.d. á 8. áratugnum en þá áttu sér stað, ekki bara hér á landi heldur víðast hvar í Evrópu mjög djúptækar breytingar á menntamálum. Innra starfi skólanna hrakaði og það átti bæði við um grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla. Ég er hér að tala almennt um þá þróun í skólamálum sem átti sér stað á árunum eftir 1970 sem mátti reyndar rekja til nýrra viðhorfa til skólamála sem komu fram í lok 7. áratugarins. Innra eftirlit og innra starf skólanna leið mjög á þessum áratug vegna þess að eftirliti hrakaði og faglegum sjónarmiðum hrakaði líka. Menn voru fljótir að átta sig á því sem var að gerast víða í Evrópu. Þessi mál þróuðust mjög misjafnlega eftir löndum. Ég tek tvö lönd sem dæmi þar sem annars vegar gætti mikillar íhaldssemi í skólamálum, það var Frakkland, og hins vegar þar sem menn gengu mjög langt til móts við þau nýju viðhorf sem spruttu upp í skólamálum í lok 7. áratugarins en það var Belgía.
    Ég hygg að í Frakklandi hafi verið gerð einna víðtækust úttekt á skólamálum af öllum þeim löndum þar sem ég hef getað kynnt mér þessi mál. Það var gert á árunum 1981 ef ég man rétt og frumkvæði að því hafði sá maður sem ég hygg að hv. þm. Svavar Gestsson mundi helst vilja ganga í flokk með, François Mitterrand, sem var þá kominn til valda og hafði brotið af sér hlekki kommúnismans. Hann hafði hafið sósíalistaflokkinn upp til vegs og virðingar í Frakklandi gegn kommúnistaflokknum og átti samstöðu í þessu máli með hægri flokkunum. Hægri flokkarnir í Frakklandi og sósíalistarnir voru sammála um að það væri óþolandi að gengið væri gegn hinum faglegu sjónarmiðum í skólunum. Og á árunum rétt eftir að

François Mitterrand varð forseti Frakklands lét hann gera heildarúttekt á frönsku samfélagi og þar á meðal á menntakerfinu. Þar komust menn að þeirri frómu niðurstöðu að þessi nýju viðhorf sem voru kölluð hálfgert hernám kennslufræðinnar í skólamálum höfðu látið hin faglegu viðhorf í hverri greininni á fætur annarri víkja fyrir mjög ríkjandi kennslufræðilegum viðhorfum. Pedagógíkin var hafin til skýjanna á kostnað faggreinanna. Menn komust að þeirri niðurstöðu að þetta vær vont fyrir skólamálin. Þetta hefði spillt skólunum og grafið undan hinni faglegu umfjöllun.
    Þessi neikvæða þróun átti sér að sjálfsögðu stað hér líka á þessum tíma. Ég fann fyrir þessu sjálfur sem foreldri. Ég skynjaði það sem kennari að þessar breytingar áttu sér stað. Það stóðu reyndar margir af hinum íhaldssamari kennurum, bæði í grunnskólum og framhaldsskólum, gegn þessari þróun og tókst að verja stöðuna ótrúlega vel lengi uns kennarastéttin sjálf fór að skynja það að þarna hafði verið stigið víxlspor. Ég get ekki annað en tekið undir það sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir varpaði ljósi á í umfjöllun sinni um grunnskólafrv. áðan og þar sagði hún raunar margt mjög gott. Enda hefur hún góðan skilning á skólamálum og hefur starfað lengi sem kennari. Hún þekkir þau mál eins og sá sem hér stendur.
    Ég tek heils hugar undir það sem hún sagði að fram hefðu komið brotalamir í starfi skólanna sem nauðsynlegt var að lagfæra. M.a. var þetta vegna þess að það skorti innra mat, sjálfsmat skólanna. Það skorti að fylgjast með starfinu, það skorti að veita skólunum upplýsingar um stöðu þeirra gagnvart öðrum skólum, það skorti upplýsingar til nemenda til að þeir gætu metið stöðu sína fyrir sjálfa sig og fyrir aðra og það skorti mat á því hvaða námsárangri nemendur höfðu náð. Árangurinn varð sá að menn stóðu uppi t.d. með stúdentspróf sem veittu aðgang að æðri skólastofnunum án þess að hægt væri að bera þessi próf saman. Þetta var að sjálfsögðu orðið óþolandi og það var mjög margt í íslensku skólakerfi sem var orðið óþolandi.
