Náttúruvernd

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 11:10:33 (4435)


[11:10]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur vakið athygli mína í þessari umræðu að ekki einn einasti sjálfstæðismaður hefur tekið til máls né heldur sýnt þessari umræðu þann sóma að vera viðstaddur nema í mjög takmörkuðum mæli og lengst af þessarar umræðu hafa sjálfstæðismenn ekki sést hér og síst af öllu þeir sjálfstæðismenn sem skrifuðu undir nefndarálitið. Það eru tíðindi þegar loksins birtist einn hérna og ég vona að það sé vísbending um að þeir muni gera grein fyrir sinni afstöðu því að eins og ég lýsti hérna yfir á næturfundi um daginn þá hef ég ástæðu til að ætla að sjálfstæðismönnum sé ekki endilega svo mikið í mun að koma á þeirri miðstýringu sem hér hefur mjög verið umrædd eins og hæstv. umhvrh. og flokkssystkinum hans er. Ég fagna því að einn af fjórum sjálfstæðismönnum sem skrifuðu undir nefndarálit það sem er að finna á þskj. 640 er nú loks mættur til þessarar umræðu og að sjálfsögðu hlýt ég að spyrja: Hvar eru hinir? Það er ekki ástæða til að skamma þá sem hér eru. Hvar er Lára Margrét Ragnarsdóttir, fulltrúi Sjálfstfl. í umhvn., sem skrifar undir nefndarálitið þann 9. febr. sl.? Hvar er Árni R. Árnason sem einnig skrifar undir þetta sama nefndarálit og hefur ekki sést í þessari umræðu? Hvar er Tómas Ingi Olrich sem einnig skrifar undir þetta álit og hefur beitt sér verulega í umhverfismálum hér í umræðu og m.a. og ekki síst gagnrýnt mjög miðstýringaráráttu umhvrn. eins og ég mun rekja á eftir. Og ég spyr líka: Hvar er hæstv. umhvrh.? Hann hefur þó séð sóma sinn í að vera hér í þessari umræðu en þó að ég lýsi eftir sjálfstæðismönnum úr umhvn. þá þýðir það ekki það að ég hafi sent hæstv. umhvrh. í frí þar með því að ég held að það sé mjög brýnt að hann viti og átti sig á því hvers eðlis sú gagnrýni er sem sjálfstæðismenn hafa verið með á miðstýringu í umhverfismálum. Og ég bið hæstv. forseta að gera ráðstafanir til þess að tryggja það að hæstv. umhvrh. geti verið viðstaddur umræðuna.
    ( Forseti (PJ) : Það verða gerðar ráðstafanir til þess að hæstv. umhvrh. komi hingað í þingsalinn.)
    Ég þakka hæstv. forseta fyrir það vegna þess að ég held að það sé brýnt að hæstv. umhvrh. viti hvern hug þingmenn bera til þessa máls. Eins og hér hefur mjög glögglega komið fram þá fer því fjarri að það sé verið að gagnrýna öll efnisatriði þessa máls en hins vegar eru hér býsna margar ábendingar sem ég tel að vegi mjög þungt og mér finnst alveg nauðsynlegt að við komumst til botns í því hver kjarni ágreiningsins er og ég tel mig hafa nokkuð fram að færa í því. Ég mun ekki í mínu máli sérstaklega víkja að hinum faglegu forsendum þessa máls þar sem það hefur verið gert mjög vel og allítarlega og ég tel að það sé af hinu góða vegna þess að hér er um mjög mörg álitaefni faglega séð að ræða. --- Mér þykir vænt um að ég sá hæstv. umhvrh. bregða hér fyrir en það var rétt í sjónhendingu og vona ég nú að þetta fari að skýrast hver staða hans í þessari umræðu ætlar að vera, hvort hún verður innan salar eða utan.

