Grunnskóli

96. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 00:08:47 (4426)


[00:08]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Ég held að ég leyfi mér að fullyrða það, hæstv. forseti, að það var enginn að gera lítið úr þeim erfiðu átökum sem áttu sér stað á þessum vetrarmánuðum 1989. Hv. þm. verður að gera greinarmun á annars vegar því þegar menn gera athugasemdir og láta jafnvel í ljós með látbragði úti í þingsalnum athugasemdir eða óánægju við málflutning hv. þm. og hinu, því efni sem hann var að fjalla um. Ég hygg að það hafi verið hvernig hv. þm. setti fram mál sitt og hafði talað í sinni ræðu af þó nokkrum sjálfbirgingshætti, að mér fannst, um það sem hann einn vissi betur en allir aðrir menn um þessi mál. Og alhæfingar af því tagi sem hér voru uppi hafðar um að stjórnarandstaðan hafi í öllum tilvikum á þessu kjörtímabili elt öll hagsmunasamtök í þjóðfélaginu, þetta er auðvitað bara út í loftið, þetta er bull. Það hefur að vísu oft gerst að stjórnarandstaðan hafi á þessu kjörtímabili reynt að verja ýmsa aðila fyrir árásum ríkisstjórnarinnar, bæði kennarasamtökin, sveitarfélögin í landinu og fleiri slíka. En hvað með það? Er það eitthvað óeðlilegt þegar efni standa til slíks? Og hvað með afstöðu stjórnarandstöðunnar til þessa máls? Jú, hún fer saman við óskir uppeldisstéttanna í landinu og sveitarfélaganna sem eru á móti því að afgreiða málið eins og ríkisstjórnin ætlar að gera nú. Og er það ómálefnaleg afstaða þegar það liggur rökstutt fyrir að það er enginn frágangur á þessu máli? Þó að afstaða stjórnarandstöðunnar og þessara fjölmennu samtaka, heildarsamtaka sveitarfélaganna í landinu og samtaka kennara með 5.000 félagsmenn og rúmlega það innan borðs, fari saman, er þá eitthvað að því? Er það eitthvað ómálefnalegt? Er það eitthvað óábyrgt? Er það eitthvað lítilsiglt? Þetta dæmir sig sjálft, alhæfingar af þessu tagi.
    Og mér fannst sá beturvitrungsháttur sem birtist hér í framsetningu hv. þm. í raun og veru fella hans eigin málflutning. Það er auðvitað ekki þannig að það sé hægt að afgreiða allar athugasemdir þingmanna úr menntmn. við þetta frv. á grundvelli þess að þeir skilji ekki málið, viti ekki betur o.s.frv. eins og hér var gert áðan við málflutning hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur. Sama á sér stað um umfjöllun hv. þm. um ræðu Svavars Gestssonar, fyrrv. menntmrh. Það gerir málflutning hv. þm. ekki trúverðugan að ætla að afgreiða slíkt bara út af borðinu í einu vetfangi eins og hann reyndi með sínum orðum hér áðan.