    Ýmsar breytingar höfðu verið gerðar á framhaldsskólunum sem ekki voru til bóta. Ég nefni hér sérstaklega að það höfðu verið gerðar breytingar á starfsnámi sem voru að miklu leyti gerðar á forsendum bóknámsins en ekki á eigin forsendum starfsnámsins og þetta hafði valdið spjöllum á starfsnáminu. Það hafði verið fjölgað ótrúlega mikið ýmiss konar sérhæfðum brautum framhaldsskólans sem skólarnir stóðu ekki undir. Þetta var sýndarmennska að miklu leyti. ( Gripið fram í: Hálfkák.) Það er hálfkák, segir þingmaður utan úr sal og ég tek undir þann þunga dóm þingmannsins. Á sama tíma var það svo að í sumum framhaldsskólum hrakaði almennri menntun. Það var erfitt fyrir skólana sem tóku við eftir stúdentsprófið að leggja mat á það hver kunnátta nemenda væri og svo var komið að um tíma þótti Háskóla Íslands sem hann yrði að leggja á inntökupróf til að geta lagt mat á það hvort nemendur gætu stundað þar nám eða ekki. Það var því löngu orðið tímabært að taka á þessum málum.
    Hv. þm. Svavar Gestsson hefur rakið afrek sín í sæti menntmrh., ítarlega og af mikilli sjálfumgleði. Ég verð að segja eins og er að mér blöskrar satt að segja sjálfumgleði þingmannsins þegar hann er að lýsa eigin afrekum. Það verður að segja alveg eins og er að annaðhvort vissi hv. þm. ekki af þeim vandamálum sem voru bæði á grunnskólastiginu og framhaldsskólastiginu þegar hann gegndi embætti menntmrh. ellegar hann kaus að taka ekki á þeim því það gerði hann ekki. ( SvG: Hvaða vandamál voru það?) Það er von að þingmaðurinn spyrji hvaða vandamál því hann virðist almennt ekki hafa haft hugmynd um hvaða vandamál voru uppi (Gripið fram í.) í grunnskólanum og framhaldsskólanum. ( Gripið fram í: Hvaða læti eru þetta í þér?) Ég er búinn að halda ræðu í nokkurn tíma og hef lýst sérstökum vandamálum grunnskólans og framhaldsskólans (Gripið fram í.) og ég er að taka það fram að þrátt fyrir öll þau miklu afrek sem hv. þm. Svavar Gestsson lýsti hér ítarlega að hann hefði unnið í sæti menntmrh. þá verð ég að segja eins og er að þau vandamál sem ég ýjaði að áðan og komu einnig fram í máli hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur glímdi hv. þm. Svavar Gestsson alls ekki við þegar hann var í stól menntmrh., vandamál sem sneru að innra starfi skólanna og sjálfsmati skólanna, samræmingu námsins og þó fyrst og fremst því hvernig hægt væri að samstilla skólastigin.
    Þess vegna er raunar ekki svo undarlegt að þegar þetta frv. til laga um grunnskóla er komið fram þá verði það heldur rýrt sem stjórnarandstaðan hefur fram að færa efnislega gegn þessu frv. Og það er staðreynd málsins að það er heldur rýrt ef litið er í þau gögn sem lögð eru fram, nál. stjórnarandstöðunnar sem eru reyndar þrjú talsins, sem er afar athyglisvert, ekki síst vegna þess að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gert sér sérstaklega far um að tala um hversu mikilvægt væri að meta þessi mál sameiginlega, standa að þeim saman, en stjórnarandstaðan getur ekki einu sinni staðið saman að nál. um þessi mál. Það er mjög sérkennilegt eftir allar ræðurnar sem hér hafa verið haldnar um það hversu eðlilegt sé að menn geti staðið saman. Menn ætla að skapa sér sérstöðu í þessu máli hver á sínu nál.