    Þau atriði sem ég er einkum áhyggjufull út af eru ef rétt er að sú gagnrýni sem hér hefur fram komið mjög sterklega: Er rétt að hér sé umhvrn. að seilast til miðstýringar sem á nánast enga sína hliðstæðu? Hér hefur það verið rakið mjög ítarlega að það er beinlínis verið að gefa umhvrh. vald til að skipa menn í yfirstjórn Landvörslunnar sem tekur við af Náttúruverndarráði og það er verið að setja hann með fingurna nánast í hvert einasta smáatriði sem þar er fjallað um.
    Nú vill svo til að þann 15. nóv. sl. fór fram hér umræða sem snerist raunar upp í orðahnippingar eða orðaskipti á milli mín og hv. 5. þm. Norðurl. e., Tómasar Inga Olrich, sem á sæti í umhvn. fyrir hönd Sjálfstfl. Í þeirri umræðu þá tók ég svari umhvrh. sem var fjarstaddur. Ég hlýt að fá nokkra bakþanka og gera mér grein fyrir því að e.t.v. hefur gagnrýni hv. þm. Tómasar Inga Olrich verið á rökum reist. En það mál sem þá var til umræðu var frv. hv. þm. Tómasar Inga Olrich um mat á umhverfisáhrifum. Þar er hann beinlínis að leggja til atlögu við það vald sem umhvrh. hefur og það vald sem hann telur að umhvrh. hafi tekið sér. Það leyndi sér ekki í þessari umræðu að hv. þm. taldi að hæstv. umhvrh., sem hann titlar nú lengst af þessarar umræðu því stóra orði ,,framkvæmdarvaldið`` hafi tekið sér mun víðtækari heimild en nokkurn tímann hafi verið meining umhvn. og því hlýtur maður að spyrja: Hvernig stendur þá á því að hv. þm. og fulltrúi Sjálfstfl. í umhvn. er reiðubúinn að færa umhvrh. á silfurfati miklu víðtækari völd en nokkru sinni í því máli sem þarna var um rætt? Í því máli sem Tómas Ingi Olrich hv. þm. var að ræða þarna þá var um hagsmunaárekstra að ræða milli nýtingarráðuneyta annars vegar og umhvrn. hins vegar. Mér fannst það fullkomlega eðlilegt að sjónarmið umhvrn. eða þau sjónarmið sem umhvrn. ber að gæta hefðu þarna forgang frekar en sjónarmið nýtingarráðuneytis. Mér finnst það í rauninni mjög umhugsunarvert núna þegar það horfir í það að embættismenn á vegum umhverfismála og stjórnmálamenn eða stjórnvald á vegum umhverfismála telur sig þess umkomið að taka fram fyrir hendurnar á faglegum aðilum sem hafa starfað í þessum málefnum lengst af. Mér þykir þetta í rauninni mjög sérkennilegt að ég segi ekki órökvíst og órökrétt því ég held að það ætti að vera styrkur hins unga og að mörgu leyti veikburða umhvrn., sem mætti mikilli andstöðu hér þegar verið var að setja það á laggirnar, ég held að það eigi að vera hagur umhvrn. að vinna með fagaðilum á vegum umhverfismála jafnvel stundum þannig að umhvrn., þ.e. stjórnsýslueiningin, og fagaðilarnir vinni saman þegar í odda skerst milli þeirra og þeirra sem hafa nýtingarsjónarmiðin að leiðarljósi. En ég held að það sé mjög varhugavert að ætla með stjórnsýslustofnun og ráðherravaldi að ganga gegn athugasemdum fjölmargra fagaðila sem vilja þessari grein vel, umhverfismálum, og hafa án efa stutt betur við bakið á stofnun umhvrn. og þeirri starfsemi sem þar fer fram en margir aðrir. Þetta í rauninni er sá kjarni málsins sem ég tel að við höfum verið að takast á um hér. Ég held að það væri mjög æskilegt ef það væri hægt að fara að komast til botns í því.
    Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé reiðubúinn til að sjá þetta mál fara í nefnd á milli 2. og 3. umr. og ekki að fara áfram með málið nema full sátt náist í málinu, full sátt við þá hagsmunaaðila sem hafa gagnrýnt þá framkvæmd sem hér er um að ræða. Mér er það fullljóst að hér er um mjög erfið atriði að ræða sem þarf að fjalla um og áreiðanlega er það veik von að það verði hægt að ná botni í þessu máli eins og sakir standa. Engu síður væri forvitnilegt hvort ráðherra getur komið með einhver þau efnisatriði eða einhverja sáttatilraun nú í 2. umr. sem gæti orðið til þess að það yrði hægt að vinna áfram með þetta mál og kannski forgangsraða þeim breytingum sem gæti orðið sátt um núna og slá hinu á frest og vinna það betur. Vinna málið frá grunni þannig að það verði sátt á milli fagaðila og stjórnsýsluaðila. Öðruvísi erum við að veikja bæði stjórnsýsluþátt umhverfismála og einnig þann þátt sem hefur verið fram til þessa á vegum ýmissa félagasamtaka, fagaðila og stofnana um allt land þar sem hefur verið í raun þverpólitísk samvinna og þverpólitísk sátt um markmið og leiðir í þessu mikilvæga máli.
    Ég gat þess í upphafi máls míns að í umræðu þann 15. nóv. sl. hafi komið fram hjá hv. þm. Tómasi Inga Olrich býsna hörð gagnrýni á hæstv. umhvrh. Eins og ég gat um hér þá kom það í minn hlut að taka svari hæstv. ráðherra þá. Út af fyrir sig get ég enn staðið við þá meiningu mína að ég tel að umhverfissjónarmið eigi að vera nýtingarsjónarmiðum æðri en að vissulega þarf að taka tillit til beggja. En ég hlýt hins vegar að hafa nokkrar efasemdir um það að hafa farið að verja hæstv. ráðherra í þessari umræðu í ljósi þess sem síðar hefur sýnt sig. Í ljósi þess að hann reynist ekki traustsins verður þegar að því kemur að láta á það reyna hvort honum sé annara um að halda valdi og öllum þráðum í sinni hendi annars vegar eða hins vegar að vinna á faglegum forsendum í sátt og samvinnu við þá sem hann á samleið með í umhverfismálum.
    Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, fara aðeins út í þessa umræðu þar sem hv. 5. þm. Norðurl. e., Tómas Ingi Olrich, hefur þar nokkuð alvarlegar ásakanir uppi í garð hæstv. umhvrh. og vill meina að hann hafi farið langt út fyrir þær samþykktir sem hv. umhvn. hafði gert eða þann skilning sem nefndin hafði lagt í samþykktina á frv. um mat á umhverfisáhrifum. Nú er mér fullljóst að um þetta er deilt en þar sem það vill svo til að þarna er um samherja hæstv. umhvrh. að ræða í stjórnarsamstarfi, í orði a.m.k., og þarna er einnig um að ræða mann sem skrifaði undir nál. sem ég gat hér um, nál. meiri hluta umhvrn. á þskj. 640, þá held ég að það væri mjög merkilegt ef það væri hægt að komast til botns í því hvort eitthvað er að marka þessar samþykktir sem gerðar eru í umhvrn. eður ei.
    Hv. þm. segir í ræðu sinni, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég vil taka það fram, virðulegur forseti, að af hálfu umhvn. Alþingis var lögð áhersla á að varlega yrði farið í framkvæmd laganna. Við vinnslu málsins í umhvn. Alþingis var raunar sú ákvörðun tekin að gera enn harðari kröfur um það hvaða framkvæmdir skyldu ganga sjálfkrafa í mat á umhverfisáhrifum en tilskipun um þetta sama efni frá Evrópusambandinu gaf tilefni til. Gerður var þrengri rammi um þessi lög en annars staðar gildir. Var það gert í þeirri trú að náttúra Íslands væri að mörgu leyti viðkvæmari fyrir röskun en gerðist í Evrópu.
