Grunnskóli

96. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 00:04:30 (4424)


[00:04]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Tómas Ingi Olrich flutti hér allmerkilega ræðu. Sérstaklega fannst mér sá hluti ræðu hans merkilegur þegar hann húðskammaði stjórnarandstöðuna fyrir það að hafa lent í því að vera sammála kennarasamtökunum og talaði þá um hagsmunahópa. Þetta gengur ekki upp, hv. þm. Það gerist ekki þannig, hvorki að hv. þm. Tómas Ingi Olrich banni þingmönnum Alþb. eða öðrum þingmönnum að lenda í því af og til að vera sammála kennarasamtökunum. Það er einfaldlega ekki hlutverk hv. þm. Auk þess er þessi röksemdafærsla út í hött því að auðvitað getur það oft og iðulega gerst að þingmenn verði sammála faglegum áherslum stéttarfélags eða forsvarsmanna þess. Þó það nú væri. Og það er einu sinni þannig að það er mikill misskilningur hjá hv. þm. að skyldur þingmanna sem þingmanna geri það að verkum að þeir megi ekki lenda í slíkri stöðu. Þingmenn hafa eina skyldu umfram aðrar og það er að fara eftir sannfæringu sinni í málum. Og ef það er þeirra skoðun í einhverju tilviki að áherslur kennarasamtakanna eða annarra stéttarfélaga séu réttar þá ber þeim að sjálfsögðu að fara eftir því og hegða sér í samræmi við það. Og sem betur fer er það auðvitað svo að það gerist oft og iðulega að áherslur einhverra þingmanna og stundum allra fara saman við þær sem stéttarfélög, hagsmunasamtök eða fagaðilar hafa, þó það nú væri.
    Síðan mótmæli ég því að ég hafi haft í flimtingum erfitt verkfall hér á fyrri árum sem hv. þm. nefndi. Ég hvorki gerði það þá né nú og ummæli hv. þm. um það eiga sér ekki stoð í því sem gerðist hér í þingsalnum og frekar óvenjulegt að vitna með þeim hætti úr ræðustól um það sem gerðist úti í sal. Í öðru lagi er það svo að þeir atburðir setja menn ekki úr leik fyrir lífstíð til þess að ræða um skólamál eða kjör kennara. Og varðandi frammistöðuna í skólamálum þá liggur það alveg fyrir að verk fyrri ríkisstjórnar þola vel samanburð við þá hörmung sem hefur tíðkast á þessu kjörtímabili.