    Það hefur margt komið fram í ræðum manna sem er athyglisvert. Ég sagði áðan að það væri meðal meginmarkmiða frv. að tryggja betra samræmi milli skólastiga og bæta innra starf. Það er mjög athyglisvert að hv. þm. Svavar Gestsson hefur lagst verulega gegn prófum sem hann telur vera allt of mörg og allt of mikil í frv. Þá er rétt að rifja það upp af því að hér er verið að leggja drög að því að nemendur hafi uppfyllt ákveðin lágmarksskilyrði áður en þeir fara milli skólastiga að hv. þm. Svavar Gestsson hafði frumkvæði að því í ráðherratíð sinni 1989 að fella niður ákvæði sem voru í lagagrein um að nemendum væri skylt að stunda fornám í einstökum námsgreinum samkvæmt námskrá hefðu þeir ekki náð tilskildum lágmarksárangri. Enn fremur var á þessum tíma fellt niður ákvæði um heimild til að setja lágmarkskröfur til inngöngu í ákveðna námsáfanga. Að þessu leyti bar hv. þm. því fulla ábyrgð á því að framhaldsskólinn var opnaður, ég verð að segja, fyrirhyggjulaust fyrir alla án tillits til þess hvort nemendur væru búnir undir það nám sem þar fór fram eða hefðu möguleika á að standa sig í þessu námi. Þannig hafði hv. þm. frumkvæði að því að reyna að koma í veg fyrir að tekið væri á þessum málum sem þó var mjög brýnt. ( SvG: Hvað voðalega er þingmaðurinn pirraður í dag, klukkan að verða tólf.) Hv. þm. sendir mér tóninn úr sæti sínu en það er ekki svo hv. þm. að sá sem hér stendur sé neitt sérstaklega pirraður ( SvG: Nú?) en hann leyfir sér að ræða þetta mál að því er hann heldur af stillingu og yfirvegun og lætur það ekki hagga sér þótt verið sé að kalla fram í utan úr sal.
    Þegar litið er yfir nál. frá 3. minni hluta menntmn. þá er það aðallega plagg sem gagnrýnir vinnubrögð meiri hluta menntmn. Satt best að segja er ekkert við því að segja þótt hv. þm. Svavar Gestsson gagnrýni vinnubrögð nefndarinnar. Það er staðreynd að tíminn er orðinn naumur, meiri hluti nefndarinnar varð að taka afstöðu til þess hvort hann ætti að taka málið út úr nefnd eða ekki. Hann hafði fullan hug á því og hafði lýst því yfir að hann ætlaði sér að ná þessu máli fram. Þó æskilegt hefði verið, og skal fúslega tekið undir það, að hafa meiri tíma til umfjöllunar um þetta mál þá var sá tími ekki til. Það eru því einkum og sér í lagi vinnubrögðin sem hér eru gagnrýnd. Efnisleg gagnrýnisatriði koma ekki fram í nál. Maður á reyndar von á því að þau komi fram undir lok nál. en þar koma engar tillögur fram. Þar eru hins vegar kynntar þessar tillögur og að þær muni koma og verður að sætta sig við það.
    Hv. þm. Svavar Gestsson lét þau orð falla fyrr í umræðunni að meiri hluti nefndarinnar hefði gert sér far um að spilla viðræðum kennara við sína viðsemjendur. Það er að sjálfsögðu svo að það er mjög óheppilegt að umræðan um þetta frv. skuli koma á sama tíma og þessar viðræður eru á viðkvæmu stigi, allir gera sér grein fyrir því. Það er hins vegar ekki svo að þarna sé um neina fyrir fram ákveðna tímasetningu að ræða af hálfu meiri hluta menntmn. Ég veit reyndar að hv. þm. Svavar Gestsson ætlar okkur ekki það. En ég geri mér hins vegar mætavel grein fyrir því að hv. þm. Svavari Gestssyni finnst ekkert illt að geta tengt þetta mál við kjarabaráttu kennara. Honum þykir ekki leitt að geta alið á sundrungu í sambandi við þetta mál og höfðað til tilfinninga kennara þegar þeir eru af skiljanlegum ástæðum á mjög viðkvæmu stigi í sinni kjarabaráttu. (Gripið fram í.)