    Hins vegar blandaðist aldrei hugur um það af hálfu nokkurs þingmanns að ég tel að lagasetningin beindist fyrst og fremst að þeim aðgerðum sem væru líklegar til að valda spjöllum á umhverfinu en lagasetningin var ekki gerð til að hindra framkvæmdir sem slíkar eða breytingar sem gætu hlotist af framkvæmdum.``
    Síðar í sömu ræðu segir hv. þm.:
    ,,Ljóst er að markmiðsgrein laganna ásamt þeirri breytingu sem gerð var að tilhlutan hv. umhvn. Alþingis hafa valdið því að þessum lögum hefur verið beitt á landgræðsluverkefni þó svo að það kæmi skýrt fram í umfjöllun umhvn. Alþingis að hún hafnaði því að þessi verkefni ættu að vera föst verkefni laganna um mat á umhverfisáhrifum. Ég tel nauðsynlegt að taka af öll tvímæli um þetta mál og legg því fram þetta frv. til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum í þeirri trú að það geti orðið til þess að framkvæmd laganna verði skýr og óumdeild og þar með að meiri sátt verði um framkvæmd þessara laga en komið hefur í ljós.``
    Þarna er hv. þm. --- og það er ekkert launungarmál --- að vísa til þess að hæstv. umhvrh. hafi að hans mati gengið allt of langt í framkvæmd laganna. Hvernig stendur þá á því að hv. þm. vill lögfesta möguleika hæstv. umhvrh. á því að geta haft án þess að þurfa að spyrja kóng eða prest alla stjórn Landvörslu og hlutverk sem tekið er af Náttúruverndarráði í sínum höndum nánast sem einráður og láta stjórnir fylgja skipunartíma ráðherra? Hvernig stendur á því að sá sem telur, og ég er raunar ekki sammála honum um það, að það hafi verið gengið of langt í því að beita lögunum um mat á umhverfisáhrifum og það er engum öðrum til að dreifa en hæstv. umhvrh. sem þar er átt við að hafi gengið of langt, hvernig stendur á því að þessi þversögn kemur upp? Hvernig stendur á því að það á að lögfesta með þessum lögum svona óskaplega mikil völd í hendur ráðherra sem þegar hefur verið lýst vantrausti á af hálfu samstarfsflokksfulltrúa, þ.e. hv. 5. þm. Norðurl. e., þar sem hann telur að honum sé ekki einu sinni treystandi fyrir að fara með núgildandi lög um mat á umhverfisáhrifum óbreytt.
    Ég er ekki að segja þetta neitt út í loftið því hv. þm. segir í næstu ræðu sinni í þessari umræðu, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þar sem það hefur komið í ljós við framkvæmd laganna að það gætir tilhneigingar til þess hjá framkvæmdarvaldinu`` --- virðulegi forseti, það er umhvrh. í þessu tilviki --- ,,að yfirfæra þessi lög yfir á framkvæmdir sem ekki er hægt með nokkru móti að flokka undir spjöll á náttúrunni sem lögum samkvæmt eiga að bæta ástandið í náttúrunni, þá verður það að teljast alveg augljóst mál að það er verið að skerpa þann skilning laganna sem upphaflega var til grundvallar lagasetningunni en alls ekki verið að breyta anda laganna.`` --- Þarna á hv. þm. við þær breytingar sem hann leggur til á þessum lögum. --- ,,Ef það væri hins vegar svo að menn hengdu sig í þetta orðalag ,,umtalsverð áhrif á umhverfið`` í þeirri von að geta fært út valdsviðið sem framkvæmdarvaldinu er fengið með þessum hætti yfir á ýmis önnur framkvæmdaatriði sem heyra undir önnur ráðuneyti þá er að sjálfsögðu verið að gera allt annað með þessum lögum. Þá er verið að búa til valdatogstreitu milli aðila, milli framkvæmdarvaldsins, milli einstakra handhafa framkvæmdarvaldsins, og það er verið að gera lagasetninguna að þessu leyti uppsprettu tortryggni og vandræða.`` --- Þetta er mat hv. þm. Tómasar Inga Olrich á því hvernig hæstv. umhvrh. fer með vald sitt og því telur hann að það sé nauðsynlegt að gera breytingar á lögunum til þess í rauninni að svipta hæstv. umhvrh. því valdi sem hann hefur tekið sér að mati hv. þm.