    Auðvitað er það eðlilegt að samtök kennara haldi fast á sínum baráttumálum. Það er í þessu máli veikleiki sem er fólginn í því að ekki er hægt að segja að fyrir liggi nákvæmar upplýsingar um það hvernig tekjustofnum sveitarfélaga verður háttað, hvernig skiptingu skatttekna verði breytt í samræmi við þau nýju verkefni sem sveitarfélögin taka að sér. Menn hafa sagt að það væri nauðsynlegt að þessi mál lægju fyrir og auk þess réttindamál kennara. Nú vill svo til að staðan leyfir það ekki og það er nauðsynlegt að stíga þetta skref, m.a. til þess að skýra grundvöll þess sem samningarnir um réttindi kennara eiga að byggjast á og frv. um tekjustofnana geta byggst á einnig. Í brtt. frá meiri hlutanum við 57. gr. er tekinn fram fyrirvari um gildistökuna sem segir að fyrir þurfi að liggja áður en lögin taki gildi að tekjustofnum sveitarfélaga og skiptingu skatttekna hafi verið breytt í samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögin taka að sér.
    Hv. þm. sagði að með þessu væri verið að stilla kennurum og Sambandi ísl. sveitarfélaga upp við vegg. Er ekki hægt að segja sem svo einnig að það sé verið að stilla ríkisvaldinu upp við vegg með þessum hætti? Það verður að ganga frá þessum málum áður en gildistakan getur átt sér stað. Ég get því ekki séð að þetta viti neitt sérstaklega að samtökum kennara eða Sambandi ísl. sveitarfélaga umfram það sem það veit að ríkisvaldinu sem verður að tryggja þessi mál til þess að lögin geti komið til framkvæmda.
    Það er að sjálfsögðu mjög eðlilegt að þegar málið er afgreitt með þessum hætti, þá mótmæli kennarasamtökin því. Þau þurfa að leggja áherslu á það að þeirra réttindamálum verði sinnt og það er mjög eðlilegt að Samband ísl. sveitarfélaga sem hagsmunasamtök leggi áherslu á það að gengið verði frá tekjuskiptingarmálinu. Það er einnig mjög eðlilegt. En svo vaknar spurningin hvort það er eðlilegt að stjórnmálamennirnir á Alþingi gangi nákvæmlega í spor hagsmunasamtakanna sem gera þessar athugasemdir. Ég leyfi mér að efast um það. Þingmenn hér á Alþingi eru ekki talsmenn hagsmunasamtaka og eiga ekki að vera það. En hér þræðir stjórnarandstaðan þá slóð sem hún hefur þrætt samviskusamlega allt þetta kjörtímabil, ( Gripið fram í: Ertu að tala um Guðmund Árna?) þ.e. að setja sig í spor hagsmunasamtaka, gera málflutning þeirra að sínum og gera engan greinarmun á hlutverki sínu sem alþingismanna og þessara þrýstihópa. Og með þessum hætti hefur það gerst hvað eftir annað að þingmennirnir hafa gerst málsvarar hagsmunahópa og skilja ekki á milli sinnar skyldu sem þingmenn og svo því sem er að gerast úti í þjóðfélaginu með fullkomlega eðlilegum hætti hjá hagsmunahópum.
    Að lokum varðandi þann hv. þm. Svavar Gestsson sem hér talaði áðan, þá er rétt að koma að því hvernig hann hefur reynt að gera sig í þessu máli að sérstökum talsmanni hagsmuna kennara. Hann hefur reynt að gera sig að sérstökum trúnaðarmanni kennarastéttarinnar. Mér finnst þetta athyglisvert hvernig hv. þm. hefur sett sig í þær stellingar að kennarastétt landsins eigi hauk í horni þar sem hann er og sérstakan varnaraðila. Það vill svo til að sá sem hér talar kemur úr kennarastétt og það sakar svo sem ekki að segja frá því af því að það getur orðið mönnum til nokkurrar skemmtunar hér á þessari kvöldstundu að á árinu 1988 hafði hv. þm. Svavar Gestsson haft uppi um það mjög mörg orð og sannfærandi að laun kennara væru allt of lág. Hann átti þar skoðanabróður í hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. Báðir höfðu um það mikil og hástemmd orð að það þyrfti að hækka laun kennara mjög verulega og ég býst við því að hv. þm. minnist þessara ræðuhalda sinna. Og það var nú svo að þegar það gerðist á haustdögum 1988 að hv. þm. Svavar Gestsson varð allt í einu menntmrh. og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson varð fjmrh., þá kom einn

gamansamur kennari í Menntaskólanum á Akureyri og sagði kollegum sínum frá því að hann hefði opnað tvo bankareikninga, annan fyrir það sem Ólafur Ragnar Grímsson hafði lofað og hinn fyrir það sem hv. þm. Svavar Gestsson hafði lofað. ( SvG: Númer hvað?) Síðan fóru atburðirnar að gerast. Nú fór hv. þm. Svavari Gestssyni að gefast tækifæri til að standa við stóru orðin.
    Í apríl og maí 1989 stóðu kennarar Hins íslenska kennarafélags í sex vikna verkfalli við ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Framhaldsskólar og grunnskólar að hluta til voru lamaðir í sex vikur. Það tókst ekki fyrr en eftir svona langt og sársaukafullt verkfall að semja við framhaldsskólakennara. Kjarasamningurinn var til 5 ára. Hann var undirritaður í maí 1989 og honum var lýst af þáv. fjmrh., núv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, sem tímamótasamningi. Ég hef heyrt það að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, sem þá var fjmrh., hafi ekki verið í hjarta sínu mjög stoltur af þessum samningi, hann hafi metið samninginn hættulegan en að samningurinn hafi verið knúinn fram af öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni og einkum og sér í lagi forsrh. Steingrími Hermannssyni og menntmrh. Svavari Gestssyni. Samningurinn gekk út á sömu launahækkun og BSRB hafði samið um fyrsta árið en innbyggð var árleg launahækkun sem tryggja átti hækkun umfram það sem fengist á almennum vinnumarkaði. Þetta var það sem gerði samninginn að tímamótasamningi.
    Efndirnar urðu þær satt best að segja að þessi samningur var numinn úr gildi með bráðabirgðalögum og gerður að engu. Tímamótasamningurinn við kennara var eyðilagður og þeir stóðu uppi slyppir og snauðir. Og hv. þm. sem er mikill orðsnillingur hafði þau orð hér um samskipti núv. menntmrh. og kennarastéttarinnar að þar ríkti alkul eins og hann vildi orða það, þar ríkti alkul. ( SvG: Hvað er það kalt?) ( SJS: Það eru mínus 273.) En það get ég sagt af eigin reynslu og það er mjög atyglisvert að hv. þm. Svavar Gestsson skuli hafa þá reynslu sem kennarar urðu fyrir af sviksemi hans á þessum tíma í flimtingum og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur þessi mál líka í flimtingum. Ég minnist þess ekki af því að ég var í kennarastétt á þessum árum að kennarar hefðu talað um þessi mál eins og þau skiptu engu máli. Og ég minnist þess ekki heldur að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, sem kom reyndar skömmu eftir þessi brigsl við kennarastéttina í heimsókn í Menntaskólann á Akureyri, hefði þessi mál í flimtingum satt best að segja, ég minnist þess ekki. En nú hins vegar finnst þessum mönnum gott að breyta þessum málum í fimm aura brandara eins og þeir voru að hér áðan, voru flissandi úti í sal vegna þess að ég minntist á þessa sáru reynslu kennaranna. Ég get sagt ykkur það að það ríkti ekki alkul í samskiptum kennara og þessara ágætu ráðherra ríksstjórnar Steingríms Hermannssonar. Það ríktu sár vonbrigði. Það voru bornar fram ásakanir um svik í tryggðum, tvöfeldni og siðleysi og allt þetta kannast þessir góðu menn við. Á þessu báru þeir ábyrgð og ég gæti best trúað því að framhaldsskólakennarastéttin hafi ekki enn náð sér eftir þetta áfall. Ég hygg að það sé rétt að framhaldsskólakennarastéttin hafi ekki náð sér eftir þetta áfall. ( KÁ: Það er hárrétt.) Ég hef hins vegar ekki heyrt hv. þm. Svavar Gestsson biðja kennarastéttina afsökunar á þessu framferði sínu og mér finnst undarlegt að hann skuli nú hér blygðunarlaust gera sjálfan sig að sérstökum varnarmanni kennarastéttarinnar. Mér finnst það skrýtið. En sjálfsagt á hv. þm. auðvelt með það hvernig svo í dauðanum sem hann fer að því. ( SvG: Ég held að þingmaðurinn lasinn alla vega, hann . . . ) Ég heyri það að hv. þm. Svavar Gestsson hefur þó þá sómatilfinningu að honum líður illa undir þessum lestri. ( SvG: Það er vitleysa, ég er bara syfjaður, klukkan er orðin tólf.) Hann verður þá að eiga það við sjálfan sig ef honum líður ekki illa. ( SvG: Ekki undir þessum lestri.)