    Hv. þm. Tómas Ingi Olrich segir stuttu síðar: ,,Það er ekki meiningin að með lögunum um mat á umhverfisáhrifum sé búið til einhvers konar yfirstjórnvald sem tekur að sér verkefni annarra ráðuneyta. Það er afar mikilsvert að menn fái skilning á þeim vanda sem hér er verið að ræða um.``
    Í þessari umræðu spunnust áfram grundvallarskoðanaskipti um það hvaða hagsmunir skuli víkja og hvaða hagsmunir skuli ríkja þegar umhverfismál annars vegar og landnýtingarmál hins vegar rekast á að einhverra mati. Ég verð að ítreka það að ég hef svo sem ekki skipt um skoðun um það að ég tel að ábyrgð okkar gagnvart umhverfinu sé í rauninni sú stærsta og þar af leiðandi ítreka ég það sem fram kom í þessum umræðum að ég held að a.m.k. umsagnarvald umhvrn. yfir nýtingarráðuneytinu sé nauðsynlegt en í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum um það hvernig hæstv. umhvrh. fer með sitt vald þá hlýt ég að hafa dálítið miklar efasemdir um það hversu mjög er óhætt að binda það vald í lögum. Mér finnst það skjóta skökku við ef það á að fara að taka fram fyrir hendurnar á faglega hæfu fólki sem hefur starfað að málum náttúruverndar í fjöldamörg ár. Það er enginn að segja að það hafi ekki verið hægt að bæta og breyta stjórnkerfi náttúruverndarmála. Síður en svo. En ég held að sú leið sem var valin og sú aðferð sem er hér sé ekki það sem við erum að biðja um. Við erum ekki að biðja um að það séu teknar faglegar ákvarðanir í ráðuneytum, því sé stýrt hvaða mannskapur má koma að málunum og að það sé meira og minna í hendi ráðherra hvernig haldið sé á þessum málum. Þetta er einfaldlega miðstýringarvald sem við getum ekki sætt okkur við.
    Ég vil gera orð hv. þm. Tómasar Inga Olrich að mínum þar sem hann segir að hann sé þeirrar skoðunar að við rekum ekki umhvn. með einu miðstýrðu ráðuneyti sem ætlar sér að höndla þessi mál og

vera með puttana á öllum öðrum aðilum. Þetta er það sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich sagði í þessari umræðu. Þannig gerist þetta ekki og þannig hefur þetta hvergi gerst. Þvert á móti þurfum við að reka náttúruverndar- og umhverfismál með því að styrkja forsendur þess að hér sé umhverfissinnuð þjóð og umhverfissjónarmið komi fram á öllum stigum ríkisvaldsins og undir þetta get ég heils hugar tekið. Ég hlýt að krefja hæstv. ráðherra svara um það hvort hann er ekki tilbúinn að fara að reyna að ræða þessi mál á öðrum nótum og öðrum forsendum þó að það taki tíma, þó það geti þýtt það að niðurstaða þessa máls verði ekki í hans ráðherratíð. Ég held að við verðum einfaldlega að taka þá áhættu að þetta mál geti dregist og ganga myndarlega frá því frekar heldur en að stíga það óheillaskref að fara út í hreina miðstýringu og ráða svo ekki neitt við neitt.