    Nú mun ég koma að því sem fram kom í máli hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur. Ég sakna þess að sjá hana ekki hér, ég ætlaði að spjalla við hana svolítið úr ræðustól og ég hygg að ég snúi mér þá fyrst að því sem kom fram í máli hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur. Ég tek það fram að mjög margt af því sem fram kom í máli hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur var sagt af mikilli þekkingu á skólamálum og ég get tekið undir mjög margt af því sem fram kom í máli hennar sem snertir hina faglegu hlið grunnskólamálanna og framhaldsskólamálanna. Hins vegar verð ég að segja eins og er að ég var svolítið undrandi yfir því þegar hún lýsti stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar í skólamálum. Hún lýsti því yfir að það hefði verið tekin upp sú stefna að skera niður skólamálin, það hefði verið meginstefna ríkisstjórnarinnar að skera niður skólamálin. Það er að vísu alveg rétt að lengi vel hefur visst ábyrgðarleysi riðið húsum í Kvennalistanum. Þær hafa ekki viljað taka ábyrgð á stjórn þjóðmála hér og þess vegna er í raun og veru ekkert mjög undarlegt þó að sú stefnubreyting sem ríkisstjórnin stóð vissulega fyrir sé vanmetin af hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur. Stefnubreytingin fólst í því, hv. þm., að snúa frá þeirri stefnu, að við gætum eytt án tillits til þess hvers við öfluðum. Það var gengið í það að skera niður útgjöld ríkisins, það var farið fram undir því merki að á öllum sviðum þyrftum við að gera meira fyrir minna. Og hver sá sem hefði viljað taka á þessum meginvanda íslensks samfélags sem hafði eytt í tvo áratugi meira en það aflaði, hver sá sem vildi taka á þessum vanda hlaut að gera þá kröfu að innan allra geira þjónustustarfseminnar hvort sem um væri að ræða heilbrigðiskerfið eða menntakerfið, þá yrðu menn að reyna að leitast við að gera meira fyrir minna á nákvæmlega sama hátt eins og menn voru að því í atvinnulífinu. Og þetta var stefnubreyting ríkisstjórnarinnar. Ég geri mér grein fyrir því að í stjórnarandstöðunni hefur aldrei verið viðurkennt að þetta hafi verið nauðsynlegt.
    Í nefndaráliti frá 1. minni hluta koma fram ótvírætt vísbendingar um það að hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir er efnislega að mörgu leyti ánægð með þetta frv. Að mörgu leyti er hv. þm. ánægð með þetta frv. Það eru fyrst og fremst þeir meinbugir á þessu máli að mati þingmannsins að tekjustofnafrumvörp og

samkomulag um réttindamál kennara liggja ekki fyrir. Þetta gerir hún að svo miklu máli að hún getur ekki treyst sér til þess að standa að samþykkt þessa máls. En miðað við það að meiri hluti menntmn. hefur lagt til að gildistökuákvæði frv. verði tengd fyrirvara um þessi mál þá kemur mér það satt að segja á óvart að hv. þm. með þann skilning sem hún hefur á mikilvægi þessa máls muni greiða atkvæði gegn frv. Mér finnst það ekki hafa verið skýrt nægilega í kvöld.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að koma aðeins inn á umfjöllun hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur um þessi mál. Hv. þm. kom á sama hátt inn á þá stefnubreytingu sem hefði orðið með tilkomu núv. ríkisstjórnar þegar skert hefði verið fjármagn til grunnskólans og taldi að við hefðum unnið mikið óþurftarverk í menntamálum þjóðarinnar. Þetta óþurftarverk endurspeglast í því að hér hafi verið lögð fram á þinginu frumvörp um framhaldsskóla og grunnskóla sem taka á raunverulegum vanda þessara skóla eins og ég kynntist þessum vanda, bæði sem foreldri og sem kennari og eins og ég hef heyrt talað um þennan vanda sl. 20 ár. Á sama tíma og ríkisstjórnin hefur gert þá kröfu til samfélagsins að það skili meiru fyrir minna í skólamálunum sem og annars staðar þá er þó ekki hægt að neita því að frjálst rannsóknarfé hefur verið aukið um helming og það er ástæðulaust að líta fram hjá þessu. Ef hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hefði viljað líta til síns eigin kjördæmis þá hefði hún getað áttað sig á því að þar er háskólastofnun sem var til þess að gera veik en hefur nú náð fullum skrið og ýmsar raddir sem áður heyrðust og sögðu að þarna væru allt of fáir nemendur, þarna væri of lítil aðsókn, eru þagnaðar. Það er mikil aðsókn að sjávarútvegsdeild háskólans, kennaradeildin er mjög kröftug og háskólinn er nú búinn að fá góða kjölfestu til að taka á sínum viðfangsefnum í framtíðinni. Og það er dálítið merkilegt ef hv. þm. lítur fram hjá þessum frumvörpum sem hér hafa verið flutt í skólamálum, lítur fram hjá því sem hefur verið gert í rannsóknamálum, því aukna fjármagni sem þangað hefur verið varið, lítur fram hjá því sem hefur verið að gerast í háskólamálum í eigin kjördæmi og vítir ríkisstjórnina fyrir það sem hún hefur verið að láta gott af sér leiða í þessum efnum. Það er mjög merkilegt.
    Í nál. frá 2. minni hluta menntmn., þeim hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur og Jóni Kristjánssyni, koma fram nokkrar athugasemdir um efnisinnihald frv. í 7 liðum. Tvær þessara tillagna eru þess eðlis að það er ekki hægt að líta á þær öðruvísi en sem vantraust á sveitarfélögin þó að hv. þm. hafi hvað eftir annað reynt að bera það af sér. ( VS: Það er sama tuggan hjá ykkur.) Í fyrsta lagi er það sú athugasemd að ekki sé gert ráð fyrir fjöldatakmörkunum í bekkjardeildum. Þetta er að sjálfsögðu mál sem sveitarstjórnirnar munu taka á eins og mörg önnur mál sem þær munu taka á þegar þær axla þessa ábyrgð og sem þær hafa lýst sig reiðubúnar til að taka á.
    Í öðru lagi er ekki kveðið á um hvað hægt sé að gera til að grípa til aðgerða ef sveitarfélög uppfylla ekki ákvæði laga og reglugerða um grunnskóla. Þar tengist það vandamál að sjálfsögðu því hvernig eftirlitið verður með þessu máli. Ég býst við að þingamaðurinn sé þeim sem hér talar sammála um það, hv. 3. þm. Norðurl. e., að það þarf að vera eftirlit með þessum hlutum, eftirlit með því að sveitarfélögin standi við sínar skuldbindingar og þetta eftirlit á að sjálfsögðu að vera í menntmrn. geri ég ráð fyrir. En á sama tíma er hér 7. liður í athugasemdum hv. þm. sem segir að flutt séu verkefni frá fræðsluskrifstofum til menntmrn., en það er einmitt eftirlitshlutverkið sem þar er verið að tala um. Þannig að í einni setningunni er þingmaðurinn að velta því fyrir sér hvernig eftirlitshlutverkið verði innt af hendi og í annarri setningu er hann að velta vöngum yfir því hvers vegna sé verið að flytja þetta eftirlitshlutverk frá fræðsluskrifstofunum yfir í menntmrn. Þetta stangast á. Það er engin heil brú í þessari hugsun hjá hv. þm. Þetta er bara þannig að það er ekki heil brú í þessum athugasemdum hér.
    Faglega koma fram tvær athugasemdir í þessu þskj. Of mikil áhersla er lögð á samræmd próf og skal þeim meira að segja beitt í 4. bekk, segir hv. þm. Síðan er það svo að sérfræðiþjónusta og sérkennsla er illa skilgreind. En það hefur þá farið fram hjá þingmanninum að samræmdu prófin eru aðferð til þess að fá upplýsingar um þá nemendur sem eiga í erfiðleikum. Hv. þm. hristir hér höfuðið og virðist ekki gera sér grein fyrir því að slíkar aðferðir eru notaðar um alla Evrópu markvisst til þess að finna þessi vandamál og þingmaðurinn virðist ekki gera sér grein fyrir því að við fáum upp í framhaldsskólann núna fólk sem á við erfiðleika að etja, sem hefur ekki fundist í grunnskólakerfinu. Fólk sem á að geta notið úrræða í grunnskólanum en hefur ekki notið þeirra vegna þess að það hefur ekki fundist. Það eru dæmi t.d. um lesblindu af þessu tagi. Það er verið að glíma við lesblindu í framhaldsskólunum vegna þess að hún hefur ekki fundist á lægri skólastigum.
    Það er því svo, að því er virðist, að sumir hv. þm. stjórnarandstöðunnar virðast ekki hafa áttað sig á því hver er andi þessa frv. og það er einnig þannig einmitt með þetta hlutverk sveitarfélaga. Auðvitað er það ekki svo að ríkisvaldið og Alþingi leysi vandamálin fyrir sveitarfélögin, þau munu axla þessi vandamál. Það munu koma upp vandamál, það er ekki spursmál. Það er alltaf verið að glíma við vandamál í skólastarfinu. En það er ekki skynsamlegt þegar við erum að fela sveitarstjórnunum þetta mikla hlutverk að ganga fram í því máli þannig að menn ætli sér að kíkja yfir öxlina í sveitarstjórnunum og stýra hendinni á þeim þegar þær taka við þessu mikla máli. Þau hafa metnað til að taka á málinu og þau munu glíma við það. En ég er hins vegar sammála hv. þm. um að það skiptir miklu máli að sveitarfélögunum verði tryggðir tekjustofnar og það stendur til að gera.
    Ég er þeirrar trúar að mjög lítið beri milli mín og hv. þm. í þessu máli, mjög lítið, annað en þetta sem stjórnarandstaðan hefur látið koma skýrt fram að það er óvissa um réttindamál kennara og það er

óvissa um tekjustofnana. Þetta er rauði þráðurinn í gagnrýninni sem kemur hér fram og þá er svar okkar við því: Á það ákvæði sem varða gildistökuna setjum við ákveðinn fyrirvara og það er í raun og veru merkilegt ef stjórnarandstaðan getur ekki heils hugar tekið undir þann fyrirvara.
    Þetta vildi ég nú segja hér, virðulegi forseti, við þessa umræðu. Ég held að efnislega hafi stjórnarandstaðan ekki haft mikla ástæðu til þess að skera sig frá okkur í þessu máli. Það er ljóst að það er mikil spenna í kringum samningamál kennara. Það er ástæðulaust fyrir stjórnarandstöðuna að reyna að nýta sér þetta ástand. Það væri æskilegt að um þetta mál gæti náðst víðtæk samstaða. Því hefur verið hótað hér úr ræðustól að ef málið nái fram að ganga þá verði það brotið upp eftir kosningarnar. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það verði gert og ég satt best að segja vona að menn vinni ekki það óþurftarverk. Því að það er rétt sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði í umræðunni áðan, að það er illa gert að vera að brjóta upp vel unnin verk og ég held þess vegna að ég taki undir það með honum, að ég held að það yrði mikið óþurftarverk að brjóta þetta mál upp, ef það yrði að lögum, strax eftir kosningar.